Iðgjaldaskil

Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ber að greiða í lífeyrissjóð frá 16-70 ára aldurs. Launagreiðandi ber ábyrgð á að iðgjöld skili sér til sjóðsins.

Iðgjöld

Sundurliðun iðgjalda til lífeyrissjóðs:

  • 4% framlag launþega
  • 11,5% mótframlag launagreiðanda
  • Auk þess greiðast 0,1% í VIRK – starfsendurhæfingarsjóð.
  • 2-4% framlag launþega í séreignarsjóð (val launþega)
  • 2% mótframlag launagreiðanda í séreignarsjóð

Ef kveðið er á um aðra hlutfallstölu í kjarasamningum hafið samband við sjóðinn.

Gjalddagi og eindagi

Samkvæmt lögum er iðgjaldagreiðslutímabil (launatímabil) ekki lengra en mánuður. Gjalddagi er tíunda næsta mánaðar og eindagi er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Dæmi: Gjalddagi launa fyrir júní er 10. júlí og eindagi síðasti dagur júlímánaðar.

Val er um að greiða iðgjöldin með kröfu í netbanka eða millifæra inn á reikning sjóðsins

Ef iðgjöld eru ekki greidd fyrir eindaga reiknast á þau vanskilavextir frá gjalddaga til greiðsludags.

Veflykill fyrir launakerfi og vef launagreiðenda

Sótt er um veflykil á vef launagreiðenda. Hann er sendur í rafræn skjöl netbanka. Athugið! Nýr veflykill ógildir þann eldri.

  • Fyrir launakerfi
    Veflykillinn er skráður í launakerfi vegna skila á skilagreinum til sjóðsins. Notendanafn er kennitala launagreiðanda.
  • Fyrir vef launagreiðenda
    Sami veflykill veitir aðgang að vef launagreiðenda þar sem hægt er að skrá iðgjöld/skilagreinar og fá yfirsýn yfir greiðslustöðu og nálgast upplýsingar um iðgjöld.

Hversu lengi á að greiða í lífeyrissjóð?

Greiðslur í lífeyrissjóð hefjast í næsta mánuði eftir 16 ára afmæli og lýkur í þeim mánuði sem 70 árin eru fyllt. Berist greiðslur fyrir sjóðfélaga sem er yngri en 16 ára eða náð hefur 70 ára aldri eru þær lagðar inn í séreignardeild Stapa í nafni sjóðfélaga.

Netfang iðgjaldadeildar: idgjold@stapi.is