VI. kafli

Iðgjöld og grundvöllur lífeyrisréttinda  

16. Iðgjöld
  16.1  Iðgjald til tryggingadeildar lífeyrissjóðsins skal vera að lágmarki 15,5% nema ef kveðið er á um annað í kjarasamningi. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldastofni umfram 12% í tilgreinda séreignardeild sbr. D-kafla samþykkta þessara, enda sé mælt fyrir um slíkt í kjara- eða ráðningarsamningi. Komi ekki fram ósk frá sjóðfélaga um að framlagi umfram 12% sé ráðstafað í tilgreinda séreign skal því ráðstafað til tryggingadeildar. Iðgjald skal greitt af launum sjóðfélaga 16 til 70 ára, sem tilgreind eru í greinum 16.2. eða 16.3., og mynda þau rétt til tryggingarverndar samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Sjóðfélaga er heimilt að hækka iðgjald til tryggingarverndar frá því sem kjara- eða ráðningarsamningur segir til um, umfram ofangreint lágmark enda sé gerður um það sérstakur skriflegur samningur á milli sjóðfélaga og lífeyrissjóðsins.
  16.2  Lágmarksiðgjald samkvæmt 16.1 skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1.tl. A-liðar 7.gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnaði, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrk, dagpeninga og fæðispeninga. Ennfremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Nú eru laun greidd vikulega, og skal þá mánaðarlegt uppgjör miðast við þær vikur, fjórar eða fimm, sem lýkur í mánuðinum.
  16.3  Iðgjaldastofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2.mgr. 1.tölul. A-liðar 7.gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 58.gr. þeirra laga.
  16.4  Launagreiðanda ber að halda eftir að lágmarki 4% iðgjöldum, sbr. 16.1, af launum starfsmanna sinna og standa sjóðnum skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan þess mánaðar, skal innheimta vanskilavexti frá gjalddaga að telja skv. lögum nr. 38/2001. Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna lífeyrissjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar hafa látið af störfum. Launagreiðendur og sjálfstæðir atvinnurekendur skulu senda skilagrein með iðgjaldinu þar sem m.a. koma fram iðgjaldshlutföll og iðgjöld hvers aðila samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi ásamt því iðgjaldshlutfalli og iðgjaldi sem skal renna til samtryggingar. Lífeyrissjóðurinn setur og gefur út reglur um form skilagreinarinnar.
  16.5  Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.
  16.6  Iðgjöld sjóðfélaga, sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil, sbr. 16.7 og 16.9. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda, sem glatast við gjaldþrot, og Ábyrgðarsjóður launa ber ekki ábyrgð á skv. 10. gr. laga nr. 88/2003.
  16.7  Tvisvar á ári skal senda sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Sjóðnum er heimilt að skila yfirlitum með rafrænum hætti til sjóðfélaga nema þeir óski sérstaklega eftir þeim á pappírsformi. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Samhliða yfirliti þessu skal eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri.
  16.8  Senda skal lokaaðvörun til launagreiðenda, ef iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum hans hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga. Formlega innheimtu skal hefja innan 15 daga frá útsendingu lokaaðvörunar eða fyrr sé rökstudd ástæða til að ætla að iðgjaldskrafa sé ótrygg.
  16.9  Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagreinar launagreiðanda. Heimilt er lífeyrissjóði að byggja innheimtuaðgerðir á áætlunum um ógreidd iðgjöld, enda hafi hlutaðeigandi launagreiðandi ekki skilað inn skilagreinum til sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil.
  16.10  Öllum innborgunum launagreiðenda, hvort heldur sem þær berast með nýrri skilagrein eða öðrum hætti, skal ráðstafa til greiðslu elstu ógreiddra iðgjalda og vanskilavaxta launagreiðanda og mynda réttindi samkvæmt því. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessari reglu í því tilfelli þegar hafin hefur verið formleg innheimta iðgjalda í vanskilum fyrir ákveðið tímabil og fullnægjandi trygging hefur fengist fyrir greiðslu iðgjalda, vanskilavaxta og innheimtukostnaðar vegna þess tímabils. Ennfremur ef lög kveða á um annað samanber meðferð mála á greiðslustöðvunartímabili launagreiðanda. Skilagrein telst ógreidd þar til innborgun nægir til fullrar greiðslu skilagreinarinnar og áfallinna vanskilavaxta á hana.
  16.11  Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að iðgjöld samkvæmt 16.1 skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans, sbr. 20.6. Þessari skiptingu skal hætt að ósk sjóðfélaga, enda framvísi hann skilríkjum um að fjárfélagi hans og maka hans hafi verið slitið eða aðilar gert með sér nýtt samkomulag.
17. Grundvöllur lífeyrisréttinda
  17.1 

Með greiðslum iðgjalda aflar sjóðfélagi sér réttinda til eftirlauna og örorkulífeyris og maka sínum og börnum rétt til maka- og barnalífeyris eftir því sem kveðið er á um í 18. – 21. gr. og á grundvelli þeirra réttindataflna sem fram koma í viðauka A við samþykktir þessar og teljast hluti þeirra.
Réttindi sjóðfélaga til lífeyris eru reiknuð í íslenskum krónum og ráðast réttindi af því iðgjaldi sem greitt er í lífeyrissjóðinn hverju sinni, auk ávöxtunar á eignum hans. Árlegu iðgjaldi sjóðfélaga, að frádregnum kostnaðarhluta, er skipt í söfnunarþátt og tryggingaþátt. Lögbundið framlag til starfsendurhæfingarsjóða telst kostnaðar í þessu sambandi. Söfnunarþátturinn myndar réttindi sjóðfélagans til eftirlauna skv. 18. grein, en tryggingaþátturinn rétt hans til áfallatrygginga skv. greinum 19-21 auk réttinda skv. gr. 17.5-17.7. Áfallatryggingar skiptast í örorku-, maka- og barnalífeyri. Skipting iðgjaldsins milli söfnunarþáttar og tryggingaþáttar er háð aldri sjóðfélaga og fer eftir töflu I í viðauka A. Söfnunarþáttur iðgjalds myndar réttindasjóð, sem ávaxtast í samræmi við eignavísitölu sjóðsins skv. grein 17.3. Réttindasjóður hvers sjóðfélaga er ekki séreign, heldur reiknaður hluti af þeim eignum sem sameiginlega tryggja eftirlaun sjóðfélaga. Réttindasjóður erfist ekki við fráfall. Falli sjóðfélagi frá áður en taka eftirlauna hefst rennur réttindasjóður hans til aukningar á réttindasjóðum annarra sjóðfélaga sbr. ákvæði gr. 17.2. Við töku eftirlauna er réttindasjóði breytt í mánaðarleg eftirlaun í samræmi við aldur og fæðingarárgang samanber töflu II í viðauka A.

  17.2  Um ráðstöfun á iðgjaldi sjóðfélaga innan ársins og breyting á réttindasjóði fer sem hér segir:
a) + Iðgjald greitt til sjóðsins skv. 16.gr.
b) + Jöfnunariðgjald ef réttur til jafnarar ávinnslu skv. gr. 17.5 er fyrir hendi
c) - Framlag í starfsendurhæfingarsjóð
d) - Iðgjald til tryggingaverndar
= Iðgjald til uppsöfnunar
e) +/- Ávöxtun á eignum sjóðsins skv. vísitölu skv. gr. 17.3
f) + Hlutdeild í réttindasjóði látinna sjóðfélaga
g) +/- Breytingar vegna tryggingafræðilegs uppgjörs
= Breyting á réttindasjóði á árinu
+ réttindasjóður í ársbyrjun
= réttindasjóður í árslok
Breytingar vegna tryggingafræðilegs uppgjörs vísa hér til breytinga sem gerðar eru í samræmi við ákvæði greinar 26.3. Að öðru leyti eru lífeyrisréttindi sjóðfélaga reiknuð í samræmi við réttindaákvæði 18-20. gr.
  17.3.  Reikna skal út sérstaka eignavísitölu sem mælir hreina ávöxtun á eignum sjóðsins á hverjum tíma. Vísitöluna skal reikna út mánaðarlega. Reikna skal út vísitöluna miðað við gangvirði eigna. Vísitalan er sett á 100 1. janúar 2016
  17.4  Við innborgun skal söfnunarþáttur iðgjalds leggjast við réttindasjóð viðkomandi sjóðfélaga og breytast í samræmi við eignavísitölu skv. 17.3 frá þeim mánuði sem iðgjaldið fellur í gjalddaga.
  17.5  Sjóðfélagi sem fengið hefur úthlutað skilgreindu viðmiðunariðgjaldi samkvæmt gildandi samþykktum Stapa lífeyrissjóðs eins og þær voru 16.05.2013 öðlast rétt til jöfnunariðgjalds til viðbótar við það iðgjald sem hann greiðir til sjóðsins upp að því hámarki sem jöfn ávinnsla hefði gefið. Jöfnunariðgjald tekur mið af aldri og fæðingarárgangi sjóðfélaga og er hlutfall af því iðgjaldi sem sjóðfélagi greiðir til sjóðsins, miðað við 10% af iðgjaldastofni eða af viðmiðunariðgjaldi eftir því hvort lægra er samkvæmt töflu V í viðauka A. Til réttindasjóðs rennur sama hlutfall jöfnunariðgjalds og tilgreint er í töflu I í viðauka A og ávaxtast með sama hætti og önnur iðgjöld í réttindasjóði og gefur sama rétt.
Þegar öll iðgjöld ársins hafa borist vegna sjóðfélaga sem á skilgreint viðmiðunariðgjald skal skipta jöfnunariðgjaldi hans á einstaka mánuði í sömu hlutföllum og þeim iðgjöldum sem hafa borist.
  17.6  Við framreikning réttinda skv. ákvæðum 19.-20. gr. skal reikna með jafnri ávinnslu í samræmi við hlutdeild jöfnunariðgjalds sjóðfélagans af þeim iðgjöldum sem lögð eru til grundvallar framreikningi. Í framreikningi skal viðmiðunariðgjald sjóðfélaga miðast við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar eins og hún er í viðmiðunarmánuði framreiknings.
  17.7  Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samkomulag við aðra lífeyrissjóði sem hafa miðað við jafna réttindaávinnslu á árinu 2003 um gagnkvæma viðurkenningu iðgjaldsgreiðslna til útreiknings viðmiðunariðgjalds skv. framanskráðu. Þá er sjóðunum heimilt að halda samræmda tölvuskrá um rétt manna til jafnrar ávinnslu og kveða á um það, hvernig sá réttur deilist niður, sé iðgjald greitt til fleiri sjóða.
  17.8 

Áunnin réttindi eins og þau eru skilgreind í 18.-21. gr. og reiknuð samkvæmt greinum 17.1-17.7 skulu varðveitt í samræmi við gildandi reglur hverju sinni, þannig að lífeyrisgreiðslur verði samkvæmt uppsöfnuðum réttindum hvers tímabils, að teknu tilliti til breytinga vegna tryggingafræðilegrar stöðu. Framreikningur skal hverju sinni vera samkvæmt þeim reglum sem gilda þegar réttur til lífeyris varð virkur. Samtala lífeyrisréttinda er summa áunninna lífeyrisréttinda og framreiknaðra lífeyrisréttinda, ef slík réttindi hafa verið úrskurðuð. Framreiknuð lífeyrisréttindi teljast ekki með áunnum lífeyrisréttindum nema að því marki sem þau hafa fallið til frá úrskurði framreiknings sbr. gr. 19.13 og 20.5.a og minkar framreiknaði hlutinn þá sem því nemur. Þegar stjórn sjóðsins ákveður aukningu réttinda skulu þau vera greind frá öðrum réttindum. Réttindaaukning er ekki tekin með í framreikningi en hún reiknast að fullu í áunnum réttindum. Komi til skerðingar á áunnum réttindum sjóðfélaga skal fara með réttindaskerðinguna á sama hátt og réttindaaukningu nema skerðingin kemur til frádráttar áunnum réttindum. Breyting réttinda skv. framanskráðu skal færð í réttindabókhald sjóðsins miðað við síðasta mánuð þess tímabils sem tryggingafræðileg úttekt skv. VIII.kafla samþykkta þessara tekur til, þannig að hækkun eða lækkun lífeyrisgreiðslna taki gildi frá og með næsta mánuði frá ársfundi, nema ársfundur ákveði að hún taki gildi síðar.

Réttindabreytingar koma fram í viðauka B. Jafnframt skal geta um eldri réttindareglur sem sjóðfélagar kunna að eiga réttindi samkvæmt í viðauka C.

  17.9 

Þar sem samþykktir þessar tilgreina fjárhæðir í krónum talið, miðast verðgildi þeirra við gildi vísitölu neysluverðs 230 nema annað sé tekið fram í viðkomandi grein. Skulu fjárhæðir endurreiknaðar mánaðarlega í samræmi við breytingar á vísitölunni.