I. kafli

Hlutverk, skipulag og stjórn sjóðsins

1. Nafn sjóðsins og heimili
  1.1 Sjóðurinn heitir Stapi, lífeyrissjóður
Heimili hans og varnarþing er á Akureyri.
2. Hlutverk sjóðsins og deildaskipting
  2.1 Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara.
  2.2 Sjóðurinn skiptist í þrjár deildir, tryggingadeild sbr. B-hluta samþykkta þessara, séreignardeild sbr. C-hluta samþykkta þessara og tilgreinda séreignardeild sbr. D-hluta samþykkta þessara.. Halda skal fjárhag deildanna aðskildum. Rekstrarkostnaði sjóðsins skal skipt milli deilda í hlutfalli við umfang hverrar deildar samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur. Séreignardeild og tilgreind séreignardeild getur boðið upp á eina eða fleiri sparnaðarleiðir. Rekstrarkostnaði skal skipt milli sparnaðarleiða í samræmi við umfang hverrar leiðar samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur.
  2.3 Lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr.129/1997 og gildandi kjarasamninga á hverjum tíma, eftir því sem við á. Markmið Tryggingadeildar er að veita sjóðfélögum að lágmarki þá tryggingavernd sem tilgreind er í III. kafla laga nr. 129/1997.
  2.4 Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á eftirlaunatryggingar og áskilur sér heimild til að verja og efla þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykkta þessara.
3. Aðildarfélög, fulltrúaráð og ársfundur.
  3.1 Aðildarfélög sjóðsins geta verið stéttarfélög, starfsmannafélög og samtök launagreiðenda.
  3.2 Neðangreind stéttarfélög og starfsmannafélög eru aðildarfélög sjóðsins fyrir hönd launamanna;
AFL, Starfsgreinafélag
Aldan, stéttarfélag
Eining-Iðja, Eyjafirði
Byggiðn, félag byggingamanna
Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri
Framsýn, stéttarfélag
Iðnsveinafélag Skagafjarðar
Stéttarfélagið Samstaða
Verkalýðsfélag Þórshafnar
Verslunarmannafélag Skagfirðinga
Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslu
  3.3

Neðangreind samtök launagreiðenda eru aðilar að sjóðnum fyrir hönd launagreiðenda:
Samtök atvinnulífsins

  3.4 Umsókn stéttarfélags, starfsmannafélags, eða samtaka launagreiðanda um aðild að sjóðnum skal vera skrifleg og skal sjóðstjórn svara aðildarumsókn skriflega innan 3ja mánaða frá því að hún barst sjóðnum. Úrsögn aðildarfélags úr sjóðnum skal á sama hátt vera skrifleg og skal hún tilkynnt með minnst 6 mánaða fyrirvara. Innganga eða úrsögn aðildarfélags skal samþykkt af stjórn sjóðsins.
  3.5 Allir þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjöld til sjóðsins teljast sjóðfélagar. Sama gildir um þá sem njóta elli- og örorkulífeyris frá sjóðnum.
  3.6

Sérstakt fulltrúaráð að jöfnu skipað fulltrúum launamanna og atvinnurekenda, sem að sjóðnum standa, fer með atkvæði á fundum. Fulltrúar launamanna skulu þannig valdir að hvert aðildarfélag launamanna að lífeyrissjóðnum samkvæmt grein 3.2 kýs úr sínum hópi 1 fulltrúa fyrir allt að 200 félagsmenn og síðan einn fulltrúa fyrir hverja 200 félagsmenn umfram það, eða brot úr þeirri tölu, ef það nemur einu hundraði eða meira. Fulltrúar atvinnurekenda skulu þannig valdir að 50 stærstu atvinnufyrirtæki og stofnanir með atvinnu- eða þjónustustarfsemi, með tilliti til iðgjaldagreiðslna af eigin starfsmönnum til sjóðsins á næstliðnu reikningsári, tilnefna einn fulltrúa hver. Heimilt er að telja fyrirtæki sem gera samstæðuuppgjör sem einn aðila m.t.t. þessarar greinar. Samtök launagreiðenda, sem aðild eiga að sjóðnum skv. grein 3.3, skulu tilnefna þá fulltrúa, sem á vantar jafna tölu fulltrúa atvinnurekenda og launamanna í fulltrúaráðinu, í hlutfalli við iðgjöld aðildarfyrirtækja/stofnana sinna. Tilkynna skal um tilnefningu í fulltrúaráð minnst 14 dögum fyrir lok yfirstandandi skipunartímabils og öðlast tilnefning gildi við upphaf ársfundar og gildir fram að næsta ársfundi. Heimilt er fulltrúaráðsmanni að fara með allt að tvö atkvæði til viðbótar við eigið atkvæði á ársfundum og reglulegum fundum fulltrúaráðsins.

