Útgreiðslur tilgreindrar séreignar

Vegna aldurs

Heimilt er að hefja úttekt úr tilgreindri séreignardeild frá 62 ára aldri og skulu greiðslur að lágmarki dreifast fram til 67 ára aldurs. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitöluna 173,5 stig.

Vegna örorku

Sjóðfélagi sem þarf að hætta störfum vegna örorku áður en hann nær 62 ára aldri, á rétt á að fá inneign sína í tilgreindri séreignardeild greidda með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á eigi skemmri tíma en 7 árum. Ef innistæða er undir tilteknum mörkum er þó heimilt að greiða út eingreiðslu. Sé um að ræða minni en 100% örorku lengist tíminn hlutfallslega.

Vegna andláts

Við fráfall sjóðfélaga fellur inneign hans í tilgreindri séreign til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innistæðan renna til dánarsbús sjóðfélaga.