Viðauki C

Ákvæði úr eldri samþykktum sem sjóðfélagar geta átt réttindi samkvæmt. Greinarnúmer hér að neðan eru þau sömu og voru í téðum samþykktum:

Eldri ákvæði úr samþykktum Lífeyrissjóðs Norðurlands frá 1. maí 2003

20.3       Hafi eftirlifandi maki náð 50 ára aldri við fráfall sjóðfélaga, skal hann eiga rétt á 50% makalífeyri til 67 ára aldurs, enda séu ákvæði greinar 20.1*) uppfyllt.

*) Sömu ákvæði og nú eru í grein 20.1

Eldri ákvæði úr samþykktum Lífeyrissjóðs Austurlands frá júlí 2003.

89.gr.     Ævilangur makalífeyrir

Ef maki sjóðfélaga er fæddur fyrir 1955 á hann rétt á ævilöngum makalífeyri. Makalífeyrir reiknast skv. 91. gr.**), en lækkar um 2% fyrir hvert heilt ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1935, 2% að auki fyrir hvert heilt ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1940, 2% að auki fyrir hvert heilt ár sem makinn er fæddur fyrir 1. janúar 1945 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur fyrir 1. janúar 1950. Skerðing innan fæðingarárs reiknast hlutfallslega út frá dagafjölda fram að fæðingardegi miðað við dagafjölda ársins. Ákvæði skv. 86-88.gr. um makalífeyri gilda þó meðan þau eru hagstæðari fyrir makann. 

**) Almenn ákvæði um makalífeyri. Sambærileg ákvæðum sem nú er að finna í grein 20.5 í þessum samþykktum.

Eldri ákvæði úr samþykktum Stapa lífeyrissjóðs frá 16. maí 2013

17.3.    Sjóðfélaga sem á réttindi í sjóðnum miðað við árslok 2004 er heimilt að greiða til hans iðgjöld allt að tilteknu hámarki með jafnri réttindaávinnslu í jafn marga mánuði og viðkomandi hafði greitt iðgjöld til sjóðsins fyrir 42 ára aldur í lok árs 2004.  Hafi hann greitt iðgjöld í full 5 ár á umræddu tímabili á hann rétt á að greiða allt að viðmiðunariðgjaldi í jafnri ávinnslu til 67 ára aldurs. Þessi jafna ávinnsla miðast við meðaltal réttindaávinnslu aldursáranna 25 til og með 64 ára skv. töflu I í viðauka A, þar sem meðaltalið er birt sérstaklega. Hámarksiðgjald til jafnrar ávinnslu á hverju almanaksári, viðmiðunariðgjald, skal ákveðið fyrir hvern sjóðfélaga, sem er á aldrinum 25 til og með 66 ára, jafnhátt því iðgjaldi sem hann greiddi til sjóðsins á árinu 2003 eða síðasta árið sem iðgjald barst sjóðnum hans vegna, hafi það verið fyrr. Viðmiðunariðgjaldið skal þó ekki taka mið af iðgjaldsgreiðslum umfram 10% af iðgjaldsstofni. Hafi iðgjaldsgreiðslur það ár ekki endurspeglað venjubundnar greiðslur, s.s. vegna starfshléa eða að greiðslum hafi verið hætt á árinu, skal eftir umsókn sjóðfélaga miða útreikning á viðmiðunariðgjaldi við iðgjaldsgreiðslur næsta ár á undan sem stjórn sjóðsins telur gefa sanngjarna mynd af reglulegum iðgjaldsgreiðslum sjóðfélagans. Viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu tekur breytingum í hlutfalli við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá viðmiðunarári til greiðsluárs hverju sinni.

17.4       Öll iðgjöld sem berast sjóðnum á ári hverju vegna sjóðfélaga sem er 25 ára eða eldri í árslok 2004 og hefur skilgreint viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu, skulu færast í jafnri réttindaávinnslu allt þar til viðmiðunariðgjaldinu er náð eða útreiknuðu iðgjaldsgreiðslutímabili er lokið. Sjóðurinn skal sérstaklega gæta þess að réttindaávinnsla þeirra sem ekki eiga rétt á jafnri réttindaávinnslu til 67 ára aldurs skv. 17.3 sé samkvæmt þeim ávinnslureglum er gefa meiri rétt á hlutaðeigandi tímabili. Iðgjald sem berst umfram framangreint viðmiðunariðgjald myndar réttindi samkvæmt aldursháðri réttindatöflu sjóðsins. Þegar öll iðgjöld ársins hafa borist vegna sjóðfélaga sem á skilgreint viðmiðunariðgjald skal skipta því á einstaka mánuði í sömu hlutföllum og þeim iðgjöldum sem hafa borist. Sá hluti iðgjalda sem er umfram viðmiðunariðgjaldið ávinnur honum réttindi  skv. töflu I í viðauka A

17.6      Lífeyrissjóðurinn skal upplýsa sjóðfélaga um viðmiðunariðgjald til jafnrar réttindaávinnslu skv. framanskráðu innan sex mánaða frá því að hann greiðir fyrst til sjóðsins eftir 1. janúar 2007. Telji sjóðfélagi viðmiðunarárið ekki gefa sanngjarna mynd af venjubundnum iðgjaldsgreiðslum hans getur hann óskað eftir því við sjóðstjórn að annað ár verði lagt til grundvallar útreikningi viðmiðunariðgjalds. Ósk um endurskoðun viðmiðunariðgjalds skal berast sjóðnum í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að sjóðfélaginn fékk fyrst tilkynningu um  viðmiðunariðgjald.

17.7        Ekki skal reikna viðmiðunariðgjald fyrir sjóðfélaga sem eru yngri en 25 ára eða eldri en 70 ára þann 1. júlí 2005. Sjóðfélagi getur hvenær sem er ákveðið að allt iðgjald hans færist til réttinda eftir aldursháðri réttindatöflu. Ákvörðun sjóðfélaga þar um öðlast gildi frá upphafi þess árs sem tilkynning hans berst sjóðnum og er sú ákvörðun óafturkræf.  Réttur til jafnrar ávinnslu skv. ákvæðum þessa kafla telst frá gildistöku samþykkta þessara eða frá þeim tíma er sjóðfélaga fyrst er heimilt að greiða til sjóðsins vegna launatekna af vinnu á starfssviði hans og fellur niður, sé hann ekki nýttur án eðlilegra skýringa að mati sjóðstjórnar.