 

3.7

Stjórn sjóðsins skal kalla saman fulltrúaráðið tvisvar á ári, að hausti og í aðdraganda ársfundar, þar sem m.a. eru rædd málefni sjóðsins, breytingar á samþykktum undirbúnar og lykiltölur úr afkomu og framvindu fjárfestingarstefnu kynntar. Um hlutverk og starfsemi fulltrúaráðs að öðru leyti vísast til viðkomandi kjarasamninga hverju sinni.

  3.8 Í atkvæðagreiðslum, sem fara fram á ársfundi, eða aukafundum fulltrúaráðs, skulu fulltrúar launamanna og atvinnurekenda fara með helming atkvæða, hvorir um sig, án tillits til fjölda fulltrúa á fundi. Í atkvæðagreiðslum ræður afl atkvæða nema öðru vísi sé ákveðið í samþykktum þessum. Þó er heimilt að óska eftir skiptri atkvæðagreiðslu, þannig að fulltrúar atvinnurekenda og launamanna greiði atkvæði hvor í sínu lagi og þarf þá tilskilinn meirihluta í báðum hlutum fulltrúaráðsins svo að samþykkt sé lögmæt.
  3.9 Ársfundur hefur æðsta vald í málefnum sjóðsins, ef ekki er öðruvísi ákveðið í samþykktum þessum. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti.
  3.10 Ársfund sjóðsins skal halda fyrir lok júní ár hvert. Stjórn sjóðsins getur boðað til aukafundar þegar þurfa þykir. Skylt er stjórninni að boða til aukafundar ef aðildarfélag sjóðsins krefst þess skriflega og tilgreinir fundarefni. Stjórnin skal boða til fundar með skriflegu fundarboði til aðildarfélaga sjóðsins, með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Þá skal stjórnin auk þess auglýsa fundinn í dagblaði, útvarpi eða á annan sannanlegan hátt með a.m.k. 7 daga fyrirvara.
  3.11 Á ársfundi skal kynna:
    3.11.1   Skýrslu stjórnar.
    3.11.2   Ársreikning fyrir síðasta starfsár.
    3.11.3   Tryggingafræðilega úttekt.
    3.11.4   Fjárfestingarstefnu sjóðsins.
    3.11.5   Hluthafastefnu sjóðsins.
    3.11.6   Skipan stjórnar.
   3.12  Á ársfundi skal kynna og bera undir atkvæði: 
    3.12.1   Starfskjarastefnu sjóðsins.
    3.12.2 Val á fulltrúum í nefnd um laun stjórnarmanna.
    3.12.3 Tillögu um laun stjórnarmanna.
    3.12.4 Tillögu stjórnar að endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.
    3.12.5 Tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins, þegar þær liggja fyrir. Um tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins fer samkvæmt ákvæðum 10. greinar.
    3.12.6 Önnur mál. Tillögur til ályktunar, sem taka á fyrir á ársfundi, þurfa að berast stjórn sjóðsins eigi síðar en viku fyrir ársfund.
4. Stjórn
  4.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð átta einstaklingum. Fjórir stjórnarmenn skulu tilnefndir af launamönnum og skal val þeirra staðfest af fulltrúum launamanna í fulltrúaráði sjóðsins. Fjórir stjórnarmenn skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins og skal val þeirra staðfest af fulltrúum atvinnurekenda í fulltrúaráði sjóðsins. Fjórir varamenn skulu valdir með sama hætti, tveir frá launamönnum og tveir frá atvinnurekendum.
  4.2. Kjörtímabil stjórnarmanna er 2 ár og skal kjósa helming stjórnar á hverju ári, tvo fulltrúa launamanna og tvo fulltrúa atvinnurekenda. Varamenn skulu kosnir með sama hætti, einn fulltrúi launamanna og einn fulltrúi atvinnurekenda á hverju ári. Stjórnarmenn skulu ekki sitja lengur en átta ár samfleytt sem aðalmenn í stjórn sjóðsins. Óheimilt er að afturkalla umboð stjórnarmanns á kjörtímabilinu nema hann bresti hæfi til að gegna stjórnarsetu samkvæmt lögum eða samþykktum sjóðsins sbr. einkum grein 4.3. Tilnefningaraðili skal tilkynna stjórn sjóðsins með formlegum hætti rökstudda ákvörðun með tilvísun í viðeigandi lagaákvæði, samþykktir eða reglur. Afturkalli tilnefningaraðili umboð stjórnarmanns skal fulltrúaráð þess aðila staðfesta þá ákvörðun ásamt tilnefningu nýs stjórnarmanns fram að næsta ársfundi.
  4.3 Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa gott orðspor og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu og mega ekki á síðustu 5 árum hafa, í tengslum við atvinnurekstur, fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru þó undanþegnir þessu búsetuskilyrði. Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægjanlegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Stjórnarmenn skulu rækja skyldur sínar af heilindum, hafa möguleika á að verja þeim tíma til stjórnarstarfa sem slík seta krefst og taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.
  4.4 Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skulu fulltrúar vinnuveitenda og launamanna hafa á hendi formennsku til skiptis eitt ár í senn. Stjórnin skal setja sér starfsreglur, hún skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt, þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef meiri hluti stjórnarmanna er mættur eða varamenn í þeirra stað. Viðhafa skal leynilega atkvæðagreiðslu ef einn eða fleiri stjórnarmenn krefjast þess.
  4.5 Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Stjórn sjóðsins mótar innra eftirlit sjóðsins og skjalfestir eftirlitsferla, ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila um að annast innra eftirlit. Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu hans, setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar um rekstur, iðgjöld, réttindaávinnslu og ráðstöfun eigna sjóðsins. Þá skal stjórnin setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna og fá þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.
    4.5.1 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við mótaða stefnu og ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjóri fer með atkvæði sjóðsins á fundum hlutafélaga sem sjóðurinn á hluti í, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Um hæfi framkvæmdastjóra fer að öðru leyti eftir grein 4.3. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka á grundvelli sérstakrar ákvörðunar stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund skal haft samráð við formann og varaformann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.
    4.5.2 Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum.
  4.6 Allar meiri háttar breytingar á skipulagi sjóðsins, innra eftirliti, bókhaldi og reikningsskilum, skal framkvæmdastjóri aðeins gera að höfðu samráði við stjórn, og að fengnu samþykki hennar.
    4.6.1 Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum ber einnig að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu og þeim útlánareglum sem stjórnin setur. Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins.
    4.6.2 Framkvæmdastjóri skal veita stjórn og endurskoðanda allar þær upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins sem þeir óska.
  4.7 Stjórnarmaður lífeyrissjóðs eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Um hæfi til meðferðar einstakra mála fer að öðru leyti eftir meginreglum stjórnsýslulaga. Skylt er þeim sem í hlut á að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi skv. framansögðu.
    4.7.1 Stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma f
ram fyrir hönd sjóðsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra eða á kostnað sjóðsins. Þeir skulu einnig gæta þagmælsku um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu fyrir lífeyrissjóðinn og varða kann hagsmuni einstaklinga eða fyrirtækja og annað það er leynt á að fara eftir eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi eða horfið úr stjórn
  4.8. Hjá sjóðnum skal starfa nefnd um laun stjórnarmanna sem skal undirbúa og leggja fram tillögur að launum stjórnarmanna, bæði aðal- og varamanna, fyrir hvern ársfund. Í nefndinni sitja stjórnarformaður sjóðsins auk þriggja einstaklinga sem ekki eru stjórnarmenn og eru kosnir á ársfundi sjóðsins. Hlutfall fulltrúa atvinnurekenda og launamanna í nefndinni skal vera jafnt. Í tillögum sínum skal nefndin miða við að laun stjórnarmanna endurspegli ábyrgð, sérþekkingu, reynslu og þann tíma sem verja þarf til stjórnarstarfa. Nefndin skal kynna stjórn tillögur sínar eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársfund lífeyrissjóðs.