Í maí 2014 veittu stjórnvöld tímabundna heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar til öflunar húsnæðis. Samkvæmt lögunum er heimilt að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
Lög sem heimila ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á íbúðarlán hafa verið framlengd og gilda nú til 30. júní 2023. Sækja þurfti sérstaklega um framlenginguna á www.leidretting.is fyrir 1. október 2021. Ef ekki var sótt um framlengingu fyrir þann tíma lauk þessari ráðstöfun séreignarsparnaðar en hægt er að hefja ráðstöfun að nýju með nýrri umsókn.
Frekari upplýsingar veitir ríkisskattstjóri í síma 442-1900 og í gegnum netfangið aðstod@leidretting.is.
Þann 1. júlí 2017 tóku gildi lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Með lögunum er veittur réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst sem innborgun eða til að greiða niður höfuðstól og afborganir lána sem tekin eru vegna kaupa á fyrstu íbúð.
Lykilatriði laganna varðandi fyrstu íbúðarkaup eru:
Sækja þarf um úttekt séreignarsparnaðar á vef ríkisskattstjóra innan tólf mánaða frá undirritun kaupsamnings um fyrstu íbúð eða frá því að nýbygging fær fasteignanúmer hjá Þjóðskrá Íslands.
Sækja þarf um fyrir hvern og einn einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði samsköttunar.
Allar upplýsingar um úrræðið er að finna á heimasíðu RSK og leiðbeiningavef RSK.
Það er einfalt að hefja séreignarsparnað. Á heimasíðu Stapa er hægt að sækja um rafrænt eða prenta út umsókn og senda hana undirritaða til sjóðsins. Sjóðurinn undirritar síðan fyrir sitt leyti og sendir þér eintak. Annað eintak af samningnum er sent til launagreiðandans, ásamt bréfi frá sjóðnum. Sjóðurinn fylgist svo með því að launagreiðandinn skili iðgjöldum í samræmi við samninginn, eins og honum ber skylda til. Einnig er hægt að hafa samband við sjóðinn í síma 460-4500 og starfsmenn sjóðsins munu veita þér allar nauðsynlegar upplýsingar.