Stapi einn af stofnfélögum Samtaka um ábyrgar fjárfestingar

Samtök um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum), voru stofnuð þann 13. nóvember síðastliðinn. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðarfræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Stapi er eitt af 23 fyrirtækjum sem tók þátt í stofnun samtakanna en á meðal stofnaðila eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög.

Stjórn og starfsmenn Stapa eru vörsluaðilar lífeyrissparnaðar sjóðfélaga og ber að standa vörð um hagsmuni þeirra og hafa þá að leiðarljósi í störfum sínum. Í því er meðal annars fólgin sú krafa að sjóðurinn stuðli að því að bestu faglegu viðmið um stjórnarhætti séu í heiðri höfð hjá þeim fyrirtækjum þar sem sjóðurinn fjárfestir eða felur eignastýringu fyrir hönd sjóðsins.

Stjórn Stapa samþykkti í nóvember 2015 Leiðbeiningar og stefnumið um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar til aðstoðar fyrir fjárfestingateymi og áhættustýringu Stapa og/sem eru hluti af stefnu sjóðsins um góða stjórnarhætti og ábyrgt fyrirsvar. Hún er notuð af fjárfestingateyminu til að meta stjórnarhætti fyrirtækja þar sem Stapi er fjárfestur eða hyggst fjárfesta og veita leiðsögn um þær kröfur sem Stapi gerir til þessara fyrirtækja.