VII. kafli

Lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur í tryggingadeild

18. Eftirlaun
  18.1  Sjóðfélagi á aldrinum  60 til 80 ára, sem á réttindi í sjóðnum skv. 17. grein, á rétt á ævilöngum eftirlaunum í samræmi við stöðu réttindasjóðs hans, fæðingarárgang og aldur við eftirlaunatöku skv. gr. 17.2 og töflu II í viðauka A, við töku eftirlaunanna. Við úrskurð skal miðað við mánaðarlegt gildi töflunnar. Við töku eftirlauna ráðstafar sjóðfélagi réttindasjóði sínum endanlega, sbr. þó ákvæði greinar 18.6.
  18.2  Við úrskurð eftirlauna innan ársins, skal taka mið af stöðu réttindasjóðs sjóðfélaga miðað við síðustu áramót að viðbættum breytingum á liðum a-e í grein 17.2. frá þeim tíma. 
  18.3  Við töku eftirlauna fyrir 67 ára aldur ráðstafar sjóðfélagi eftirlauna og örorkulífeyrisréttindum sínum endanlega og á því ekki sjálfstæðan rétt til örorkulífeyris eftir það.  Hafi hann áunnið sér viðbótarrétt til eftirlauna  með iðgjaldsgreiðslum eftir að hann hóf töku lífeyris skal endurúrskurða honum eftirlaun  þegar hann hefur náð 67 ára aldri eða hafi hann misst starfsorku sem nemur 50% eða meira. Skal þá bætt við þeim eftirlaunarétti sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér með söfnun í réttindasjóð eftir að hann hóf töku eftirlauna. Réttindin veita rétt til makalífeyris í samræmi við ákvæði  20. greinar.
  18.4  Eftirlaunaréttindi sem sjóðfélagar afla sér með greiðslu iðgjalda  eftir 67 ára aldur koma fyrst til greiðslu fyrir fyrsta mánuð eftir næsta afmælisdag og þá aðeins samkvæmt sérstakri tilkynningu sjóðfélaga. Við 70 ára, 75 ára og 80 ára aldur skal senda sjóðfélögum sem ekki hafa hafið töku eftirlauna upplýsingar um lífeyrisréttindi þeirra og hvernig sækja megi um eftirlaun. Við 70 ára aldur skal endurskoða lífeyri sjóðfélaga, sem hafið hefur töku lífeyris við 67 ára aldur eða síðar, án sérstakrar tilkynningar. Skal þá bætt við þeim lífeyrisrétti sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér með söfnun í réttindasjóð eftir að hann hóf töku lífeyris. Réttindin veita rétt til makalífeyris í samræmi við ákvæði  20. greinar.
  18.5 

Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku eftirlauna hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku á hálfum eftirlaunum hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta eftirlaunaréttinda sinna, sbr. grein 18.3.

  18.6 

Sjóðfélagi sem hafið hefur töku eftirlauna að hluta eða að fullu fyrir 67 ára aldur getur hætt tökunni og hafið hana á ný síðar og fer þá um úrskurð að nýju í samræmi við ákvæði greinar 18.1 að frádregnum þeim réttindum sem sjóðfélaginn hefur þegar nýtt með töku eftirlauna. Sjóðfélagi er bundinn við val sitt um töku eftirlauna í minnst 12 mánuði í senn. 

  18.7

Eftirlaun eru greidd út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Mánaðarleg eftirlaun eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Réttur til eftirlauna fellur niður við andlát.

  18.8

Sjóðfélagi getur ákveðið að skipta eftirlaunaréttindum á milli sín og maka síns í samræmi við 14. grein laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að:

    a) 

Áður en lífeyristaka hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum, þannig að verðmæti uppsafnaðra eftirlaunaréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð eftirlaunaréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka, og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.

    b)  Þannig að iðgjald vegna hans, sem gengur til að mynda eftirlaunaréttindi, skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð eftirlaunaréttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til eftirlauna skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu. Örorku- og makalífeyrisréttindi sjóðfélagans taka eftir sem áður mið af óskiptum iðgjaldsstofni. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.
19. Endurhæfingar- og örorkulífeyrir
  19.1  Sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi, sem talið er að svari til 50% örorku eða meira til almennra starfa á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við stöðu réttindasjóðs, fæðingarárgangi og aldur við orkutap skv. 17. gr. og töflu III í viðauka A og nánari skilmála þessa kafla. Örorkulífeyrir sem úrskurðaður er í samræmi við ákvæði 19.3 kallast endurhæfingarlífeyrir á meðan á endurhæfingartímabili stendur. Um hann gilda að öðru leyti sömu ákvæði og um örorkulífeyri skv. greinum þessa kafla. Auk áunninna réttinda skv. framanskráðu á sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri miðað við framreikning á því, hvað ætla má að hefðu orðið réttindi hans við áframhaldandi iðgjaldsgreiðslur skv. nánari skilmálum þessa kafla. Skilyrði framreikningsréttar eru að sjóðfélaginn hafi:
    a)  greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. kr. 60.000 hvert þessara þriggja ára. Hafi sjóðfélagi unnið reglubundið hlutastarf á tímabilinu skal miða við að lágmarksiðgjald hafi verið a.m.k. kr. 40.000.
    b)  greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum.
    c)  orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
    d)  ekki sjálfur átt þátt í orkutapi vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
    Hafi sjóðfélagi skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til framreiknings í þessum sjóði, ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars, sem leitt hafi til orkutapsins.
  19.2.  Séu sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi, að hann hefur ekki getað uppfyllt skilyrði gr. 19.1 um iðgjaldsgreiðslutíma er sjóðstjórn heimilt að stytta áskilinn tíma í tvö undanfarandi almanaksár, enda verði talið fullvíst, að orsök örorku verði ekki rakin til tíma aftur fyrir orkutap. Hafi sjóðfélagi hins vegar öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði allt að 24 mánuði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir sex mánuði frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til sjóðsins. 
  19.3. 

Við mat á umsókn um örorkulífeyri skal horft til þess hvernig styðja megi sjóðfélagann til endurhæfingar, þannig að hann öðlist á ný færni til að sinna tekjuskapandi verkefnum í samræmi við starfsgetu sína og hæfni. Skal trúnaðarlæknir sjóðsins, eða eftir atvikum annar sérfróður þjónustuaðili sem sjóðurinn velur, leggja mat á það hvort líklegt sé að skipulögð starfsendurhæfing muni skila árangri og hvort sjóðfélaginn geti náð starfsorku á ný með réttri endurhæfingu og þá að hve miklu leyti í hundraðshlutum talið. Skal þá gera áætlun um endurhæfinguna og umfang hennar. Skal sjóðurinn þá úrskurða umsækjanda endurhæfingarlífeyrir, jafnháan örorkulífeyri sem hann á rétt á eftir ákvæðum þessa kafla samþykkta sjóðsins. Sé endurhæfingarlífeyrir úrskurðaður skal hann ákveðinn fyrir minnst sex mánuði í senn og í allt að þrjú ár samfellt hafi endurhæfing ekki borið tilætlaðan árangur fyrr. Ef sérstaklega stendur á er heimilt að framlengja tíma endurhæfingar allt að tveimur árum, telji sjóðurinn að fengnu áliti trúnaðarlæknis að enn sé framfara að vænta við áframhaldandi endurhæfingu.

Heimilt er að fengnu áliti trúnaðarlæknis eða fagaðila  að setja það skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris, að sjóðfélagi fari í ráðlagða endurhæfingu, sem bætt gæti heilsufar hans, enda sé þess gætt að slík endurhæfing standi honum til boða og aðstæður viðkomandi leyfi að hann nýti sér hana. Endurmat á orkutapi skal fara fram eftir því sem árangur af endurhæfingunni gefur tilefni til. Telji sjóðurinn að fengnu áliti trúnaðarlæknis að þess sé ekki að vænta að orkutap sjóðfélaga gangi svo til baka að hann fái öðlast starfsgetu á ný, að hluta eða öllu leyti, skal úrskurða honum örorkulífeyri í stað endurhæfingarlífeyris.  Stjórn sjóðsins er heimilt að greiða lífeyrisþega sem tekur þátt í endurhæfingu allt að óbreyttum endurhæfingarlífeyri á þeim tíma sem endurhæfing í samræmi við ákvæði þessarar greinar  stendur, þrátt fyrir ákvæði 19.4 um tekjuathuganir og 19.12 um breytingar á orkutapi  Sjóðurinn getur krafist þess að sjóðfélagi leggi fram með reglulegu millibili vottorð lækna og/eða annarra meðferðaraðila um þátttöku í endurhæfingu.  Synji sjóðfélagi þátttöku í endurhæfingu, sinni henni ekki með fullnægjandi hætti þannig að hún sé í samræmi við endurhæfingaráætlun eða leggi  ekki fram tilskilin vottorð er sjóðnum heimilt að skerða eða fella niður lífeyrisgreiðslur til sjóðfélagans framvegis þannig að þær reiknist út frá þeirri forsendu að sjóðfélaginn hefði náð öllum þeim bata, sem endurhæfingaráætlunin gerði frekast ráð fyrir. Örorkulífeyrir verður því aðeins úrskurðaður að endurhæfing sé ekki líkleg til að skila aukinni starfsgetu að mati trúnaðarlæknis sjóðsins.
  19.4. 

Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 21 vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal leggja til grundvallar meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið, svo kallaðar viðmiðunartekjur, sbr. a) lið gr. 19.6. um framreikning. Heimilt er að miða við meðaltal tekna síðustu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið vegna sjóðfélaga sem fengið hefur úrskurðaðan örorkulífeyri fyrir 1. janúar 2007 sbr. einnig a) lið gr. 19.6  Í úrskurði um lífeyri skal jafnframt greina hvaða heildartekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað. Tekjumissir telst mismunur viðmiðunartekna annars vegar og heildartekna eftir að örorka hefur verið metin þar með taldar tekjur af lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum vegna örorkunnar.  Viðmiðunartekjur samkvæmt þessari grein eru heildartekjur sjóðfélaga framreiknaðar með vísitölu neysluverðs.  Sé þetta fjögurra ára meðaltal sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla er sjóðsstjórn heimilt að leggja til grundvallar meðaltal tekna allt að 8 ár aftur í tímann í samræmi við reglu í a.lið gr. 19.6.  Samanburður á tekjum örorkulífeyrisþega við viðmiðunartekjur skal fara fram árlega eða oftar.

Örorkulífeyrisþega er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar skv. launaframtali, sé þess óskað þ.m.t. að heimila aðgang sjóðsins að staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra á hverjum tíma, á rafrænu formi. Heimilt er að fresta eða fella niður greiðslur lífeyris, veiti sjóðfélagi ekki umbeðnar upplýsingar. Veiti sjóðfélagi rangar eða villandi upplýsingar um tekjur sínar þ.m.t. vegna tekna sem ekki hafa verið gefnar upp til ríkisskattstjóra, er heimilt að skerða eða fella niður lífeyri til viðkomandi sjóðfélaga. 
  19.5. 

Þegar skilyrði 19.1. um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt miðað við réttindasjóð samkvæmt  gr. 19.1 að viðbættum lífeyri sem svarar til þeirra réttinda sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér með iðgjaldsgreiðslum fram til 65 ára aldurs, þ.e. framreikningi. Framreikningur er reiknaður með því að taka iðgjald viðmiðunartímabils, þ.e. framreikningsiðgjald skv. grein 19.6, og í hverjum mánuði á framreikningstíma, bæta við það jöfnunariðgjaldi með hliðsjón af aldri, fæðingarárgangi og viðmiðunariðgjaldi, sbr. gr. 17.5 og töflu V í viðauka A. Ráðstafa af samanlögðu framreikningsiðgjaldi og jöfnunariðgjaldi í tryggingavernd sbr. töflu I í viðauka A til að reikna áætlað framlag í réttindasjóð. Breyta loks áætluðu framlagi í réttindasjóð í mánaðarlegan örorkulífeyrisrétt með töflu III í viðauka A með tilliti til aldurs og fæðingarárgangs. Framreikningur sjóðfélagans er svo samanlagður mánaðarlegur örörkulífeyrisréttur fyrir hvern mánuð á framreikningstíma. Framreikningur skv. 19.6 er misjafn eftir aðstæðum sjóðfélaga, en sjóðfélagar sem búa við sambærilegar aðstæður fá þó ávallt sambærilegan framreikning.

Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs sbr. þó ákvæði samkomulags um samskipti lífeyrissjóða. Eigi sjóðfélagi rétt til framreiknings skal lífeyrissjóðurinn samhliða greiðslu lífeyris skrá framlag til réttindasjóðs sjóðfélaga í samræmi við það iðgjald sem lagt er til grundvallar framreikningi, eftir ákvæðum greina 19.6 og 19.8 og töflu I í viðauka A. Framlagið tekur mið af örorkuhlutfalli og hlutdeild sjóðs í framreikningi ef um skiptan framreikning milli sjóða er að ræða. Framlagið tekur sömu breytingum og greiðsla örorkulífeyris.
  19.6  Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt á framreikningi réttinda samkvæmt gr. 19.5., skal um framreikninginn fara skv. stafliðum a-e þessarar greinar, eftir því sem við á í tilviki hvers sjóðfélaga fyrir sig:
    a)  Reglubundnar iðgjaldagreiðslur Hafi iðgjaldagreiðslur til þessa sjóðs og/eða annarra lífeyrissjóða verið reglubundnar skal framreikna með því leggja til grundvallar reiknað meðaltal iðgjalda sjóðfélaga næstu fjögur almanaksárin fyrir orkutapið til að meta tekjutap vegna ókomins tíma skv.gr. 19.5. Telji sjóðstjórn rökstudda ástæðu til að ætla að þetta fjögurra ára meðaltal endurspegli ekki venjubundnar greiðslur, er henni heimilt að leggja til grundvallar iðgjaldsgreiðslur 8 ár aftur í tímann. Við útreikning meðaliðgjalds þessa tímabils skal hvorki taka tillit til þess árs sem lægst iðgjöld bárust vegna sjóðfélaga né þess árs sem iðgjaldsgreiðslur voru hæstar og reikna meðaliðgjaldið því af iðgjöldum þeirra 6 ára sem þá standa eftir. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld í skemmri tíma en 8 ár skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. Lífeyrisréttur sjóðfélaga vegna framreiknings ákvarðast jafn þeim réttindum, sem þetta meðaliðgjald, greitt til 65 ára aldurs, myndi hafa veitt honum skv. töflu IV í viðauka A. Nemi meðaliðgjaldið hærri fjárhæð en kr. 320.000 skal við framreikning miða við meðaltalið í allt að 10 ár en síðan og til 65 ára aldurs skal í stað meðaltalsins reikna með kr. 320.000 í árlegt iðgjald, réttur til jafnar ávinnslu lækkar samhliða eftir 10 ár. Þessar takmarkanir á fjárhæðum vegna framreiknings eiga við um allar tegundir framreiknings skv. grein þessari (liðir a-e)
    b)  Breyttar forsendur vegna breytinga á starfi
Hafi sjóðfélagi fyrir orkutapið látið af því starfi sem iðgjöld hans byggðu á, þannig að tekjusaga fortíðar þyki að mati sjóðstjórnar ekki gefa trúverðuga vísbendingu um tekjutap hans í framtíðinni, er sjóðstjórn heimilt að leggja til grundvallar mati á tekjutapi skv. gr. 19.5.  áætlaðar framtíðartekjur umsækjanda í nýju starfi að hálfu leyti á móti útreikningi skv. a. lið, sem hafi þá 50% vægi við  útreikning á tekjuviðmiði til framreiknings.
    c)  Stopular iðgjaldagreiðslur
Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular, að þær hafa fallið niður eða verið lægri en svaraði til kr.  42.000 iðgjalds fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs, er sjóðfélagi náði 25 ára aldri og skal þá framreikningstími, til að meta tekjutap skv. gr. 19.4,  styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára, sem árlegar iðgjaldagreiðslur hafa verið lægri en kr. 42.000 og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Sama gildir, ef stopular iðgjaldagreiðslur stafa af undanskoti frá greiðsluskyldu til lífeyrissjóðsins.
    d)  Skert starfsorka fyrir greiðslu iðgjalda til sjóðsins
Hafi sjóðfélagi haft skerta almenna starfsorku fyrir þann tíma, er hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins, og meta má þá starfsorkuskerðingu 50% eða meira, skal, til að meta réttindi vegna ókomins tíma skv. 19.5, reikna meðaltal iðgjalda hans öll þau almanaksár, sem hann hefur greitt iðgjöld.  Skal þá miða framreikning við þetta meðaltal.
    e)  Sjúkdómar sem til staðar voru við greiðslu iðgjalds
Ef rekja má sjúkdóma þá, sem valda orkutapi sjóðfélaga, svo langt aftur í tímann, að nemi a.m.k. helmingi almanaksára frá lokum þess árs, er sjóðfélagi náði 16 ára aldri, til þess tíma, er orkutap telst hafa orðið, skulu framreiknuð réttindi, til að meta tekjutap skv. 19.5, aldrei reiknast meiri en þau réttindi sem sjóðfélaginn hafði áunnið sér í lífeyrissjóðnum fram að orkutapi. Við mat á sjúkdómum í þessu sambandi skal miðað við breiða flokkun sjúkdóma (yfirflokka).
  19.7  Greiði sjóðfélagi iðgjald eftir að hann hefur verið úrskurðaður öryrki og á sama tíma og örorkan varir, hvort heldur er hjá þessum lífeyrissjóði, öðrum lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun ríkisins, mynda slík iðgjöld ekki réttindi til örorkulífeyris, nema hlutfallslega að því marki sem úrskurðað orkutap viðkomandi sjóðfélagi var lægra en 100%, enda sé tilefni örorku annað en við fyrri úrskurð. Í þeim tilfellum þegar um sama tilefni örorku er að ræða mynda téð iðgjöld ekki réttindi til örorkulífeyris.
  19.8  Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið sbr. þó 19.1.
  19.9  Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Ekki er greiddur örorkulífeyrir ef orkutap varir skemur en í sex mánuði.
  19.10  Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda aftur í tímann í samræmi við reglur um örorkumat sbr. gr. 19.11. Mat á missi starfsorku er læknisfræðilegt mat og skal miðast við þær heilsufarslegu breytingar sem sjóðfélagi hefur orðið fyrir eftir að hann hóf iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skal örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd, enda sé metin örorka til almennra starfa 50% eða meiri. Eftir fyrstu 3 árin skal orkutap metið á ný og þá alfarið með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skal síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telur ástæðu til. Skert starfsorka sem til er komin áður en sjóðfélaginn hóf greiðslur til sjóðsins myndar ekki rétt til örorkulífeyris frá sjóðnum jafnvel þótt sjóðfélagi hafi ekki notið örorkubóta vegna hennar.
  19.11 

