VIII. kafli

Tryggingafræðilegar athuganir

26. Tryggingafræðileg athugun
  26.1  Stjórn lífeyrissjóðsins skal árlega láta reikna út fjárhag sjóðsins og skal niðurstaða athugunarinnar vera hluti af reikningsskilum lífeyrissjóðsins um hver áramót. Í niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar skal gera grein fyrir kostnaði vegna þeirra réttinda sem sjóðurinn veitir, sbr. ákvæði greinar 2.3.. Athugun skal framkvæmd af tryggingastærðfræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hafa viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs. Fyrir 1. júlí ár hvert skal senda Fjármálaeftirlitinu hina tryggingafræðilegu athugun.
  26.2  Hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Lífeyrisloforð sjóðsins um tryggingavernd til framtíðar eins og þau birtast í töflum I-V í viðauka A skulu árlega endurskoðuð og breytt ef tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins gefa tilefni til sbr. ákvæði 17. greinar. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á töflum I-V í viðauka A samkvæmt tillögum frá tryggingastærðingi sjóðsins, án þess að leggja þær fyrir ársfund. Slíkar breytingar skulu taka mið af breytingum á tryggingafræðilegum forsendum, þar með talið breytingum á lífslíkum. Taka skal inn slíkar breytingar með reglulegu- millibili í samræmi við breytingar á reynslutölum þar að lútandi. Breytingar á töflu I í viðauka A sem fela í sér að aukið hlutfall iðgjalds fari til áfallatrygginga er þó ekki heimilt að gera nema með samþykki ársfundar.Um breytingar á áunnum réttindum fer að öðru leyti eftir ákvæðum gr. 26.3.  
  26.3  Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meiri frávik eru á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samkvæmt 26.2 en kveðið er á um í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 er stjórn sjóðsins skylt, í samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins, að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Stjórn sjóðsins er einnig heimilt, að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins og miðað við viðurkenndar tryggingafræðilegar forsendur, að leggja til breytingar á áunnun lífeyrisréttindum sjóðfélaga, enda þótt minni munur sé á eignum og skuldbindingum en tilgreint er í ofangreindu lagaákvæði.   Tillögurnar skulu afgreiddar af ársfundi sjóðsins.
  26.4  Nú leiðir tryggingafræðileg athugun í ljós, að fjárhagur sjóðsins er svo ótryggur að við svo búið má ekki standa og ætla má, miðað við tryggingafræðilegar forsendur, að eignir hans muni ekki duga fyrir skuldbindingum miðað við þau réttindi, sem sjóðurinn hefur að markmiði  að veita, sbr. grein 2.3. og skal stjórn sjóðsins þá boða til aukaársfundar eins fljótt og verða má og eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hin tryggingafræðilega niðurstaða lá fyrir. Á fundinum skal stjórn sjóðsins leggja fram tillögur um sameiningu við annan samtryggingarsjóð eða lokun sjóðsins. Jafnframt skal stjórn sjóðsins leggja fram tillögur um hjá hvaða lífeyrissjóði tryggja beri sjóðfélögum lífeyrisrétt. Tillögurnar skal afgreiða með sama hætti og tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins.