Spurt & svarað

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Eftirlaun

    • Hvar fæ ég upplýsingar um rétt minn til eftirlauna?

      Stapi lífeyrissjóður er með sérstakan vef – vef sjóðfélaga – þar sem hver og einn sjóðfélagi getur fengið upplýsingar um lífeyrisrétt sinn. Hægt er að nota rafræn skilríki í síma eða íslykil til innskráningar. Á vefnum er bæði að finna upplýsingar um réttindi í skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnaði. Af sjóðfélagavefnum er einnig hægt að komast inn á svokallaða lífeyrisgátt þar sem þú getur séð réttindin þín í öllum lífeyrissjóðum sem þú hefur greitt til.

    • Hvaða áhrif hefur það að eiga réttindi í mörgum sjóðum?

      Í sjálfu sér hefur það ekki mikil áhrif ef þú átt réttindi í mörgum sjóðum. Þú getur fylgst með réttindum þínum í öllum sjóðum með því að fara inn á lífeyrisgáttina, en þar eru upplýsingar um öll þín réttindi hjá lífeyrissjóðum. Við töku lífeyris á að vera nægjanlegt að sækja um lífeyri hjá þeim sjóði sem þú greiddir síðast til. Sá sjóður á að senda afrit umsóknar til annarra lífeyrissjóða sem þú átt réttindi hjá. Til er svokölluð lífeyrisskrá sem lífeyrissjóðir hafa aðgang að. Þar sjá þeir í hvaða aðra lífeyrissjóði þeirra sjóðfélagar hafa greitt og eiga að senda afrit af umsókninni áfram til þessara sjóða (lífeyrisskráin sýnir eingöngu til hvaða sjóða hefur verið greitt, en ekki hvaða réttindi viðkomandi á hjá öðrum sjóðum). Mikilvægt er samt sem áður fyrir sjóðfélagann að fylgjast með og athuga hvort umsókn hefur ekki skilað sér til allra þeirra sjóða, þar sem hann á réttindi.

    • Hvenær get ég hafið töku eftirlauna?

      Venjan er að hefja töku eftirlauna við 67 ára aldur. Hægt er að hefja tökuna fyrr eða við 60 ára aldur eða fresta henni til allt að 80 ára aldurs. Fjárhæð eftirlaunanna breytist eftir því hvenær taka þeirra hefst. Þeim mun síðar sem taka eftirlauna hefst þeim mun hærri verða eftirlaunin. Það fer þó alltaf eftir aðstæðum hvers og eins hvenær heppilegast er að hefja töku eftirlauna.

    • Þarf ég að sækja um töku eftirlauna eða fæ ég þau sjálfkrafa?

      Já, sækja þarf um lífeyri hjá sjóðnum. Hægt er að gera það á vefsíðu sjóðsins með því að fylla þar út rafræna umsókn. Einnig er hægt að prenta út eyðublað og senda sjóðnum með hefðbundnum pósti, eða koma á skrifstofur sjóðsins. Sjóðurinn mun senda afrit af umsókn þinni til annarra sjóða þar sem þú átt réttindi. Mikilvægt er samt sem áður að þú fylgist með því að úrskurðað hafi verið út á öll réttindi þín, en þú getur séð í hvaða sjóðum þú átt réttindi með því að skoða það á lífeyrisgáttinni.

    • Hvaða áhrif hefur frestun eða flýting á töku lífeyris á eftirlaunin mín?

      Breytingar verða á upphæð eftirlauna eftir því hvenær sjóðfélagi kýs að hefja töku, þannig lækka greiðslur til þeirra sem hefja töku lífeyris fyrir 67 ára aldur en hækka fyrir þá sem hefja töku eftir 67 ára aldur. Breytingarnar byggjast á svokölluðum tryggingafræðilegum forsendum. Þetta þýðir að lifi sjóðfélagi nákvæmlega jafn lengi og meðalmaðurinn, sem náð hefur eftirlaunaaldri, á hann að fá það sama út úr lífeyrissjóðnum óháð því hvenær hann hefur töku eftirlauna.

    • Eru eftirlaun alltaf greidd mánaðarlega?

      Öllu jafna eru eftirlaun greidd mánaðarlega ævilangt. Á því er þó undantekning ef um lága fjárhæð er að ræða.

      • Ef mánaðarleg eftirlaun eru lægri en 6.000 kr. (miðað við október 2022) er reglan sú að þau eru greidd út í einu lagi með svokallaðri eingreiðslu.
      • Horft er til hvers sjóðs fyrir sig þannig ef sjóðfélagi á lága fjárhæð í mörgum sjóðum gæti komið til eingreiðslu frá fleiri en einum sjóði.
      • Sjóðfélagi getur óskað eftir að fá mánaðarlegar greiðslur í stað eingreiðslu en þá þarf að hafa samband við sjóðinn á sama tíma og umsókn er send inn.
    • Hvernig sæki ég um eftirlaun?

      Um eftirlaun og annan lífeyri er hægt að sækja á vefsíðu sjóðsins. Fylla má út rafræna umsókn á vef sjóðsins, eða prenta út eyðublað, fylla það út og senda sjóðnum, annað hvort skannað í tölvupósti eða með hefðbundnum pósti. Einnig er hægt að koma á skrifstofur sjóðsins og sækja um lífeyri þar.

    • Hvernig ávinn ég mér rétt til eftirlauna?

      Réttindi til eftirlauna ávinnast með greiðslu iðgjalda til sjóðsins og þeim árangri sem sjóðurinn nær við að ávaxta iðgjöldin þar til þau koma til endurgreiðslu í formi eftirlauna. Þar sem ávöxtun er breytileg frá ári til árs er ávinnsla réttindanna það einnig. Með þessu fyrirkomulagi, sem kallað er eignatengd réttindaávinnsla, fylgjast eignir sjóðsins og verðmæti skuldbindinga hans að á hverjum tíma. Skuldbindingar sjóðsins eru þau lífeyrisloforð sem sjóðfélagarnir eiga í sjóðnum. Þetta kerfi var samþykkt á ársfundi sjóðsins 29. apríl 2015 og tekur gildi frá og með 1. janúar 2016. Markmiðið með upptöku þessa nýja kerfis er að sem mest jafnvægi sé á milli eigna sjóðsins og skuldbindinga á hverjum tíma. Í eldri réttindakerfum, sem ýmist byggðu á aldurstengdri réttindaávinnslu eða jafnri réttindaávinnslu gat oft myndast mikill munur á milli eigna og skuldbindinga. Við þessum mun varð að bregðast með aukningu eða skerðingu réttinda, sem voru misvinsælar aðgerðir. Í eignatengdri réttindaávinnslu er þessi aðlögun milli eigna og réttinda að mestu innbyggð í kerfið og gerist sjálfkrafa frá mánuði til mánaðar. Rétt er þó að taka fram að sumir sjóðfélagar eiga enn ákveðinn rétt til jafnrar réttindaávinnslu. 

    • Hvað er eignatengd réttindaávinnsla?

      Réttindakerfi Stapa lífeyrissjóðs byggir á því sem kallað hefur verið eignatengd réttindaávinnsla. Iðgjöld eru greidd til sjóðsins þar sem þau eru ávöxtuð og mynda þá eign sem er í sjóðnum á hverjum tíma. Réttindin í sjóðnum byggja alfarið á þessum eignum. Þegar iðgjald er greitt til sjóðsins er því skipt, þannig að hluti þess fer til að tryggja eftirlaunaréttindi og hluti til áfallatrygginga. Skiptingin er háð aldri sjóðfélaga og fer eftir Töflu I í samþykktum sjóðsins. Þeim hluta sem fer til eftirlauna er safnað í sjóð sem kallaður er réttindasjóður. Réttindasjóður er sá sjóður sem stendur á bak við loforðið um greiðslu eftirlauna til sjóðfélagans á hverjum tíma. Réttindasjóður hvers sjóðfélaga er ekki séreign hans, heldur reiknaður hluti af þeim eignum sem sameiginlega tryggja eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum. Réttindasjóður erfist ekki við fráfall. Þegar sjóðfélagi hefur náð eftirlaunaaldri er réttindasjóði breytt í eftirlaun samkvæmt Töflu II í samþykktum sjóðsins.

    • Hvernig er skipting iðgjalds á milli eftirlauna og áfallatrygginga ákveðin?

      Skiptingin fer eftir Töflu I í samþykktum sjóðsins. Taflan byggir á tryggingafræðilegum forsendum, þar sem metinn er kostnaður við annars vegar eftirlaun og hins vegar áfallalífeyri miðað við aldur sjóðfélaga. Með skiptingu iðgjaldsins er sýndur sá kostnaður sem er á bak við mismunandi tryggingar. Áfallalífeyrir skiptist í örorku-, maka- og barnalífeyri. Stærsti kostnaðurinn við áfallatryggingar er örorkulífeyrir. Áfallatryggingar eru dýrar þegar einstaklingurinn er ungur, enda getur þurft að greiða einstaklingi örorkulífeyri um mjög langan tíma. Kostnaðurinn við áfallatryggingar minnkar eftir því sem sjóðfélagi nálgast eftirlaunaaldurinn. Yfir starfsævina í heild fara um ¾ hlutar iðgjaldsins til að mynda eftirlaunaréttindi og um ¼ til áfallatrygginga.

    • Hvað er réttindasjóður?

      Réttindakerfi Stapa lífeyrissjóðs er kallað eignatengd réttindaávinnsla. Sá hluti iðgjalds til sjóðsins sem fer til að mynda eftirlaunaréttindi kallast réttindasjóður. Réttindasjóðurinn byggist upp yfir starfsævina með greiðslu iðgjalda og ávöxtun. Ávöxtun sveiflast og er mismunandi frá ári til árs. Eftirlaunaréttindin breytast í takti við breytingar á eignavísitölu sjóðsins, sem mælir ávöxtun á eignum hans. Réttindasjóðurinn byggist upp með eftirfarandi hætti skv. 17. gr. í samþykktum sjóðsins:

      a)

      +

       Iðgjald greitt til sjóðsins

      b)

      +

      Jöfnunariðgjald ef réttur til jafnrar ávinnslu er fyrir hendi

      c)

      -

      Framlag í starfsendurhæfingarsjóð

      d)

      -

      Hluti iðgjalds sem fer til áfallatrygginga

       

      =

      Iðgjald til uppsöfnunar í réttindasjóð

      e)

      +/-

      Ávöxtun á eignir sjóðsins skv. eignavísitölu

      f)

      +

      Hlutdeild í iðgjaldasjóðum látinna sjóðfélaga

      g)

      +/-

      Breytingar vegna tryggingafræðilegs uppgjörs

       

      =

      Breytingar á réttindasjóði á árinu

       

      +

      Réttindasjóður í ársbyrjun

       

      =

      Réttindasjóður í árslok

    • Hvað er jöfnunariðgjald og réttur til jafnrar ávinnslu?

      Sjóðfélagar sem höfðu verið í jafnri réttindaávinnslu og áttu réttindi í sjóðnum við árslok 2004 geta átt rétt á að slíkri ávinnslu áfram, enda hafi þeir fengið úthlutað viðmiðunariðgjaldi sem segir til um að hve miklu leyti réttindi þeirra geta áunnist í jafnri réttindaávinnslu. Þegar þau réttindi eru til staðar bætist iðgjald, sem kallað er jöfnunariðgjald, aukalega við réttindasjóðinn, sem tryggir þessa ávinnslu. Þessi ákvæði eru svokölluð sólarlagsákvæði, vegna eldra réttindakerfis hjá sjóðnum og munu detta út með tímanum. 

    • Hvað fer í starfsendurhæfingarsjóð?

      Samkvæmt lögum ber lífeyrissjóðum að skila hluta af iðgjaldinu (0,10% af launum) til starfsendurhæfingarsjóðs. Þessi hluti iðgjaldsins myndar ekki réttindi hjá lífeyrissjóðnum, en á móti á sjóðfélaginn rétt á þjónustu frá starfsendurhæfingarsjóði.

    • Hvað eru breytingar vegna tryggingafræðilegs uppgjörs?

      Markmið eignatengdrar réttindaávinnslu er að eignir og skuldbindingar sjóðsins (verðmæti lífeyrisloforða) standist sem best á, á hverjum tíma. Slíkt jafnvægi er að mestu leyti innbyggt í kerfið. Þetta breytir þó ekki því að kostnaður, bæði við eftirlaun, eftir að þau eru úrskurðuð, og við áfallatryggingar, er áætlaður út frá lýðfræðilegum forsendum, sem breytast yfir tíma. Ef breytingar verða á þessum forsendum verður þeim fyrst og fremst mætt með því að töflum í samþykktum sjóðsins er breytt til samræmis, þannig að þær endurspegli gildandi forsendur. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að útiloka að einhverjar skekkjur kunni að koma fram eða einhver þróun valdi því að eignir og skuldbindingar standist ekki fyllilega á. Slíkar skekkjur eiga að koma fram í tryggingafræðilegu uppgjöri og þessi liður heimilar að tekið sé á slíkum skekkjum þannig að ekki myndist munur á eignum og skuldbindingum til frambúðar. Hér er fyrst og fremst um varúðarákvæði að ræða þar sem eignatengd réttindaávinnsla ætti þó að lágmarka nauðsyn á slíkum inngripum.

    • Hvernig breytist réttindasjóðurinn í eftirlaun?

      Þegar sjóðfélagi hefur náð tilteknum aldri getur hann hafið töku eftirlauna. Hefðbundinn eftirlaunaaldur er 67 ára, en hægt er að hefja tökuna hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð eða fresta henni til allt að 80 ára aldurs, að vali sjóðfélagans. Eftirlaunin ráðast af stöðu réttindasjóðs og aldri sjóðfélagans þegar hann ákveður að hefja töku eftirlauna. Þá er réttindasjóði hans breytt í eftirlaun í samræmi við Töflu II í samþykktum sjóðsins. Eftir að taka eftirlauna er hafin, eru þau greidd til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar

    • Hvað er eignavísitala Stapa lífeyrissjóðs?

      Eignavísitala Stapa lífeyrissjóðs er sérstök vísitala sem reiknuð er út mánaðarlega og mælir breytingar á gangvirði eigna í eignasafni tryggingadeildar Stapa. Breytingar á gangvirði eigna eru venjulega kallaðar ávöxtun. Réttindasjóður er tengdur þessari vísitölu, sem þýðir að réttindi sjóðfélaga Stapa breytast í takt við breytingar á ávöxtun sjóðsins auk inngreiddra iðgjalda.

    • Hvar fæ ég upplýsingar um til hvaða lífeyrissjóða ég hef greitt?

      Með því að fá aðgang að sjóðfélagavef sjóðsins getur sjóðfélagi einnig fengið aðgang að lífeyrisgáttinni, þar sem hann fær upplýsingar um alla sjóði sem hann hefur greitt til og réttindi í hverjum og einum sjóði.

    • Erfist réttur minn til ævilangra eftirlauna?

      Eftirlaun eru greidd meðan sjóðfélaganum endist aldur. Þessi réttur erfist ekki. Hins vegar á maki sjóðfélaga rétt á makalífeyrisgreiðslum frá sjóðnum við fráfall sjóðfélagans. Eigi sjóðfélagi börn innan 18 ára aldurs við fráfallið er einnig greiddur barnalífeyrir vegna þeirra. 

    • Hvað verður um réttindasjóðinn minn við fráfall?

      Tryggingadeild Stapa lífeyrissjóðs, sem tekur við iðgjöldum vegna skyldutryggingar, er tryggingasjóður að öllu leyti. Þetta þýðir að sjóðurinn sem stendur á bak við lífeyrisréttindin er sameign sjóðfélaganna. Réttindasjóður sjóðfélagans er sú hlutdeild sem til er í hinum sameiginlega sjóði til að mæta lífeyrisútgjöldum sjóðfélagans og erfist ekki. Falli sjóðfélagi frá áður en hann hefur tækifæri til að nýta sér lífeyrisrétt sinn, rennur sá hluti réttindasjóðsins sem stóð á bak við réttindi hans til réttindasjóða annarra eftirlifandi sjóðfélaga. Þetta er hluti af samtryggingunni í sjóðnum. Með þessu fyrirkomulagi eru greiðslur eftirlauna hámarkaðar, í stað erfða. Ef réttindasjóður myndi erfast þyrfti að lækka eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum um 7-8%.

    • Er hægt að skipta réttindum milli mín og maka míns?

      Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna á milli sjóðfélagans og maka eins og tilgreint er í lögum og samþykktum sjóðsins. Þetta getur gerst með þrennum hætti.

      1. Að eftirlaunagreiðslur sem renna eiga til sjóðfélaga séu allt að hálfu látnar renna til maka. Falli sjóðfélagi frá fellur greiðsla eftirlauna niður, bæði til sjóðfélagans og maka. Falli maki frá renna allar eftirlaunagreiðslurnar eftir það til sjóðfélaga.
      2. Hægt er að skipta áunnum réttindum. Slíka skiptingu verður þó að ákveða fyrir 65 ára aldur sjóðfélaga og áður en eftirlaunagreiðslur hefjast. Einnig er það skilyrði að ekki sé vitað til að sjúkdómar eða heilsufar hafi dregið úr lífslíkum sjóðfélaga. Hjón þurfa því að óska eftir yfirlýsingu heimilislæknis um heilsufar áður en skipting af þessu tagi er samþykkt.
      3. Einnig er hægt að skipta framtíðarréttindum þannig að þau eftirlaunaréttindi sem iðgjald sjóðfélagans skapa skuli að hálfu renna til maka.

      Skiptingin tekur eingöngu til eftirlaunaréttinda og myndar ekki réttindi til áfallalífeyris hjá maka. Á sama hátt breytast réttindi sjóðfélagans til áfallalífeyris ekki við þessa skiptingu. Skipting réttindanna er því aðeins heimil að hún feli í sér gagnkvæma skiptingu á réttindum beggja aðila. Ekki er hægt að skipta aðeins réttindum annars aðilans. Hægt er að nálgast eyðublöð vegna skiptingar réttinda hér.

      Mikilvægt er að hjón geri sér grein fyrir því í hverju skipting af þessu tagi er fólgin, áður en hún er ákveðin, og hverjir eru helstu kostir hennar og gallar.

      Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og í samantekt Stapa um makasamninga.

    • Hvenær ætti ég að hefja töku eftirlauna?

      Það er mjög einstaklingsbundið hvenær best er að hefja töku eftirlauna og fer eftir aðstæðum hvers og eins sjóðfélaga. Þar þarf að líta til hluta eins og þess hvort viðkomandi er enn í vinnu, hvernig fjölskylduaðstæður eru, hvaða sparnað viðkomandi á, s.s. eins og viðbótarlífeyrissparnað, hvaða áhrif lífeyrissjóðstekjur hafa á tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins o.s.frv. Mikilvægt er að sjóðfélagar hugleiði þessa hluti vel nokkru áður en ákvörðun er tekin. Starfsfólk lífeyrissjóðsins er ávallt reiðubúið til að veita upplýsingar, en ákvörðun um að hefja töku eftirlauna er alltaf hjá sjóðfélaganum.

    • Hvernig breytast eftirlaunin mín eftir að ég hef hafið töku eftirlauna?

      Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og taka sömu breytingum og verður á þeirri vísitölu á milli mánaða.

      Ef þú hefur haldið áfram að greiða í sjóðinn eftir að þú byrjaðir á eftirlaunum þá eru eftirlaun þín hækkuð við 67/70 ára aldur vegna þess sem bæst hefur við í réttindasjóð þinn. Ef þú vilt að við endurskoðum eftirlaun þín fyrr, þá sendu okkur tölvupóst eða skilaðu inn annarri umsókn um eftirlaun.

    • Hvenær eru eftirlaun greidd?

      Eftirlaun eru greidd síðasta virka dag mánaðar vegna eftirlauna þess mánaðar.

    • Hver úrskurðar eftirlaunin til mín?

      Eftirlaunin eru úrskurðuð af starfsmönnum lífeyrisdeildar sjóðsins. Úrskurðirnir eru unnir í lífeyrisgreiðslukerfi sjóðsins, sem er sérhæfður hugbúnaður til að annast lífeyrisúrskurði. Lífeyrisnefnd og áhættustjóri sjóðsins gera úrtakskannanir á lífeyrisúrskurðum ásamt því að fjalla um vafamál sem upp geta komið.  Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að sjóðfélagar fari yfir úrskurði og fái skýringar, ef það er eitthvað sem þeir ekki skilja eða vilja fá nánari skýringar á.

    • Borga ég skatt af eftirlaunum?

      Já, greiddur er skattur af eftirlaunum með sama hætti og af launum. Ekki var greiddur skattur af iðgjöldunum þegar þau voru greidd til sjóðsins. Þetta þýðir í raun að skattgreiðslum var frestað við greiðslu iðgjaldsins til þess tíma er iðgjöldin koma til útgreiðslu í formi lífeyris. Í flestum tilfellum er slík skattfrestun hagstæð, þar sem lífeyristekjur eru yfirleitt lægri en launatekjur og því greitt lægra hlutfall af tekjunum í skatt. Mikilvægt er að skila inn skattkorti um leið og sótt er um eftirlaun til að nýta persónuafslátt og lágmarka skattgreiðslur, ef skattkort er ekki að fullu nýtt annars staðar.

    • Hafa eftirlaun mín áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun?

      Já, greiðslur frá lífeyrissjóðum – bæði eftirlaun og áfallalífeyrir – hafa áhrif á flestar tegundir bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Áhrifin eru misjöfn eftir tekjum og eru kölluð tekjutenging. Þau eru einnig misjöfn milli bótaflokka og frá ári til árs, samkvæmt ákvörðun stjórnvalda hverju sinni. Hver þessi áhrif eru má sjá með því að skoða frekar á vef Tryggingarstofnunar.

    • Get ég sótt um 50% eftirlaun hjá Stapa lífeyrissjóði?

      Já, sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku eftirlauna hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku á hálfum eftirlaunum hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð.

    • Ef ég hef hafið töku 50% eftirlauna, hvenær get ég breytt yfir í full eftirlaun?

      Þú getur hafið töku fullra eftirlauna hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð. Ef sjóðfélagi vill fresta töku eftirlauna að hluta eða öllu leyti, lengur en til 70 ára aldurs, þarf hann að sækja um það sérstaklega.

    • Ef ég hef þegar hafið töku fullra eftirlauna, get ég lækkað þau niður í 50% eftirlaun?

      Sjóðfélagi er eingöngu bundinn við val sitt um töku eftirlauna í minnst 12 mánuði í senn. 

    • Hversu há eru 50% eftirlaun frá Stapa?

      Þú getur nálgast upplýsingar um eftirlaunarétt þinn á sjóðfélagavef Stapa. Með innskráningu á vefinn getur þú í gegnum „Lífeyrisgátt“ nálgast heildarréttindi í skyldutryggingu lífeyrisréttinda hjá lífeyrissjóðum. Áætluð hálf eftirlaun eru helmingur áælaðra réttinda við tiltekinn aldur.

    • Hvaða reglur gilda um hálfan ellilífeyri hjá TR?

      Upplýsingar um 50% ellilífeyri hjá TR á móti 50% lífeyri frá lífeyrissjóðum og skilyrði fyrir því má finna á vef Tryggingastofnunar.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Makalífeyrir

    • Hvað er makalífeyrir?

      Ef sjóðfélagi, sem greitt hefur til tryggingadeildar sjóðsins, fellur frá og lætur eftir sig maka á makinn rétt á makalífeyri miðað við áunnin réttindi. Til að viðbótarréttur með framreikningi stofnist þarf hann að hafa uppfyllt a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða:

      • Að sjóðfélaginn hafi greitt til tryggingadeildar sjóðsins a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum
      • Að sjóðfélaginn hafi greitt til tryggingadeildar sjóðsins a.m.k. sex af síðustu 12 mánuðum.
    • Hvernig er makalífeyrir reiknaður?

      Makalífeyrisréttindi eru hverju sinni 50% af eftirlauna- eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélagans, hvort sem gefur hærri rétt við fráfall. Venjulega miðast makalífeyririnn við eftirlaunarétt þegar fráfall verður eftir að sjóðfélagi hefur náð eftirlaunaaldri, en við örorkulífeyrisrétt þegar sjóðfélaginn fellur frá áður en eftirlaunaaldri er náð. Sé makalífeyrir miðaður við örorkulífeyrisrétt hins látna sjóðfélaga eru réttindi til framreiknings talin með, enda séu slík réttindi fyrir hendi.

    • Getur makalífeyrir fallið niður?

      Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar, sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.

    • Hver er maki?

      Maki sjóðfélaga telst sá eða sú sem var í hjúskap með sjóðfélaga eða óvígðri sambúð sem jafna má til hjúskapar, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát. Með óvígðri sambúð er átt við óvígða sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru í samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. 

    • Hve lengi er makalífeyrir greiddur?

      Fullur makalífeyrir skal alltaf greiddur í 36 mánuði og hálfur makalífeyrir í 24 mánuði eftir það. Láti sjóðfélagi eftir sig barn, eitt eða fleiri, sem er innan 20 ára aldurs skal fullur makalífeyrir alltaf greiddur fram að 20 ára aldri yngsta barns. Sé eftirlifandi maki 50% öryrki eða meira og yngri en 65 ára við andlát sjóðfélaga, skal fullur makalífeyrir greiddur meðan sú örorka varir en þó ekki lengur en til 67 ára aldurs.

    • Hefur það áhrif á makalífeyrisrétt ef ég hef afsalað hluta af eftirlaunaréttindum mínum til maka?

      Nei, slík skipting hefur ekki áhrif á makalífeyrisrétt. Makalífeyrir miðast við öll áunnin eftirlaunaréttindi, þar með talin þau réttindi sem sjóðfélagi kann að hafa afsalað sér til maka í samræmi við reglur um skiptingu eftirlaunaréttinda. 

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Barnalífeyrir

    • Hvað er barnalífeyrir?

      Barnalífeyrir er af tvennum toga. Annars vegar eiga börn sjóðfélaga sem fellur frá og eru yngri en 18 ára rétt til barnalífeyris úr sjóðnum og hins vegar er greiddur barnalífeyrir með börnum sjóðfélaga sem nýtur örorkulífeyris frá sjóðnum. Um fjárhæðir barnalífeyris: sjá hér.

    • Hver eru skilyrðin fyrir greiðslu barnalífeyris?

      Skilyrðin eru að börnin séu yngri en 18 ára.

      Til að barnalífeyrir til barna látins sjóðfélaga sé greiddur þarf sjóðfélaginn að hafa verið greiðandi til sjóðsins í 24 mánuði af síðustu 36 eða sex mánuði af síðustu 12 fyrir andlátið eða notið eftirlauna eða örorkulífeyris frá sjóðnum. Auk þess þurfa iðgjaldagreiðslur til sjóðsins að hafa verið hærri en ákveðin lágmarksfjárhæð á mánuði.

      Til að barnalífeyrir sé greiddur með barni örorkulífeyrisþega þurfa iðgjaldagreiðslur hans til sjóðsins að hafa verið hærri en ákveðin lágmarksfjárhæð á mánuði og börnin þurfa að hafa verið fædd fyrir orkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir. Sjá nánar um þessi skilyrði í samþykktum sjóðsins.  

    • Hvaða börn eiga rétt á barnalífeyri?

      Barnalífeyrir greiðist vegna barna og kjörbarna sjóðfélaga sem eru yngri en 18 ára. Sama gildir um fósturbörn og stjúpbörn sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti fyrir andlát eða orkutap. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins til slíkra barna vera hinar sömu og vera myndu, ef um börn eða kjörbörn væri að ræða. 

    • Hversu hár er barnalífeyrir?

      Fjárhæðir barnalífeyris má sjá hér.

      Barnalífeyrir sem greiddur er með barni örorkulífeyrisþega er hlutfallslega lægri ef örorkan er metin lægri en 100% og fellur niður ef orkutap er undir 50%. Ef réttur er á barnalífeyri hjá fleiri en einum lífeyrissjóði þá skiptist hann hlutfallslega á milli sjóðanna.

      Sjá nánar í samþykktum sjóðsins. 

    • Hvenær fellur barnalífeyrir niður?

      Barnalífeyrisgreiðslur, vegna látins sjóðfélaga, falla niður í næsta mánuði eftir að barn nær 18 ára aldri. 

      Barnalífeyirsgreiðslur, sem greiddar eru vegna örorku sjóðfélaga, falla niður þegar barn verður 18 ára eða ekki er lengur réttur á örorkulífeyrisgreiðslum úr sjóðnum.

    • Hver fær greiddan barnalífeyri?

      Barnalífeyrir vegna látins sjóðfélaga greiðist til barnsins. Barnalífeyrir sem greiddur er með barni örorkulífeyrisþega greiðist til lífeyrisþegans.  

    • Hvaða lög og reglur gilda um lífeyrissjóði?

      Upplýsingar um lög og reglur sem gilda um lífeyrissjóði má finna hér.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Endurhæfingar- og örorkulífeyrir

    • Hvað er framreikningur réttinda?

      Þegar sjóðfélaga er úrskurðaður örorkulífeyrir geta réttindi hans verið af tvennum toga. Annars vegar áunnin réttindi, sem byggja á stöðu réttindasjóðs sjóðfélagans. Því til viðbótar kann sjóðfélaginn að eiga rétt á framreiknuðum rétti. Framreikningnum er ætlað að meta framtíðar tekjutap sjóðfélagans. Framreikningurinn byggir á því að sjóðfélaginn fær viðbótarréttindi, eins og hann hafi greitt iðgjöld til 65 ára aldurs. Reiknuð iðgjaldagreiðsla, til 65 ára aldurs, miðast við að hann hafi haft sömu tekjur og nemur viðmiðunartekjum hans allan þann tíma og greitt af þeim iðgjald. Þessum iðgjöldum er breytt í réttindi skv. töflu IV í samþykktum sjóðsins. Til að eiga rétt á þessu þarf sjóðfélaginn að hafa greitt ákveðið lágmarksiðgjald til sjóðsins í a.m.k. þrjú af síðustu fjórum árum og þar af sex af síðustu tólf mánuðum. Hann þarf að hafa orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum starfsorkutapsins og má ekki eiga sök á starfsorkutapinu sjálfur vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Ýmis atriði geta haft áhrif á útreikning framreiknings, eins og sjá má í gr. 19.6 í samþykktum sjóðsins.

    • Á ég rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri?

      Þú átt rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri frá sjóðnum ef þú uppfyllir eftirtalin skilyrði:

      • Þú hefur aflað þér réttinda með greiðslum til sjóðsins
      • Þú hefur orðið fyrir skerðingu á starfsgetu sem metin er 50% eða meira
      • Þú hefur orðið fyrir tekjumissi vegna hinnar skertu starfsorku
      • Skerðing á starfsorku hefur varað í a.m.k. sex mánuði
    • Hvaða upplýsingar þarf ég að veita sjóðnum vegna umsóknar um örorkulífeyri?

      Við umsókn um endurhæfingar- eða örorkulífeyri þarf sjóðfélagi að skila inn nákvæmum upplýsingum um heilsufar sitt. Auk umsóknar þarf að skila eftirtöldum gögnum:

      Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi skal umsókn hans vísað frá og telst hún þá úr gildi fallin.

      Umsóknarferlið getur tekið nokkurn tíma og ræðst mikið af því hversu hratt umbeðin gögn berast sjóðnum. Ekki er óalgengt að það taki 2-3 mánuði frá því umsókn berst sjóðnum, og öll umbeðin gögn hafa skilað sér, þar til greiðslur fara að berast. 

    • Hvað er endurmat á örorku?

      Upphaflegt mat á starfsgetu sjóðfélaga (örorkumat) þegar sótt er um endurhæfingar- eða örorkulífeyri er tímabundið. Þegar sá tími er liðinn skal starfsgeta sjóðfélaga metin að nýju, þar með talið hvaða árangur hefur orðið af starfsendurhæfingu, hafi sjóðfélagi notið endurhæfingarlífeyris. Við endurmat þarf að skila inn heilsufarsupplýsingum, s.s. læknisvottorðum, og sjóðfélagi kann að vera kallaður í sérstaka læknisskoðun vegna þessa. Skili sjóðfélagi ekki inn gögnum tímanlega vegna endurmats, eða mætir ekki í umbeðna læknisskoðun eru greiðslur til hans stöðvaðar þangað til bætt hefur verið úr. 

    • Hvernig er tekjutap metið?

      Tekjutap sjóðfélaga vegna orkutaps telst vera mismunur á heildartekjum sjóðfélagans eftir orkutapið annars vegar og viðmiðunartekjum hans hins vegar. Til að fá raunvirði viðmiðunartekna sjóðfélagans á hverjum tíma eru þær framreiknaðar með vísitölu neysluverðs. Þetta raunvirði viðmiðunartekna er svo borið saman við heildartekjur sjóðfélagans á því tímabili sem er til skoðunar. Tekjuskoðun af þessu tagi er framkvæmd ársfjórðungslega. 

    • Hvað eru áfallatryggingar?

      Áfallatryggingar eru tryggingar sem hafa það að markmið að tryggja afkomu sjóðfélaga ef hann eða fjölskylda hans verður fyrir áföllum, við missi á starfsorku eða fráfall. Áfallatryggingar skiptast í örorku-, maka- og barnalífeyri, en sameiginlega eru þessar lífeyristegundir kallaðar áfallalífeyrir. Hluti iðgjaldsins sem greitt er til sjóðsins fer til að standa straum af kostnaði við áfallatryggingar. Kostnaðurinn við þessar tryggingar er misjafn eftir aldri og fer skipting iðgjaldsins eftir töflu I í samþykktum sjóðsins.

    • Hvaða reglur gilda um endurhæfingar- og örorkulífeyri?

      Þær reglur sem gilda um endurhæfingar- og örorkulífeyri má finna í samþykktum sjóðsins. Þegar um er að ræða réttindi í fleiri en einum sjóði skiptir samkomulag um samskipti lífeyrissjóða einnig máli.

    • Hvað er endurhæfingarlífeyrir og hvað er örorkulífeyrir?

      Endurhæfingar- og örorkulífeyrir er í eðli sínu afkomutrygging fyrir sjóðfélaga, þegar hann missir tekjur vegna starfsorkutaps sem varir í sex mánuði eða lengur. Endurhæfingar- og örorkulífeyri er ætlað að tryggja tekjutap  og greiðist meðan örorka varir. Þegar lífeyrir af þessu tagi er úrskurðaður skal horfa til þess hvernig styðja megi sjóðfélagann til endurhæfingar, þannig að hann öðlist á ný færni til að sinna tekjuskapandi verkefnum í samræmi við starfsgetu sína og hæfni. Trúnaðarlæknir sjóðsins, eða eftir atvikum annar sérfróður þjónustuaðili sem sjóðurinn velur, skal leggja mat á það hvort líklegt sé að skipulögð starfsendurhæfing muni skila árangri þannig að sjóðfélaginn geti náð starfsorku á nýjan leik. Sé það talið líklegt er útbúin endurhæfingaráætlun fyrir sjóðfélagann og er lífeyrir hans þá nefndur endurhæfingarlífeyrir. Greiðslur á endurhæfingarlífeyri til sjóðfélaga kunna að vera háðar því að hann fylgi ráðlagðri endurhæfingu. Heimilt er að greiða sjóðfélaga, sem tekur þátt í endurhæfingu, allt að óbreyttum endurhæfingarlífeyri, þótt hann hafi tekjur af launaðri vinnu á meðan á endurhæfingunni stendur, enda sé atvinnuþátttakan hluti af endurhæfingarferlinu. Sé endurhæfing ekki talin líkleg til að skila árangri er sjóðfélaganum úrskurðaður örorkulífeyrir. Það á einnig við ef endurhæfing hefur ekki skilað árangri og ekki er talið að frekari endurhæfing muni stuðla að aukinni starfsgetu. Þá er endurhæfingarlífeyri breytt í örorkulífeyri. Endurhæfingarlífeyrir er þannig örorkulífeyrir þeirra sem taka þátt í endurhæfingu og flest atriði þar sem eingöngu er vísað til örorkulífeyris eiga jafnt við um þá sem eru á endurhæfingarlífeyri. Fjárhæð endurhæfingar- og örorkulífeyris er sú sama.

       
    • Hver er réttur minn til endurhæfingar- og örorkulífeyris?

      Réttur þinn til endurhæfingar- og örorkulífeyris tekur mið af nokkrum þáttum, s.s. stöðu réttindasjóðs þíns, hvort þú ert greiðandi til sjóðsins, hve mikil skerðing er á starfsorku, hvert tekjutap þitt er og hvort þú átt rétt á framreikningi eða ekki.

    • Hvað ákvarðar hvort ég fæ endurhæfingar- eða örorkulífeyri?

      Það fer eftir því hvort aðstæður þínar eru þannig að líklegt sé að endurhæfing skili árangri eða ekki, en í samþykktum sjóðsins segir: „Við mat á umsókn um örorkulífeyri skal horft til þess hvernig styðja megi sjóðfélagann til endurhæfingar, þannig að hann öðlist á ný færni til að sinna tekjuskapandi verkefnum í samræmi við starfsgetu sína og hæfni. Skal trúnaðarlæknir sjóðsins, eða eftir atvikum annar sérfróður þjónustuaðili sem sjóðurinn velur, leggja mat á það hvort líklegt sé að skipulögð starfsendurhæfing muni skila árangri og hvort sjóðfélaginn geti náð starfsorku á ný með réttri endurhæfingu og þá að hve miklu leyti í hundraðshlutum talið. Skal þá gera áætlun um endurhæfinguna og umfang hennar. Skal sjóðurinn þá úrskurða umsækjanda endurhæfingarlífeyri, jafnháan örorkulífeyrisem hann á rétt á.“ Það kann að vera skilyrði fyrir því að fá greiddan endurhæfingarlífeyri að sjóðfélagi fari í ráðlagða endurhæfingu, enda standi honum slík endurhæfing til boða og aðstæður hans leyfi að hann nýti sér hana. Telji sjóðurinn að fengnu áliti trúnaðarlæknis að þess sé ekki að vænta að orkutap sjóðfélaga gangi svo til baka að hann fái öðlast starfsgetu á ný, að hluta eða öllu leyti, skal úrskurða honum örorkulífeyri. Örorkulífeyrir verður þá aðeins úrskurðaður að endurhæfing sé ekki líkleg til að skila aukinni starfsgetu að mati trúnaðarlæknis sjóðsins. Fjárhæð endurhæfingarlífeyris og örorkulífeyris er sú sama. Nánari upplýsingar um reglur og skilyrði vegna endurhæfingar- og örorkulífeyris má finna í samþykktum sjóðsins.

    • Hvað er starfsendurhæfing?

      Starfsendurhæfing hefur verið skilgreind þannig: „Starfsendurhæfing er ferli sem felur í sér stuðning við einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa í þeim tilgangi að auka starfshæfni eða viðhalda henni og stuðla að endurkomu til vinnu. Í starfsendurhæfingu er unnið með styrkleika einstaklingsins samhliða því að lögð er áhersla á að draga úr áhrifum hindrana sem skerða starfsgetu.“ Starfsendurhæfing er þannig allt sem hjálpar einstaklingi með heilsubrest að vera í vinnu, komast aftur til vinnu og haldast í vinnu. Ýmsir sérhæfðir aðilar eru til sem starfa við endurhæfingu eða leiðbeina um endurhæfingarúrræði, s.s. Virkstarfsendurhæfingarsjóður og svæðisbundnar starfsendurhæfingar, eins og Starfsendurhæfing Norðurlands og Starfsendurhæfing Austurlands. 

    • Hvað er starfsendurhæfingarsjóður?

      Starfsendurhæfingarsjóður er sjóður sem sinnir atvinnutengdri starfsendurhæfingu í samræmi við lög um það efni. Slíkir sjóðir eru reknir með framlögum frá atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkinu. Aðeins einn sjóður sem byggir á lögunum er nú starfræktur, þ.e. VIRK, starfsendurhæfingarsjóður. 

    • Hvað gerist ef ég sinni ekki starfsendurhæfingu?

      Synji sjóðfélagi þátttöku í endurhæfingu, sinni henni ekki með fullnægjandi hætti þannig að hún sé í samræmi við endurhæfingaráætlun eða leggi ekki fram tilskilin vottorð er sjóðnum heimilt að skerða eða fella niður lífeyrisgreiðslur til sjóðfélagans framvegis þannig að þær reiknist út frá þeirri forsendu að sjóðfélaginn hefði náð öllum þeim bata sem endurhæfingaráætlunin gerði frekast ráð fyrir.

    • Hvernig er starfsgeta metin?

      Starfsgeta er metin af sérhæfðum tryggingalækni, sem er trúnaðarlæknir sjóðsins. Byggt er á upplýsingum um heilsufarssögu umsækjanda og skal taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á heilsufari sjóðfélaga eftir að hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins. Trúnaðarlæknir leggur mat á það hvort fyrirliggjandi upplýsingar um heilsufar eru nægjanlegar til að byggja matið á eða hvort nauðsynlegt sé að umsækjandi gangist undir sérstaka læknisskoðun til að afla frekari upplýsinga. Skerðing á starfsorku er metin í prósentum. Matið er byggt á læknisfræðilegum forsendum og kallast örorkumat. Skerðing á starfsorku - þ.e. orkutap - þarf að vera a.m.k. 50% til að réttur til lífeyris stofnist. Orkutap er síðan endurmetið reglulega. Skert starfsorka sem til er komin áður en sjóðfélaginn hóf greiðslur til sjóðsins myndar ekki réttindi til endurhæfingar- eða örorkulífeyris frá sjóðnum jafnvel þótt sjóðfélagi hafi ekki notið bóta vegna hennar. 

    • Hvað er örorkuhlutfall?

      Örorkuhlutfall eða örorkuprósenta er það mat á orkutapi sem kemur út úr örorkumati. Hlutfallinu er ætlað að lýsa þeirri skerðingu sem orðið hefur á starfsgetu sjóðfélagans. 

    • Hvað er örorkumat og hvaða forsendur liggja að baki matinu?

      Örorkumat er mat á þeirri skerðingu á starfsgetu sem sjóðfélagi hefur orðið fyrir, vegna áfalls af völdum sjúkdóms eða slyss. Matið er framkvæmt af trúnaðarlækni sjóðsins sem er sérhæfður tryggingalæknir. Matið er miðað við læknisfræðilegar forsendur og skal fylgja reglum sem settar hafa verið um örorkumat. Í matinu skal sérstaklega litið til þess hver starfshæfni og vinnugeta umsækjandans er. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið er örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélagans til að gegna því starfi sem tengdist aðild hans að sjóðnum, en metin örorka (þ.e. örorkuhlutfall) til almennra starfa þarf þó alltaf að vera 50% eða meiri. Eftir fyrstu þrjú árin er matið alfarið miðað við vanhæfni til almennra starfa. Skert starfsorka sem til er komin áður en sjóðfélaginn hóf greiðslur til sjóðsins myndar ekki réttindi til endurhæfingar- eða örorkulífeyris frá sjóðnum, jafnvel þótt sjóðfélagi hafi ekki notið bóta vegna hennar. 

    • Er örorkumat endanlegt eða er það endurmetið síðar?

      Í flestum tilvikum er mat á orkutapi (þ.e. örorkumat) tímabundið, sem getur verið frá sex mánuðum upp í ár, þegar um fyrsta mat er að ræða. Í undantekningartilvikum er tíminn lengri, t.d. til tveggja ára. Þegar tími mats er liðinn þarf að fara fram endurmat á örorku lífeyrisþegans. Lífeyrisþeganum er tilkynnt um að hann þurfi að fara í endurmat með þriggja mánaða fyrirvara. Mikilvægt er að fylgjast með þessum tilkynningum, því lífeyrisgreiðslur eru stöðvaðar, hafi lífeyrisþegi ekki sinnt því að fara í mat fyrir tilgreind tímamörk.    

    • Frá hvaða tíma greiðist örorkulífeyrir?

      Endurhæfingar- eða örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap og ekki er greiddur slíkur lífeyrir ef orkutap varir skemur en sex mánuði. Algengt er að það taki tvo til þrjá mánuði að fá úrskurð eftir að umsókn og öll tilheyrandi gögn hafa borist sjóðnum. Greiðslur hefjast þegar úrskurður liggur fyrir og er þá greitt frá dagsetningu sem er þremur mánuðum eftir orkutap svo framarleg að skilyrði um tekjutap eru uppfyllt.

    • Hvaða áhrif hafa aðrar tekjur á örorkulífeyri minn?

      Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skal aldrei vera hærri en nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn varð fyrir vegna orkutapsins. Almennt hafa aðrar tekjur því áhrif á hversu háan endurhæfingar- eða örorkulífeyri viðkomandi lífeyrisþegi fær greiddan. Þannig hafa launatekjur, bætur frá Tryggingastofnun (aðrar en bætur sem ætlað er að mæta kostnaði), tryggingabætur sem koma úr starfstryggingu launagreiðanda, tekjur í fæðingarorlofi o.s.frv. áhrif á örorkulífeyri. Þó eru ýmsar tekjur undanþegnar og hafa ekki áhrif á örorkulífeyri frá sjóðnum, s.s. tekjur frá öðrum lífeyrissjóðum, tryggingabætur úr eigin tryggingu, húsaleigubætur, félagslegir styrkir, fæðingarstyrkir og greiðslur frá björgunarsveitum. Til að meta tekjutap sjóðfélaga eru reiknaðar út viðmiðunartekjur sjóðfélagans fyrir orkutap. Þessar viðmiðunartekjur eru framreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs og eru bornar saman við þær tekjur sem sjóðfélaginn hefur. Séu tekjur sjóðfélaga lægri en viðmiðunartekjur þá hefur hann orðið fyrir tekjutapi. Örorkulífeyrir sjóðfélaga getur orðið allt að þessu tekjutapi, enda eigi hann réttindi til lífeyris sem duga til þess. Ársfjórðungslega fer fram tekjuskoðun, þar sem tekjur lífeyrisþegans eru bornar saman við framreiknaðar viðmiðunartekjur hans. Slík tekjuskoðun getur leitt til lækkunar eða niðurfellingar lífeyris eða til hækkunar lífeyris, eftir því hvernig tekjur lífeyrisþega hafa breyst. Heimilt er að undanþiggja launatekjur lífeyrisþega sem nýtur endurhæfingarlífeyris frá tekjuskoðun, enda séu þær launatekjur liður í endurhæfingu lífeyrisþegans. 

    • Hvað eru viðmiðunartekjur örorkulífeyrisþega?

      Örorkulífeyri er ætlað að bæta upp tekjutap af völdum orkutapsins. Örorkulífeyrir að viðbættum barnalífeyri skal því aldrei vera hærri en nemur tekjutapi sjóðfélagans. Til að meta þetta tap eru reiknaðar út viðmiðunartekjur sjóðfélagans. Viðmiðunartekjurnar byggja á meðaltali tekna sjóðfélagans síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið. Ef þetta fjögurra ára meðaltal er sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla er heimilt að leggja til meðaltal tekna lengra aftur í tímann eða allt að átta árum. Tekjutap sjóðfélagans eru metið í sérstakri tekjuskoðun sem fer fram ársfjórðungslega, þar sem viðmiðunartekjur og heildartekjur lífeyrisþegans eru bornar saman. 

    • Hvað er tekjuskoðun?

      Þeim sem njóta endurhæfingar- eða örorkulífeyris er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar, þar með talið upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Ársfjórðungslega fer fram tekjuskoðun á vegum sjóðsins, en þar eru heildartekjur sjóðfélagans bornar saman við viðmiðunartekjur hans. Þar sem endurhæfingar- og örorkulífeyri er aðeins ætlað að bæta tekjutap sjóðfélagans kunna breytingar á tekjum, sem fram koma í tekjuskoðun að hafa áhrif á greiddan lífeyri, til hækkunar eða lækkunar eða geta jafnvel leitt til þess að lífeyrir fellur alveg niður. Lækki lífeyrir vegna tekjuskoðunar er lífeyrisþeganum send tilkynning þess efnis, sem sýnir á hverju lækkunin er byggð. 

    • Ef ég vinn á meðan örorka varir og borga í lífeyrissjóð, hvað verður um þau viðbótarréttindi sem ég ávinn mér – hækkar örorkulífeyririnn minn þá?

      Nei, ef þú ert að einhverju leyti að vinna á meðan örorka varir heldur þú áfram að bæta í iðgjaldasjóðinn og þar með að auka eftirlaunaréttindi. Slík iðgjöld myndu hins vegar ekki breyta réttindum gagnvart örorku sem búið er að úrskurða. 

    • Getur svört vinna haft áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur?

      Lífeyrisþegi sem vinnur svarta vinnu er að taka áhættu af ýmsu tagi, þar með talið gagnvart lífeyristekjum sínum. Veiti sjóðfélagi rangar upplýsingar um tekjur sínar, þ.m.t. vegna tekna sem ekki hafa verið gefnar upp til skatts, er heimilt að skerða eða fella niður lífeyri til viðkomandi sjóðfélaga. 

    • Hvert sný ég mér ef ég sæki um örorkulífeyrir og hef greitt í fleiri en einn lífeyrissjóð?

      Nægjanlegt er að sækja um til þess sjóðs sem þú greiddir til síðast. Sá sjóður mun senda afrit af umsókn til annarra sjóða þar sem þú átt réttindi. Samt sem áður er rétt að fylgjast með því hvort úrskurðað er frá öllum sjóðum. Það getur þú gert með því að fara inn á lífeyrisgáttina og sjá hvar þú átt réttindi og skoða hvort þú hafir ekki fengið úrskurð frá öllum. Í vissum tilfellum geta lítil réttindi flust milli sjóða. Hvað varðar ákvæði um greiðslutíma og þess háttar þá er litið sameiginlega á greiðslur til lífeyrissjóða við úrskurð, eins og nánar er rakið í samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða.

    • Hvernig er fjárhæð endurhæfingar- og örorkulífeyris ákveðin?

      Fjárhæðin ræðst af stöðu réttindasjóðs sjóðfélaga við orkutap, hvort hann á rétt á framreikningi, hvert örorkuhlutfallið er og af öðrum tekjum sjóðfélagans. Við lífeyrisúrskurð er réttindasjóði sjóðfélaga breytt í örorkulífeyri í samræmi við Töflu III í samþykktum sjóðsins. Eigi sjóðfélagi rétt á framreiknuðum réttindum bætast þau við þau réttindi sem réttindasjóðurinn gefur. Þá þarf að taka tillit til hversu mikið orkutapið er metið í prósentum talið. Ef orkutap er til að mynda metið 50% á sjóðfélaginn rétt á 50% af reiknuðum lífeyrisréttindum (bæði þeim hluta sem reiknaður er út frá réttindasjóði og þeim sem kemur úr framreikningi, séu slík réttindi til staðar). Loks þarf að skoða hvaða aðrar tekjur sjóðfélagi hefur. Skilyrði fyrir því að fá greiddan endurhæfingar- og örorkulífeyri er að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjutapi vegna örorkunnar. Samanlagður örorku- og barnalífeyrir getur aldrei orðið hærri en nam tekjutapi sjóðfélagans. Tekjutapið er metið með því að bera saman heildartekjur sjóðfélagans eftir orkutap og viðmiðunartekjur hans fyrir orkutapið.

    • Er hámark á greiðslum örorkulífeyris?

      Já – samkvæmt samþykktum sjóðsins getur samanlagður örorku- og barnalífeyrir sem sjóðfélagi fær greiddan aldrei numið hærri fjárhæð en því tekjutapi sem sjóðfélaginn hefur orðið fyrir vegna orkutapsins. Ekki er hámark á þeim réttindum sem sjóðfélagar geta áunnið sér til örorkulífeyris. Þau ráðast alfarið af þeim iðgjöldum sem greidd eru til sjóðsins og þeirri ávöxtun sem sjóðurinn nær. Hins vegar er örorkulífeyrir í eðli sínu afkomutrygging fyrir sjóðfélaga þegar hann missir tekjur vegna orkutaps sem varir lengur en sex mánuði. Örorkulífeyri er ætlað að tryggja tekjutap og greiðist á meðan örorka varir, sem getur verið allt fram að eftirlaunaaldri. Örorkulífeyririnn ræðst því annars vegar af þeim réttindum sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér og hins vegar af því tekjutapi sem hann hefur orðið fyrir. 

    • Af hverju hefur örorkulífeyrir minn lækkað?

      Ef örorkulífeyrisgreiðslur þínar hafa lækkað er líklegast að það sé í kjölfarið á tekjuskoðun, sem hefur leitt í ljós að aðrar tekjur þínar hafa hækkað og hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur þínar. Samanlagðar örorku- og barnalífeyrisgreiðslur eiga ekki að vera hærri en nemur því tekjutapi sem sjóðfélaginn varð fyrir vegna orkutapsins. Einnig getur örorkuprósenta hafa breyst, t.d. lækkað úr 100% í 75%. Þú átt að hafa fengið sendar skýringar á þessari breytingu. Vinsamlega hafðu samband við starfsfólk sjóðsins ef þig vantar upplýsingar eða frekari skýringar. 

    • Af hverju hefur örorkulífeyrir minn hækkað?

      Ef örorkulífeyrisgreiðslur þínar hafa hækkað er líklegast að það sé í kjölfarið á tekjuskoðun, sem hefur leitt í ljós að aðrar tekjur þínar hafa lækkað og hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur þínar. Samanlagðar örorku- og barnalífeyrisgreiðslur eiga ekki að vera hærri en nemur því tekjutapi sem sjóðfélaginn varð fyrir vegna orkutapsins. Hafir þú áður haft tekjur sem lækkuðu lífeyri þinn, en á þessu hefur orðið breyting, kann það að vera skýringin. Þá getur breyting á örorkuprósentu einnig valdið þessu, t.d. að hún hafi hækkað úr 75% í 100%. Vinsamlega hafðu samband við starfsfólk sjóðsins ef þig vantar upplýsingar eða frekari skýringar. 

    • Af hverju hefur örorkulífeyrir minn fallið niður?

      Ef örorkulífeyrisgreiðslur til þín hafa fallið niður geta verið á því nokkrar skýringar:

      • Líklegast er að það sé vegna þess að tekjuskoðun hafi leitt í ljós að aðrar tekjur þínar hafa hækkað, þannig að heildartekjur þínar fyrir utan tekjur frá lífeyrissjóðnum séu nú orðnar hærri en viðmiðunartekjur þínar fyrir orkutap.
      • Örorkulífeyrisgreiðslur geta einnig hafa stöðvast þar sem ekki hefur verið skilað inn gögnum vegna endurmats. Örorkumat er tímabundið og endurmat fer fram reglulega. Sinni lífeyrisþegi ekki óskum um nýjar heilsufarsupplýsingar eða mæti ekki í læknisskoðun ef eftir því hefur verið leitað, eru greiðslur stöðvaðar þar til bætt hefur verið úr.
      • Einnig kunna örorkulífeyrisgreiðslur að hafa fallið niður vegna breytingar á örorkuhlutfalli. Fari örorkuhlutfall niður fyrir 50% fellur réttur til örorkulífeyris niður. 

      Hver svo sem ástæðan er fyrir því að örorkulífeyrisgreiðslur til þín hafa fallið niður ættir þú að hafa fengið tilkynningu um það. Vinsamlega hafðu samband við starfsfólk sjóðsins ef þig vantar upplýsingar eða frekari skýringar. 

    • Hvenær klárast örorkulífeyrisgreiðslurnar til mín?

      Örorkulífeyrir er í eðli sínu afkomutrygging fyrir sjóðfélaga, þegar hann missir tekjur vegna orkutaps sem varir í sex mánuði eða lengur. Örorkulífeyri er ætlað að tryggja tekjutap og greiðist meðan örorka varir og tekjutap er til staðar. Örorkulífeyrisgreiðslur geta hins vegar fallið niður, svo sem ef aðrar tekjur sjóðfélaga eru það háar að ekki er lengur um tekjutap að ræða. Þetta er metið reglulega með tekjuskoðunum. Þá geta örorkulífeyrisgreiðslur fallið niður nái sjóðfélaginn starfsorku á nýjan leik þannig að örorkuhlutfall fari niður fyrir 50%. Einnig eru örorkulífeyrisgreiðslur stöðvaðar, sinni lífeyrisþegi ekki óskum um nýjar heilsufarsupplýsingar við endurmat. Þá falla örorkulífeyrisgreiðslur niður þegar sjóðfélagi nær 67 ára aldri og færist yfir á eftirlaun. 

    • Hvað gerist þegar örorkulífeyrisþegi nær eftirlaunaaldri?

      Þegar örorkulífeyrisþegi nær 67 ára aldri falla örorkulífeyrisgreiðslur til hans niður, en hann fær þess í stað greidd eftirlaun. Ekki þarf að sækja sérstaklega um þessa breytingu. Það á einnig við vegna örorkulífeyrisþega, sem greiðslur hafa verið stöðvaðar til vegna of hárra tekna eftir tekjuskoðun. 

    • Hvernig eru eftirlaun örorkulífeyrisþega ákveðin?

      Þegar örorkulífeyrisþegi nær 67 ára aldri falla örorkulífeyrisgreiðslur til hans niður, en þess í stað fær hann greidd eftirlaun. Eftirlaun til örorkulífeyrisþega eru ákvörðuð með sama hætti og eftirlaun til annarra sjóðfélaga, þ.e. að réttindasjóði lífeyrisþegans er breytt í eftirlaun í samræmi við töflu II í samþykktum sjóðsins. Eftirlaunin byggja því á fjárhæð réttindasjóðsins og geta verið hærri eða lægri en sá örorkulífeyrir sem sjóðfélaginn naut, enda hafa bæði iðgjöld og ávöxtun sjóðsins áhrif á réttindasjóðinn. 

    • Hvernig breytist réttindasjóður öryrkja á meðan hann er á örorkulífeyri?

      Réttindasjóður sjóðfélaga sem er á örorkulífeyri er tengdur eignavísitölu sjóðsins og ávaxtast þannig í samræmi við ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma, líkt og hjá öðrum sjóðfélögum.

      Ef örorkulífeyrisþeginn er með framreikning í úrskurði sínum, þá bætist við réttindasjóð hans framreikningsiðgjald, samhliða greiðslum örorkulífeyris, líkt og hans sé virkur greiðandi í sjóðinn.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Séreign

    • Getur launagreiðandi neitað launamanni að greiða í viðbótarlífeyrissparnað?

      Nei, samkvæmt ákvæðum kjarasamninga er launagreiðandi skyldugur að greiða 2% mótframlag með framlagi starfsmanns, enda leggi starfsmaðurinn fram a.m.k. 2% iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað. Ákvæði kjarasamninga eru lágmarkskjör samkvæmt lögum (55/1980) og því ekki undanþæg. 

    • Hvar get ég séð hvað ég á inni í séreign?

      Þú getur fylgst með séreigninni þinni með því að fá aðgang að sjóðfélagavef Stapa. Einnig getur þú haft samband við sjóðinn og fengið sent yfirlit.

    • Hvenær má ég taka út séreignarsparnaðinn?

      Viðbótarlífeyrissparnað má taka út við 60 ára aldur, þó ekki fyrr en tvö ár eru liðin frá því fyrsta greiðsla barst sjóðnum. Hægt er að taka hann út í einu lagi eða dreifa honum á lengri tíma með mánaðarlegum greiðslum, allt eftir vali eigandans. Hvað borgar sig fer allt eftir aðstæðum hvers og eins, s.s. með tilliti til skattgreiðslna. Einnig má taka út séreignarsparnað þegar eigandi verður fyrir orkutapi, en þá með jöfnum greiðslum á sjö árum. Sjá nánar ákvæði laga (11. gr.). Ef inneign er lægri en tiltekin upphæð má þó greiða hana út í einni greiðslu, sjá nánar ákvæði reglugerðar.

      • Get ég tekið út séreignina mína ef ég verð öryrki?

        Rétthafi sem verður fyrir orkutapi sem metið er 100% á einnig rétt á að fá inneign sína greidda út með jöfnum greiðslum, á eigi skemmri tíma en sjö árum eða þeim tíma sem vantar upp á 60 ára aldur. Sjá nánar ákvæði laga.

      • Greiði ég skatta af úttekt séreignarsparnaðar?

        Já, sömu reglur gilda um skattgreiðslur af útborgun séreignarsparnaðar og af launagreiðslum.

      • Hefur útborgun viðbótarlífeyrissparnaðar áhrif á tekjur frá Tryggingastofnun?

        Greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði hafa ekki áhrif á grunnlífeyri eða tekjutryggingu frá Tryggingastofnun. Þær geta hins vegar haft áhrif á aðrar bætur frá stofnuninni – sjá nánar á vef Tryggingastofnunar.

    • Hvaða sparnaðarleiðir á ég að velja fyrir viðbótarlífeyrissparnað?

      Hvaða sparnaðarleiðir á að velja í viðbótarlífeyrissparnaði er mjög persónubundið og fer eftir því hversu mikla áhættu viðkomandi einstaklingur er tilbúinn að taka. Í því efni skiptir aldur viðkomandi líka miklu máli. Almenna reglan er sú að áhættusamari leiðir gefa hærri ávöxtun til lengri tíma litið. Vert er þó að hafa í huga að þetta stenst ekki alltaf og oft getur liðið langur tími frá fjárfestingu þar til áhættutakan er verðlaunuð, með verðhækkunum á undirliggjandi eignum. Því er mikilvægt að kynna sér þær leiðir sem eru í boði og velja þá leið sem þú ert sátt/sáttur við. Með áhættu er fyrst og fremst verið að vísa til þess hve mikið fjárfestingarnar sveiflast í verði, bæði hækka og lækka. Hlutabréf sveiflast þannig mun meira í verði en skuldabréf. Yfirleitt er talið að hlutabréf gefi betri ávöxtun til lengri tíma en skuldabréf. Þó geta komið löng tímabil, svo sem eins og áratugur, þar sem þetta á ekki við. Meðal annars þess vegna skiptir aldur þess sem sparar miklu máli. Því eldri sem viðkomandi er, þeim mun minni áhættu ætti hún/hann að taka. Með því móti eru minni líkur á að miklar lækkanir á eignaverði, sem gætu átt sér stað rétt áður en viðkomandi fer að taka út sparnaðinn, hafi áhrif tekjurnar á eftirlaunaaldrinum. Jafnvel þótt slíkar lækkanir kunni að vera tímabundnar þá geta þær varað nógu lengi til að hafa umtalsverð áhrif á hag eftirlaunamannsins.

      Um sparnaðarleiðir sem Stapi býður upp á má finna upplýsingar hér. 

    • Hvernig ber ég mig að ef ég vil hefja viðbótarlífeyrissparnað hjá Stapa?

      Það er einfalt að hefja viðbótarlífeyrissparnað. Þú getur skilað inn umsókn  rafrænt eða prentað út og sent undirritaða til sjóðsins. Sjóðurinn undirritar síðan fyrir sitt leyti og sendir þér eintak. Annað eintak af samningnum er sent til launagreiðandans, ásamt bréfi frá sjóðnum. Mikilvægt er að sjóðfélagi fylgist með að launagreiðandi hefji frádrátt vegna séreignar samkvæmt launaseðli og að iðgjöldin ásamt mótframlagi skili sér til sjóðsins. Hægt er að skoða greidd iðgjöld á sjóðfélagayfirliti eða á vef sjóðfélaga. Hafið samband við sjóðinn ef einhver misbrestur verður á því að launagreiðandi hefji greiðslur.

       

       

       

    • Hvað er viðbótarlífeyrissparnaður?

      Viðbótarlífeyrissparnaður er valfrjáls sparnaður, sem ætlað er að auka lífeyrisréttindi þátttakenda. Með þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði getur viðkomandi tryggt sér meiri sveigjanleika við starfslok eða haft rýmri fjárráð fyrst eftir að lífeyrisaldri er náð. Um viðbótarlífeyrissparnað gilda sérstök ákvæði í lögum. Viðbótarlífeyrissparnaður nýtur sérstakrar verndar og er sérlega hagstætt sparnaðarform til að auka lífeyrisréttindi. Þátttakendur í viðbótarlífeyrissparnaði eru kallaðir rétthafar. Um hagkvæmni viðbótarlífeyrissparnaðar má fræðast hér.

    • Ef ég er að greiða í lífeyrissjóð, þarf ég þá nokkuð að borga í viðbótarlífeyrissparnað?

      Viðbótarlífeyrissparnaður er val og því er svarið við þessari spurningu háð því að hvað spyrjandinn vill. Greiðslum úr skyldutryggingu lífeyrissjóða og frá almannatryggingum er ekki ætlað að tryggja að einstaklingar haldi óbreyttum tekjum eftir að þeir fara á eftirlaun. Venjulega er talað um að markmiðið með greiðslum frá þessum aðilum sé um 70% af meðalárstekjum viðkomandi á starfsævinni. Þar er þó ekki á vísan að róa, enda ræðst þetta m.a. af ákvörðun stjórnvalda um lífeyri frá almannatryggingum hverju sinni og ávöxtun lífeyrissjóða yfir starfsævina. Þá geta árstekjur verið mjög sveiflukenndar, þannig að meðalárstekjur yfir starfsævina geta verið allt aðrar en tekjur viðkomandi rétt fyrir starfslok, svo að mörgu er að hyggja. Viðbótarlífeyrissparnaður getur því verið þörf búbót þegar kemur að eftirlaunaárunum. Bæði er hægt að nýta hann til að skapa meiri sveigjanleika við starfslok eða til að hafa rýmri fjárráð fyrst eftir að eftirlaunaaldri er náð.

    • Hverjir mega bjóða upp á viðbótarlífeyrissparnað?

      Sérstakt starfsleyfi frá fjármálaráðherra þarf til að mega bjóða upp á viðbótarlífeyrissparnað. Lífeyrissjóðir hafa slíkt starfsleyfi, auk þess geta líftryggingafélög, bankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki sótt um slíkt leyfi

    • Er allur viðbótarlífeyrissparnaður séreignarsparnaður?

      Flestir aðilar sem bjóða upp á viðbótarlífeyrissparnað gera það í formi séreignarsparnaðar. Ekkert í ákvæðum laga segir þó að viðbótarlífeyrissparnaður þurfi að vera í séreign. Séreignarsparnaðarformið er samt sem áður svo algengt að oft er talað um séreign og viðbótarlífeyrissparnað sem einn og sama hlutinn. Hefðbundinn sparnaður er þó einnig séreignarsparnaður þótt hann sé ekki viðbótarlífeyrissparnaður.

    • Hvað þýðir séreignarsparnaður?

      Séreignarsparnaður, eins og nafnið bendir til, er sparnaður sem er séreign viðkomandi einstaklings og geymdur á einkareikningi hans. Þetta er ólíkt því sem er yfirleitt í skyldutryggingu hjá lífeyrissjóðum, þar sem sjóðfélagarnir spara saman og sjóðurinn er sameign þeirra. Séreignarsparnaður erfist í samræmi við reglur erfðalaga. Þegar talað er um séreignarsparnað er oft átt við viðbótarlífeyrissparnað, en um hann gilda sérstök ákvæði í lögum. 

    • Erfist séreignarsparnaður?

      Já, hann er séreign rétthafans og erfist við fráfall. Séreignarsparnaðurinn er þá greiddur út til lögerfingja í samræmi við ákvæði erfðalaga. 

    • Hverjir eru helstu kostir viðbótarlífeyrissparnaðar?

      Viðbótarlífeyrissparnaður er mjög hagstætt sparnaðarform. Hagkvæmnin felst í atriðum eins og skattahagræði, mótframlagi, áhrifum á aðra bótaflokka og því að viðbótarlífeyrissparnaður er ekki aðfararhæfur.

      Ekki er greiddur skattur af því iðgjaldi sem lagt er í viðbótarlífeyrissparnað (allt að 4% af launum) og ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af fjármagnstekjum heldur. Þetta er í raun skattfrestun, þar sem greiddur er tekjuskattur af viðbótarlífeyrissparnaði þegar hann kemur til útborgunar. Greiði launamaður a.m.k. 2% iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað er launagreiðandi skuldbundinn til að greiða 2% mótframlag, sem segja má að jafngildi 2% launahækkun.

      Eftirfarandi töflur sýna yfirburði þessa sparnaðar mjög greinilega.

       

      Útgreiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði hafa, ólíkt öðrum fjármagnstekjum, ekki áhrif á vaxta- eða barnabætur og ekki á grunnlífeyri og tekjutryggingu frá Tryggingastofnun. Þá er viðbótarlífeyrissparnaður ekki aðfararhæfur, sem þýðir að hann er varinn gegn skuldheimtumönnum lendi viðkomandi í fjárhagserfiðleikum. Ekki er hægt að ganga að viðbótarlífeyrissparnaði einstaklings þótt hann geti ekki greitt skuldir sínar. 

    • Hver er munurinn á viðbótarlífeyrissparnaði og hefðbundnum sparnaði?

      Munurinn felst í binditíma, skattalegri meðferð, mótframlagi og því að viðbótarlífeyrissparnaður er ekki aðfararhæfur. Viðbótarlífeyrissparnaður er bundinn fram að 60 ára aldri og er þá laus til útborgunar í einu lagi eða á lengri tíma eftir vali eiganda. Binditími hefðbundins sparnaðar getur verið mjög mismunandi og í sumum tilfellum enginn. Um hagkvæmni þessa sparnaðarforms má fræðast hér

    • Hvers vegna er viðbótarlífeyrissparnaður hagstæður sparnaður?

      Fræðast má um helstu kosti viðbótarlífeyrissparnaðar hér

    • Hvers vegna er viðbótarlífeyrissparnaður þægilegt sparnaðarform?

      Gera þarf sérstakan samning við lífeyrissjóðinn um viðbótarlífeyrissparnað. Eftir að hann hefur verið gerður sér launagreiðandinn um að draga iðgjaldið af laununum þínum og skila því til sjóðsins, ásamt eigin mótframlagi. Sem launamaður þarft þú ekkert að aðhafast frekar. Sjóðurinn sér um að framlagið skili sér til ávöxtunar. Sjóðurinn sér jafnframt um að ávaxta inneign þína og bregðast við breytingum sem verða á mörkuðum og þú getur fylgst með árangrinum á heimasíðu sjóðsins og hvernig þín inneign breytist með því að fá aðgang að sjóðfélagavefnum. Umsókn um viðbótarlífeyrissparnað má finna hér. Þú getur einnig haft samband við okkur í síma 460-4500.

    • Verð ég að hafa viðbótarlífeyrissparnað hjá sama aðila og skylduiðgjaldið er greitt til?

      Nei, þú getur valið hvert iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað eru greidd, en það þarf að vera til aðila sem hefur heimild til að veita viðbótarlífeyrissparnaði móttöku. Margir aðilar hafa slíka heimild. Launagreiðanda er skylt, að beiðni launamanns, að draga iðgjaldið af launum hans og skila því til þess vörsluaðila sem launamaðurinn hefur valið. Gera þarf sérstakan samning við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar þegar sá sparnaður er hafinn. Umsókn um viðbótarlífeyrissparnað hjá Stapa má finna hér. Þú getur líka haft samband við okkur í síma 460-4500.

    • Get ég ráðið hvert ég borga viðbótarlífeyrissparnaðinn?

      Já, þú getur valið hvert iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað eru greidd, en það þarf að vera til aðila sem hefur heimild til að veita viðbótarlífeyrissparnaði móttöku. Margir aðilar hafa slíka heimild. Launagreiðanda er skylt, að beiðni launamanns, að draga iðgjaldið af launum hans og skila því til þess vörsluaðila sem launamaðurinn hefur valið. Gera þarf sérstakan samning við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar þegar sá sparnaður er hafinn. Umsókn um viðbótarlífeyrissparnað hjá Stapa má finna hér. Þú getur líka haft samband við okkur í síma 460-4500.

    • Hvað á ég að borga í viðbótarlífeyrissparnað?

      Launamaður getur valið um hversu hátt iðgjald hann vill borga í viðbótarlífeyrissparnað. Rétt er þó að hafa í huga að iðgjald upp að 4% er frádráttarbært frá skatti og jafnframt að iðgjaldið þarf að vera a.m.k. 2% til að launagreiðanda sé skylt að leggja fram 2% mótframlag. Því má segja að iðgjald á bilinu 2-4% sé hagkvæmast.

    • Hvernig er eftirlit með því að iðgjaldi í viðbótarlífeyrissparnað sé skilað?

      Hjá Stapa lífeyrissjóði gilda sömu reglur um innheimtu og eftirlit með iðgjaldagreiðslum í viðbótarlífeyrissparnað eins og í skyldutryggingu lífeyrisréttinda. 

    • Fylgir samningurinn sem ég hef gert um viðbótarlífeyrissparnað þegar ég skipti um vinnuveitanda?

      Nei, samningur sem gerður er milli launamanns og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar beinist að tilteknum launagreiðanda. Ef launamaður skiptir um launagreiðanda, þá fer samningurinn ekki sjálfkrafa á milli. Því er nauðsynlegt að ganga frá nýjum samningi. Nýjan samning má finna á umsóknarvef.

    • Hvernig er viðbótarlífeyrissparnaður skattlagður?

      Iðgjöld launamanns, allt að 4% af heildarlaunum, er ekki skattlagt, þar sem draga ber iðgjaldið frá tekjum áður en skattar eru reiknaðir. Þá er ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af viðbótarlífeyrissparnaði og inneign í viðbótarlífeyrissparnaði er ekki framtalsskyld. Viðbótarlífeyrissparnaður er á hinn bóginn skattlagður á sama hátt og laun þegar hann kemur til útborgunar. Því er hér einungis um skattfrestun að ræða. Nánari upplýsingar um skattamál má finna á vef ríkisskattstjóra

    • Hvað þýðir skattfrestun og af hverju er hún hagstæð?

      Skattfrestun þýðir að ekki eru greiddir tekjuskattar af innborgun í viðbótarlífeyrissparnað (þ.e. af iðgjöldum upp að 4% af heildarlaunum) og ekki fjármagnstekjuskattur af fjármagnstekjum á meðan viðbótarlífeyrissparnaður er til ávöxtunar. Hér er þó aðeins um frestun að ræða, þar sem greiddur er tekjuskattur af útgreiðslum þegar viðbótarlífeyrissparnaður er greiddur út. Skattfrestun er fyrst og fremst hagkvæm vegna þess að tekjur fólks eru yfirleitt lægri á eftirlaunaaldri en þær eru á vinnualdri. Þetta þýðir að skatthlutfall af útgreiðslum lífeyrissparnaðar er alla jafna lægra en það hefði verið af launum við innborgun. Þótt þetta eigi við almennt kunna að vera á þessu undantekningar. Stærsta hagræðið við viðbótarlífeyrissparnað er þó án efa mótframlag launagreiðanda.

    • Er ekki óhagstætt að fá undanþágu frá fjármagnstekjuskatti en borga fullan tekjuskatt af útborgunum úr séreign, þar með talið af ávöxtuninni?

      Nei, viðbótarlífeyrissparnaður ætti í öllum tilfellum að vera hagstæðari. Í fyrsta lagi er ekki greiddur tekjuskattur af innborgun í viðbótarlífeyrissparnað, en innborgun á hefðbundinn sparnað er eftir skatta. Þessi skattfrestun er yfirleitt hagstæð. Þá er ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af viðbótarlífeyrissparnaði á ávöxtunartímanum, á meðan árlega er greiddur fjármagnstekjuskattur af hefðbundnum sparnaði. Auk þessa greiðir launagreiðandi mótframlag til viðbótarlífeyrissparnaðar, sem ekki á við um hefðbundinn sparnað. 

    • Er ég ekki orðin of gömul/orðinn of gamall til að borga í séreignarsjóð?

      Viðbótarlífeyrissparnaður er alltaf hagstæður, vegna mótframlags launagreiðanda og þess skattalega hagræðis sem í honum felst. Æskilegast er þó að byrja snemma á sparnaði. Þannig safnast mest fyrir og frelsi til að ákveða starfslok eða njóta eftirlaunaáranna verður meira.

    • Hvaða sparnaðarleiðir býður Stapi upp á?

      Stapi býður upp á þrjár mismunandi sparnaðarleiðir í viðbótarlífeyrissparnaði. Lögð er áhersla á áhættudreifingu í öllum söfnunum, en þau eru samt sem áður mismunandi áhættusöm. Mesta áhættan er í Áræðna safninu, en þar er hlutfall hlutabréfa hæst. Það safn er ætlað þeim sem eiga langt eða nokkuð í að ná eftirlaunaaldri. Ekki er ráðlagt að spara í því safni eftir 55 ára aldur. Næst er Varfærna safnið. Það er ætlað þeim sem vilja taka minni áhættu og þeim sem komnir eru yfir 55 ára aldur. Safnið er samt sem áður ávaxtað í markaðsverðbréfum, sem þýðir að alltaf verða einhverjar markaðssveiflur í ávöxtun safnsins, þótt þær verði að öllu jöfnu minni en í Áræðna safninu. Minnsta áhættan er í Innlána safninu. Það er eingöngu ávaxtað í verðtryggðum og óverðtryggðum innlánum og er því ekki háð markaðssveiflum. Ávöxtun þess fer þó mjög eftir því hvaða kjör eru boðin á innlánum á hverjum tíma. Þetta safn er einkum ætlað þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur og byrjaðir að taka sparnaðinn út, sem og þeim sem ekki hafa áhuga á að taka markaðsáhættu sem fjárfesting í verðbréfum hefur alltaf í för með sér. 

    • Hverjir eru kostir Stapa sem ávöxtunaraðila?

      Stapi lífeyrissjóður hefur langa reynslu af ávöxtun fjármuna og hefur á að skipa reynslumiklu fólki á því sviði. Sjóðurinn hefur boðið upp á viðbótarlífeyrissparnað síðan 1999. Sjóðurinn hefur því reynslu af þeim sveiflum sem hafa verið á innlendum og erlendum mörkuðum. Sjóðurinn býður upp á þrjár mismunandi leiðir til ávöxtunar, sem bera með sér mismunandi áhættu. Öllum söfnum hjá Stapa er stýrt, þannig að brugðist er við þeim breytingum sem verða í efnahagslífi og á mörkuðum hverju sinni. Lögð er áhersla á góða áhættudreifingu og trausta áhættustýringu. Árangurinn hefur verið góður, en frekari upplýsingar um hann má sjá hér.

    • Get ég skipt um sparnaðarleiðir?

      Já, þú getur skipt um sparnaðarleiðir eftir vali. Það er þó aðeins hægt einu sinni í mánuði. Flutningurinn fer fram fyrsta dag næsta mánaðar. 

    • Hver er kostnaðurinn við að flytja milli sparnaðarleiða hjá sjóðnum?

      Ekki er tekið gjald við að flytja á milli leiða hjá sjóðnum.

    • Get ég flutt séreignarsparnað milli vörsluaðila?

      Já, hægt er að flytja viðbótarlífeyrissparnað milli vörsluaðila. Uppsagnarfrestur tveir mánuðir sbr. ákvæði laga (9. gr.) 

    • Hvernig flyt ég séreignarsparnað milli vörsluaðila?

      Ef flytja á séreignarsparnað til Stapa þarf að óska eftir flutningi á eyðublaði hjá þeim vörsluaðila sem inneign á að flytjast frá eða á eyðublaði sem starfsfólk Stapa útbýr. Ef ætlunin er jafnframt að byrja að greiða til Stapa þarf að gera samning um séreignarsparnað við sjóðinn á umsóknarvef.

      Ef flytja á séreignarsparnað frá Stapa þarf að fylla út umsókn um breytingu á séreignarsparnaði á umsóknarvef sjóðsins.

      Ef greiða á séreign inn á lán, þá hafið samband við RSK (leidretting.is) vegna breytinga á vörsluaðila séreignarsparnaðar.

    • Hvað kostar að flytja séreignarsparnað milli vörsluaðila?

      Kostnaður við að flytja séreignarsparnað milli vörsluaðila kann að vera mismikill eftir ákvörðun viðkomandi vörsluaðila. Stapi tekur ekki sérstakt gjald fyrir að flytja frá Stapa og greiðir ekki flutningsgjald til annarra vörsluaðila fyrir þá sem flytja sparnaðinn til Stapa. 

    • Hvernig fæ ég upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað minn?

      Þú getur fengið upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað þinn með aðgangi að sjóðfélagvef lífeyrissjóðsins. Þar er bæði hægt að fylgjast með iðgjaldaskilum og ávöxtun á séreigninni. Á heimasíðu Stapa er líka að finna margháttaðar upplýsingar um séreignarsparnað hjá sjóðnum. 

    • Get ég nýtt séreignarsparnað minn til að afla mér húsnæðis?

      Stjórnvöld hafa veitt tímabundna heimild til að ráðstafa greiddum iðgjöldum séreignarsparnaðar til öflunar húsnæðis. Á það bæði við um framlag launamanns, allt að 4% af heildarlaunum, og mótframlag launagreiðanda, allt að 2% af heildarlaunum. Í þessu er fólgið verulegt skattahagræði þar sem ekki er greiddur skattur af iðgjöldum séreignarsparnaðar.

      Lög sem heimila ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á íbúðarlán hafa verið framlengd og gilda nú til 31. desember 2024. Sækja þurfti sérstaklega um framlenginguna á www.leidretting.is.

      Þann 1. júlí 2017 tóku gildi lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014 geta sótt um þetta úrræði. Ákvæði laganna taka yfir eldra úrræði vegna húsnæðissparnaðar.

      Sjá nánar á vefsíðu Skattsins.

      • 1. Hvernig er hægt að ráðstafa séreignarsparnaði vegna húsnæðiskaupa?

        a)      Ráðstöfun inn á fasteignaveðlán

        Heimilt er upp að vissu marki að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á höfuðstól fasteignaveðlána íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Þetta úrræði hefur verið framlengt og gildir nú  til 31. desember 2024.

        Sækja þurfti um framlengingu fyrir 30. september 2023 á vef ríkisskattstjóra www.leidretting.is. Ef ekki var sótt um framlengingu lauk ráðstöfun séreignarsparnaðar en hægt er að hefja ráðstöfun að nýju með nýrri umsókn.

        b)      Húsnæðissparnaður vegna kaupa á fyrstu íbúð

        Með lögum nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, eru lögfestar heimildir til úttektar á séreignarsparnaði fyrir þá sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði áður. Slíkur sparnaður kallast húsnæðissparnaður. 

        Með lögunum er veittur réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst sem innborgun eða til að greiða niður höfuðstól lána sem tekin eru vegna kaupa á fyrstu íbúð. 

        Hægt er að nýta séreignarsparnað á 10 ára samfelldu tímabili og velur umsækjandi hvenær ráðstöfunartímabil hefst. Fólki er frjálst að skipta um húsnæði á tímabilinu en skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram innan 12 mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti réttinn í upphafi. 

        Sækja þarf um úttekt séreignarsparnaðar á vef ríkisskattstjóra innan tólf mánaða frá undirritun kaupsamnings um fyrstu íbúð eða frá því að nýbygging fær fastanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. 

        Sjá nánar á vefsíðu Skatttsins.

      • 2. Hvaða séreignarsparnað má ég nota til að ráðstafa inn á lán eða í húsnæðissparnað?

        a)       Ráðstöfun inn á fasteignalán

        Hægt er að nýta séreignarsparnað sem fellur til á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til að ráðstafa inn á lán. Eingöngu er þó hægt að nýta séreignarsparnað sem fellur til eftir að umsókn um ráðstöfun var skilað inn til ríkisskattstjóra. Sjá nánar á www.leidretting.is.

        b)      Húsnæðissparnaður vegna kaupa á fyrstu íbúð

        Hægt er að nýta iðgjöld sem greidd eru frá 1. júlí 2014 til húsnæðissparnaðar vegna fyrstu íbúðar sbr. lög nr. 111/2016 og reglugerð nr. 555/2017.

        Rétthafi sem hóf uppsöfnun iðgjalda til öflunar íbúðarhúsnæðis eftir 1. júlí 2014 en hafði ekki nýtt sér þá heimild við gildistöku laga nr. 111/2016 er heimilt að nýta iðgjöld frá þeim tíma. Rétthafi velur ráðstöfunartímabil innan þeirra tímamarka sem RSK setur.

        Hér að neðan eru dæmi af leiðbeiningavef Skattsins.

        Dæmi A

        Dæmi B

        Dæmi C

        Dæmi D

      • 3. Ég hef verið að nýta eldri úrræði til að greiða inn á lán. Þarf ég að gera eitthvað?

        Þeir sem hafa nýtt sér eldra úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán þurfa að ákveða hvort þeir vilji halda því áfram eða ekki. Óska þarf eftir framlengingunni á vef ríkisskattstjóra www.leidretting.is fyrir 30. september 2023. Ef ekki er sótt um framlengingu fyrir þann tíma lýkur ráðstöfun séreignarsparnaðar. Hægt er að sækja um ráðstöfun  að nýju með nýrri umsókn.

        Ef um fyrstu íbúð var að ræða getur þú átt rétt á að nýta þér úrræði laga nr. 111/2016 sem tóku gildi þann 1. júlí 2017. Sjóðurinn hvetur rétthafa til að kanna slíkt hjá ríkisskattstjóra.

        Sækja þarf um fyrir hvern og einn einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði samsköttunar. Umsóknir um ráðstöfun séreignarsparnaðar þurfa að berast ríkisskattstjóra.

        Nánari upplýsingar vef Skattstjóra.

      • 4. Ef ég vil nýta séreignarsparnað sem húsnæðissparnað til kaupa á húsnæði síðar, hvernig og hvenær þarf ég að gera það?

        Sækja þarf um úttekt séreignarsparnaðar innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings vegna íbúðarhúsnæðis. Ef um nýbyggingu er að ræða þarf umsókn að berast innan 12 mánaða frá því að húseignin fær skráningarnúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár. Sótt um á vef ríkisskattstjóra www.leidretting.is.

        Þangað til þarftu ekki að gera annað en að greiða í séreignarlífeyrissjóð svo innstæða sé fyrir hendi þegar íbúðarhúsnæði er keypt eða byggt. Hægt er að sækja um séreignarsparnað hjá Stapa lífeyrissjóði hér.

        Starfsfólk Stapa mun veita þér  nánari upplýsingar um þessa tegund sparnaðar í síma 460-4500 eða ef þú sendir fyrirspurn á stapi@stapi.is

      • 5. Hvernig sæki ég um að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán?

        a)      Innborgun inn á fasteignaveðlán

        Sótt er um á vefnum www.leidretting.is. Sækja þarf um fyrir hvern og einn einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði samsköttunar.

        b)      Húsnæðissparnaður til kaupa á fyrstu íbúð

        Sækja þarf um úttekt séreignarsparnaðar innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings vegna íbúðarhúsnæðis. Ef um nýbyggingu er að ræða þarf umsókn að berast innan 12 mánaða frá því að húseignin fær skráningarnúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár. Sótt um á þjónusturvef ríkisskattstjóra. Umsókninni þarf að fylgja þinglýstur kaupsamningur eða afsal, vottorð um skráningu húsnæðis í þjóðskrá ef um nýbyggingu er að ræða og gögn um lán vegna kaupanna.

         

      • 6. Þarf að sækja um fyrir báða aðila, ef ég er í hjúskap eða sambúð?

        Já, ráðstöfun séreignarsparnaðar er ráðstöfun einstaklingsbundinna réttindi. Sækja þarf um fyrir hvern og einn einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði samsköttunar. Sjá nánar á www.leidretting.is og vef Skattsins

      • 7. Hvað ef aðstæður breytast og ég vil hætta við?

        Ef aðstæður breytast, t.d. vegna sölu fasteignar, breytinga á hjúskaparstöðu, veðlánum eða séreignarsjóði, þarf að sækja um þær breytingar á www.leidretting.is, þar sem einnig er að finna frekari upplýsingar.

      • 8. Þarf ég að vera með samning um séreignarsparnað til að geta ráðstafað honum inn á lán eða til húsnæðissparnaðar?

        Já, til að þessi ráðstöfun sé möguleg þarft þú að vera með samning um séreignarsparnað við vörsluaðila sem hefur heimild til móttöku slíks sparnaðar. Hægt er að sækja um séreignarsparnað hjá Stapa lífeyrissjóði á umsóknarvef. Starfsfólk Stapa mun veita þér nánari upplýsingar í síma 460-4500 eða ef þú sendir fyrirspurn á stapi@stapi.is.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Tilgreind séreign

    • Hvað er tilgreind séreign?

      Tilgreind séreign varð til í kjölfar kjarasamnings ASÍ og SA þar sem m.a. var samið um 3,5% þrepaskipta hækkun á mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð. Frá 1.7.2017 geta sjóðfélagar ákveðið hvort þessi hækkun fer í tilgreinda séreignadeild í stað tryggingadeildar.

      Nafnið, tilgreind séreign, er tilkomið vegna þess að sjóðfélagi verður að tilgreina ef hann vill að hækkun á mótframlagi atvinnurekanda, allt að 3,5%, verð sett í tilgreinda séreign. Ef sjóðfélagi tilkynnir ekkert til sjóðsins þá rennur hækkunin í tryggingadeild. 

    • Hverjar voru hækkanir á mótframlagi launagreiðenda samkvæmt kjarasamningi ASÍ og SA?

      Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð skv. samningum breyttist á eftirfarandi hátt:

      • 2016: Framlag atvinnurekenda hækkaði 1. júlí 2016 um 0,5% stig og varð 8,5%.
      • 2017: Framlag atvinnurekenda hækkaði 1. júlí 2017 um 1,5% stig og varð 10%.
      • 2018: Framlag atvinnurekenda hækkaði 1. júlí 2018 um 1,5% stig og varð 11,5%.

      Hægt er að sjá samninginn hér.

      Framlagi launþega er áfram 4%.

    • Hversu hátt hlutfall getur farið í tilgreinda séreign?

      Hægt að ráðstafa allt að 3,5% í tilgreinda séreign.

    • Hvernig er tilgreind séreign öðruvísi en séreignarsparnaður?

      Tilgreind séreign er hluti af skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð á meðan séreignarsparnaður er viðbótariðgjald í lífeyrissjóð. Einnig gilda aðrar reglur um útgreiðslur tilgreindrar séreignar en séreignarsparnað.

    • Frá hvað tíma get ég ráðstafað hluta iðgjalds í tilgreinda séreign?

      Hægt er að hefja ráðstöfum í tilgreinda séreign frá 1. júlí 2017. Eftir að tilkynningin hefur móttekin af lífeyrissjóðnum geta liðið allt að 2 mánuðir þar til ráðstöfun iðgjalds er framkvæmd.

    • Hvað þurfa sjóðfélagar að hafa í huga við ákvörðun um hvort eigi að færa hækkun mótframlags í tilgreinda séreign?

      Val um það hvort iðgjald skuli renna í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar er undir ákvörðun sjóðfélaga komið.

      Vilji sjóðfélagi ráðstafa iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign, þarf hann að fylla út tilkynningu og skila inn til sjóðsins. Ef ekki er skilað inn rafrænt þarf frumrit að berast sjóðnum. Á tilkynningunni er að finna ítarlegar upplýsingar um tilgreinda séreign og hvaða þætti sjóðfélagi þarf að skoða áður en tekin er ákvörðun um hvernig iðgjaldinu er ráðstafað. Með tilkynningunni staðfestir sjóðfélagi að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um tryggingavernd í tryggingadeild sjóðsins annars vegar og þær reglur sem gilda um tilgreinda séreignardeild hins vegar. 

      Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til ævilangs lífeyris, örorkulífeyris, þ.m.t. framreiknings né makalífeyris. Þannig er eðlismunur á þeim réttindum sem ávinnast í samtryggingu annars vegar og í tilgreindri séreign hins vegar samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins eins og þau eru á hverjum tíma.

      Réttindi í tryggingadeild geta verið verðmæt tryggingaréttindi. Eðli málsins samkvæmt geta greiðslur á grundvelli þeirra numið hærri eða lægri fjárhæð en sem nemur uppsöfnuðum iðgjöldum sem greidd hafa verið til sjóðsins. Samhengi er milli fjárhæðar greiddra iðgjalda og þeirra réttinda sem sjóðfélagi ávinnur sér í tryggingadeild. Af því leiðir að ef sjóðfélagi ákveður að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar ávinnur hann sér minni tryggingaréttindi í samtryggingu en að sama skapi meiri réttindi í tilgreindri séreign.

      Iðgjöld í tilgreinda séreign eru séreign sjóðfélaga. Falli hann frá greiðist hún til erfingja og skiptist skv. reglum erfðalaga.

    • Ég vil ráðstafa hluta eða allri hækkun mótframlags í tilgreinda séreign. Hvað þarf ég að gera?

      Þú þarft að upplýsa lífeyrissjóðinn um það með því að fylla út tilkynningu

      Með tilkynningunni staðfestir sjóðfélagi að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um tryggingavernd í tryggingadeild sjóðsins annars vegar og þær reglur sem gilda um tilgreinda séreignardeild hins vegar. 

    • Hvaða reglur gilda um útborgun á tilgreindri séreign?

      Útgreiðsla vegna aldurs

      Sjóðfélaga er heimilt að hefja úttekt úr tilgreindri séreignardeild frá 62 ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Heimilt er að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Fjárhæðin er kr. 1.595.100 miðað við vísitölu í september 2022 (553,5).

      Útgreiðsla vegna örorku

      Verði rétthafi öryrki og orkutap metið 100% af trúnaðarlækni sjóðsins á hann rétt á að fá inneign sína í tilgreindri séreignardeild greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Heimilt er að víkja frá fyrrgreindum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Fjárhæðin er kr. 1.595.100 miðað við vísitölu í september 2022 (553,5).

      Ef örorka er metin lægri en 100% lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.

      Útgreiðsla vegna andláts

      Við andlát rétthafa greiðist inneign í tilgreindri séreignardeild til erfingja og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir.

      Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 með síðari breytingum.

    • Greiði ég skatta af úttekt tilgreindrar séreignar?

      Já, sömu reglur gilda um skattgreiðslur af útborgun tilgreindrar séreignar og af launagreiðslum. Ekki var greiddur skattur af iðgjöldum þegar þau voru greidd til sjóðsins. Það þýðir í raun að skattgreiðslum var frestað við greiðslu iðgjaldsins til þess tíma er iðgjöldin koma til útgreiðslu.

    • Hvað þarf ég að gera ef ég vil hækka eða lækka framlag í tilgreinda séreign?

      Hægt er að gera breytingar á ráðstöfun iðgjalda með nýrri tilkynningu. Breytingin gildir gagnvart nýjum iðgjöldum en breytir ekki ráðstöfun áður greiddra iðgjalda. Ef ekki er skilað inn rafrænt þarf frumrit tilkynningar að berast sjóðnum.

    • Þarf ég að fylla út nýja tilkynningu ef ég skipti um vinnuveitanda?

      Ef greitt er áfram í sama lífeyrissjóð þarf ekki að fylla út nýja tilkynningu en ef greitt er í annan lífeyrissjóð þá þarf að fylla út aðra tilkynningu hjá nýja lífeyrissjóðnum.

    • Hvar get ég séð inneign mína í tilgreindri séreign?

      Þú getur fylgst með tilgreindu séreigninni þinni með því að fá aðgang að sjóðfélagavef Stapa. Einnig getur þú haft samband við sjóðinn og fengið sent yfirlit.

      Sjóðfélagayfirlit eru send út tvisvar á ári til virkra sjóðfélaga.

    • Erfist tilgreind séreign?

      Já, hún er séreign rétthafans og erfist við fráfall. Tilgreinda séreignin er þá greidd út til lögerfingja í samræmi við ákvæði erfðalaga.

    • Get ég notað tilgreinda séreign til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán eða safna til húsnæðiskaupa?

      Frá 1. janúar 2023 er heimilt að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu íbúð að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Nánari upplýsingar um þetta ákvæði er að finna í reglugerð sem gefin var út við gildistöku laganna og á vefsíðu Skattsins.

    • Geta allir greitt í tilgreinda séreign?

      Sjóðfélagi getur greitt í tilgreinda séreign ef heimild er til slíkrar ráðstöfunar samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi hans.

    • Hvar get ég fundið upplýsingar um reglur varðandi greiðslu lífeyris úr tryggingadeild?

      Allar upplýsingar um greiðslu lífeyris úr tryggingadeild, eftirlaun, endurhæfingar- og örorkulífeyir, makalífeyri og barnalífeyri, má finna á lífeyrishluta vefsíðunnar.

    • Get ég valið ávöxtunarleið í tilgreindri séreignardeild?

      Já, velja þarf eina af þremur ávöxtunarleiðum:

      Tilgreinda varfærna safnið

      Tilgreinda áræðna safnið

      Tilgreinda innlána safnið

      Fyrst um sinn verður þó aðeins ein leið í boði, tilgreinda varfærna safnið. Inneign verður færð í þá leið sem sjóðfélagi velur þegar búið er að stofna allar þrjár leiðirnar

      Eign er ávöxtuð samkvæmt fjárfestingarstefnu eins og hún er á hverjum tíma. Stefnan er endurskoðuð að jafnaði einu sinni á ári. 

    • Get ég skoðað hvaða áhrif það hefur á eftirlaun hvort ég vel að setja hækkun á mótframlagi í tilgreinda séreign eða tryggingadeild?

      Reiknivél Stapa er að finna á vef sjóðfélaga en hér að neðan eru þrjú dæmi.

      Í dæmunum er gert ráð fyrir að sjóðfélagi sé með 400.000 krónur í mánaðarlaun alla starfsævina, hann hefur inngreiðslu í lífeyrissjóð 25 ára gamall og greiðir til 67 ára aldurs og fer þá á eftirlaun. Í dæmunum er gert ráð fyrir að árleg hrein raunávöxtun bæði samtryggingar og tilgreindrar séreignar sé 3,5%. Dæmi eru tekin af 25 ára, 40 ára og 60 ára sjóðfélögum sem standa nú fyrir þessum valkosti. Reynt er að meta áhrif af ákvörðuninni á áætluð eftirlaun sjóðfélagans, ef þau yrðu tekin við 67 ára aldur en hafa ber í huga að aukin tryggingavernd er alltaf fólgin í því að leggja iðgjöldin í samtryggingu.

      Dæmi fyrir 25 ára

      Sjóðfélagi er að byrja að greiða inn í lífeyrissjóðinn og á engin fyrri réttindi. Ef hann greiðir alla sína starfsævi 15,5% í samtryggingu þá eru áætluð eftirlaun hans um 330.000 kr. á mánuði. Ef hann greiðir hins vegar 12% í samtryggingu en 3,5% í tilgreinda séreign þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 250.000 kr. og áætlaður tilgreindur séreignarsjóður tæpar 16 milljónir kr.

      Dæmi fyrir 40 ára

      Sjóðfélagi hefur nú þegar áunnið sér um 120.000 í ævilöng eftirlaun. Ef hann greiðir hér eftir 15,5% í samtryggingu þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 290.000 kr. á mánuði. Ef hann greiðir hins vegar 12% í samtryggingu en 3,5% í tilgreinda séreign þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 250.000 kr. og áætlaður tilgreindur séreignarsjóður um 7,5 milljónir kr.

      Dæmi fyrir 60 ára

      Sjóðfélaginn hefur nú þegar áunnið sér tæp 226.000 í ævilöng eftirlaun. Ef hann greiðir hér eftir 15,5% í samtryggingu þá eru áætluð eftirlaun hans 262.000 kr. á mánuði. Ef hann greiðir hins vegar 12% í samtryggingu en 3,5% í tilgreinda séreign þá eru áætluð eftirlaun hans rúmlega 254.000 kr. og áætlaður tilgreindur séreignarsjóður um 1,3 milljónir kr.

      Fyrirvari

      Réttindi sjóðfélaga grundvallast á gildandi samþykktum Stapa eins og þær eru á hverjum tíma. Athygli er vakin á því að dæmin hér að framan um réttindi í samtryggingardeild og eign í tilgreindri séreign eru einungis sett fram til skýringar og einföldunar. Þeim er ætlað að hjálpa sjóðfélögum að átta sig áhrifum ákvörðunar sinnar varðandi skiptingu 3,5% kjarasamningsbundins viðbótariðgjalds milli samtryggingar og tilgreindrar séreignar.  Dæmin fela ekki í sér úrskurð um lífeyri eða fyrirheit um efni slíks úrskurðar. Gerður er fyrirvari um mögulegar villur eða ónákvæmni. Ef þessum upplýsingum ber ekki saman við ákvæði samþykkta sjóðsins gilda ákvæði samþykktanna. Því er mikilvægt fyrir sjóðfélaga að kynna sér vel efni samþykkta sjóðsins. Þá er rétt að árétta að réttindi samkvæmt samþykktum geta breyst frá einum tíma til annars.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Sjóðfélagalán

    • Hverjir eiga lánsrétt?

      Til að eiga lánsrétt þarf umsækjandi að hafa greitt iðgjöld í Stapa lífeyrissjóð, annað hvort samtryggingardeild eða séreignardeild.

      Þeir sjóðfélagar, sem sjálfir eiga að standa skil á iðgjöldum sínum til sjóðsins koma því aðeins til greina við úthlutun lána, að þeir séu skuldlausir við sjóðinn, þegar umsókn berst skrifstofu sjóðsins.

    • Hvaða tryggingu þarf ég að veita fyrir láni?

      Sjóðfélagalán eru aðeins veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði í eigu lántaka sem staðsett er á Íslandi.

      Ef íbúðarhúsnæðið sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga, sambúðarmaka eða einstaklings, sem umsækjandi er í staðfestri samvist með, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki að umbeðnu láni.

    • Get ég tekið lán með lánsveði?

      Nei, Stapi lífeyrissjóður veitir ekki lán með lánsveði.

    • Get ég greitt upp lán eða inn á höfuðstól?

      Já, lántaka er heimilt að greiða inn á lán sitt eða greiða það upp hvenær sem er á lánstímanum án sérstakrar þóknunar.

      Umframgreiðsla inn á lán er millifærð inn á reikning 0565-26-143130 kt. 531009-1180. Setja skal lánsnúmer í skýringu og senda kvittun á lan@stapi.is.

      Ef um uppgreiðslu er að ræða þarf að hafa samband við lánadeild sjóðsins til að fá rétta stöðu. Hægt er að senda tölvupóst á lan@stapi.is eða hafa samband í síma 460-4500.

       

    • Hver er lánstími og fjöldi gjalddaga?

      Lánstími sjóðfélagalána er að lágmarki 5 ár og að hámarki 40 ár.

      Gjalddagar sjóðfélagalána Stapa lífeyrissjóðs eru 12 á ári.

    • Hvernig lán eru í boði?

      Stapi býður upp á verðtryggð lán með föstum eða breytilegum vöxtum með veði í fasteign í eigu lántakanda.

      Fastir vextir taka ekki breytingum á lánstímanum en breytilegir vextir taka breytingum skv. ákvörðun stjórnar sjóðsins. Vextir eru birtir á vefsíðu sjóðsins. 

      Lántaki getur valið á milli láns með jöfnum afborgunum höfuðstóls og láns með jöfnum greiðslum (annuitetsláns).

    • Hvernig eru vextir sjóðfélagalána ákvarðaðir?

      Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um vexti hverju sinni. 

      • Fastir vextir miðast við útgáfudag skuldabréfs og taka ekki breytingum á lánstímanum.
      • Breytilegir vextir taka breytingum yfir lánstímann samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til ávöxtunarkröfu á skráðum verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins.

      Gildandi vextir eru birtir undir vaxtaþróun á vefsíðu sjóðsins.

    • Hver er hámarkslánsfjárhæð og -lánshlutfall?

      Lánshlutfall má ekki vera hærra en 70% af kaupverði eða nýjasta fasteignamati íbúðarhúss. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 60% af markaðsverði er almennt gerður áskilnaður um að lán Stapa sé á 1. veðrétti. Þá má veðsetning ekki vera umfram 100% af samtölu brunabóta- og lóðarmats.

      Við kaup fasteignar skal miðað við kaupverð.

      Við endurfjármögnun er miðað við nýjasta fasteignamat eignarinnar frá Þjóðskrá. Þó er sjóðnum heimilt að taka mið af kaupverði samkvæmt kaupsamningi ef kaupverð var lægra en fasteignamat, sé kaupsamningur yngri en 24 mánaða þegar lánsumsókn berst.

      Þrátt fyrir framangreindar reglur um veðhlutfall getur fjárhæð láns aldrei orðið hærri en 75.000.000 kr.

      Áður en lán er veitt er greiðslu- og lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og reglugerð um sama efni.

    • Hvernig get ég fundið út greiðslubyrði lána?

      Með lánareiknivél Stapa er hægt að reikna út greiðslubyrði sjóðfélagalána.

    • Hver er munur á láni með jöfnum afborgunum og láni með jöfnum greiðslum?

      Mánaðarleg greiðsla skiptist í greiðslu höfuðstóls og vaxta

      Greiðsla = afborgun verðbætts höfuðstóls + vextir

      Lán með jöfnum afborgunum

      Þegar lán er með jöfnum afborgunum er afborgun höfuðstóls sú sama út lánstímann en breytist þó í takt við verðbólgu. Greiðslubyrði af lánum með jöfnum afborgunum er hærri til að byrja með en lækkar þegar líður á lánstímann þar sem greiðsla vaxta lækkar í takt við lækkun höfuðstóls.

      Lán með jöfnum greiðslum (annuitet)

      Þegar lán er með jöfnum greiðslum er mánaðarleg greiðsla af láninu sú sama út lánstímann en breytist þó í takt við verðbólgu. Hlutfall á milli afborgunar höfuðstóls og vaxta breytist þegar líður á lánstímann. Til að byrja með er hlutfallið sem fer í afborgun höfuðstóls lágt og vaxtagreiðslan há. Þetta breytist þegar líður á lánstímann þá hækkar afborgun höfuðstóls og vaxta greiðslan lækkar í samræmi við lægri höfuðstól. Mánaðarleg greiðsla af jafngreiðsluláni er lægri til að byrja með en á láni með jöfnum afborgunum.

      Í lánareiknivél Stapa er hægt að reikna út mánaðarlegar greiðslur og heildargreiðslur á misjöfnum lánsformum.

    • Get ég tekið óverðtryggt lán?

      Nei, öll lán hjá Stapa lífeyrissjóði eru verðtryggð.

    • Hvað er verðtrygging?

      Sjóðfélagalán Stapa eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs.

      Þegar lán er verðtryggt breytist höfuðstóll lánsins í sömu hlutföllum og vísitalan. Verðbætur leggjast við höfuðstól lánsins og vextir og afborgun eru reiknaðir af verðbættum höfuðstól.

    • Hvaða reglur gilda um greiðslugetu og lánshæfi?

      Áður en lán er veitt er lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og reglugerð um sama efni.

      Greiðslu- og lánshæfismat skal framkvæmt af sjóðnum í samræmi við ofangreind lög og reglugerð.

      Sjóðnum er heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð ef niðurstaða lánshæfis- og/eða greiðslumats leiðir í ljós að umsækjandi hafi ekki fjárhagslega burði til lántökunnar. Ef veðsetning fasteignar fer yfir 50% áskilur sjóðurinn sér ávallt rétt til að gera ríkari kröfur um gæði veðs, niðurstöðu lánshæfismats og forsendna og niðurstöðu greiðslumats. Á grundvelli þess getur komið til þess að hámarkslánsfjárhæð verði lækkuð. Sama gildir, jafnvel þó veðsetningarhlutfall sé lægra, ef önnur atriði sem lúta að hagsmunum sjóðsins sem lánveitanda mæla með því að lánsfjárhæð sé lækkuð.

    • Hvernig sæki ég um lán?

      Hægt að sækja um sjóðfélagalán hjá Stapa á einfaldan hátt með rafrænum skilríkjum í síma á umsóknarvef. Nánast öll gagnaöflun vegna greiðslumats verður jafnframt rafræn þegar sótt er um lán með þessum hætti. Einnig er hægt að fylla út umsókn á pdf formi og skila til sjóðsins á netfangið lan@stapi.is ásamt fylgigögnum.

    • Hver er kostnaður við lántöku hjá Stapa?

      Ýmis kostnaður fellur til í tengslum við lántöku.

      Kostnaður sem greiða þarf til Stapa, svo sem lántökugjöld og gjald vegna greiðslumats greiðast samkvæmt gjaldskrá Stapa. Einnig þarf að greiða Sýslumanni gjöld vegna þinglýsingar skjala.

    • Eru takmarkanir á því í hvaða tilgangi lán er nýtt?

      Það eru ekki takmarkanir á því í hvaða tilgangi lán er nýtt, enda séu skilyrði lánareglna uppfyllt m.a. varðandi greiðslugetu og veðsetningu.

    • Hvað er árleg hlutfallstala kostnaðar?

      Árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) er prósentutala þar sem vextir og lántökukostnaður er mældur á ársgrundvelli. Neytendur geta borið saman þessa einu tölu og fundið út hvaða lánveitandi er með hagkvæmast lánstilboðið.

      Heildarfjárhæð sem lántaki greiðir, heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar geta breyst ef fasteignalán er með breytilegum forsendum (t.d. breytilegir vextir) og það getur leitt til aukins kostnaðar fyrir lántaka.

      Árleg hlutfallstala kostnaðar kemur fram í lánareiknivél Stapa.

    • Hverjar eru afleiðingar þess ef ekki er staðið í skilum með greiðslur af láni?

      Standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana, vaxta eða verðbóta á gjalddaga fellur skuldin öll í gjalddaga án fyrirvara. Skuldara ber að greiða dráttarvexti frá gjalddaga, sem miðast við ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 ef eigi er staðið í skilum, auk alls kostnaðar sem af vanskilum hlýst.

      Ef vanskil verða á greiðslum lána eru send út bréf samkvæmt innheimtuferli Stapa með tilheyrandi kostnaði.

      Sem síðasta úrræði gæti eign sem sett var að veði láns verið seld nauðungarsölu ef ekki er staðið í skilum með greiðslur. 

    • Get ég fengið lán hjá Stapa ef ég er bara með séreignarsparnað hjá sjóðnum?

      Já, þeir sem hafa greitt í séreignardeild eiga lánsrétt hjá sjóðnum.

    • Hvað þýðir hámarkshlutfall greiðslubyrðar Seðlabanka Íslands?

      Seðlabanki Íslands hefur settt reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við ráðstöfunartekjur. Greiðslubyrði fasteignalána er samtala af greiðslubyrði allra lána sem eru með veði í fasteign, reiknuð samkvæmt forsendum Seðlabanka Íslands. 

      Við ákvörðum Stapa um lánveitingu er því ekki aðeins horft til greiðslu- og lánhæfismats heldur þarf einnig að taka tillit til þess hvort greiðslubyrði lána rúmist innan viðmiðs Seðlabanka Íslands.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Nýir sjóðfélagar

    • Hvers vegna er skylda að greiða í lífeyrissjóð?

      Eitt mikilvægasta verkefni hvers samfélags er að sjá til þess að börn, sjúklingar og eldri borgarar búi við sómasamleg kjör. Þessu hlutverki hefur verið sinnt á misjafnan hátt í gegnum tíðina, fyrst af stórfjölskyldunni, en síðar af sveitarfélögum og svo ríkisvaldinu eftir að almannatryggingar komu til. Í seinni tíð hafa komið til lífeyrissjóðir til að sinna hluta þessara verkefna. Í mörgum löndum, þ.m.t. á Íslandi, hefur það verið gert að skyldu að starfandi menn tryggi sér lífeyrisréttindi með greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða. Þetta byggir á því að eðlilegt sé að hver og einn vinnandi maður standi straum af sínum lífeyrisréttindum, a.m.k. að einhverju leyti, þannig að þetta hlutverk leggist ekki alfarið á sameiginlega sjóði samfélagsins, þ.e. ríkissjóð og sjóði sveitarfélaga. Með þessu er reynt að lágmarka fjölda þeirra sem ekki greiða til lífeyristrygginga, en fá engu að síður greiddan lífeyri. Í sumum tilfellum er þetta talið eðlilegt og lífeyrir er þá yfirleitt greiddur af ríkinu. Þetta á til að mynda við þegar fötlun eða sjúkleiki veldur því að einstaklingur hefur enga eða takmarkaða getu til að stunda launaða vinnu. Það þykir hins vegar eðlilegt að þeir sem eru frískir og hafa launaða vinnu leggi sitt af mörkum.

    • Hver er munurinn á skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnaði?

      Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda er öllum starfandi mönnum skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi í lífeyrissjóði. Sjóðir sem veita slíkum iðgjöldum viðtöku þurfa að hafa starfsleyfi og þeir mega einir kalla sig lífeyrissjóði. Launagreiðendum er skylt að halda eftir iðgjaldahluta launamanns vegna skyldutryggingar og skila honum til lífeyrissjóðs, ásamt mótframlagi launagreiðandans.

      Auk þeirra lífeyrisréttinda sem menn afla sér með greiðslu iðgjalds til skyldutryggingar geta menn aflað sér viðbótarlífeyrisréttinda með því að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Viðbótarlífeyrissparnaður er valfrjáls fyrir launamann eða sjálfstætt starfandi einstakling. Um hann þarf að gera sérstakan samning við lífeyrissjóð eða annan vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Lífeyrissjóðir sem veita skyldutryggingu eru yfirleitt sameignarsjóðir (stundum kallaðir tryggingasjóðir eða samtryggingarsjóðir) en viðbótarlífeyrissparnaður er yfirleitt í séreignarsjóðum. Stapi lífeyrissjóður veitir bæði þjónustu á sviði skyldutrygginga og viðbótarlífeyrissparnaðar. Sjóðnum er skipt í tvær deildir: Tryggingadeild, sem sinnir skyldutryggingu, og Séreignardeild, sem býður upp á viðbótarlífeyrissparnað. Hægt er að velja þrjár mismunandi ávöxtunarleiðir í viðbótarlífeyrissparnaði hjá Stapa

    • Hvaða réttindi ávinn ég mér með greiðslum til sjóðsins?

      Með greiðslu iðgjalds til Tryggingadeildar Stapa lífeyrissjóðs, sem sinnir skyldutryggingum, ávinna sjóðfélagar sér rétt til lífeyris. Annars vegar til eftirlauna og hins vegar til áfallalífeyris. Áfallalífeyrir skiptist í endurhæfingar- og örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Eftirlaun koma til greiðslu að lokinni starfsævi og greiðast til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Áfallalífeyrir greiðist við áföll. Endurhæfingar- og örorkulífeyrir greiðist þegar sjóðfélagar missa starfsorku og geta ekki stundað launaða vinnu. Maki látins sjóðfélaga á rétt á makalífeyri við fráfall sjóðfélagans. Auk þessa er greiddur barnalífeyrir vegna barna þeirra sem eru á endurhæfingar- og örorkulífeyri og til barna vegna látins sjóðfélaga, enda séu börnin undir 18 ára aldri. Nánari reglur um allar tegundir lífeyris er að finna í samþykktum sjóðsins. Með greiðslu iðgjalds til Séreignardeildar Stapa lífeyrissjóðs ávinna sjóðfélagar sér viðbótarréttindi í formi séreignar, þar sem iðgjaldið er ávaxtað í samræmi við þá ávöxtunarleið sem sjóðfélaginn hefur valið. 

    • Hvernig fylgist ég með að iðgjöldum mínum sé skilað til sjóðsins?

      Stapi lífeyrissjóður sendir virkum sjóðfélögum yfirlit tvisvar á ári, það fyrra yfirleitt á tímabilinu mars til apríl og hið síðara í september eða október. Sjóðfélagi sem óskar eftir að fá yfirlit í bréfapósti getur gert það undir Mínar upplýsingar á sjóðfélagavef eða haft samband við Stapa en meginreglan er rafræn birting.  Til að fá yfirlit áfram í bréfapósti þarf að taka út hakið við Afþakka pappír.

      Ef þú ert í vinnu og færð ekki sent yfirlit er ástæða til að skoða hvers vegna, með því að hafa samband við lífeyrissjóðinn. Sjóðfélagar geta einnig hringt til sjóðsins, sent fyrirspurn til hans í tölvupósti eða fengið aðgang að sjóðfélagavef sjóðsins, þar sem er að finna upplýsingar um iðgjaldaskil og réttindi. 

    • Hvar fæ ég upplýsingar um lífeyrisrétt minn?

      Stapi lífeyrissjóður er með sérstakan vef – vef sjóðfélaga – þar sem hver og einn sjóðfélagi getur á hverjum tíma fengið upplýsingar um lífeyrisrétt sinn. Sótt er um sérstakan veflykil hjá sjóðnum til að fá aðgang að vefnum. Einnig er hægt að nota rafræn skilríki til innskráningar á vefinn. Á vefnum er bæði að finna upplýsingar um réttindi í skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnaði. Af sjóðfélagavefnum er einnig hægt að komast inn á svokallaða lífeyrisgátt þar sem þú getur séð réttindin þín í öllum lífeyrissjóðum, sem þú hefur greitt til.

    • Hvað er lífeyrissjóður?

      Lífeyrissjóður er eins konar sérhæft tryggingafélag sem tryggir sjóðfélögum sínum tekjur á þeim tímabilum sem þeir hafa ekki tekjur annars staðar, annað hvort vegna áfalla eða vegna þess að þeir hafa náð tilteknum aldri og eru hættir að stunda launaða vinnu. Tekjur frá lífeyrissjóðum eru kallaðar eftirlaun eða lífeyrir. Eftirlaun eða ellilífeyrir greiðist eftir að starfsævi lýkur og áfallalífeyrir þegar sjóðfélagar verða fyrir áföllum á lífsleiðinni, s.s. vegna fráfalla eða þegar sjúkdómar eða slys gera það að verkum að þeir geta ekki stundað launaða vinnu. Lífeyrissjóður tekur við iðgjöldum frá sjóðfélögum, ávaxtar þau og endurgreiðir í formi lífeyris. Lífeyrissjóðir mega ekki hafa aðra starfsemi með höndum. Lífeyrissjóðir mega ekki starfa nema hafa starfsleyfi, sem fjármálaráðuneytið gefur út og um starfsemi þeirra gilda sérstök lög.

    • Eru allir skyldugir að greiða í lífeyrissjóð?

      Samkvæmt íslenskum lögum eru allir starfandi menn skyldugir að greiða til lífeyrissjóðs til að tryggja sér lífeyrisréttindi. Þetta er kallað skyldutrygging lífeyrisréttinda. Lögin sem gilda um lífeyrissjóði eru kölluð „Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“ og eru nr. 129 frá 1997, en þar stendur í 1. gr.: „Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára aldri til 70 ára aldurs.“ Áður en gert var að skyldu að allir starfandi menn skyldu tryggja sér lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði höfðu margar starfsstéttir samið um það í kjarasamningum. Öflun lífeyrisréttinda hjá lífeyrissjóði er því starfstengd réttindi og hluti kjara á vinnumarkaði, sem samið er um í kjarasamningum.

    • Hvers vegna er mikilvægt fyrir mig að greiða í lífeyrissjóð?

      Mikilvægt er að hver og einn tryggi sig nægjanlega til að mæta tekjulausum tímabilum á ævinni, hvort sem það er vegna áfalla eða eftir að starfsævi lýkur. Með því að byggja upp réttindi í lífeyrissjóði ertu að tryggja þér betri afkomu á þessum tekjulausu tímabilum. Með greiðslu til lífeyrissjóðs ávinna sjóðfélagar sér rétt til að fá greidd eftirlaun til æviloka, auk örorkulífeyrisgreiðslna ef þeir missa starfsorkuna og maka- og barnalífeyri við fráfall sjóðfélagans.

    • Hvers vegna get ég ekki bara sparað sjálf/sjálfur í stað þess að vera í lífeyrissjóði?

      Í sjálfu sér gæti eigin sparnaður komið að sömu notum og skyldusparnaður í lífeyrissjóði. En munu allir spara ef það byggir alfarið á frjálsu vali? Reynslan sýnir að svo er ekki. Ungt fólk hugsar yfirleitt lítið um það hvernig eftirlaunaárin verða og enginn ætlar að lenda í áföllum. Hjá mörgum er þetta eitthvað sem ætlunin er að gera seinna, sem oft og tíðum er þá orðið of seint. Af þessum ástæðum hefur verið talið réttlætanlegt að skylda alla sem hafa launatekjur að spara, bæði til að mæta hugsanlegum áföllum og tryggja sér eftirlaun eftir að starfsævi lýkur. Þannig er dregið úr líkum á því að þeir verði byrði á öðrum einstaklingum eða á sameiginlegum sjóðum ríkis eða sveitarfélaga í slíkum tilfellum. Á Íslandi er lagaleg skylda að greiða til lífeyrissjóðs, en hvort svo á að vera er pólitísk spurning og þetta er mismunandi frá einu landi til annars. Þrátt fyrir þessa skyldu er æskilegt að fólk spari einnig af sjálfsdáðum. Þar er viðbótarlífeyrissparnaður álitlegur kostur. 

    • Hvað þarf ég að borga mikið í lífeyrissjóð?

      Greiðsla til lífeyrissjóðs er kölluð iðgjald. Lágmarksiðgjald til skyldutryggingar er skv. lögum 12% af launum. Þar af greiðir launamaðurinn 4% af launum og launagreiðandinn 8% í mótframlag. Heimilt er að semja um hærra iðgjald til lífeyrissjóðs í ráðningarsamningi eða kjarasamningi, en skattafrádráttur launamanns miðast við lágmarksiðgjaldið (4%). Sumar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag en 8% frá launagreiðanda.

      Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa sjálfir að greiða bæði iðgjaldið og mótframlagið (4%+8%) til lífeyrissjóðs. 

      Vilji fólk tryggja sér frekari lífeyrisréttindi en skyldutryggingin veitir getur það bætt við sig réttindum með því að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði.

    • Hvað er mótframlag launagreiðenda?

      Samkvæmt lögum eru launamenn skyldugir að greiða að lágmarki 4% af launum í lífeyrissjóð. Framlag launamanns dregst frá launum hans. Launagreiðandinn (vinnuveitandinn) er jafnframt skyldugur að greiða að lágmarki 8% af launum viðkomandi launamanns (starfsmanns) til lífeyrissjóðsins, í nafni starfsmannsins. Iðgjaldið til lífeyrissjóðsins er því samtals að lágmarki 12% af launum og fer allt til að mynda lífeyrisréttindi launamannsins hjá lífeyrissjóðnum. Iðgjaldahluti launagreiðandans er kallað mótframlag. Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa sjálfir að greiða bæði iðgjaldið og mótframlagið (4%+8%) til lífeyrissjóðs.

      Sumar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag en 8% frá launagreiðanda. Starfsmenn sveitarfélaga fá t.d. greitt 11,5% mótframlag, sem tryggir viðbótar lífeyrisréttindi. Í kjarasamningi ASÍ og SA frá janúar 2016 var einnig samið um að framlag launagreiðanda skyldi hækkað í áföngum úr því að vera 8% árið 2015 í það að vera 11,5% árið 2018. 

    • Hvað er maður gamall þegar maður byrjar að greiða í lífeyrissjóð?

      Launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur skal hefja greiðslur til lífeyrissjóðs frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að hún eða hann hefur náð 16 ára aldri.

    • Hvað þarf ég að gera til að byrja að greiða í lífeyrissjóð?

      Vegna skyldutryggingarinnar þarf launamaður yfirleitt ekki að aðhafast neitt sérstaklega. Ein af skyldum launagreiðanda, vegna starfsmanna sinna, er að halda eftir iðgjaldi þeirra til lífeyrissjóðs og skila því til viðkomandi sjóðs ásamt mótframlagi launagreiðandans. Ef einstaklingur vill vera með viðbótarlífeyrissparnað þarf hins vegar að gera um það sérstakan samning við lífeyrissjóðinn, eða þann sem samið er um viðbótarlífeyrissparnað við. 

    • Af hvaða launum er greitt í lífeyrissjóð?

      Samkvæmt lögum skal greiða í lífeyrissjóð af öllum tegundum launa og þóknana fyrir störf sem eru skattskyld, þar með talið öllum kaupaukum, bónusum og afkastahvetjandi greiðslum. Ekki er þó greitt í lífeyrissjóð af hlunnindum sem ekki eru greidd í peningum, svo sem fatnaði, fæði og húsnæði eða greiðslum sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á kostnaði, t.d. ökutækjastyrkjum, dagpeningum eða fæðispeningum. Þær tekjur sem iðgjöld eru reiknuð af kallast iðgjaldsstofn.

    • Er líka borgað í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum eða sjúkradagpeningum?

      Lögin tiltaka að greitt skuli í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum, en ekki af bótum frá Tryggingastofnun ríkisins eða sjúkradagpeningum frá stéttarfélögum eða tryggingafélögum. 

    • Greiði ég skatt af iðgjöldum í lífeyrissjóð?

      Iðgjald til lífeyrissjóðs vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda er undanþegið tekjuskatti, þó að hámarki 4% af iðgjaldastofni (þ.e. þeim tekjum sem iðgjald er reiknað af). Iðgjaldið er því dregið frá tekjum áður en skattar eru reiknaðir. Sama á við um iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar, allt að 4% af iðgjaldastofni. Hér er þó aðeins um frestun á skattgreiðslum að ræða, en ekki endanlega undanþágu, þar sem tekjuskattur er greiddur af lífeyri þegar iðgjöldin og ávöxtun þeirra eru greidd til baka í formi lífeyris.  

    • Hver er munurinn á sameignarsjóði og séreignarsjóði?

      Sameignarsjóðir eru tryggingasjóðir. Þetta merkir að sjóðfélagar, sem greiða til sameignarsjóða, tryggja sig saman og ávinna sér réttindi í sjóðnum en ekki eign eða eignarhluta. Réttindin eru í formi trygginga, annars vegar eftirlauna og hins vegar áfallalífeyris. Réttindi sjóðfélaga í sameignarsjóði ráðast alfarið af því iðgjaldi sem greitt er til sjóðsins. Útgreiðslur til sjóðfélaga geta þó verið mjög mismiklar eftir því hvernig lífshlaup sjóðfélagans er. Þær geta þannig verið bæði meiri og minni en nemur greiðslum hans til sjóðsins. Þannig er líklegt að þeir sem verða fyrir því áfalli að missa starfsgetuna og fá greiddan örorkulífeyri fái mun meira greitt úr lífeyrissjóði en þeir greiddu til hans. Sama á við um þá sem verða mjög gamlir (mun eldri en meðalmaðurinn), þar sem eftirlaun úr slíkum sjóðum eru greidd á meðan sjóðfélaganum endist aldur. Þeir sem standa undir þessum „viðbótar“ greiðslum er þeir sjóðfélagar sem taka minna til sín en þeir greiddu inn. Þeir sem ekki verða öryrkjar eða verða skammlífari en meðalmaðurinn. Að þessu leyti virkar lífeyrissjóður eins og hverjar aðrar tryggingar. Réttindi í sameignarsjóði erfast ekki við fráfall sjóðfélagans.

      Í séreignarsjóði mynda iðgjöld sjóðfélagans (og mótframlag launagreiðandans) innistæðu sjóðfélagans hjá sjóðnum. Þessi innistæða og sú ávöxtun sem sjóðurinn nær á hana eru séreign sjóðfélagans og endurgreiðist til hans við úttekt. Sjóðfélaginn fær því hvorki meira né minna. Þegar inneignin er búin eru engar frekari greiðslur. Séreignin erfist við fráfall sjóðfélaga. Sjóðfélagar í séreignarsjóðum eru kallaðir rétthafar. 

    • Hver á lífeyrissjóðinn?

      Sameignarsjóður er eins og nafnið bendir til í sameiginlegri eigu sjóðfélaganna. Sameignar-lífeyrissjóður hefur enga aðra eigendur en sjóðfélagana og öll ávöxtun sjóðsins að frádregnum rekstrarkostnaði rennur til sjóðfélaganna. Sjóðfélagar eiga eignir sjóðsins sameiginlega og þær standa á bak við réttindi þeirra í sjóðnum og allar eignir sjóðsins eru endurgreiddar í formi lífeyris. Engar tekjur fara því í að greiða til „annarra“ eigenda líkt og arður sem greiddur er til hluthafa í hlutafélögum. Séreignarsjóður er líka í eigu sjóðfélaganna (rétthafanna) en þar eru eignirnar aðgreindar á sérreikningum hvers og eins sjóðfélaga, en ekki í sameiginlegri eigu. 

    • Get ég valið mér lífeyrissjóð?

      Ávinnsla réttinda í lífeyrissjóði er starfstengd réttindi sem samið er um í kjarasamningum. Til hvaða lífeyrissjóðs menn greiða fer því í flestum tilfellum eftir því á hvaða starfssviði þeir vinna og skal geta um lífeyrissjóð í skriflegum ráðningarsamningi. Í lögunum um lífeyrissjóði segir: „Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein eða sérlögum ef við á.“ Sumir geta þó valið um lífeyrissjóð eða eins og segir í lögunum: „Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs, eða ef kjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningi velur viðkomandi lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.“ Þetta á til að mynda við um alla sem stunda sjálfstæða starfsemi. 

    • Hverjir eiga aðild að Stapa lífeyrissjóði?

      Þeir sem starfa á samningssviði aðildarfélaga Stapa lífeyrissjóðs fá aðild að sjóðnum um leið og þeir hefja störf. Með samningssviði er átt við störf þar sem kjarasamningar sem þessi félög gera eru lágmarkskjör í þeim störfum. Þá eiga fjölmargir einstaklingar, sem geta valið um lífeyrissjóð, svo sem sjálfstætt starfandi einstaklingar, aðild að Stapa. 

    • Hvernig ávinnast lífeyrisréttindi í skyldutryggingu?

      Réttindakerfi Stapa lífeyrissjóðs byggir á því sem kallað hefur verið eignatengd réttindaávinnsla. Iðgjöld eru greidd til sjóðsins, þar sem þau eru ávöxtuð og mynda þá eign sem er í sjóðnum á hverjum tíma. Réttindin í sjóðnum byggja alfarið á þessum eignum. Þegar iðgjald er greitt til sjóðsins er því skipt, þannig að hluti þess fer til að tryggja eftirlaunaréttindi og hluti til áfallatrygginga. Skiptingin er háð aldri sjóðfélaga. Þeim hluta sem fer til eftirlauna er safnað í það sem kallað er iðgjaldasjóður, sem er sá sjóður sem stendur á bak við loforðið um greiðslu eftirlauna til sjóðfélagans á hverjum tíma. Iðgjaldasjóður hvers sjóðfélaga er ekki séreign, heldur reiknaður hluti af þeim eignum sem sameiginlega tryggja eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum. Iðgjaldasjóður erfist ekki við fráfall. Iðgjaldasjóðurinn byggist upp yfir starfsævina með greiðslu iðgjalda og ávöxtun. Ávöxtun sveiflast og er yfirleitt mismunandi frá ári til árs og breytast eftirlaunaréttindin í takti við breytingar á ávöxtun. Þegar sjóðfélagi hefur náð tilteknum aldri getur hann hafið töku eftirlauna. Hefðbundinn eftirlaunaaldur er 67 ára, en hægt er að hefja tökuna hvenær sem er eftir að sjóðfélagi er orðinn 60 ára eða fresta henni til allt að 75 ára aldurs, að vali sjóðfélagans. Eftirlaunin ráðast af stöðu iðgjaldasjóðs og aldri sjóðfélagans þegar hann ákveður að hefja töku eftirlauna. Þá er iðgjaldasjóði hans breytt í eftirlaun skv. ákveðinni töflu. Eftir að taka eftirlauna er hafin, eru þau greidd til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Auk eftirlauna ávinnur sjóðfélagi sér einnig rétt til áfallalífeyris, sem skiptist í endurhæfingar- og örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Eins og áður sagði fer hluti iðgjaldsins til að tryggja þessi réttindi. Skilyrði fyrir því að sjóðfélaginn eigi rétt á endurhæfingar- og örorkulífeyri er að hann hafi orðið fyrir áfalli sem skert hefur starfsgetu hans og hann orðið fyrir tekjutapi þess vegna. Endurhæfingar- og örorkulífeyrir er reiknaður út frá stöðu iðgjaldasjóðs sjóðfélagans á hverjum tíma. Auk þess getur sjóðfélaginn átt rétt til framreiknings sem veitir honum viðbótarréttindi. Maki látins sjóðfélaga á rétt á makalífeyri frá sjóðnum. Makalífeyrir er 50% af eftirlauna- eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélaga, eftir því hvort er hærra. Makalífeyrir er tímabundinn lífeyrir. Nánari reglur og skilyrði fyrir greiðslu einstakra lífeyristegunda er að finna í samþykktum sjóðsins.

    • Hver ber ábyrgð á að iðgjöldunum mínum sé skilað?

      Launagreiðanda er samkvæmt lögum skylt að halda eftir iðgjaldahluta launamanns og skila honum, ásamt mótframlagi launagreiðandans, til lífeyrissjóðsins. Launagreiðandi ber því ábyrgð á iðgjaldaskilum, en ekki launamaður. Sjálfstætt starfandi einstaklingar bera sjálfir ábyrgð á skilum á lífeyrisiðgjöldum, bæði vegna hluta launamanns (4%) og mótframlagi (11,5%). 

    • Hver hefur eftirlit með að iðgjöldum sé skilað?

      Lífeyrissjóðurinn hefur eftirlit með því að iðgjöldum sé skilað og ber ábyrgð á innheimtu þeirra. Þessi ábyrgð takmarkast þó við að sjóðnum sé kunnugt um hvaða iðgjöldum launagreiðanda bar að skila. Sjóðfélaginn hefur því sjálfur ákveðnar eftirlitsskyldur og á að gera sjóðnum viðvart ef iðgjaldaskil hafa ekki átt sér stað eða eru ekki með réttum hætti. Í þessu skyni sendir sjóðurinn yfirlit til sjóðfélaga tvisvar á ári, þar sem upplýst er hvaða iðgjöldum hefur verið skilað til sjóðsins hans vegna. Mikilvægt er að sjóðfélagi yfirfari þessar upplýsingar og geri sjóðnum viðvart, ef þær eru ekki réttar, að öðrum kosti getur hann misst réttindi. Hafi sjóðfélagi ekki gert athugasemdir við iðgjaldaskilin innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum sem iðgjöldin skapa að því marki sem þau fást greidd. Auk eftirlits sjóðsins með iðgjaldaskilum launagreiðenda hefur ríkisskattstjóri, lögum samkvæmt, einnig eftirlit með iðgjaldaskilum. Bæði launagreiðendum og einstaklingum er skylt að veita upplýsingar um iðgjaldaskil á skattframtölum. Þessar upplýsingar eru bornar saman við upplýsingar frá lífeyrissjóðum og ef fram kemur að iðgjöldum hefur ekki verið skilað, eða þau hafa verið minni en reglur segja til um, er mismunurinn innheimtur. 

    • Hvað gerist ef iðgjaldi er ekki skilað?

      Skili launagreiðandi ekki iðgjöldum á réttum tíma hefur sjóðurinn innheimtuaðgerðir til að fá iðgjöldin greidd. Í fyrstu er um viðvörunar- og ítrekunarbréf frá sjóðnum að ræða, en ef það dugar ekki til þá eru iðgjöldin send til lögfræðilegrar innheimtu. Lögfræðiinnheimtu getur lokið með aðför að fyrirtækinu og uppboði á eignum þess. Verði fyrirtækið gjaldþrota og getur ekki greitt, greiðir Ábyrgðarsjóður launa iðgjöldin, enda hafi innheimtunni verið sinnt með eðlilegum hætti. Við eðlilegar aðstæður á sjóðfélagi því ekki að tapa réttindum jafnvel þótt launagreiðandinn verði gjaldþrota. Ábyrgðarsjóður launa ber þó ekki ábyrgð á iðgjöldum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í gjaldþrota fyrirtækjum. Sama gildir, í vissum tilvikum, um iðgjöld nákominna skyldmenna þeirra. Lífeyrissjóðurinn ber ekki ábyrgð á iðgjöldum sem Ábyrgðarsjóður ábyrgist ekki og fáist þau ekki greidd falla öll réttindi vegna þeirra niður.

      Rétt er þó að hafa í huga að langflestir launagreiðendur sem greiða iðgjöld til sjóðsins gera það á réttum tíma og vanskil iðgjalda eru yfirleitt óveruleg. Venjulega lenda aðeins um 1-2% iðgjalda í vanskilum. Sömu reglur gilda um innheimtu iðgjalda í skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnað hjá sjóðnum. 

    • Hafa iðgjöldin skilað sér?

      Sjóðfélagayfirlit eru send út tvisvar á ári til virkra sjóðfélaga, þar sem gerð er grein fyrir iðgjaldaskilum. Sjóðfélagar geta óskað eftir aðgangi að sjóðfélagavef þar sem bæði er yfirlit yfir iðgjaldagreiðslur og áunnin réttindi. Hafi þeir aðgang að sjóðfélagavef geta þeir einnig fengið aðgang að lífeyrisgáttinni, sem er góð leið til að fylgjast með réttindum. Mikilvægt er að sjóðfélagar beri saman iðgjöld samkvæmt launaseðlum og yfirlit iðgjaldagreiðslna hjá Stapa svo að iðgjöld tapist ekki.

      Til þess að iðgjöld launamanns njóti ábyrgðar Ábyrgðarsjóðs launa við gjaldþrot launagreiðanda, skal launamaðurinn innan 60 daga frá dagsetningu útsendra yfirlita ganga úr skugga um skil vinnuveitanda til lífeyrissjóðsins. Ef upplýsingar um iðgjöld vantar á yfirlitið er mikilvægt að launamaður tilkynni það til lífeyrissjóðsins, með framlagningu launaseðla. Komi ekki fram athugasemd frá launamanni, er lífeyrissjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum sem þessi iðgjöld skapa, að því marki sem þau fást greidd.

      Vinsamlegast hafið samband við sjóðinn ef frekari upplýsinga er óskað.

    • Hvar fæ ég upplýsingar um til hvaða lífeyrissjóða ég hef greitt?

      Með innskráningu á sjóðfélagavef getur sjóðfélagi einnig fengið aðgang að lífeyrisgáttinni, þar sem hann fær upplýsingar um alla sjóði sem hann hefur greitt til sem og áunnin réttindi í hverjum þeirra.

    • Hvað er sjóðfélagavefur?

      Vefur sjóðfélaga er sérstakt lokað vefsvæði með upplýsingum um iðgjaldaskil og lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Hægt er að sækja inn á vefinn með rafrænum skilríkjum í síma eða íslykli. Á sjóðfélagavefnum fær viðkomandi sjóðfélagi upplýsingar um réttindi sín og iðgjaldaskil. Af sjóðfélagavefnum er síðan hægt að fara inn á lífeyrisgáttina, en þar eru upplýsingar um alla lífeyrissjóði sem viðkomandi hefur greitt til sem og upplýsingar um áunnin réttindi á hjá hverjum sjóði. 

    • Hvað er lífeyrisgátt?

      Lífeyrisgáttin er sameiginlegur vefur lífeyrissjóðanna á Íslandi, þar sem sérhver sjóðfélagi getur fengið upplýsingar um öll þau lífeyrisréttindi sem viðkomandi á í íslenskum lífeyrissjóðum. Lífeyrisgáttin veitir aðeins upplýsingar um réttindi í skyldutryggingu. Til að fá aðgang að lífeyrisgáttinni þurfa sjóðfélagar að fá aðgang að sjóðfélagavef hjá einhverjum þeirra sjóða sem þeir eiga réttindi hjá og þaðan geta þeir komist inn á lífeyrisgáttina. Lífeyrisgáttin er mjög mikilvægt tæki til að fylgjast með lífeyrisréttindum og til að koma í veg fyrir að lífeyrisréttindi glatist í kerfinu vegna vanþekkingar á því hvar menn eiga réttindi. Allir sjóðfélagar eru hvattir til að nýta sér lífeyrisgáttina til að fylgjast með réttindum sínum. Leiðbeiningar varðandi innskráningu má finna hér.

    • Get ég verið áfram í lífeyrissjóði ef ég er í fæðingarorlofi?

      Samkvæmt lögum (l. 55/1980) á félagi í lífeyrissjóði sem á rétt til töku fæðingarorlofs og hverfur þess vegna tímabundið úr starfi að hluta eða öllu leyti rétt á því að greiða áfram til lífeyrissjóðs, enda greiði hann þá sjálfur bæði eigin iðgjaldahluta og mótframlag launagreiðanda. Fái sjóðfélagi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á meðan á töku fæðingarorlofs stendur heldur Fæðingarorlofssjóður eftir iðgjaldahluta launamanns og skilar honum ásamt mótframlagi. Ef óskað er eftir því, skilar Fæðingarorlofssjóður framlagi launamanns til viðbótarlífeyrissparnaðar en greiðir ekki mótframlag. 

    • Hvaða áhrif hefur það á lífeyrisrétt minn ef ég skipti um sjóð?

      Það að skipta um sjóð hefur ekki áhrif á áunnin lífeyrisréttindi. Þau eru geymd með óbreyttum hætti í þeim lífeyrissjóði sem þú greiddir áður til. Þó ber að hafa í huga að ákveðin réttindi, svo sem réttindi til framreiknings, eru háð því að sjóðfélagi sé greiðandi til lífeyrissjóðs og hafi verið greiðandi í einhvern tíma. Slík skilyrði eru þó ekki vandamál þegar skipt er um lífeyrissjóði, þar sem sjóðum ber að líta til greiðslna til annarra lífeyrissjóða í slíkum tilfellum, samkvæmt samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða. Þessi réttindi falla þó niður ef ekki er greitt í neinn lífeyrissjóð í sex mánuði eða lengur.

    • Má flytja réttindi milli sjóða?

      Ekki er heimilt að flytja réttindi vegna skyldutryggingar á milli lífeyrissjóða. Þegar sjóðfélagi hættir að greiða til tiltekins lífeyrissjóðs og fer að greiða í annan sjóð, eru réttindin í fyrri sjóði geymd þar áfram og breytast ekki þótt sjóðfélaginn yfirgefi sjóðinn. Þegar sótt er um lífeyri, er eðlilegast að sótt sé um hjá þeim sjóði, sem viðkomandi sjóðfélagi greiddi síðast til. Sá sjóður sendir afrit af umsókninni til annarra sjóða sem viðkomandi hefur greitt til. Þannig eiga engin réttindi að tapast í lífeyrissjóðakerfinu þótt menn hafi greitt til margra sjóða. Mikilvægt er samt sem áður að brýna fyrir sjóðfélögum að fylgjast með þessu, en það geta þeir gert með aðgangi að lífeyrisgáttinni, þar sem er að finna upplýsingar um alla lífeyrissjóði sem viðkomandi hefur greitt til og hvaða réttindi hann á hjá hverjum og einum.

    • Erfist réttur minn til ævilangra eftirlauna?

      Eftirlaun eru greidd meðan sjóðfélaganum endist aldur. Þessi réttur erfist ekki. Hins vegar á maki sjóðfélaga rétt á makalífeyrisgreiðslum frá sjóðnum við fráfall sjóðfélagans. Eigi sjóðfélagi börn innan 18 ára aldurs við fráfallið er einnig greiddur barnalífeyrir vegna þeirra. 

    • Getur maki fengið hluta réttinda minna?

      Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna á milli sjóðfélagans og maka eins og tilgreint er í lögum og samþykktum sjóðsins. Þetta getur gerst með þrennum hætti:

      1. Að eftirlaunagreiðslum sem renna eiga til sjóðfélaga séu að hálfu látnar renna til maka. Falli sjóðfélagi frá fellur greiðsla eftirlauna niður, bæði til sjóðfélagans og maka. Falli maki frá renna allar eftirlaunagreiðslurnar eftir það til sjóðfélaga.
      2. Hægt er að skipta áunnum réttindum. Slíka skiptingu verður þó að ákveða eigi síðar en fyrir 65 ára aldur sjóðfélaga. Einnig er það skilyrði að ekki sé vitað til að sjúkdómar eða heilsufar hafi dregið úr lífslíkum sjóðfélaga. Hjón þurfa því að óska eftir yfirlýsingu heimilislæknis um heilsufar áður en skipting af þessu tagi er samþykkt.
      3. Einnig er hægt að skipta framtíðarréttindum þannig að þau eftirlaunaréttindi sem iðgjald sjóðfélagans skapa skuli að hálfu renna til maka.

      Skiptingin tekur eingöngu til eftirlaunaréttinda og myndar ekki réttindi til áfallalífeyris hjá maka. Á sama hátt breytast réttindi sjóðfélagans til áfallalífeyris ekki við þessa skiptingu. Skipting réttindanna er því aðeins heimil að hún feli í sér gangkvæma skiptingu á réttindum beggja aðila. Ekki er hægt að skipta aðeins réttindum annars aðilans. Hægt er að nálgast eyðublöð vegna skiptingar réttinda hér.

      Mikilvægt er að hjón geri sér grein fyrir því í hverju skipting af þessu tagi er fólgin, áður en hún er ákveðin, og hverjir eru helstu kostir hennar og gallar. Um það má lesa hér.

    • Borgar sig að láta skipta réttindum milli mín og maka?

      Heimilt er að skipta eftirlaunaréttindum milli hjóna. Hægt er að líta á skiptingu eftirlaunaréttinda með ýmsum hætti. Það má líta á hana út frá því sjónarmiði að eðlilegt sé að makar ávinni sér jafnan rétt til eftirlauna burtséð frá því hvernig þeir ákveða að skipta með sér verkum, t.d. vegna umönnunar barna og tekjuöflunar til heimilisins. Öflun eftirlauna sé þannig jafnréttis- eða sanngirnismál. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að skipting réttindanna er endanleg og hefur því áhrif á eftirlaunaréttindi hjóna til frambúðar. Ef eingöngu er litið á málið út frá fjárhagslegu sjónarmiði má segja að fjárhagslegur ávinningur sé af skiptingunni ef sá maki sem hefur lægri réttindi lifir maka sinn, en tap ef sá sem lakari réttindin hefur deyr á undan. 

    • Hvað er viðbótarlífeyrissparnaður?

      Samkvæmt lögum er launamönnum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi heimilt að leggja allt að 4% iðgjald af heildarlaunum sínum í viðbótarlífeyrissparnað. Iðgjaldið er dregið frá launum áður en tekjuskattur er greiddur, þannig að ekki greiðist af því tekjuskattur. Ákveði launamaður að greiða 2% eða meira af launum sínum í viðbótarlífeyrissparnað er launagreiðanda skylt að greiða 2% mótframlag inn á viðbótarlífeyrissparnað launamannsins. Viðbótarlífeyrissparnaður er þannig mjög hagstætt sparnaðarform, sem bæði felur í sér skattahagræði og viðbótarfjármuni frá launagreiðanda sem launamaður fær annars ekki. Viðbótarlífeyrissparnaður er yfirleitt í formi séreignar. Fræðast má nánar um hagkvæmni viðbótarlífeyrissparnaðar vefsíðu Stapa.

    • Hvernig get ég tekið þátt í starfsemi lífeyrissjóðsins?

      Ársfundir sjóðsins eru opnir öllum sjóðfélögum með málfrelsi og tillögurétti. Þú getur einnig átt kost á að komast í fulltrúaráð sjóðsins í gegnum stéttarfélagið þitt og fengið þannig fullan atkvæðisrétt.

    • Get ég boðið mig fram í stjórn lífeyrissjóðsins?

      Stjórn sjóðsins er kjörin á ársfundi hans. Allir geta boðið sig fram til stjórnar, sem uppfylla skilyrði laga (31. gr.). Auk þess að uppfylla skilyrði laga þurfa stjórnarmenn að standast hæfismat Fjármálaeftirlitsins. 

    • Fá erlendir ríkisborgarar endurgreidd iðgjöld sín til lífeyrissjóða?

      Lífeyrissjóðir hafa heimild til endurgreiðslu iðgjalda til erlendra ríkisborgara sem hafa verið í vinnu á Íslandi og greitt til íslenskra lífeyrissjóða, þegar þeir flytjast aftur af landi brott. Þessi heimild gildir ekki um ríkisborgara á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), Sviss, Kanada og Bandaríkjanna.*

      Þau lönd sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu eru EFTA-löndin: Ísland, Liechtenstein og Noregur, og Evrópusambandslöndin: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Írland, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lúxemborg, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

      Þeir erlendu ríkisborgarar sem eiga ríkisfang innan EES-svæðisins, Sviss, Bandaríkjanna og Bretlands eiga ekki rétt á endurgreiðslu iðgjalda.

      Stapi endurgreiðir iðgjöld sem uppfylla skilyrði um endurgreiðslu. Sækja þarf um endurgreiðsluna og sýna staðfestingu á flutningi frá Íslandi og að vinnusambandi hafi verið slitið ásamt vegabréfi. Ekki er endurgreitt ef viðkomandi fer aðeins tímabundið úr landi, en hyggst koma aftur til vinnu á Íslandi. 

      Ísland hefur gert milliríkjasamninga um almannatryggingar við mörg erlend ríki og tryggingastofnanir. Upplýsingar um réttindi við flutning á milli landa er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar.

      * Samningur um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkjanna tók gildi 1. mars 2019.
      * Breskir ríkisborgarar geta eingöngu fengið endurgreidd iðgjöld vegna janúar 2021 og síðar. Endurgreiðsla iðgjalda sem greidd voru fyrir janúar 2021 þegar Bretland var partur af Evrópusambandinu er ekki heimil.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Sjóðfélagayfirlit

    Útsending Stapa á sjóðfélagayfirliti þetta haustið er með breyttu sniði þar sem farið er yfir breytingar á réttindasjóð sem sjóðfélagi hefur safnað á tímabilinu. Þessi nýja sýn er afurð af breyttu réttindakerfi sem sjóðurinn tók upp um áramót.

    • Hver er ábyrgð sjóðfélaga ef iðgjöld skila sér ekki til sjóðsins?

      Ef upplýsingar um iðgjöld vantar á yfirlit er mikilvægt að launþegi tilkynni það til sjóðsins, með framlagningu launaseðla innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits, athugið að það er ekki óeðlilegt að á yfirlitið vanti tvo síðustu mánuði. Komi ekki fram athugasemd frá launþega, er lífeyrissjóðurinn einungis ábyrgur fyrir þeim réttindum sem koma fram á yfirlitinu. 

      Sjóðfélagar geta einnig fylgst með iðgjaldagreiðslum á sjóðfélagavef Stapa.

    • Hvað gerist ef iðgjaldi er ekki skilað?

      Skili launagreiðandi ekki iðgjöldum á réttum tíma hefur sjóðurinn innheimtuaðgerðir til að fá iðgjöldin greidd, ef sjóðurinn hefur fengið upplýsingar um iðgjöldin. Fyrst með ítrekunarbréfum og ef það skilar ekki árangri þá lögfræðiinnheimtu.

    • Eru sjóðfélagayfirlit eingöngu birt rafrænt?

      Meginreglan er sú að yfirlit eru birt undir skjöl á sjóðfélagavef.

      Sjóðfélagi sem vill fá yfirlit sent í bréfapósti getur gert það undir Mínar upplýsingar á sjóðfélagavef eða haft samband við Stapa. Taka þarf út hakið við Afþakka pappír.

      Það er auðvelt að fylgjast með áunnum réttindum með rafrænum hætti og hvetjum við sjóðfélaga til að hjálpa okkur að gera hlutina hagkvæmari og vistvænni. Öll sjóðfélagayfirlit eru ávallt aðgengileg undir Skjöl á sjóðfélagavef.

    • Fyrir hvað stendur prósentutalan fyrir aftan nafn launagreiðenda á yfirlitinu?

      Til einföldunar á yfirferð birtist hlutfallstala iðgjalds og mótframlags fyrir aftan nafn launagreiðenda. Ef grunur er um að  mótframlag sé ekki í samræmi við kjarasamning skal hafa samband við viðeigandi stéttarfélag vegna frekari upplýsinga.

    • Hvað er skilagrein?

      Skilagrein er listinn sem launagreiðandi sendir lífeyrissjóðnum fyrir hvern mánuð með sundurliðun á öllum iðgjöldum fyrir hvern launþega. Gjalddagi iðgjaldanna er svo 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi síðasti dagur sama mánaðar.

    • Hvað er réttindasjóður?

      Réttindasjóður eru uppsöfnuð iðgjöld sem þú hefur greitt til sjóðsins ásamt þeirri ávöxtun sem þau hafa fengið. Réttindasjóðurinn eru þeir fjármunir sem til eru í sjóðnum til að standa undir eftirlaunum þínum í framtíðinni. Hann mun halda áfram að vaxa með innborgun á iðgjöldum og ávöxtun.

    • Hvað eru iðgjaldahreyfingar?

      Iðgjaldahreyfingar  í töflunni „ Breytingar á réttindasjóði þínum“ er summa greiddra iðgjalda á tímabilinu að viðbættu mótframlagi frá launagreiðenda.  

    • Hvað er jöfnunariðgjald?

      Breytt var úr kerfi jafnrar réttindaávinnslu í aldurstengda árið 2005 hjá Lífeyrissjóði Austurlands og árið 2007 hjá Lífeyrissjóði Norðurlands. Í eldra kerfinu áunnu ungir sjóðfélagar sér sömu réttindi til eftirlauna og aldnir sjóðfélagar þrátt fyrir að þeirra inngreiðslur ættu eftir að ávaxtast lengur. Jöfnunariðgjald bætir sjóðfélögum upp þann mismun sem í kerfunum felst. 

    • Hvað er framreikningsiðgjald?

      Þegar sjóðfélaga er úrskurðaður örorkulífeyrir er oft áætlað hvaða iðgjöld viðkomandi hefði haldið áfram að greiða til sjóðsins, ef ekki hefði komið til orkutaps. Sú áætlun er nefnd framreikningur. Á meðan örorka varir reiknast framreikningsiðgjald, sbr. fyrrnefnda áætlun, sem bætist við réttindasjóðinn og veitir því rétt til eftirlauna. 

    • Hvað er ráðstöfun í tryggingavernd?

      Auk þess að mynda rétt til eftirlauna fer hluti iðgjalds sjóðfélaga til áfallatrygginga. Sá hluti iðgjaldsins fer ekki inn í réttindasjóðinn en myndar rétt sjóðfélaga til lífeyris við missi á starfsorku og maka og börnum rétt til lífeyris við fráfall sjóðfélaga.  

    • Hvað er ráðstöfun í starfsendurhæfingarsjóðs?

      0,20% af heildarlaunum greiðist í Virk starfsendurhæfingarsjóð, helmingur þess greiðist af framlagi í lífeyrissjóð og dregst því frá réttindasjóðnum. Virk Starfsendurhæfingarsjóður sinnir atvinnutengdri starfsendurhæfingu í samræmi við lög um slíkt. 

    • Hvað er úthlutun réttindasjóðs látinna?

      Í tryggingardeild Stapa er falin samtrygging þar sem segja má að eftirlifandi sjóðfélagar erfi þá sjóðfélaga sem falla frá ungir. Réttindasjóður þeirra sem falla frá áður en þeir hefja töku eftirlauna dreifist því á eftirlifandi sjóðfélaga og úthlutunin á yfirlitinu er vegna þeirra sjóðfélaga sem féllu frá á umræddu tímabili. 

    • Hvað þýðir „Flutningur í tilgreinda séreign“ á yfirlitinu mínu?

      Í samræmi við samning um tilgreinda séreign hefur hluti af iðgjöldum þínum í tryggingadeild verið fluttur í tilgreinda séreign og kemur þar fram í hreyfingum.

    • Hvað þýðir „Iðgjaldahreyfingar til/frá maka“ á yfirlitinu mínu?

      Þú og maki þinn hafið gert samning um skiptingu réttinda til eftirlauna. Í samræmi við samninginn er hluta af iðgjöldum þínum varið til hækkunar á réttindasjóði maka þíns. Iðgjöld maka þíns mynda á sama hátt eftirlaunaréttindi hjá þér, að hluta til.

    • Hvað þýðir „Mismunur vegna makasamninga“ á yfirlitinu mínu?

      Þú og maki þinn hafið gert samning um skiptingu áunninna réttinda til eftirlauna. Skilyrði fyrir slíkri skiptingu er að lífeyrissjóðurinn skuli vera jafnsettur fyrir og eftir skiptingu. Lífslíkur þínar og maka þíns eru ekki þær sömu skv. mati tryggingastærðfræðings sem lítur eingöngu á aldur og kyn. Jákvæður mismunur, þ.e. viðbót við réttindasjóðinn, reiknast vegna réttinda sem flutt eru til þess sem metinn er með lægri lífslíkur. Neikvæður mismunur, þ.e. lækkun á réttindasjóði, reiknast vegna réttinda sem flutt eru til þess aðila sem metinn er með hærri lífslíkur. 

    • Af hverju passar samtalan úr töflu að ofan ekki við iðgjaldahreyfingar í töflu „Breytingar á réttindasjóði þínum“ ?

      Ef einhverjar iðgjaldagreiðslur eru merktar „S“ þá þýðir það að skilagreinin hefur ekki verið greidd að fullu. Iðgjöld koma ekki inn í „Iðgjaldahreyfingar“ fyrr en þær hafa verið greiddar af launagreiðanda.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Launagreiðendur

    • Hvað er skyldutrygging lífeyrisréttinda?

      Samkvæmt íslenskum lögum eru allir starfandi menn skyldugir að greiða til lífeyrissjóðs til að tryggja sér lífeyrisréttindi. Þetta er kallað skyldutrygging lífeyrisréttinda. Lögin sem gilda um lífeyrissjóði eru kölluð „Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“ og eru nr. 129 frá 1997, en þar stendur í 1. gr.: „Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára aldri til 70 ára aldurs.“ Áður en það var gert að skyldu að allir starfandi menn skyldu tryggja sér lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði höfðu margar starfstéttir samið um það í kjarasamningum. Öflun lífeyrisréttinda hjá lífeyrissjóði eru því starfstengd réttindi og hluti kjara á vinnumarkaði, sem samið er um í kjarasamningum.

    • Hver er ábyrgð mín sem launagreiðanda gagnvart skilum á iðgjöldum til lífeyrissjóðs?

      Samkvæmt ákvæðum laga (7. gr.) er launagreiðanda skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launamanns og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Sams konar skylda hvílir á launagreiðanda að því er varðar innheimtu og skil á iðgjaldi til viðbótarlífeyrissparnaðar (séreignar). Þá ber launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum að tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóðum og vörsluaðilum lífeyrissparnaðar ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum. Rétt er að vekja athygli á því að gjöld til lífeyrissjóða eru vörslugjöld og geta stjórnendur fyrirtækja, þ.e. framkvæmdastjórar og stjórnarmenn, verið persónulega ábyrgir, ef ekki eru gerð skil á þessum gjöldum.

      Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu að tekjuári liðnu tilgreina á launamiðum eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar, samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (nr. 45/1987).

    • Hvaða iðgjald á að greiða til lífeyrissjóðs?

      Samkvæmt ákvæðum laga (2. gr.) er iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs vegna skyldutryggingar skal vera a.m.k. 12% af iðgjaldsstofni, þar af er hluti launamanns 4% og hluti launagreiðanda 8%. Margar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag launagreiðanda, þar sem mótframlagið er 11,5%. Iðgjald vegna viðbótarlífeyrissparnaðar er frjálst að vali launamanns og fer eftir samningi launamannsins við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Kjósi launamaður að leggja 2% af launum eða meira í viðbótarlífeyrissparnað er launagreiðandi skyldur að leggja 2% á móti. 

    • Hvenær á að gera skil á iðgjöldum til lífeyrissjóðs?

      Gjalddagi iðgjalda til lífeyrissjóðs er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Gjalddagi vegna launa fyrir júnímánuð er þannig 10. júlí og eindagi 31. júlí. 

    • Hvar finn ég greiðsluupplýsingar vegna greiðslu iðgjalda til Stapa?

      Iðgjöldum til Stapa lífeyrissjóðs á að skila inn á eftirfarandi reikning:

      Íslandsbanki, Akureyri: 0565-26-6969, kt. 601092-2559.

      Þetta á við um öll iðgjöld, þ.e. vegna skyldutryggingar, viðbótarlífeyrissparnaðar og starfsendurhæfingarsjóðs.

      Númer sjóða eru sem hér segir:

      L500, Stapi lífeyrissjóður, Tryggingadeild vegna skyldutryggingar

      X501, Stapi lífeyrissjóður, Séreignardeild vegna viðbótarlífeyrissparnaðar

      R500, Lögboðinn endurhæfingarsjóður sem skilað er með lífeyrissjóðsiðgjöldum. Stapi skilar iðgjöldunum áfram til VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs.

       

    • Hvernig fylgist ég með iðgjaldaskilum og stöðunni gagnvart lífeyrissjóðnum?

      Best er að fylgjast með iðgjaldaskilum og stöðu gagnvart lífeyrissjóðnum með aðgangi að launagreiðendavef sjóðsins. Þar er að finna upplýsingar um öll skil, bæði innsendar skilagreinar og greiðslur, greidda og ógreidda vexti, séu þeir fyrir hendi, og stöðuna gagnvart sjóðnum á hverjum tímapunkti. Upplýsingar um hvernig sótt er um aðgang að launagreiðendavef má sjá hér. Sjóðurinn sendir einnig út yfirlit til launagreiðenda tvisvar á ári, þar sem veittar eru upplýsingar um skil og stöðu gagnvart sjóðnum. Fyrri útsending fer út á tímabilinu mars-apríl, en sú síðar í september-október. Hægt er að fá þessi yfirlit í pappírslausum samskiptum.

    • Hvernig sæki ég um veflykil?

      Með því að fara inn á launagreiðendavefinn og í innskráning og þar er valið „Sækja um aðgang að vef“ og er veflykill þá sendur inn í netbanka viðkomandi fyrirtækis. Þar er hægt að nálgast hann undir „rafræn skjöl“ eða „netyfirlit“.

    • Á hverju byggir skylduaðild að lífeyrissjóðum?

      Skylduaðild að lífeyrissjóðum byggir á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129 frá 1997. –Í 1. gr. laganna segir að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sé rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. 

    • Hverjir eiga að greiða til Stapa lífeyrissjóðs?

      Ávinnsla réttinda í lífeyrissjóði eru starfstengd réttindi, sem samið er um í kjarasamningum. Til hvaða lífeyrissjóðs menn greiða fer því í flestum tilfellum eftir því á hvaða starfssviði þeir vinna og skal geta um lífeyrissjóð í skriflegum ráðningarsamningi. Í 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segir: „Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein eða sérlögum ef við á.“ Sumir geta þó valið um lífeyrissjóð eða eins og segir í lögunum: „Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs, eða ef kjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningi velur viðkomandi lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.“ Þeir sem starfa á samningssviði aðildarfélaga Stapa lífeyrissjóðs fá aðild að sjóðnum um leið og þeir hefja störf. Með samningssviði er átt við störf þar sem kjarasamningar sem þessi félög gera eru lágmarkskjör (lög nr. 55/1980) í viðkomandi störfum. Launagreiðanda ber í þeim tilvikum að skila iðgjöldum vegna þessara starfsmanna sinna til Stapa lífeyrissjóðs. Stapi lífeyrissjóður er skyldugur til að veita þessum launamönnum lífeyristryggingar, sem uppfylla lágmarkstryggingavernd skv. lögum. Á sama hátt eiga launamenn sem falla undir þessa kjarasamninga skylduaðild að Stapa lífeyrissjóði. Auk þeirra eiga fjölmargir einstaklingar, sem geta valið um lífeyrissjóð, svo sem sjálfstætt starfandi einstaklingar, aðild að Stapa lífeyrissjóði. Launamaður getur sjálfur valið um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar og þarf hann að gera sérstakan samning við vörsluaðilann um það efni. 

    • Hverjir geta valið um lífeyrissjóð?

      Þeir sem sinna störfum þar sem kjarasamningur tekur ekki til viðkomandi starfssviðs, eða ef kjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningi, þ.m.t. engar tengingar vegna launahækkana, orlofs, veikindaréttar eða neinna annarra kjaraatriða. Þetta á til að mynda við flesta þá sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þessir einstaklingar geta valið sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Launamaður getur sjálfur valið um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar og þarf hann að gera sérstakan samning við vörsluaðilann um það efni.

    • Af hvaða stofni er iðgjald reiknað?

      Samkvæmt lögum skal greiða í lífeyrissjóð af öllum tegundum launa og þóknana fyrir störf sem eru skattskyld, þar með talið öllum kaupaukum, bónusum og afkastahvetjandi greiðslum. Ekki er þó greitt í lífeyrissjóð af hlunnindum sem ekki eru greidd í peningum, svo sem fatnaði, fæði og húsnæði eða greiðslum sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á kostnaði, t.d. ökutækjastyrkjum, dagpeningum eða fæðispeningum. Þær tekjur sem iðgjöld eru reiknuð af kallast iðgjaldsstofn. Sjá nánar í 3. gr. laga nr.129/1997.

    • Hvenær á að byrja að skila iðgjaldi fyrir launamann og hvenær á að hætta því?

      Hefja á greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs mánuðinn eftir að viðkomandi einstaklingur verður 16 ára og þeim á að hætta mánuðinn eftir að viðkomandi einstaklingur verður 70 ára. 

    • Hvert er iðgjaldatímabilið ef launatímabil eru ekki mánuður?

      Iðgjaldagreiðslutímabil skal ekki vera lengra en mánuður, jafnvel þótt launagreiðslur séu sjaldnar en mánaðarlega. Ef launagreiðslur eru oftar en mánaðarlega, t.d. vikulega, skal mánaðarlegt uppgjör miðast við þær vikur, fjórar eða fimm, sem lýkur í mánuðinum. 

    • Hvaða reglur gilda um skil á iðgjöldum í viðbótarlífeyrissparnað?

      Sömu reglur gilda um skil á iðgjöldum í viðbótarlífeyrissparnað og vegna iðgjalda til skyldutryggingar, þ.e. gjalddagi er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi síðasti dagur þess mánaðar. Gjalddagi vegna launa fyrir júnímánuð er þannig 10. júlí og eindagi 31. júlí. 

    • Get ég sem launagreiðandi hafnað því að greiða viðbótarframlag með starfsmanni sem vill greiða í viðbótarlífeyrissparnað?

      Nei, samkvæmt ákvæðum kjarasamninga er launagreiðandi skyldugur að greiða 2% mótframlag með framlagi starfsmanns, enda leggi starfsmaðurinn fram a.m.k. 2% iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað. Ákvæði kjarasamninga eru lágmarkskjör samkvæmt lögum (55/1980) og því ekki undanþæg. 

    • Hvaða reglur gilda um iðgjaldaskil til Stapa lífeyrissjóðs?

      Gjalddagi iðgjalda til lífeyrissjóðs er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Gjalddagi vegna launa fyrir júnímánuð er þannig 10. júlí og eindagi 31. júlí. Sömu reglur gilda um skil á iðgjöldum til skyldutryggingar og til viðbótarlífeyrissparnaðar. Frekari upplýsingar um innheimtu iðgjalda hjá Stapa má finna hér.

    • Hvernig er eftirliti með iðgjaldaskilum háttað?

      Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjaldahluta launamanns og skila honum til lífeyrissjóðsins, ásamt eigin mótframlagi, innan þeirra tímamarka sem lög tilgreina. Lífeyrissjóðurinn hefur eftirlit með því að iðgjöldum til hans sé skilað á réttum tíma, enda sé honum kunnugt um að viðkomandi launagreiðanda beri að skila iðgjöldum. Fyrir utan eftirlit með þeim launagreiðendum sem greiða reglubundið til sjóðsins, fylgist sjóðurinn með þeim vinnuveitendum sem hefja starfsemi á starfssvæði hans og gerir þeim viðvart um skyldur sínar hafi þeir ekki hafið iðgjaldagreiðslur. Ekki er þó víst að sjóðurinn hafi í öllum tilfellum þessar upplýsingar. Þá fær sjóðurinn einatt ábendingar, bæði frá stéttarfélögum og einstaklingum vegna gruns um að ekki sé rétt staðið að iðgjaldaskilum, sem sjóðurinn bregst þá við. Hafi iðgjöldum ekki verið skilað 10-15 dögum eftir eindaga fer innheimtuferli í gang af sjóðsins hálfu. Auk þess venjubundna eftirlits sem sjóðurinn hefur skal ríkisskattstjóri, í samræmi við ákvæði laga (6. gr.), hafa eftirlit með því að réttu iðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda sé skila til lífeyrissjóða.

    • Hvað er launagreiðendavefur?

      Launagreiðendavefur er sérstakt vefsvæði sem launagreiðandi, sem skilar iðgjöldum til sjóðsins, getur fengið aðgang að. Á honum er hægt að fylgjast með skilum og stöðunni gagnvart sjóðnum. Þá er aðgangur nauðsynlegur til að hægt sé að skila til sjóðsins með rafrænum hætti og eiga pappírslaus samskipti. Til að fá aðgang að launagreiðendavef þarf launagreiðandi að fá veflykil eða nota rafræn skilríki. 

    • Hvað eru rafræn skil?

      Flest launakerfi bjóða núorðið upp á rafræn skil á skilagreinum til lífeyrissjóða. Skilagreinarnar eru þá sendar beint yfir vefinn til sjóðsins og ekki er þörf á neinum pappírssendingum eða tölvupóstum. Með skilum af þessu tagi eykst öryggi sendingarinnar verulega, auk þess sem í þessu felst bæði sparnaður og hagræði. Rafrænu upplýsingarnar eru lesnar beint inn í kerfi sjóðsins, þannig að sérstök skráning þarf ekki að fara fram, sem minnkar alla villuhættu. Upplýsingarnar eru dulkóðaðar áður en þær eru sendar, sem minnkar líkur á að einhver óviðkomandi fái að þeim aðgang, en rétt er að hafa í huga að skilagreinarnar innihalda viðkvæmar upplýsingar um þá einstaklinga sem þar eru. Rafræn skil eru að þessu leyti mun öruggari, en skil sem viðhengi með tölvupósti, faxi eða hefðbundnum póstsendingum. Þá er með rafrænum skilum hægt að fá kröfur beint í netbanka,  sem auðveldar greiðslur og eftirlit með því að þær séu framkvæmdar á réttum tíma. Til að nýta sér rafræn skil þarf launagreiðandinn að fá aðgang að launagreiðendavef sjóðsins. Til þess þarf hann að sækja um veflykil eða nýta sér rafræn skilríki ef þau eru fyrir hendi. 

    • Hvað geri ég ef ég hef gleymt veflyklinum?

      Þú ferð inn á launagreiðendavefinn og þar í „innskráningu“ og smellir á „Gleymdur veflykill“. Nýr veflykill er þá sendur í netbanka launagreiðandans. Þar er hægt að nálgast hann undir „rafræn skjöl“ eða „netyfirlit“.

    • Hvað eru pappírslaus samskipti við lífeyrissjóðinn?

      Launagreiðandi getur valið að hafa öll samskipti við lífeyrissjóðinn pappírslaus. Í þessu felst að launagreiðandinn skilar iðgjöldum rafrænt með aðgangi að launagreiðendavef sjóðsins og afþakkar pappír vegna launagreiðendayfirlita. Launagreiðendayfirlitin eru aðgengileg á launagreiðendavefnum, og launagreiðanda er gert viðvart þegar þau eru komin inn á vefinn.   

    • Hvernig fæ ég aðgang að launagreiðendavef með rafrænum skilríkjum?

      Þetta er hægt að gera með því að fara í „Aðgangsstýringar“ á launagreiðendavefnum. Þar getur launagreiðandinn sett inn kennitölu þess starfsmanns sem á að geta farið inn á launagreiðendavefinn fyrir hönd launagreiðandans. Það er gert með því að skrá í svæðið „Kennitölur sem hafa aðgang fyrir mig“ og vista breytingarnar. Viðkomandi einstaklingur þarf að hafa rafræn skilríki, en auk þess þarf hann að vera vefnotandi hjá sjóðnum. Ef hann er ekki vefnotandi þarf viðkomandi fyrst að sækja um aðgang að vef sjóðsins. Það er hægt með því að fara á launagreiðandavefinn [eða sjóðfélagavefinn] og fara í „Innskráningu“ og fá sendan veflykil. 

    • Hvernig fæ ég staðfestingu um að ég sé í skilum?

      Verktakar og aðilar í veitinga- og gistihúsarekstri geta þurft á því að halda að fá staðfestingu á að þeir hafi staðið í skilum með iðgjöld. Auk þess færist í vöxt að beðið er um slík gögn bæði í tengslum við áreiðanleikakannanir, svo sem við sölu fyrirtækja, þegar gerðir eru mikilvægir viðskiptasamningar og fleira þess háttar. Til að fá vottorð um skil, þarf að hafa samband við sjóðinn, annað hvort með tölvupósti í idgjold@stapi.is eða símleiðis í 460-4500 og sendir sjóðurinn þá vottorð um stöðu launagreiðandans um hæl. 

    • Hvernig er innheimtuferli iðgjalda hjá Stapa lífeyrissjóði?

      Gjalddagi iðgjalda til Stapa er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi síðast dagur sama mánaðar. Þannig er gjalddagi iðgjalda vegna júnílauna þann 10. júlí og eindagi 31. júlí. Hafi launagreiðandi ekki greitt innan þess tíma má hann eiga von á „Áminningarbréfi“ frá sjóðnum 10-15 dögum eftir eindaga. Sé ekki brugðist við því fylgir „Ítrekunarbréf“ um það bil 30 dögum síðar. Séu enn engin viðbrögð fylgir „Innheimtuviðvörun“ um það bil 30 dögum eftir að ítrekunarbréfið var sent. Í innheimtuviðvöruninni er launagreiðanda gert viðvart um alvarleika innheimtunnar og verði ekki við innheimtuviðvöruninni brugðist innan 10 virkra daga frá dagsetningu hennar fari skuldin til innheimtu hjá lögfræðingi.

      Sjóðurinn vill leggja áherslu á mikilvægi þess að launagreiðendur bregðist við innheimtubréfum frá sjóðnum, jafnvel þótt ekki sé hægt að greiða á því augnabliki, og leiti samninga um framhaldið. Þannig er hægt að komast hjá óþarfa innheimtukostnaði, sem hvorki er til hagsbóta fyrir launagreiðandann né lífeyrissjóðinn. 

    • Hvað er til ráða ef ég á í erfiðleikum með að standa skil á greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðsins?

      Hafðu samband við sjóðinn! Ef aðstæður launagreiðanda eru þannig að hann hefur ekki tök á að standa við greiðslu iðgjalda fyrir eindaga er mikilvægt að hafa samband og leita úrlausna með starfsmönnum sjóðsins. Sjóðurinn er yfirleitt reiðubúinn að leita samninga um hvernig hægt sé að haga greiðslum þannig að launagreiðandi komist aftur í skil. Æskilegt er að launagreiðandinn sé búinn að gera sér mynd að því hversu mikið hann getur greitt og hvenær. Sjóðurinn mun reyna að byggja greiðsludreifinguna á óskum launagreiðandans, sé þess nokkur kostur. Skilyrðið er að verið sé að vinna á vandanum en ekki auka hann. Með samningaleiðinni er hægt að komast hjá óþarfa innheimtukostnaði, sem getur verið verulegur ef ekki er brugðist við í tæka tíð. Samningar um greiðsludreifingu eru skriflegir og mikilvægt að við þá sé staðið.

    • Hvað gerist ef ég get ekki staðið við samning um iðgjaldagreiðslur, sem ég hef áður gert?

      Komi upp sú staða að launagreiðandi geti ekki staðið við samning um greiðsludreifingu vegna iðgjalda sem komin voru í vanskil, er mikilvægt að hafa samband. Mun sjóðurinn þá skoða, með launagreiðandanum, hvort hægt er að gera einhverjar þær breytingar á samningnum sem liðka fyrir, þannig að launagreiðandinn geti komið sér í skil. Það er þó áfram skilyrðið fyrir slíkum breytingum að verið sé að vinna á vandanum en ekki auka hann. Standi launagreiðandi ekki við samning um greiðsludreifingu og hafi ekki samband við sjóðinn við þær aðstæður er skuldin send í lögfræðiinnheimtu án frekari viðvarana frá sjóðnum. 

    • Er hægt að semja um dráttarvexti?

      Almennt er ekki hægt að semja um dráttarvexti. Dráttarvexti ber að greiða frá gjalddaga að telja hafi greiðsla ekki verið innt af hendi fyrir eindaga. Allir launagreiðendur sitja við sama borð gagnvart þessari reglu. Í undantekningartilvikum, þar sem greiðslusaga launagreiðanda er góð og augljóst þykir að greiðslufall hefur orðið vegna mistaka, kann að vera vikið frá þessari reglu. Líta má á það sem verðlaun fyrir sögulega skilvísi launagreiðandans

    • Hvað er RSK innheimta lífeyrissjóðsiðgjalda?

      Samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1997 skal ríkisskattstjóri hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Lífeyrissjóðum er, að tekjuári liðnu, skylt að veita ríkisskattstjóra upplýsingar um iðgjöld allra einstaklinga sem greitt hefur verið af í sjóðinn. Sömu kvaðir eru á vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar.

      Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu að tekjuári liðnu tilgreina á launamiðum þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar.

      Auk þessa er hverjum þeim einstaklingi, sem skylt er að eiga aðild að lífeyrissjóði, skylt að tilgreina á framtali sínu þau iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar, sem hann hefur greitt til.

      Ríkisskattstjóri keyrir saman þessar upplýsingar og kannar þar með hvort rétt iðgjöld hafi verið greidd. Sé munur á sendir hann skrá til lífeyrissjóðanna um þá aðila, þar sem iðgjöld eru vangreidd. Skráin er send til þess sjóðs sem tilgreindur er á framtali launamanns, eða skilagreinum launagreiðanda. Sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur er yfirlitið sent til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Viðkomandi lífeyrissjóði ber síðan að innheimta hin vangreiddu iðgjöld. Þessar upplýsingar berast frá ríkisskattstjóra til sjóðanna eftir álagningu gjalda vegna ársins á undan. Vanskilin geta því verið orðin meira en árs gömul þegar lífeyrissjóðurinn fær vitneskju um þau. Hin vangoldnu iðgjöld eru innheimt með fullum dráttarvöxtum. Því er mikilvægt, til að komast hjá óþarfa kostnaði, að réttum iðgjöldum sé skilað inn á réttum tíma. 

    • Þarf að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs vegna erlendra ríkisborgara?

      Já, það þarf að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð fyrir alla launamenn á aldrinum 16-70 ára sem starfa á Íslandi. Hins vegar kunna erlendir ríkisborgarar að eiga rétt til að fá iðgjöld sín endurgreidd þegar þeir láta af störfum og fara af landi brott. Slíkan endurgreiðslurétt eiga ríkisborgarar utan evrópska efnahagssvæðisins skv. ákveðnum reglum. 

    • Hvað er starfsendurhæfingarsjóður?

      Starfsendurhæfingarsjóður er sjóður sem sinnir atvinnutengdri starfsendurhæfingu í samræmi við lög um það efni. Slíkir sjóðir eru reknir með framlögum frá atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkinu. Aðeins einn sjóður sem byggir á lögunum er nú starfræktur, þ.e. VIRK, starfsendurhæfingarsjóður

    • Hvers vegna greiði ég iðgjald vegna starfsendurhæfingarsjóðs til lífeyrissjóðsins?

      Virk, starfsendurhæfingarsjóður hefur gert samninga við lífeyrissjóðina um innheimtu iðgjalda til sjóðsins. Flestir lífeyrissjóðir eiga aðild að því samstarfi. Iðgjald til starfsendurhæfingarsjóðs skal greitt í hverjum mánuði til þess lífeyrissjóðs sem lífeyrisiðgjald vegna launamanns eða þess er stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er greitt til. Lífeyrissjóður skal skila innheimtu iðgjaldi til starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðsins. Gjalddagar og eindagar á iðgjöldum launagreiðenda til starfsendurhæfingarsjóðs eru þeir sömu og á iðgjöldum til lífeyrissjóðs. 

    • Hvernig sækja menn um lífeyri?

      Upplýsingar um hvernig einstaklingar sækja um lífeyri frá lífeyrissjóði má finna hér.

    • Hverjir eru í stjórn lífeyrissjóðsins?

      Upplýsingar um hverjir eru í stjórn Stapa lífeyrissjóðs má finna hér.

    • Hvernig er valið í stjórn lífeyrissjóðsins?

      Stjórn Stapa lífeyrissjóðs er kjörin á ársfundi sjóðsins. Fulltrúar launagreiðenda í stjórn eru tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins, en fulltrúar launamanna eru valdir á ársfundinum. Nánari reglur má sjá í samþykktum sjóðsins. 

    • Get ég sem launagreiðandi tekið þátt í starfi lífeyrissjóðsins?

      Fulltrúar frá 50 stærstu iðgjaldagreiðendum til sjóðsins eiga sjálfkrafa rétt á setu í fulltrúaráði sjóðsins. Hægt er að fá upplýsingar hjá sjóðnum hvort þitt fyrirtæki er í þeim hópi. Hafir þú áhuga á að taka þátt í starfi lífeyrissjóðsins fyrir hönd launagreiðenda, annað hvort til að sitja í fulltrúaráði sjóðsins eða í stjórn hans eða varastjórn, er rétta leiðin að koma áhuga sínum á framfæri við Samtök atvinnulífsins, sem tilnefna fulltrúa launagreiðenda. Um þetta má fræðast nánar í samþykktum sjóðsins. 

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Iðgjöld og innheimta

    • Hvaða iðgjöld á að greiða í lífeyrissjóð?

      Samkvæmt ákvæðum laga (2. gr.) er iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs vegna skyldutryggingar skal vera a.m.k. 12% af iðgjaldsstofni, þar af er hluti launamanns 4% og hluti launagreiðanda 8%. Margar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag launagreiðanda, þar sem mótframlagið er 11,5%. Iðgjald vegna viðbótarlífeyrissparnaðar er frjálst, að vali launamanns, og fer eftir samningi launamannsins við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Kjósi launamaður að leggja 2% af launum eða meira í viðbótarlífeyrissparnað er launagreiðandi skyldur að leggja 2% á móti. 

    • Ég greiði alltaf kröfurnar í bankanum. Af hverju fæ ég þá innheimtubréf?

      Þetta kann að vera út af því að dráttarvextir reiknast ekki á kröfurnar í netbankanum og að allar greiðslur ráðstafast alltaf inn á elstu skuld. Dráttarvextir reiknast því ekki bara út frá einstaka skilagreinum heldur heildarskuld og þarf því að greiða með millifærslu.

    • Ég á í erfiðleikum með að greiða iðgjöldin, hvað er til ráða?

      Hafðu samband, annað hvort í tölvupósti, síma eða með heimsókn og við leitum úrlausna í sameiningu. Gott er að vera búin að gera sér einhverja mynd af því hvað þú getur greitt og hvenær. Við reynum að byggja greiðsludreifinguna á því ef þess er nokkur kostur. Það er þó há því að greiðsludreifingin leiði til þess að staðan fari batnandi og að þú komist í skil. Við hvetjum launagreiðendur til að semja við Stapa áður en skuldin er send lögfræðingi til innheimtu til að losna við óþarfa innheimtukostnað.

    • Ég er búin(n) að greiða síðasta mánuð fyrir eindaga en samt fæ ég innheimtubréf frá Stapa um að ég skuldi sjóðnum þann mánuð. Hvernig stendur á þessu?

      Allar greiðslur sem berast sjóðnum ráðstafast á elstu skuldir og vexti fyrst og því eru alltaf nýjustu tímabilin í vanskilum. Því getur verið að hluti síðustu greiðslu hafi farið upp í greiðslu dráttarvaxta vegna eldri skilagreina. Ef þig vantar betri sundurliðun þá er um að gera að kíkja á þetta á launagreiðendavefnum eða hafa samband og fá sent yfirlit.

    • Af hverju sendir sjóðurinn út innheimtubréf með áætlunum? Það hefur engin starfsemi verið hjá fyrirtækinu?

      Sé svo er nauðsynlegt að hafa samband við sjóðinn og við skráum þær upplýsingar í kerfið hjá okkur. Samkvæmt lögum ber launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum að tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóði ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi, þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum.

    • Er í lagi að senda skilagreinarnar um leið og ég greiði þær þó svo að þær séu greiddar eftir eindaga?

      Skilagreinum þarf alltaf að skila í hverjum mánuði. Það þarf að senda skilagreinar fyrir eindaga þó svo að greiðslan sé innt af hendi seinna. Innheimtubréfin gefa þá rétta mynd af skuldinni. Sjóðfélagar sækja margvíslega þjónustu til sjóðsins sem er byggð á því að upplýsingar um iðgjöldin séu til staðar. Réttindi vegna iðgjalda sem dregin hafa verið af sjóðfélaga en sjóðurinn hefur ekki fengið vitneskju um kunna að tapast, verði iðgjöldin ekki greidd.

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Um sjóðinn

    • Get ég mætt á ársfund Stapa lífeyrissjóðs?

      Já, ef þú ert sjóðfélagi. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti. Allir þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjöld til sjóðsins teljast sjóðfélagar. Sama gildir um þá sem njóta eftirlauna og örorkulífeyris frá sjóðnum. Þeir sem hafa verið kjörnir í fulltrúaráð sjóðsins fara með atkvæðisrétt á fundinum.

    • Hverjir eru í stjórn Stapa lífeyrissjóðs?

      Upplýsingar um stjórnarmenn í Stapa lífeyrissjóði má finna hér.

    • Hvernig er valið í stjórn Stapa lífeyrissjóðs?

      Stjórn Stapa lífeyrissjóðs er kjörin á ársfundi sjóðsins og er hún skipuð átta mönnum. Fjórir er kosnir af launamönnum og fjórir af vinnuveitendum. Kosning launamanna fer fram á ársfundinum, en kjör fulltrúa vinnuveitenda fer fram hjá Samtökum atvinnulífsins og er kynnt á ársfundi. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og er kosið um helming stjórnar á hverjum ársfundi

    • Hvar er Stapi með skrifstofur?

      Skrifstofur Stapa lífeyrssjóðs eru á Strandgötu 3, Akureyri og Bakkavegi 5, Neskaupstað.

    • Hver hefur eftirlit með lífeyrissjóðunum?

      Lífeyrissjóðir eru eftirlitsskyldir aðilar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en Fjármálaeftirlitið fer með framkvæmd þeirra laga og hefur því eftirlit með starfsemi sjóðanna. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst bæði í reglubundnu eftirliti, s.s. skoðunum á fjárfestingum og stjórnarháttum lífeyrissjóða, og einnig í vettvangskönnunum hjá sjóðunum. 

    • Þurfa lífeyrissjóðir starfsleyfi?

      Já, samkvæmt lögum (25. gr.) þurfa lífeyrissjóðir starfsleyfi, sem veitt er af fjármálaráðherra, enda uppfylli þeir skilyrði laganna. Lífeyrissjóðum sem fengið hafa starfsleyfi er skylt og einum heimilt að nota orðið „lífeyrissjóður“ í heiti sínu. Starfsleyfi Stapa lífeyrissjóðs má finna hér.

    • Gilda einhverjar hæfisreglur um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn hjá Stapa?

      Já, bæði framkvæmdastjóri og stjórnarmenn þurfa að standast hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu til að geta tekið að sér störf fyrir sjóðinn. Reglur um hæfismat má finna hér.

      Í lögum um lífeyrissjóði segir: „Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.“ Jafnframt segir að stjórnarmenn skuli búa yfir nægjanlegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gengt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt og menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra skuli vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. 

    • Gilda einhverjar kynjareglur um kjör fulltrúa í stjórn Stapa?

      Já, samkvæmt lögum þarf hlutfall hvors kyns um sig að vera a.m.k. 40% og gildir það bæði um aðal- og varamenn í stjórn

    • Hve lengi geta menn verið í stjórn Stapa?

      Samkvæmt samþykktum sjóðsins skulu stjórnarmenn ekki sitja lengur en átta ár samfleytt sem aðalmenn í stjórn sjóðsins. 

    • Eru stjórnarmenn Stapa bundnir trúnaði?

      Samkvæmt lögum (32. gr.) eru stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. 

    • Hvað er fulltrúaráð?

      Fulltrúaráð er skipað fulltrúum sem sérstaklega eru kjörnir til að sitja á ársfundi sjóðsins og hafa þar atkvæðisrétt. Fulltrúaráðið er að jöfnu skipað fulltrúum launamanna og atvinnurekenda. Fulltrúar launamanna og atvinnurekenda fara með helming atkvæða, hvorir um sig, á fundinum án tillits til fjölda fulltrúa á fundinum. Fulltrúaráðið starfar milli ársfunda og ef boðað er til aukafunda, þá gilda sömu reglur og á ársfundi um atkvæðarétt. 

    • Hverjir velja í fulltrúaráð?

      Fulltrúaráð er kjörið af aðildarfélögum sjóðsins. Fulltrúar launamanna eru kjörnir af þeim stéttarfélögum sem eiga aðild að sjóðnum og velja þau einn fulltrúa í ráðið fyrir hverja 200 félagsmenn. Fulltrúar atvinnurekenda eru þannig valdir að 50 stærstu fyrirtæki eða stofnanir með tilliti til iðgjaldagreiðslna af eigin starfsmönnum eiga sjálfkrafa rétt á fulltrúa í ráðinu. Samtök atvinnulífsins skulu svo tilnefna þá fulltrúa sem á vantar á jafna tölu launamanna og atvinnurekenda í ráðinu. Tilkynna skal um tilnefningu í fulltrúaráð 14 dögum fyrir ársfund og öðlast tilnefningin gildi við upphaf ársfundar og gildir fram að næsta ársfundi.  

    • Hvað er endurskoðunarnefnd?

      Samkvæmt lögum um ársreikninga skal starfa endurskoðunarnefnd við það sem kallað er einingar sem tengdar eru almannahagsmunum. Lífeyrissjóðir teljast til slíkra eininga. Meðlimir í endurskoðunarnefnd skulu vera óháðir endurskoðendum sjóðsins, þeir skulu hafa þekkingu og reynslu sem nýtast við störf nefndarinnar og a.m.k. einn þeirra skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar. Hlutverk nefndarinnar er:

      • eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila
      • eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðunar og áhættustýringar
      • eftirlit með endurskoðun ársreiknings
      • mat á óhæði endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis og mat á öðrum störfum þess fyrir sjóðinn
      • að setja fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki

      Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn sjóðsins. 

    • Hvernig er endurskoðunarnefnd Stapa valin?

      Endurskoðunarnefnd starfar hjá sjóðnum í samræmi við ákvæði laga nr. 3/2006. Nefndin er skipuð af stjórn sjóðsins og skal það gert á fyrsta stjórnarfundi eftir ársfund og gildir til næsta ársfundar. Nefndin skal skipuð þremur mönnum, skulu tveir þeirra vera stjórnarmenn í sjóðnum og einn utanaðkomandi. Stjórn sjóðsins skipar formann nefndarinnar. Nefndarmenn skulu vera óháðir endurskoðendum sjóðsins. Framkvæmdastjóri sjóðsins eða aðrir starfsmenn mega ekki eiga sæti í nefndinni. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar, ásamt því að hafa góða yfirsýn yfir rekstur sjóðsins. Að minnsta kosti einn nefndarmanna skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila og endurskoðunar. 

    • Hvað er tryggingafræðileg staða?

      Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs er niðurstaða úr tryggingafræðilegri úttekt og segir til um að hve miklu leyti eignir sjóðsins duga til að mæta skuldbindingum hans, þ.e. til að greiða út þau lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar eiga hjá sjóðnum.

    • Hvað er tryggingafræðileg úttekt?

      Tryggingafræðileg úttekt eða athugun er mat á stöðu sjóðsins og getu hans til að standa við skuldbindingar sínar, en skuldbindingar lífeyrissjóðs felast í þeim lífeyrisloforðum sem sjóðfélagar eiga hjá sjóðnum. Samkvæmt lögum (24. og 39. gr.) ber lífeyrissjóðum að láta fara fram tryggingafræðilega athugun eigi sjaldnar er árlega. Tryggingafræðileg úttekt skal fara fram í samræmi við ákvæði reglugerðar (391/1998) sem fjármálaráðherra hefur sett. Í athuguninni er annars vegar lagt mat á verðmæti eigna sjóðsins, eins og þær eru þegar matið fer fram og hins vegar lagt mat á verðmæti þeirra réttinda sem sjóðfélagar eiga í sjóðnum miðað við sama tíma, sem kallaðar eru skuldbindingar. Samanburður á þessum eignum og skuldbindingum er kölluð „áfallin staða“. Auk þessa er lagt mat á verðmæti þeirra iðgjalda sem greiðandi sjóðfélagar munu greiða þar til þeir fara á lífeyri og þau réttindi sem þessar framtíðargreiðslur munu skapa. Samanburðurinn á þessu tvennu er kölluð „framtíðarstaða“. Samanlögð áfallin staða og framtíðarstaða er kölluð heildarstaða, en yfirleitt er verið að vísa til heildarstöðu, þegar talað er um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðs. Verðmæti lífeyrissréttinda sjóðfélaga (skuldbindingar sjóðsins) eru metin út frá tryggingafræðilegum forsendum sem skilgreindar hafa verið til að nýta við slíkt mat. Tryggingafræðileg úttekt er framkvæmd af tryggingastærðfræðingi, sem fengið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs.

    • Hvað er tryggingastærðfræðingur?

      Tryggingastærðfræðingur er, eins og nafnið bendir til, einstaklingur sem lokið hefur stærðfræðinámi með tryggingastærðfræði sem sérgrein. Tryggingastærðfræði gengur út á að nýta stærðfræðilegar aðferðir við að meta skuldbindingar og áhættu af ýmsum toga, til að mynda skuldbindingar lífeyrissjóða og tryggingafélaga

    • Hvað eru tryggingafræðilegar forsendur?

      Tryggingafræðilegar forsendur eru annars vegar þær lýðfræðilegu forsendur, sem notaðar eru við að meta skuldbindingar lífeyrissjóðs, og að auki þeir reiknivextir sem notaðir eru við að meta framtíðar greiðsluflæði eigna og skuldbindinga. Þeir reiknivextir sem miðað er við eru ákveðnir í reglugerð.

    • Hvað eru lýðfræðilegar forsendur?

      Lýðfræðilegar forsendur eru tölfræðilegar líkur af ýmsu tagi, sem nýttar eru til að reikna út verðmæti lífeyrisréttinda, þ.e. hvað það muni kosta að greiða lífeyri til framtíðar litið, þegar tryggingafræðilegar úttektir eru gerðar. Þetta eru atriði, eins og lífs- og dánarlíkur, þ.m.t. hversu stórt hlutfall einstaklinga er líklegt að nái eftirlaunaaldri og hversu lengi þeir munu lifa eftir að þeim aldri er náð, hverjar líkur á örorku eru, giftingar- og skilnaðarlíkur, hve mörg börn fólk á að meðaltali o.þ.h. Þessar líkur eru reiknaðar út frá sögulegum gögnum og eru nýttar til að reikna út kostnað vegna lífeyrisgreiðslna í framtíðinni. Lýðfræðilegar forsendur breytast hægt, en þó hafa t.d. lífslíkur verið að aukast jafnt og þétt síðustu áratugina og margir reikna með að sú þróun haldi áfram. Þetta hefur augljóslega mikil áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða, enda þarf þá að greiða eftirlaun lengur, nema að taka lífeyris hefjist síðar en nú er miðað við. Þessi þróun hefur valdið því að nú er, auk þess að nota sögulegar líkur, farið að skoða framtíðarstöðu út frá spám um væntanlegar breytingar á ævilengd. 

    • Hvað þýðir gegnumstreymi og sjóðsöfnun þegar talað er um lífeyrismál?

      Hugtökin gegnumstreymi og sjóðsöfnun koma oft upp þegar talað er um lífeyrismál, enda lykilhugtök þegar horft er til uppbyggingar á lífeyriskerfum. Með kerfi sem byggir á gegnumstreymi er átt við kerfi þar sem lífeyrir dagsins í dag er greiddur með iðgjöldum eða sköttum dagsins í dag. Í kerfinu er ekki fólginn neinn sparnaður, fjármunirnir staldra stutt við og streyma í gegnum kerfið. Gegnumstreymiskerfi eru eins konar kynslóðasáttmáli. Þeir sem eru á vinnumarkaði greiða lífeyri foreldra sinna og treysta á að börnin muni greiða þeim lífeyri í fyllingu tímans. Kostir gegnumstreymiskerfa eru að þau eru yfirleitt einföld, enda krefjast þau lítillar eignaumsýslu. Einnig finnst sumum það kostur að auðvelt er að beita jöfnunaraðgerðum í slíkum kerfum, enda yfirleitt engin bein tengsl á milli inngreiðslna og útgreiðslna í kerfinu. Slík kerfi hafa einnig mikla galla. Til að þessi kerfi virki vel þurfa margir að vera greiðendur inn í kerfið samanborið við þá sem eru þiggjendur greiðslna út úr kerfinu. Með lengingu lífaldurs og fækkun barneigna hafa orðið miklar breytingar á aldurssamsetningu í þróuðum samfélögum. Hlutfall þeirra sem eru á vinnumarkaði hefur lækkað, en hlutfall þeirra sem eru á lífeyrisaldri hækkað. Þetta hefur valdið því að greiðslubyrði vinnandi manna vegna lífeyris hefur farið hratt vaxandi og leitt til mikilla vandamála. Við þessu hefur verið brugðist með lækkun réttinda og hækkun á þeim aldursmörkum þegar heimilt er að taka lífeyri. Aðgerðir sem þessar hafa oft mætt mikilli andspyrnu. Kerfi af þessum toga eru yfirleitt rekin af stjórnvöldum, sem hafa átt í erfiðleikum með að gera viðeigandi lagfæringar, og kerfin eru oft háð pólitískum duttlungum á hverjum tíma. Víða um lönd er unnið að því að loka eða draga verulega úr vægi gegnumstreymiskerfa. Almannatryggingakerfið íslenska er dæmi um gegnumstreymiskerfi.

      Sjóðsöfnunarkerfi byggja á hinn bóginn á sparnaði. Segja má að hver árgangur safni fyrir sínum eigin lífeyri með greiðslu iðgjalda sem safnað er í sjóð og hann ávaxtaður þar til hann kemur til greiðslu í formi lífeyris. Veruleg uppsöfnun á sér stað á meðan sjóðfélaginn er starfandi og síðan er sjóðurinn greiddur út smám saman þegar eftirlaunaaldri er náð. Þar sem kerfið byggir á sparnaði, sem safnað er í sjóð sem er til staðar þegar sjóðfélagi fer á eftirlaun, er það minna háð breytingum á aldurssamsetningu. Kerfi af þessu tagi eru flóknari en gegnumstreymiskerfi og krefjast mikillar eignaumsýslu. Einnig þarf að halda utan um réttindaskráningu yfir langan tíma, enda ráðast réttindi hvers sjóðfélaga að mestu leyti af inngreiðslum. Sparnaður í þessum kerfum er yfirleitt ávaxtaður á fjármálamörkuðum, sem geta verið sveiflukenndir, og endanlegur lífeyrir mun því ráðast af þeirri ávöxtun sem varð á starfsævi sjóðfélagans. Kerfi af þessu tagi eru hins vegar minna háð pólitískum duttlungum og þróunin undanfarna áratugi hefur verið sú að nota sjóðsöfnunarfyrirkomulagið frekar en gegnumstreymi. Almennu lífeyrissjóðirnir á Íslandi eru dæmi um sjóðsöfnunarkerfi.

      Þá eru einnig til kerfi sem eru blanda af hvoru tveggja, þ.e. gegnumstreymi að hluta og sjóðsöfnun að hluta. Segja má að opinberu lífeyrissjóðirnir á Íslandi, sem eru með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga, séu dæmi um slík kerfi. Þar dugir sparnaðurinn aðeins fyrir hluta eftirlaunanna, en að hluta til eru þau greidd með samtímasköttum. 

    • Hvað er jöfn réttindaávinnsla?

      Jöfn réttindaávinnsla var það kerfi sem var við lýði hjá flestum íslenskum lífeyrissjóðum, frá því þeir voru settir á stofn (flestir um 1970) og fram yfir síðustu aldamót. Jöfn ávinnsla þýðir að greiðandi fær sömu réttindi fyrir sama iðgjald, án tillits til aldurs greiðanda. Þannig skiptir ekki máli hvort viðkomandi er 20 ára eða 60 ára, iðgjald að sömu fjárhæð gefur sömu lífeyrisréttindi. Sjóðfélaginn fékk þannig réttindi eins og hann hafi skilað iðgjaldinu inn þegar hann var á „meðalstarfsaldri“ (rúmlega fertugur) og það síðan verið ávaxtað með 3,5% raunvöxtum fram að eftirlaunaaldri. Auga leið gefur að iðgjald er misverðmætt eftir því á hvaða aldri greiðandinn er. Iðgjald ungs greiðanda á eftir að ávaxtast í mörg ár áður en það kemur til greiðslu í formi lífeyris. Iðgjald eldri greiðanda, sem aðeins á stutt eftir til eftirlaunaáranna, er minna virði enda ávöxtunartími þess stuttur. Til að gefa hugmynd um þennan mun þá er iðgjald 20 ára einstaklings ríflega þrefalt verðmætara en 60 ára einstaklings, ef miðað er við 3,5% raunvexti.

      Í kerfi jafnrar ávinnslu var þannig í mörgum tilfellum mikill munur á verðmætum þeirra iðgjalda sem borguð voru inn í sjóðinn og verðmætum þeirra lífeyrisréttinda sem þau sköpuðu. Frá sjónarhóli sjóðfélagans má segja að hann hafi „tapað“ á því að greiða til sjóðsins framan af starfsævinni, en „grætt“ á seinni hluta starfsævinnar. Ef greitt er til kerfis með jafnri ávinnslu alla starfsævina mun það gefa sömu niðurstöðu og aldurstengt kerfi. Það sem sjóðfélaginn „tapar“ á fyrri hluta starfsævinnar vinnur hann upp á síðari hlutanum. „Tap“ hans og „gróði“ jafnast út. Þetta gildir þó aðeins ef sjóðfélagi hefur sömu tekjur alla starfsævina.

      Gallar þessa kerfis eru ýmsir, svo sem að tekjur fara yfirleitt vaxandi á starfævinni. Það kemur bæði til vegna þess að menn byrja starfsferil oft á hóflegum launum, sem síðan hækka með reynslu og ábyrgð, en einnig vegna þess að kaupmáttaraukning verður á tímanum. Því er hættan sú að menn „græði“ meira á seinni hlutanum en þeir „tapa“ á fyrri hlutanum, sem gengur ekki upp, þar sem einhver þarf að borga mismuninn. Sé þessi „einhver“ ekki til staðar býr þetta til innbyggðan halla á sjóðunum. Auk þess hefur aukið valfrelsi leitt til þess að fleiri geta þá valið aldurstengdan sjóð á fyrri hluta starfsævinnar og sjóð með jafna ávinnslu seinni hlutann, þar sem þeir væru að fá mun hærri réttindi en iðgjaldið stæði undir, án þess að hafa tekið það á sig með „tapinu“ á fyrri hluta starfsævinnar. Slíkt val mun einnig búa til halla. Af þessum ástæðum var ákveðið að leggja niður þetta réttindakerfi og taka upp aldurstengda ávinnslu réttinda. Til að koma til móts við þá sem höfðu á þeim tímapunkti tekið á sig „tapið“ á fyrri hluta starfsævinnar, en myndu í nýju kerfi ekki fá „gróðann“ var ákveðið að þessi skipti gengju yfir á nokkrum tíma og að þessir einstaklingar fengju blandaða ávinnslu. Það þýðir að þeir hafa áfram jafna ávinnslu miðað við ákveðið viðmiðunariðgjald, en að öðru leyti færðust allir yfir í kerfi aldurstengdrar ávinnslu.

    • Hvað er viðmiðunariðgjald?

      Vandinn við að skipta úr kerfi með jafna ávinnslu yfir í kerfi með aldurstengda ávinnslu er að á þeim tímapunkti, þegar skipt er, hefur yngra fólkið í sjóðnum  greitt um nokkurn tíma inn í kerfi með jafnri ávinnslu. Þetta fólk hefur fengið lægri lífeyrisréttindi en nemur verðmæti þeirra iðgjalda sem það hefur greitt. Þetta fólk er því búið að taka út „tapið“ í kerfi jafnrar ávinnslu ef svo má segja. Fái það ekki að halda áfram í jafnri ávinnslu mun það missa af því að „græða“ á seinni hluta starfsævinnar. Lífeyrisréttindi þessa hóps munu því verða lakari en ella hefði verið, þ.e. ef ekki hefði verið breytt um kerfi. Til að koma til móts við þessi sjónarmið var þessum hópi heimilað að halda áfram jafnri ávinnslu að vissu marki eftir að aldurstengt kerfi er tekið upp. Það er gert með þeim hætti að hverjum og einum er úthlutað svokölluðu viðmiðunariðgjaldi sem viðkomandi fær jafna ávinnslu á áfram. Þetta iðgjald er verðtryggt. Greiði viðkomandi hærra iðgjald en nemur þessu viðmiðunariðgjaldi (t.d. vegna þess að iðgjaldaprósenta hefur verið hækkuð eða laun hans hafa hækkað umfram verðlag) þá fer viðbótin í aldurstengda ávinnslu. Umræða um upptöku aldurstengds kerfis hófst á árinu 2004 og var því ákveðið að nota árið 2003 sem viðmiðunarár. Viðmiðunariðgjaldið tekur því mið af því iðgjaldi sem viðkomandi greiddi á því ári og þar með þeim launum sem hún eða hann hafði á því herrans ári 2003. Sjóðfélagi gat þó gert athugasemd við að það ár hafi ekki verið eðlilegt viðmið vegna sérstakra aðstæðna, s.s. vegna veikinda, náms, atvinnuleysis o.þ.h. og sótt um breytingar á viðmiðunariðgjaldi.

    • Hvað er jöfnunariðgjald?

      Þegar breytt var úr kerfi jafnrar réttindaávinnslu yfir í aldurstengda ávinnslu þá var ákveðið að sá hópur sem tapað hefði á slíkri breytingu fengi það bætt með því að fá áfram jafna ávinnslu upp að ákveðnu viðmiðunariðgjaldi. Í kerfi aldurstengdrar ávinnslu byggir réttindaávinnsla á því að sjóðfélagi fái fasta fyrirfram ákveðna ávöxtun á iðgjöldin (3,5% raunávöxtun) frá því að þau eru greidd inn þar til þau koma til endurgreiðslu í formi lífeyris. Þessu var breytt þegar tekin var upp eignatengd réttindaávinnsla. Í eingatengdri ávinnslu byggjast réttindin upp miðað við þá ávöxtun sem verður á eignum sjóðsins á hverjum tíma, en ekki á fyrirfram ákveðinni ávöxtun. Þessi breyting hefur það í för með sér að breyta varð því hvernig jöfn ávinnsla upp að viðmiðunariðgjaldi var framkvæmd, til að tryggja að þeir sem eiga rétt á slíkri ávinnslu búi við sömu ávöxtun og aðrir sjóðfélagar. Þetta var gert með því, að í stað fastrar ávinnslu sem byggist á fyrirframákveðinni ávöxtun, fær sjóðfélaginn aukalega iðgjald sem leggst við iðgjaldasjóð hans og ávaxtast með sama hætti og ávöxtun sjóðsins. Þetta iðgjald tekur mið af viðmiðunariðgjaldinu og kallað jöfnunariðgjald. Miðað við sömu ávöxtun (þ.e. 3,5% raunávöxtun) kemur sama niðurstaða út úr báðum aðferðum. Verði ávöxtun önnur mun verða munur á réttindaávinnslunni, með sama hætti og munurinn er milli aldurstengdrar ávinnslu og eignatengdrar ávinnslu. 

    • Hvað er aldurstengd réttindaávinnsla?

      Aldurstengd ávinnsla er réttindakerfi sem tók við af svokallaðri jafnri ávinnslu. Aldurstengd ávinnsla byggir á því að réttindi sem inngreitt iðgjald skapar eru háð aldri iðgjaldagreiðandans. Því yngri sem iðgjaldagreiðandinn er, þeim mun meiri réttindi skapar iðgjaldið. Þetta byggir á þeirri augljósu staðreynd að iðgjaldið er því verðmætara sem iðgjaldagreiðandinn er yngri og lengri tími líður frá því iðgjaldið er greitt og þar til það kemur til útborgunar í formi lífeyris. Ávöxtunartími iðgjaldsins ræður þannig þeim réttindum sem iðgjaldið veitir. Í aldurstengdri ávinnslu var inngreiddu iðgjaldi breytt í réttindi með ákveðinni töflu, sem sagði til um hversu mikil lífeyrisréttindi fengjust fyrir hvert 10.000 kr. inngreitt iðgjald miðað við aldur viðkomandi iðgjaldagreiðanda. Ein af meginforsendum fyrir töflunni var að innborgað iðgjald fengi 3,5% raunávöxtun frá því að það var greitt inn og þar til það kom til endurgreiðslu. Þótt aldurstengd réttindaávinnsla hafi augljóslega verið framför frá jafnri ávinnslu hefur hún engu að síður ákveðna galla, sem felast í því að réttindaávinnslan byggir á fyrirfram ákveðinni ávöxtun yfir heila starfsævi. Starfsævi er langur tími og ávöxtun eigna er sveiflukennd frá einum tíma til annars og kann að víkja verulega frá þeirri 3,5% raunávöxtun sem byggð er inn í kerfið. Þegar þessi frávik verða getur myndast mikill munur á eignum lífeyrissjóðs og verðmæti þeirra lífeyrisloforða, sem sjóðfélagar eiga hjá honum miðað við samþykktir sjóðsins. Þegar um er að ræða almenna lífeyrissjóði, sem ekki hafa ábyrgðaraðila, getur þetta skapað vandamál. Lög gera ráð fyrir að verði þessi munur of mikill eigi að jafna hann með aukningu eða skerðingu réttinda. Skerðing réttinda er aldrei vinsæl enda telur sjóðfélaginn sig „eiga“ þessi réttindi. Réttindin geta þó aldrei verið meiri en nemur eignum sjóðsins á hverjum tíma en tengingin þarna á milli er ekki sérlega sýnileg í augum sjóðfélagans enda breytast réttindin ekki í samræmi við ávöxtun eignanna, eins og áður sagði. Þótt sjóðfélaginn fái yfirlit um að hún eða hann eigi tiltekin réttindi, þá eru þau háð því að sjóðurinn nái ávöxtunarmarkmiðinu. Geri hann það ekki þarf að breyta réttindunum.

      Til að draga úr þessu vandamáli og auka jafnvægið milli eigna sjóðsins og verðmætis lífeyrisréttindanna á hverjum tíma tók Stapi lífeyrissjóður upp eignatengda réttindaávinnslu í stað aldurstengdrar ávinnslu. 

    • Hvað er eignatengd réttindaávinnsla?

      Eignatengd réttindaávinnsla byggir á því að lífeyrisréttindi byggist upp yfir tíma í samræmi við þá ávöxtun sem verður á eignum sjóðsins á hverjum tíma. Réttindi sem iðgjald skapar eru því ekki fyrirfram ákveðin við inngreiðslu iðgjaldsins eins og í jafnri eða aldurstengdri ávinnslu, heldur munu fara eftir þeirri ávöxtun sem næst á iðgjaldið frá því að það er borgað inn þar til það kemur til útborgunar í formi lífeyris. Þannig verða réttindin ekki endanlega ljós fyrr en kemur að lífeyristökunni, þótt óvissan um endanleg réttindi minnki sífellt eftir því sem nær lífeyristöku dregur. Í eignatengdri réttindaávinnslu er iðgjaldinu safnað í réttindasjóð, sem ávaxtast í samræmi við eignir sjóðsins. Réttindasjóði er svo breytt í verðtryggð ævilöng eftirlaun, þegar eftirlaunaaldri er náð. Samanborið við aldurstengda ávinnslu þá má gera ráð fyrir að meiri sveiflur verði á því tímabili sem réttindi eru að byggjast upp. Á móti kemur að eignir standa undir þeim réttindum sem sjóðfélagi er að ávinna sér og líkur á stórum skerðingum minnka, sem ekki er síst mikilvægt eftir að eftirlaunaaldri er náð og sjóðfélaginn þarf að lifa af sínum eftirlaunum. Tilgangurinn með því að taka upp eignatengda ávinnslu var þannig að auka jafnvægið milli eigna og skuldbindinga og um leið að gera það skiljanlegra fyrir sjóðfélaga, hvernig réttindi myndast

    • Hvað er blönduð ávinnsla?

      Það hefur verið kölluð blönduð ávinnsla þegar sjóðfélagar eru að ávinna sér réttindi eftir mismunandi ávinnslukerfum á sama tíma. Þetta á við um þá sem eiga rétt á jafnri ávinnslu upp að vissu marki um leið og þeir eru að öðru leyti að ávinna sér réttindi í aldurstengdri eða eignatengdri ávinnslu. 

    • Hvaða starfsfólk vinnur hjá Stapa lífeyrissjóði?

      Upplýsingar um hvaða starfsfólk vinnur hjá Stapa lífeyrissjóði má sjá hér.

    • Er starfsfólk Stapa bundið trúnaði?

      Já, starfsfólk Stapa undirritar sérstaka trúnaðaryfirlýsingu þegar það er ráðið til starfa hjá sjóðnum og er jafnframt bundið af siðareglum sjóðsins. Starfsfólk lífeyrissjóða meðhöndlar margvísleg gögn um einstaklinga, sem sum hver eru persónubundin og viðkvæm. Því er mikilvægt að trúnaðar sé gætt. Auk þess er rétt að benda á að samkvæmt lögum (32. gr.) eru stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. 

    • Hvar finn ég samþykktir Stapa lífeyrissjóðs?

      Samþykktir Stapa lífeyrissjóðs má finna hér.

    • Hvernig eru siðareglur Stapa lífeyrissjóðs?

      Siðareglur Stapa má finna hér.

    • Hvernig eru reglur Stapa lífeyrissjóðs um félagslega ábyrgar fjárfestingar?

      Stapi hefur mótað sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar, sem hefur það að markmiði að móta umgjörð fyrir aðgerðir sjóðsins á sviði umhverfis- og félagslegra málefna í og gagnvart þeim félögum sem hann fjárfestir í eða annast fjárfestingar fyrir hönd sjóðsins.sem er að finna hér.

    • Hver er eigendastefna Stapa lífeyrissjóðs?

      Hluthafastefna Stapa er hluti af stefnu sjóðsins um góða stjórnarhætti og ábyrgt fyrirsvar og henni skal fylgt af fagmennsku og nærgætni. Hún er notuð af fjárfestingateyminu til að meta stjórnarhætti fyrirtækja sem Stapi hefur fjárfest í eða hyggst fjárfesta og veita leiðsögn um þær kröfur sem Stapi gerir til þessara fyrirtækja. Hluthafastefnu Stapa má finna hér.

    • Hvaða lög og reglur gilda um starfsemi Stapa lífeyrissjóðs?

      Upplýsingar um regluverk Stapa má finna hér

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar

    Fjárfestingar

    • Hver tekur ákvarðanir um fjárfestingar?

      Fjárfestingarráð sjóðsins tekur ákvarðanir um fjárfestingar hans. Þær verða að vera innan heimilda samkvæmt lögum og fjárfestingarstefnu sjóðsins, sem stjórnin setur. Þá þurfa þær eftir atvikum að fá samþykki framkvæmdastjóra og stjórnar. Þá getur stjórn sjóðsins einnig átt frumkvæði að fjárfestingum. 

    • Hvernig er eftirliti með fjárfestingum háttað?

      Margháttað eftirlit er með fjárfestingum sjóðsins:

      • Fyrst ber að nefna stefnumótun - þ.e. fjárfestingarstefnu sjóðsins og áhættustefnu sjóðsins, þ.m.t. stefnur um fjárfestingar í einstökum eignasöfnum, þar sem skilgreind eru viðmið og ýmsir áhættuþættir. Þessi stefnumótun, ásamt verkferlum um hvernig unnið skuli að fjárfestingum og heimildum sem veittar eru til fjárfestingar mynda ramma um alla fjárfestingarstarfsemina. Meðlimir fjárfestingarráðs þurfa að fylgja þessum reglum við fjárfestingar og líta til áhættuþátta, bæði við ákvörðun um fjárfestingar og eftirlit með eignum í eignasafni sjóðsins.
      • Gerðar eru sérstakar áreiðanleikakannanir þegar fjárfest er í nýjum tegundum eigna, hjá nýjum eignastýrendum eða óskráðum eignum og kemur áhættustjóri að mati á áhættu í slíkum tilfellum. Fjárfestingarráð þarf að leita samþykkis hjá framkvæmdastjóra og eftir atvikum stjórn fyrir stærri ákvörðunum og fjárfestingum í óskráðum eignum, í samræmi við skjalfestar heimildir til fjárfestingar, sem taka til allra eignaflokka og eru mismunandi eftir eðli eignaflokks.
      • Fjárfestingarráð fundar mánaðarlega með framkvæmdastjóra og áhættustjóra, þar sem farið er yfir árangur, áhættu, stefnu og þau álitamál sem uppi kunna að vera. Fjárfestingarráð skilar mánaðarlegum ávöxtunarskýrslum til stjórnar, þar sem gerð er grein fyrir árangri eignasafnsins í heild sinni og sundurliðað niður á einstaka undirsöfn og eignaflokka. Ítarlegri skýrslum er skilað ársfjórðungslega.
      • Áhættustjóri, gerir sjálfstæðar athuganir með reglubundnum hætti. Áhættustjóri metur og gefur umsagnir um áhættuþætti viðkomandi fjárfestingar í áreiðanleikakönnunum, kannar sérstaklega skráningu markaðsgilda og athugar lækkanir á eignum sem orðið hafa umfram tiltekin mörk og ástæður þeirra og metur áreiðanleika fjárhagsupplýsinga frá sjóðnum. Áhættustjóri skilar mánaðarlegum áhættuskýrslum til stjórnar og ítarlegri áhættuskýrslum ársfjórðungslega. Þá fylgist áhættustjóri með því að fjárfestingar séu innan heimilda laga og fjárfestingarstefnu og skilar reglubundnum hlítingarskýrslum um það efni til stjórnar. Innri endurskoðandi gerir einnig reglubundið ýmsar kannanir á starfsemi sjóðsins og skilar um það skýrslum.
      • Unnin eru mánaðarleg uppgjör á rekstri og efnahag sjóðsins, sem lögð eru fyrir stjórn. Ítarlegra hálfsársuppgjör er unnið auk ársuppgjörs, sem ytri endurskoðandi sjóðsins endurskoðar. Sérstök endurskoðunarnefndstarfar hjá sjóðnum sem fer nánar yfir uppgjör með endurskoðendum og kannar áreiðanleika fjárhagsupplýsinga um starfsemi sjóðsins.
      • Þá eru reglubundnar skýrslur sendar Fjármálaeftirlitinu, þar sem einnig er kannað hvort sjóðurinn er innan heimilda og reglna í fjárfestingum. Auk þess sendir sjóðurinn mánaðarlega upplýsingar um fjárfestingar og efnahag til Seðlabanka Íslands
    • Hvernig er áhættu Stapa stýrt?

      Áhættu Stapa lífeyrissjóðs er stýrt með margvíslegum hætti. Eitt af hlutverkum stjórnar er að kynna sér og gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir starfsemi sjóðsins, þ.m.t. að móta stefnu um hvernig áhættu er stýrt og setja henni ásættanleg mörk. Stjórnin mótar áhættustefnu, þar sem helstu áhættur í starfsemi sjóðsins eru skilgreindar og skipulagt er hvernig eftirliti og stýringu er háttað. Hjá sjóðnum starfar áhættustjóri sem heyrir beint undir stjórn. Sjóðurinn setur sér töluleg markmið um áhættu við ávöxtun fjármuna og framkvæmdar eru reglulegar áhættumælingar. Ýmsir áhættuþættir í rekstri sjóðsins eru vaktaðir og hlíting við lög, reglur og tilmæli er könnuð reglulega. Reglubundnar skýrslur eru unnar fyrir stjórn og framkvæmdastjóra um áhættur í starfsemi sjóðsins og þróun þeirra. Þá hefur sjóðurinn sett sér ýmsar reglur um alla þætti starfseminnar og skilgreint verkferla til að tryggja, eins og frekast er kostur, að áhættutaka sé í samræmi við markmið og áhættu sé stýrt með fullnægjandi hætti. Mikilvægt er samt sem áður að hafa í huga að ófyrirsjáanlegir hlutir verða alltaf hluti af tilverunni, þannig að engin áhættustýring er fullkomin, í þeim skilningi að alltaf sé hægt að koma í veg fyrir áföll. Yfirlit yfir regluverk Stapa má sjá hér.

    • Hefur Stapi sett sér reglur um félagslega ábyrgar fjárfestingar?

      Já, Stapi hefur mótað sér stefnu um ábyrgðar fjárfestingar sem er að finna hér.

    • Í hverju mega lífeyrissjóðir fjárfesta?

      Starfsemi lífeyrissjóða byggist á lögum um lífeyrissjóði (nr. 129 frá 1997). Heimildir sjóðanna til fjárfestinga eru skilgreindar í 36. gr. laganna. Þar segir að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Þar er og að finna upplýsingar um þá eignaflokka sem þeim er heimilt að fjárfesta í og ýmsar takmarkanir sem settar eru á fjárfestingaheimildir þeirra. Þær taka bæði til tegunda verðbréfa, markaða, félagsforma og hlutfalla af ýmsu tagi. Auk þeirra skilyrða sem lög setja þá ber sjóðunum að móta fjárfestingarstefnu, þar sem stefna er mótuð og heimildir þeirra eru nánar skilgreindar. 

    • Hversu oft er fjárfestingarstefnan endurskoðuð?

      Fjárfestingarstefnan er endurskoðuð árlega og þarf endurskoðuninni að vera lokið fyrir lok nóvember fyrir komandi ár, en þá ber sjóðnum að skila inn endurskoðaðri stefnu til Fjármálaeftirlitsins. Stefnan kann að vera endurskoðuð oftar kalli aðstæður á mörkuðum eða lagabreytingar á slíka endurskoðun.

    • Hvað er fjárfestingarstefna?

      Lögum samkvæmt skal stjórn lífeyrissjóðs móta fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn. Fjárfestingarstefna er formlegt skjal, sem lýsir stefnu sjóðsins við fjárfestingar og ávöxtun fjár sjóðfélaga. Fjárfestingarstefna tekur til fjölmargra atriða sem hafa þarf í huga við fjárfestingar: Í hvaða eignaflokkum sjóðurinn fjárfestir og hvernig eignasöfn eru sett saman, m.a. með tilliti til líftíma, seljanleika, áhættudreifingar, mótaðilaháættu og fleiri þátta, innan hvaða vikmarka hann þarf að halda sig í hverjum og einum eignaflokki, hvaða viðmið eru notuð til að mæla árangur, hvaða lausafjárþarfir hann hefur til að mæta útgreiðslum, hvaða viðhorf hann hefur til ríkjandi markaðsaðstæðna og hvaða áhrif það hefur á eignasamsetningu, hver líkleg ávöxtun og áhætta verður miðað við gefnar forsendur og hvernig eftirfylgni og upplýsingagjöf er háttað. Fjárfestingarstefnan tekur bæði til sjóðsins í heild, en einnig til einstakra eignasafna og ávöxtunarleiða. 

    • Hvaða viðhorf hefur Stapi lífeyrissjóður til fjárfestinga?

      Viðhorfi Stapa til fjárfestinga er lýst þannig:

      „Sjóðurinn skal ávallt hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi við fjárfestingar. Sjóðurinn telur mikilvægt að beitt sé aga, varkárni og ráðdeildarsemi við fjárfestingar. Í fjárfestingum sínum reynir sjóðurinn að stjórna fjárhagsáhættu í starfsemi sinni með þeim hætti að takmarka tapsáhættu og miklar sveiflur í ávöxtun og forðast þannig stór töp sem langan tíma tekur að vinna upp. Sjóðurinn beitir virkri stýringu og leitast við að finna fjárfestingartækifæri þar sem hagnaðarvon er meiri og stöðugri en væntanlegt tap (ósamhverf afkoma) með það að markmiði að hámarka uppsöfnunaráhrif ávöxtunar til lengri tíma litið. Sjóðurinn er tilbúinn að fórna „mesta mögulega hagnaði“ til skemmri tíma litið, til að verjast stórum töpum. Töluleg viðmið eru skilgreind í fjárfestingarstefnu sjóðsins, en jafnframt er lögð áhersla á að starfsmenn sjóðsins séu meðvitaðir um alla helstu áhættuþætti í rekstri hans.

      Í fjárfestingum sínum tekur sjóðurinn mið af breytingum sem verða á þeim mörkuðum þar sem hann fjárfestir. Breytingar í fjárfestingaumhverfi eru, að mati sjóðsins, meginuppspretta áhættu um leið og þær gefa góða möguleika til ávöxtunar. Mikilvægt er að meta hvernig þessar breytingar hafa áhrif á eignaverð og afkomu einstakra eignaflokka, hvað veldur breytingunum og hvernig má nýta þær til að ná góðri ávöxtun til lengritíma litið og um leið verjast óþarfa áhættu. Aðlögun að breyttum aðstæðum og skilningur á breyttum væntingum um ávöxtun og mat á áhættu eru mikilvæg til að ná góðum langtímaárangri.“

    • Hvert er markmið fjárfestingarstefnu?

      Markmið sjóðsins er að ávaxta fjármuni sjóðfélaga eins vel og kostur er að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem sjóðurinn er tilbúinn að taka. Tilgangur fjárfestingarstefnunnar er að setja traustan ramma utan um þessi markmið, með því að lýsa með ítarlegum hætti ávöxtunar- og áhættumarkmiðum, skipulagi, starfsháttum, framkvæmd og eftirfylgni með fjárfestingum. 

    • Hvernig er fjárfestingarstefna mótuð?

      Fjárfestingarstefnan er mótuð af stjórn sjóðsins. Stefnan tekur mið af tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins, sem mótar áhættuþol hans. Áhættumarkmið eru skilgreind með tilliti til áhættuþols og fjárfestingarmarkmiðin byggja á þeim áhættumarkmiðum sem skilgreind hafa verið. Fjárfestingarmarkmiðin móta svo þá eignasamsetningu, sem stefnt er að þannig að hámarks ávöxtun náist miðað við vænta ávöxtun í einstökum eignaflokkum og þá áhættu sem tekin er. Stefnan þarf að uppfylla öll skilyrði og takmarkanir sem gilda um fjárfestingar lífeyrissjóða. 

      Vinna við endurskoðun á fjárfestingarstefnu hefst á haustmánuðum vegna komandi árs og þarf henni að vera lokið í lok nóvember. Við vinnuna eru bæði notuð söguleg gögn um ávöxtun og áhættu en einnig framtíðarhorfur í efnahagsmálum og á eignamörkuðum. Settar eru upp ýmsar sviðsmyndir um mögulegar útkomur miðað við mismunandi forsendur til að kanna hvaða áhrif þær hafa á afkomu sjóðsins og áhættutöku. Við slíka vinnu er þó mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fjármálamarkaðir hafa oft reynst óútreiknanlegir og breytingar á þeim ófyrirsjáanlegar og því er nauðsynlegt að í stefnunni sé ákveðinn sveigjanleiki og forsendur hennar séu í sífelldu endurmati.  

    • Hvernig er unnið að fjárfestingum hjá Stapa?

      Hjá Stapa starfar sérstakt fjárfestingarráð. Ráðið er skipað þremur einstaklingum, sem hafa háskólamenntun á sviði fjármála og mikla reynslu af fjármálamörkuðum og fjárfestingum. Þeir sinna eingöngu fjárfestingum fyrir sjóðinn og eftirliti með þeim. Eignasafni sjóðsins er skipt niður í undirsöfn og er sjóðsstjóri, sem er einn af ráðsmönnum, skipaður yfir hverju safni. Auk fjárfestingarstefnu sjóðsins í heild, er sett sérstök og nákvæm stefna fyrir hvert og eitt undirsafn. Settar eru nákvæmar reglur um þær fjárfestingarheimildir sem fjárfestingarráðsmenn hafa, hvenær þeir þurfa samþykki ráðsins og eftir atvikum framkvæmdastjóra og stjórnar. Heimildirnar eru mjög misjafnar eftir eignaflokkum, hvort um skráðar eða óskráðar eignir er að ræða o.s.frv. Hlutverk fjárfestingarráðs er að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Slíkar ákvarðanir fela í sér val um í hvaða tegundum eigna og í hvaða hlutföllum fjármunir sjóðsins eru ávaxtaðir á hverjum tíma. Allar fjárfestingar þurfa að fylgja skilgreindu fjárfestingarferli og vera innan marka laga og stefnu sjóðsins og viðkomandi eignasafns og þeirra áhættuviðmiða sem skilgreind hafa verið. Áhættustjóri hefur eftirlit með því að fjárfestingar séu innan settra marka og heimilda og kemur að mati á áhættu vegna einstakra fjárfestinga og áhættu sjóðsins í heild. Fjárfestingarráð veitir framkvæmdastjóra og stjórn upplýsingar með reglubundnum hætti. Formaður fjárfestingarráðs nefnist fjárfestingastjóri, en aðrir meðlimir ráðsins eru nefndir sjóðsstjórar. Fjárfestingarráð heyrir undir framkvæmdastjóra sjóðsins. 

    • Hvað eru eignaflokkar?

      Með eignaflokki er venjulega átt við safn verðbréfa og annarra fjármálagerninga sem hafa svipaða eiginleika, hegða sér með svipuðum hætti á mörkuðum og heyra undir sömu lög og reglur. Eðli undirliggjandi eigna, þ.m.t. sú áhætta sem þeim er samfara, hefur oft mikið að segja um hvernig eignir eru flokkaðar og hvaða reglur gilda um þær. Er þar vísað til atriða eins og hver uppruni þeirra er, hvort og með hvaða hætti þær mynda tekjur, hvaða tryggingar þær veita eigandanum og jafnvel hver seljanleiki þeirra er. Stærstu eignaflokkarnir eru hlutabréf, skuldabréf og lausafé. Þessir meginflokkar skiptast svo í marga undirflokka. Þannig skiptast skuldabréf í ríkisskuldabréf, veðskuldabréf, skuldabréf fyrirtækja o.s.frv. Til viðbótar við þessa meginflokka eru fasteignir og hrávörur yfirleitt taldar til sérstakra eignaflokka. Stundum eru svokallaðar „sérhæfðar fjárfestingar“ (e. alternative investments) taldar sérstakur eignaflokkur. Undir þennan flokk falla ýmsar ólíkar tegundir fjárfestinga, sem eiga það sameiginlegt að nýta sérhæfðar aðferðir við fjárfestingar, fremur en að um sérstakan eignaflokk sé að ræða. Engu að síður eru þær oft flokkaðar sérstaklega í eignasöfnum sjóða. Hér má sjá upplýsingar um eignasamsetningu Stapa lífeyrissjóðs. 

    • Hvað er viðmiðunarvísitala og hver er tilgangur hennar?

      Margs konar vísitölur eru reiknaðar út til að mæla verðbreytingar á eignum, svo sem hlutabréfa- og skuldabréfavísitölur. Slíkum vísitölum er yfirleitt ætlað að gefa upplýsingar um verðbreytingar á tilteknum eignaflokki á tilteknum markaði. Mikill fjöldi slíkra vísitalna er til og mæla þær ólíkar tegundir eigna og mismunandi markaði. Þar sem að vísitölur gefa upplýsingar um markaðsávöxtun eru þær oft notaðar til að meta fjárfestingaárangur. Þegar sagt er að eignastýrandi nái betri eða lakari árangri en markaðurinn er verið að bera árangur hans saman við vísitölu sem mælir þann markað sem hann hefur verið að fjárfesta á. Stapi lífeyrissjóður nýtir vísitölur til að meta eigin árangur við fjárfestingar og er viðmiðunarvísitala fyrir sjóðinn ákveðin í fjárfestingarstefnu hans. Þar sem Stapi fjárfestir í mörgum tegundum eigna er viðmiðunarvístalan sem hann notar samsett úr mörgum vísitölum sem mæla þessa mismunandi eignaflokka. Yfirleitt er talsverður munur á undirliggjandi eignum hjá Stapa og þeim eignum sem viðkomandi vísitölur mæla. Því þarf að leggja mat á þetta misræmi og áhrif óskráðra eigna á afkomuna. Engu að síður er viðmiðunarvísitala mikilvæg og árangur sjóðsins er borinn saman við hana. Þótt um sé að ræða gróft viðmið gefur niðurstaðan vísbendingar um árangur, sérstaklega þegar litið er til lengri tíma. Auk viðmiðunarvísitölu fyrir sjóðinn í heild eru einnig skilgreindar sérstakar viðmiðunarvísitölur fyrir einstök eignasöfn, sem mæla árangur hjá hverju og einu safni. 

    • Hvaða áhrif hefur ávöxtun á lífeyrinn minn?

      Ávöxtun hefur mikil áhrif á lífeyrisrétt þinn. Sérstök eignavísitala er reiknuð út í hverjum mánuði, sem mælir ávöxtun á eignum sjóðsins. Iðgjaldasjóðurinn þinn er tengdur þessari vísitölu, þannig að eftirlaunaréttindi þín breytast í takt við ávöxtun sjóðsins. Þar sem að réttindi til áfallalífeyris eru reiknuð út frá iðgjaldasjóði, hefur ávöxtunin sjálfkrafa áhrif á áfallalífeyrinn, þótt þar komi fleiri atriði til. 

    • Hvað eru kennitölur?

      Í ársreikningum sjóðsins er að finna ýmsar kennitölur úr rekstri hans. Þeim er ætlað að gefa lesandanum fljótlegt yfirlit yfir ýmsa þætti sem lúta að afkomu sjóðsins, efnahag og starfsemi. Með samanburði á kennitölum, á milli ára og yfir lengra tímabil, fæst gott yfirlit yfir þróun sjóðsins. Ársreikninga sjóðsins má finna hér

    • Hvað er fjárfestingaráð?

      Hjá Stapa starfar sérstakt fjárfestingaráð. Ráðið er skipað þremur einstaklingum, sem hafa háskólamenntun á svið fjármála og mikla reynslu af fjármálamörkuðum og fjárfestingum. Þeir sinna eingöngu fjárfestingum fyrir sjóðinn og eftirliti með þeim. Eignasafni sjóðsins er skipt niður í undirsöfn og er sjóðsstjóri, sem er einn af ráðsmönnum, skipaður yfir hverju safni. Auk fjárfestingarstefnu sjóðsins í heild er sett sérstök og nákvæm stefna fyrir hvert og eitt undirsafn. Settar eru nákvæmar reglur um þær fjárfestingarheimildir sem fjárfestingarráðsmenn hafa, hvenær þeir þurfa samþykki ráðsins og eftir atvikum framkvæmdastjóra og stjórnar. Heimildirnar eru mjög misjafnar eftir eignaflokkum, hvort um skráðar eða óskráðar eignir er að ræða o.s.frv. Hlutverk fjárfestingarráðs er að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Slíkar ákvarðanir fela í sér val um í hvaða tegundum eigna og í hvaða hlutföllum fjármunir sjóðsins eru ávaxtaðir á hverjum tíma. Allar fjárfestingar þurfa að fylgja skilgreindu fjárfestingarferli og vera innan marka laga og stefnu sjóðsins og viðkomandi eignasafns og þeirra áhættuviðmiða sem skilgreind hafa verið. Áhættustjóri hefur eftirlit með því að fjárfestingar séu innan settra marka og heimilda og kemur að mati á áhættu vegna einstakra fjárfestinga og áhættu sjóðsins í heild. Fjárfestingarráð veitir framkvæmdastjóra og stjórn upplýsingar með reglubundnum hætti. Formaður fjárfestingarráðs nefnist fjárfestingarstjóri, en aðrir meðlimir ráðsins eru nefndir sjóðsstjórar. Fjárfestingarráð heyrir undir framkvæmdastjóra sjóðsins.

    • Hvað er áhættustýring?

      Í áhættustefnu sjóðsins er áhætta skilgreind sem „hættan á atburði sem eykur marktækt líkurnar á því að sjóðurinn nái ekki markmiðum sínum til lengri eða skemmri tíma“. Þar er átt við atburði sem hafa skaðleg áhrif á afkomuna, til að mynda þegar eignir tapast eða verulegar lækkanir verða á eignaverði, sem geta rýrt réttindi sjóðfélaga.

      Áhætta felst í því að jafnan ríkir umtalsverð óvissa um framtíðina. Þetta á við um fjármálamarkaði og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir að öllum fjárfestingum fylgir áhætta. Til að sjóðurinn nái ávöxtunarmarkmiðum sínum þarf hann að taka áhættu. Áhættustýring felst í því að takmarka og stýra áhættunni þannig að hún verði innan þeirra marka sem stefnt er að. Þannig eru sjóðnum sett áhættumarkmið og skilgreindar eru heimildir og eftirlitsaðgerðir sem ætlað er að tryggja, eins og kostur er, að áhættan í rekstri sjóðsins sé innan samþykktra marka og farið sé að réttum lögum og reglum. Þetta er m.a. gert með því að hafa fjölbreytt eignasafn, þar sem áhættunni er dreift á marga eignaflokka. Eignaflokkar eru mis áhættusamir, en vænt ávöxtun þeirra er einnig mismunandi.  

      Rétt er að hafa í huga að áhættu verður aldrei stýrt með fullkomnum hætti. Efnahagsþróun, þ.m.t. þróun eignaverðs á fjármálamörkuðum og breytingar á umhverfi, t.d. laga- og stjórnmálaumhverfi, er alltaf að talsverðu leyti óútreiknanleg og ófyrirsjáanleg.

      Áhættustýring felst í því að hafa til staðar skipulag og verkferla þar sem reynt er að bera kennsl á áhættu eins fljótt og kostur er, meta hana, hafa eftirlit með henni og eftir atvikum að takamarka hana og verja eftir því sem það er talið skynsamlegt og svara kostnaði. Markmið áhættustýringar er að hámarka líkurnar á því að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar, stuðla að árangri og skilvirkni í starfsemi hans, tryggja áreiðanleika fjárhagsupplýsinga og hlítingu við lög og reglur.

      Samband er á milli áhættu og ávöxtunar og ef of lítil áhætta er tekin, er líklegt að ávöxtunin verði einnig lítil, sem eykur hættuna á að sjóðurinn nái ekki ávöxtunarmarkmiðum sínum og lífeyrir verði lægri en stefnt er að. Því er áhættustýring ákveðin jafnvægislist milli þess að nýta áhugaverð fjárfestingartækifæri þar sem vænt ávöxtun er góð og þess að meta áhættuna og dreifa henni nægjanlega til að óvæntir og skaðlegir atburðir hafi ekki of mikil áhrif á afkomuna í heild. 

    • Hvað er áhættustefna?

      Í áhættustefnu er að finna yfirlit yfir helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins. Fjallað er um skipulag og framkvæmd áhættustýringar. Sett er fram áhættuskrá þar sem mikilvægi áhættuþátta er metið ásamt því að tilgreint er hvernig fylgst er með tilteknum áhættuþáttum, með könnunum og skýrslum sem skila ber um það efni. Þar er að finna áhættudagskrá sem tilgreinir hvenær og hversu oft tilteknir eftirlitsþættir eru framkvæmdir. Úrdrátt um helstu atriði áhættustefnu má finna hér.

    • Hvað er áhættuáætlun?

      Áhættuáætlun eða áhættumarkmið er hluti fjárfestingarstefnu. Í henni eru sett fram töluleg markmið um áhættu og hvernig heimiluð áhættutaka er nýtt við samsetningu eigna. Áhættumarkmiðið setur þannig mögulegri eignasamsetningu takmörk.

      Áhættumarkmiðið tekur mið af því hversu mikið áhættuþol sjóðurinn er talinn hafa. Áhættuþolið tekur mið af tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins og byggir á því að líkurnar á því að til réttindaskerðingar komi séu innan ásættanlegra marka.

    • Af hverju er verið að taka áhættu við fjárfestingar?

      Engin fjárfesting er áhættulaus. Bankar og jafnvel ríkissjóðir geta farið í þrot. Því er í raun ekkert til sem heitir áhættulaus fjárfesting. Áhættan felst í því að framtíðin er óviss. Mismunandi eignaflokkar bera hins vegar með sér mis mikla áhættu. Það er samband á milli ávöxtunar og áhættu. Þetta samband er bæði flókið og síbreytilegt. Almennt aukast líkurnar á góðri ávöxtun ef áhættutaka er aukin. Hér skiptir þó miklu máli til hvaða tíma er horft. Þannig eru hlutabréf að jafnaði talin gefa betri ávöxtun en skuldabréf. Áhætta hlutabréfa er líka mun meiri. Þar geta verðlækkanir orðið mjög miklar á skömmum tíma og sagan geymir dæmi um meira en áratugar löng tímabil þar sem ávöxtun hlutabréfa hefur verið slök og skuldabréf hafa gefið mun betur af sér. Því eru hlutabréf mjög áhættusöm þegar horft er til skamms tíma. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að aukin áhættutaka er aðeins verðlaunuð upp að vissu marki. Of mikil áhættutaka skilar aðeins óhóflegu tapi. Flestir vilja því taka „hæfilega“ áhættu og ekki meiri en þarf til að ná settu ávöxtunarmarkmiði. Vegna þess að framtíðin er óviss er aldrei hægt að segja nákvæmlega til um hvað „hæfileg áhætta“ er, en með skipulagðri áhættustýringu er hægt að auka líkurnar á að sjóðurinn nái markmiðum sínum. Ef of lítil áhætta er tekin, er líklegt að ávöxtunin verði einnig lítil, sem eykur hættuna á að sjóðurinn nái ekki ávöxtunarmarkmiðum sínum og lífeyririnn í framtíðinni verði minni en að var stefnt. 

    • Hvað er áhættudreifing?

      Eignir og eignaflokkar bera með sér mismikla áhættu. Þeir sveiflast mis mikið í verði og sumar eignir hafa tilhneigingu til að hækka þegar aðrar eignir lækka o.s.frv. Til eru greinargóðar upplýsingar um fylgni milli einstakra eignaflokka. Hafa þarf í huga að mælingar á fylgni eru byggðar á sögulegum tölum. Hún er sjaldnast stöðug og er auk þess breytileg eftir markaðsaðstæðum. Þrátt fyrir þetta er það staðreynd að ná má fram lægri áhættu í eignasafni, með því að blanda saman ólíkum eignaflokkum. Eignasafnið í heild sveiflast þá minna en hver eignaflokkur fyrir sig. Það er þessi áhættuminnkun, sem næst með því að blanda ólíkum eignaflokkum eða verðbréfum saman í eignasafn, sem kallað er áhættudreifing. 

    • Hverjar eru helstu áhætturnar í rekstri lífeyrissjóðs?

      Skipta má áhættunni sem felst í rekstri lífeyrissjóðs niður í marga þætti. Almennur lífeyrissjóður, eins og Stapi, er ekki með ábyrgðaraðila sem tryggir þau lífeyrisréttindi sem eru í sjóðnum. Lífeyrisréttindi í Stapa eru eingöngu tryggð með þeim eignum sem eru í sjóðnum á hverjum tíma og allar eignirnar fara til greiðslu lífeyris. Lífeyrissjóðurinn „sjálfur“ á því engar eignir heldur eru þær allar sameiginleg eign sjóðfélaga. Þegar talað er um áhættu lífeyrissjóðsins, er því verið að tala um áhættu sjóðfélaganna, sem eiga lífeyrisréttindi hjá sjóðnum. Flokka má stærstu áhættur í rekstri lífeyrissjóðs á eftirfarandi hátt:

      • Lífeyristryggingaráhætta, sem er hættan á því að eignir sjóðsins dugi ekki fyrir skuldbindingum (þ.e. lífeyrisloforðunum sem sjóðfélagar eiga hjá sjóðnum) og því þurfi að skerða réttindi. Hér má nefna þætti eins hættu á réttindaskerðingu, áhættu á að skil á iðgjöldum til sjóðsins séu ófullnægjandi, áhættu vegna breytinga á lýðfræðilegum þáttum, s.s. eins og lífs- og dánarlíkum og örorkulíkum o.fl.
      • Fjárhagsleg áhætta, sem fyrst og fremst er fólgin í markaðsáhættu, þ.e. hættunni á tapi vegna lækkana á markaðsvirði á eignum sjóðsins. Hér má nefna áhættu vegna breytinga á markaðsverði, áhættu vegna breytinga á vöxtum og endurfjárfestingaráhættu sem af því leiðir, gjaldmiðlaáhættu, verðbólguáhættu o.fl.
      • Mótaðilaáhætta, sem er hættan á að mótaðilar (eins og skuldarar) eða milliliðir í viðskiptum standi ekki í skilum eða hæfni þeirra til að standa við skuldbindingar sínar versni verulega. Hér má nefna þætti eins og áhættu vegna útlána, samþjöppunaráhættu, þ.e. hættuna á því að afkoma eins aðila eða tengdra aðila hafi of mikil áhrif á sjóðinn eða að atburðir á ákveðnu svæði, landi eða markaði hafi of mikil áhrif og uppgjörsáhættu, þ.e. að tap verði við uppgjör viðskipta eða afhendingu verðbréfa vegna þess að milliliður verður ófær um að standa við sínar skuldbindingar o.fl.
      • Rekstraráhætta, sem lýtur fyrst og fremst að starfsemi sjóðsins sjálfs, þ.e. hættunni á tjóni sem rekja má til ófullnægjandi eða ónothæfra innri verkferla, upplýsingakerfa, starfsmanna eða ytri atburða. Hér má nefna þætti eins og áhættu vegna sviksemi, starfsmannaáhættu, orðsporsáhættu, áhættu vegna ófullnægjandi upplýsingakerfa, áhættu vegna úthýsingar, pólitíska áhættu, s.s. vegna breytinga á lögum og reglum o.fl.
    • Hvað er áhættustjóri?

      Hjá sjóðnum starfar áhættustjóri, sem heyrir beint undir framkvæmdastjóra og hefur milliliðalausan aðgang að stjórn.

      Helstu verkefni áhættustjóra eru:

      • Yfirumsjón með mótun áhættustefnu og gerð áhættuáætlunar í samráði við framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og fjárfestingarráð. Áhættustefna og áhættuáætlun skal lögð fyrir stjórn til samþykktar.
      • Umsjón með allri áhættustýringu og innra eftirliti hjá sjóðnum, þ.m.t. áhættuflokkun og skipulagi áhættustýringar. Áhættustjóri skal sjá til þess að stjórn sjóðsins og endurskoðunarnefnd hafi sem bestar upplýsingar um alla áhættustýringu og áhættustig, m.v. stefnu og samþykkt verklag.
        • Eftirlit með að skýrsluskil og upplýsingagjöf til stjórnar og opinberra aðila sé tímanleg og með réttum hætti. Sjá um gerð áhættumælinga- og hlítingarskýrslna og aðra upplýsingagjöf til stjórnar um áhættu og eftirlit með henni. Sjá um samskipti við endurskoðunarnefnd og innri endurskoðanda og aðstoðar þessa aðila í störfum þeirra.
        • Að skipuleggja og viðhalda áhættustýringarkerfum, mæla og fylgjast með áhættu og gera tillögur að breytingum eftir því sem tilefni eru til. Þetta felur m.a. í sér að koma upp viðeigandi úrræðum, líkönum og eftirlitsaðgerðum og sjá um virkni þeirra og viðhald.
          • Sjá um áhættuskrá og áhættudagatal, að þau séu uppfærð með reglubundnum hætti og að unnið sé í samræmi við efni þeirra. 
          • Fylgjast með markaðsáhættu, hafa eftirlit með kostgæfniathugunum, stærri fjárfestingarákvörðunum, skráningu viðskipta og upplýsingum um viðskipti, uppfærslu á vísitölum í gagnagrunnum og fylgjast með gengis- og verðskráningum í kerfum.
          • Sjá um að fylgt sé reglum um aðgreiningu starfa, aðgangi að kerfum, reglum um lykilorð, frávikaskrár og að verkferlar séu til staðar og þeir reglulega uppfærðir.
    • Hver ákveður hvort fulltrúi frá Stapa tekur sæti í stjórnum?

      Ef Stapi á þess kost að tilnefna stjórnarmann í félagi eða mann í fjárfestingarráð hjá sjóði, eða falast er eftir manni frá Stapa vegna slíkra starfa, er það stjórn sjóðsins sem ákveður hvort og hvaða aðili er tilnefndur fyrir sjóðinn. Starfsmenn Stapa, sem sitja í stjórnum eða ráðum, fá ekki greidd stjórnar- eða ráðslaun fyrir setuna, heldur renna slík laun, séu þau greidd, til Stapa.

    • Hvað er endurskoðunarnefnd?

      Samkvæmt lögum um ársreikninga skal starfa endurskoðunarnefnd við það sem kallað er einingar sem tengdar eru almannahagsmunum. Lífeyrissjóðir teljast til slíkra eininga. Meðlimir í endurskoðunarnefnd skulu vera óháðir endurskoðendum sjóðsins, þeir skulu hafa þekkingu og reynslu sem nýtast við störf nefndarinnar og a.m.k. einn þeirra skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar. Hlutverk nefndarinnar er:

      • eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila
      • eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðunar og áhættustýringar
      • eftirlit með endurskoðun ársreiknings
      • mat á óhæði endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis og mat á öðrum störfum þess fyrir sjóðinn
      • að setja fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki

      Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn sjóðsins. 

    Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar