IX. kafli

Um aðild og iðgjöld

27. Samningur um lífeyrissparnað, aðild og brottfall aðildar
  27.1  Þeir sem vilja greiða til séreignardeildarinnar skulu gera um það sérstakan samning við sjóðinn. Í samningnum skulu tilgreindir allir skilmálar er varða tryggingarverndina, sem og yfirlýsing þess efnis að þeir hlíti samþykktum sjóðsins. Samningarnir skulu gerðir í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997 og reglugerðar nr. 698/1998.
  27.2  Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til séreignardeildar Stapa lífeyrissjóðs telst til rétthafa skv. ákvæðum þeim er gilda um deildina.
  27.3  Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innistæðu eða réttindum skv. samningi um lífeyrissparnað. Þó er heimilt að gera samkomulag skv. 1.-3. tl. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skiptingu réttindanna milli rétthafa og maka hans.
  27.4  Samningi er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Uppsögn samnings um séreignarsparnað eða viðbótartryggingavernd veitir ekki rétt til útborgunar innistæðu eða réttinda.
  27.5  Rétthafa er heimilt að flytja inneign sína eða réttindin sín, að undangenginni uppsögn samnings milli vörsluaðila gegn greiðslu þess kostnaðar, sem sjóðurinn áskilur sér vegna flutningsins. Flutningur takmarkast við þá sem geta boðið upp á samning um viðbótartryggingarvernd sbr. 3. mgr. 8.gr. laga nr. 129/1997.
  27.6  Greiði sá sem segir upp samningi, ekki til tryggingadeildar sjóðsins vegna lágmarkstryggingaverndar, tekur uppsögn samnings ekki gildi fyrr en sá sem segir upp samningi hefur sannanlega tilkynnt hana til þess lífeyrissjóðs, sem veitir iðgjaldi hans til lágmarkstryggingaverndar móttöku, enda varðar samningurinn ráðstöfun á lágmarksiðgjaldi skv. 2. gr. l. nr. 129/1997.
  27.7  Samningur fellur úr gildi ef rétthafi hættir starfi sem er forsenda fyrir greiðslu hans til séreignardeildar Stapa lífeyrissjóðs, nema hann óski þess að halda áfram að greiða til séreignardeildarinnar.
28. Iðgjöld
  28.1  Sjóðfélögum sem greiða til tryggingadeildar er heimilt að greiða í séreignardeild iðgjald, sem er umfram lágmarksiðgjald skv. gr. 16.1. Kallast það iðgjald til viðbótartryggingarverndar. Jafnframt er séreignardeildinni heimilt að taka við iðgjöldum til viðbótartryggingarverndar frá einstaklingum sem kaupa lágmarkstryggingarvernd hjá öðrum lífeyrissjóði og séreignarhluta lágmarksiðgjalds hjá einstaklingum, þar sem lágmarkstryggingarvernd er sett saman úr séreign og tryggingum í samræmi við ákvæði laga 129/1997.
  28.2  Launagreiðandi skal halda eftir iðgjaldi launamanns, í samræmi við samning um lífeyrissparnað og skila því ásamt eigin mótframlagi til sjóðsins. Greiðslur skulu hefjast eigi síðar en 2 mánuðum eftir undirritun samnings þessa. Greiðslutímabil hvers innleggs skal eigi vera lengra en 1 mánuður og skal gjalddagi vera 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar.
  28.3  Iðgjöld sem rétthafi skal sjálfur standa skil á vegna eigin starfsemi, skulu greidd með sama hætti, nema öðru vísi sé ákveðið í sparnaðarsamningi aðila.
  28.4  Eigi sjaldnar en tvisvar á ári skal senda greiðandi rétthöfum yfirlit yfir greidd iðgjöld og ávöxtun þeirra.
  28.5  Lendi iðgjöld, skv. gildandi sparnaðarsamningum í vanskilum skulu þau innheimt hjá launagreiðanda með sama hætti og iðgjöld til tryggingadeildar sjóðsins og gilda ákvæði greina 16.8 og 16.9 einnig um innheimtu iðgjalda til séreignardeildar. Iðgjöld sem greidd eru eftir eindaga skulu greiðast með vanskilavöxtum frá gjalddaga að telja.