Örorkumat skal framkvæmt af trúnaðarlækni sjóðsins, tryggingalækni eða teymi sérfræðinga sem hefur fagþekkingu á þessu sviði. Örorkumat skal miðast við læknisfræðilegar forsendur og fylgja reglum um örorkumat sem settar hafa verið. Við mat á orkutapi skal sérstaklega líta til þess hver starfshæfni og vinnugeta viðkomandi umsækjanda er og möguleikar hans til að ná aftur bata og starfsgetu með réttri endurhæfingu

Skylt er öryrkja sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta sjóðnum í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris og ef nauðsynlegt er, gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins eða öðrum lækni eða heilbrigðisstarfsmanni sem hann vísar til. Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi skal umsókn hans vísað frá og telst hún þá úr gildi fallin. Sama gildir ef fullnægjandi upplýsingum er ekki skilað við endurmat á örorku sbr. gr.19.10. Skili sjóðfélagi inn fullnægjandi gögnum, eftir að réttur hans til greiðslu hefur fallið niður vegna þess að gögnum var ekki skilað inn fyrir réttan tíma, fær hann að nýju rétt frá þeim tíma til að fá greiðslur, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Heimilt er sjóðnum í því tilviki að greiða sem nemur greiðslum allt að 9 mánuðum aftur í tímann.
  19.12  Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.
  19.13  Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og eins ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum gr. 19.1. er ekki lengur fullnægt. Við 67 ára aldur skal sjóðfélaga úrskurðuð eftirlaun í samræmi við stöðu réttindasjóðs, fæðingarárgang og töflu II í viðauka A. Til frádráttar eftirlaunum sjóðfélaga, þannig reiknuðum, skal síðan koma þau eftirlaun, sem hann hefur afsalað sér samkvæmt greinum 16.1 og 18.7.
20. Makalífeyrir
  20.1  Nú andast sjóðfélagi, sem greitt hefur til tryggingadeildar sjóðsins og uppfyllir a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða:
    a)  naut elli- eða örorkulífeyris úr tryggingadeild sjóðsins
    b)  hafði greitt til tryggingadeildar sjóðsins a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum
    c)  hafði greitt til tryggingadeildar sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum
    og lætur eftir sig maka, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum meðan skilyrði 20.3, 20.4, eða 20.5 eru uppfyllt.
  20.2  Fullur makalífeyrir skal alltaf greiddur í 36 mánuði og að hálfu í 24 mánuði til viðbótar, þótt ekki sé fullnægt ákvæðum 20.3, 20.4 eða 20.5, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlátið.
  20.3  Láti sjóðfélagi eftir sig eitt barn eða fleiri innan 20 ára aldurs, sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum, skal makalífeyrir greiddur fram að 20 ára aldri yngsta barnsins. Sama gildir ef makinn hefur á framfæri sínu barn sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu. Kjörbarn veitir sama rétt.
  20.4  Sé maki sjóðfélaga að minnsta kosti 50% öryrki, skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, þó ekki lengur en til 67 ára aldurs, enda sé eftirlifandi maki yngri en 65 ára við andlát sjóðfélaga.
  20.5  Makalífeyrisréttindi eru hverju sinni 50% af eftirlauna eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélagans, hvort sem gefur hærri rétt við fráfall. Hér er miðað við öll eftirlaunaréttindi, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér og því ekki dregin frá þau réttindi, sem hann kann að hafa afsalað sér samkvæmt gr. 18.7 (um skiptingu eftirlaunaréttinda). Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans.  Áunnin réttindi makalífeyrisþega skulu hverju sinni nema áunnum réttindum við úrskurð makalífeyris að viðbættum réttindum vegna: 
    a)  framreiknaðra réttinda í hlutfalli við hundraðshluta makalífeyris af hámarksmakalífeyri eins og hann hefur verið hverju sinni.
    b)  aukningar- eða skerðingarréttinda sem kann að hafa verið úthlutað eftir að taka makalífeyris hófst.
    c)  hafi hinn látni notið örorkulífeyris frá sjóðnum bætast einnig við réttindi sem örorkulífeyrisþeginn kann að hafa unnið sér inn eftir úrskurð örorku.
  20.6  Maki sjóðfélaga samkvæmt þessari grein telst sá, eða sú sem var í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem mátti jafna til hjúskapar við andlátið, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát.  Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru í samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.  Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar, sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi, ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.
21. Barnalífeyrir
  21.1  Nú andast sjóðfélagi og eiga þá börn hans og kjörbörn yngri en 18 ára rétt til barnalífeyris úr sjóðnum eins og nánar er kveðið á um í þessum kafla, enda hafi hinn látni
    a)  greitt iðgjöld til sjóðsins 24 af 36 síðustu mánuðum fyrir andlátið eða 6 mánuði af undanfarandi 12 eða
    b)  notið ellilífeyris eða örorkulífeyris úr sjóðnum sem svarar til minnst 10.000 kr. á mánuði.
    Við mat á því hvort framangreindum skilyrðum er fullnægt er sjóðstjórn rétt að hafa hliðsjón af efnisreglu greinar 19.2. Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, fyrir andlát eiga einnig rétt til barnalífeyris úr sjóðunum. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins til slíkra barna vera hinar sömu og vera myndu, ef um börn eða  kjörbörn væri að ræða. Við ættleiðingu barns með erlent ríkisfang, sem búsett er erlendis, skulu tímamörk skv. þessum kafla miðast við útgáfudag gildandi vilyrðis eða forsamþykkis dómsmálaráðuneytis í stað dagsetningar ættleiðingarleyfis. Barnalífeyrir greiðist til barns látins sjóðfélaga skv. nánari ákvæðum þessarar greinar.
  21.2  Hafi sjóðfélagi á viðmiðunartímabili skv. 21.1 greitt iðgjald að meðaltali af mjög lágum iðgjaldsstofni, kr. 50.000 eða lægra, skal lækka barnalífeyri hlutfallslega þar til hann fellur niður hafi iðgjaldsstofn svarað til minna en helmings af ofangreindri viðmiðun. 
  21.3  Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.
  21.4  Barnalífeyrir sem greiddur er  hverju barni látins sjóðfélaga er kr. 7.500 á mánuði. Fjárhæð þessi skal breytast í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Barnalífeyrir greiðist til 18 ára aldurs barnsins.
  21.5  Barnalífeyrir einnig greiðist með börnum sjóðfélaga, sem nýtur örorkulífeyris úr sjóðnum og hefur greitt iðgjöld til sjóðsins 24 af 36 síðustu mánuðum fyrir orkutapið eða 6 mánuði af undanfarandi 12, enda séu þau fædd eða ættleidd fyrir orkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir. Ef örorka sjóðfélaga er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái eftirlaunaaldri. Barnalífeyrir sem greiddur er með barn örorkulífeyrisþega greiðist til lífeyrisþegans skv. nánari ákvæðum þessarar greinar.
  21.6  Lækka  skal  barnalífeyri hlutfallslega með börnum örorkulífeyrisþega séu réttindi þeirra svo takmörkuð að lífeyrir sé  lægri en kr. 20.000 á mánuði og  falla greiðslur barnalífeyris niður sé  örorkulífeyrir sjóðfélaga minni  en kr. 10.000 á mánuði. Barnalífeyrir skal fyrir örorkulífeyri á milli þeirra marka vera í hlutfalli við fjárhæð lífeyris um fram neðra mark, af fjárhæð neðra marks, kr. 10.000. 
  21.7  Greiða skal barnalífeyri með fósturbörnum og stjúpbörnum, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, fyrir orkutap. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera myndu, ef um börn eða  kjörbörn væri að ræða. Við ættleiðingu barns með erlent ríkisfang, sem búsett er erlendis, skulu tímamörk skv. þessum kafla miðast við útgáfudag gildandi vilyrðis eða forsamþykkis dómsmálaráðuneytis í stað dagsetningar ættleiðingarleyfis.
  21.8  Fullur barnalífeyrir sem greiddur er með barni örorkulífeyrisþega er kr. 5.500 á mánuði. Fjárhæð þessi skal breytast í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Barnalífeyrir greiðist til 18 aldurs barnsins. Breyting á örorkulífeyri í eftirlaun hefur ekki áhrif á greiðslu barnalífeyris.
22. Iðgjaldagreiðslur falla niður
  22.1  Nú falla niður launagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda og ávinnur hann sér þá ekki réttindi meðan svo stendur. Tímabil er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður af þessum ástæðum, reiknast ekki með, þegar úrskurða skal, hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.
  22.2  Réttur til eftirlauna, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður, þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin geymd réttindi sbr. þó 22.1. 
23. Endurgreiðsla iðgjalda
  23.1  Heimilt er skv. umsókn að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara, sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda óski sjóðfélagi eftir slíkri endurgreiðslu, hún sé ekki óheimil samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, eða viðkomandi hafi verið íslenskur ríkisborgari þegar réttindin áunnust. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum, kostnað vegna tryggingaverndar sem sjóðfélaginn hefur notið og kostnað vegna umsýslu samkvæmt forsendum tryggingastærðfræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Við endurgreiðslu til sjóðfélaga samkvæmt þessari grein falla niður allar kröfur viðkomandi sjóðfélaga á hendur sjóðnum vegna hinna endurgreiddu iðgjalda.
  23.2  Iðgjöld sem greidd eru sjóðnum vegna þeirra sem eru 70 ára eða eldri skulu lögð inn í séreignardeild sjóðsins í nafni sjóðfélaga í þá fjárfestingarleið sem ber minnstu áhættu hjá sjóðnum á hverjum tíma, nema sjóðfélagi ákveði aðra fjárfestingarleið. Skal þá leggja inn bæði iðgjald sjóðfélaga og mótframlag launagreiðanda. Skal tilkynna viðkomandi sjóðfélaga um slíka ráðstöfun. Fer um útgreiðslu eftir almennum ákvæðum séreignardeildarinnar. Sama gildir um iðgjöld sem greidd eru sjóðnum vegna þeirra sem eru yngri en 16 ára nema launagreiðandi eða viðkomandi sjóðfélagi tilkynni sjóðnum innan 6 mánaða frá greiðslu að greiðslan hafi verið greidd vegna mistaka. Skal þá endurgreiða sjóðfélaga og launagreiðanda iðgjaldshluta hvors um sig. 
24. Réttindaflutningar, brottfall aðildar og samningar um gagnkvæm réttindi
  24.1  Sjóðnum er heimilt  að flytja iðgjöld og þar með réttindi sem þeim fylgja milli lífeyrissjóða þegar að töku lífeyris kemur. Aðild að tryggingadeild sjóðsins fellur niður ef sjóðfélagi fær útborguð réttindi sín í einu lagi eða þau flytjast skv. samskiptareglum lífeyrissjóða í annan lífeyrissjóð. Telst sá sem réttindin átti þá ekki lengur til sjóðfélaga í sjóðnum, enda sé hann ekki aðili að öðrum deildum sjóðsins.
  24.2  Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl. Í slíkum samningum má víkja frá biðtíma og bótaákvæðum samþykkta þessara í því skyni að koma í veg fyrir niðurfall réttinda, þegar sjóðfélagi skiptir um starf, og tvítryggingu réttinda, sem ekki miðast við liðinn iðgjaldagreiðslutíma.  Ennfremur er þar heimilt að ákveða, að sjálfstæð réttindi í einstökum sjóðum skuli samanlagt ekki vera meiri en heildarréttindin mundu verða hjá einum og sama sjóði. 
25. Tilhögun lífeyrisgreiðslna
  25.1  Lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum eru ákvarðaðar á grundvelli tilkynningar sjóðfélaga eða umsóknar á umsóknareyðublöðum, frá sjóðnum.  Skylt er sjóðfélaga að láta sjóðnum í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að ákvarða lífeyri í samræmi við réttindi sjóðfélagans samkvæmt samþykktum þessum.  Láti sjóðfélagi sjóðnum ekki í té tilskildar upplýsingar er honum rétt að vísa umsókn frá og telst hún þá úr gildi fallin. Þá er lífeyrisþegum skylt að upplýsa sjóðinn um breytingar á högum sínum að því marki sem þær kunna að hafa áhrif á rétt til greiðslu lífeyris eða fjárhæð hans.  Þessi atriði skulu tiltekin í tilkynningu til lífeyrisþega um ákvörðun lífeyris og á lífeyrisyfirlitum.
  25.2  Það getur varðað réttindamissi ef umsækjandi um lífeyri leggur vísvitandi fram rangar upplýsingar, sem til þess eru fallnar að auka lífeyrisgreiðslur honum til handa umfram það sem hann á rétt á. Ennfremur ef lífeyrisþegi vísvitandi leynir sjóðinn breytingum á aðstæðum, sem áhrif hafa á rétt til lífeyris. 
  25.3  Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftirá, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð, er lífeyrisréttur myndaðist, og síðasta sinn fyrir þann mánuð, er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Aldrei skal þó sjóðstjórn skylt að úrskurða áfallalífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár, reiknuð frá byrjun mánaðar, er umsókn berst sjóðnum enda hafi umsóknin verið metin gild sbr. ákvæði gr. 25.1. Úrskurður skv. þessu skal  miðast við réttindareglur eins og þær eru á þeim tíma sem umsókn er lögð inn til sjóðsins og greiðist lífeyrir skv. verðlagi hvers tímabils. Vextir eða verðbætur greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur aftur í tímann. Lífeyrir skv. umsókn um töku ellilífeyris fyrir hinn almenna ellilífeyrisaldur sbr. gr. 18.3 greiðist þó fyrst frá upphafi þess mánaðar er umsókn berst sjóðnum. 
  25.4  Komi fram nýjar upplýsingar sem gera það að verkum að breyta þarf úrskurði aftur í tímann þannig að greiða þurfi lífeyrisþega hærri lífeyri en ráð var fyrir gert skv. fyrri úrskurði skal greiða hinn leiðrétta lífeyri verðbættan skv. vísitölu neysluverðs til þess tíma er hann kemur til greiðslu. Ekki greiðast vextir á leiðréttar lífeyrisgreiðslur. Gildir þetta einnig um leiðréttingar sem eru tilkomnar vegna breytinga á úrskurði á grundvelli niðurstöðu gerðardóms í samræmi við ákvæði 8. greinar eða almennra dómstóla.
  25.5 Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k. 5.000 króna á mánuði og fyrirsjáanlegt er, að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna, sem nema skal jafnvirði réttindasjóðs sjóðfélagans ef um eftirlaun er að ræða, af hendi í einu lagi. Ef um örorku- eða makalífeyri er að ræða þá greiðist hann í einu lagi í samræmi við tillögur tryggingafræðings.