Endurhæfingar- og örorkulífeyrir

Við greiðslu iðgjalds til sjóðsins fer hluti iðgjaldsins til að tryggja rétt á áfallalífeyri skv. samþykktum sjóðsins.

Sjóðfélagi, sem misst hefur starfsorku, sem talið er skerða starfsgetu hans um 50% eða meira, á rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri frá sjóðnum. Missir á starfsorku er venjulega kallað orkutap.

Endurhæfingar- og örorkulífeyrir er afkomutrygging fyrir sjóðfélaga, þegar hann missir starfsorku vegna slyss eða sjúkdóms og verður fyrir tekjutapi af þessum orsökum. Orkutapið þarf að vara í sex mánuði eða lengur.

Trúnaðarlæknir sjóðsins eða teymi sérfræðinga metur orkutapið. Um er að ræða læknisfræðilegt mat og miðast það fyrstu þrjú árin við hæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því sem veitti honum aðild að sjóðnum, en eftir það við hæfni til að gegna almennum störfum.