X. kafli

Lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur í séreignardeild

29. Lífeyrisréttindi
  29.1  Við framlag í séreignardeild skulu réttindi hvers og eins myndast í samræmi við greiðslur hans. Lífeyrisréttindi miðast við innborguð iðgjöld og ávöxtun þeirra. Réttindi vegna greiðslna miðast við greiðsludag.
  29.2  Færður skal sérreikningur fyrir iðgjald hvers rétthafa í séreignardeild. Heimilt er að bjóða upp á mismunandi verðbréfasöfn, sem rétthafar geta valið á milli. Sé boðið upp á mismunandi verðbréfasöfn, skal tilgreina það safn, sem valið er á samningi rétthafa um séreignarsparnað. Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu fyrir þau söfn, sem sjóðurinn býður og skal hún vera innan þeirra marka, sem ákveðin eru í 6. grein. Auk iðgjalds rétthafa skal færa á sérreikning hans vexti í samræmi við ávöxtun þess safns sem hann hefur valið að frádregnum kostnaði við umsýslu og rekstur deildarinnar.
  29.3  Lífeyrissjóðnum er heimilt að fenginni skriflegri beiðni viðkomandi sjóðfélaga að draga frá inngreiddum iðgjöldum hans upphæð, sem svarar til iðgjalds vegna líf-og heilsutryggingar. Sjóðurinn skal eiga aðild að samningi um kaup á slíkum tryggingum. Bætur skv. slíkum tryggingum skulu greiddar inn á séreignarreikning viðkomandi rétthafa. Um útborgun gilda ákvæði II. kafla laga nr. 129/1997.
30. Lífeyrisgreiðslur
  30.1  Hefja má úttekt á innistæðu eða gera sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, en þó aldrei fyrr en rétthafi hefur fullnægt sérstökum viðbótarskilyrðum skv. greinum 30.2, 30.3 eða 30.4.
  30.2  Rétthafi, sem orðinn er fullra 60 ára á rétt á að fá inneign sína greidda út.
  30.3  Verði rétthafi fyrir orkutapi sem metið er 100%, á hann rétt á að fá inneign sína greidda út með jöfnum greiðslum á eigi skemmri tíma en 7 árum eða þeim tíma sem vantar uppá að 60 ára aldur. Nú er örorka metinn lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu og úttektartíminn lengist samsvarandi.
  30.4  Við andlát rétthafa, fellur inneign hans í séreignardeildinni til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga.