Lánareglur

1. Gildissvið og lánsréttur

1.1. Reglur þessar gilda um sjóðfélagalán Stapa lífeyrissjóðs (Hér eftir vísað til sem „Stapi“ eða „sjóðurinn“).
1.2. Stapi veitir einstaklingum sem eiga lánsrétt fasteignaveðlán á grundvelli laga um fasteignalán til neytenda.
1.3. Lánsrétt eiga sjóðfélagar sem greiða eða hafa greitt til samtryggingardeildar eða séreignardeildar Stapa að uppfylltum öðrum skilyrðum lánareglna.
1.4. Þeir sjóðfélagar, sem sjálfir eiga að standa skil á iðgjöldum sínum til sjóðsins koma því aðeins til greina við úthlutun lána, að þeir séu skuldlausir við sjóðinn, þegar umsókn berst skrifstofu sjóðsins.
1.5. Sjóðfélagalán eru verðtryggð og með veði í fasteign í eigu lántaka
1.6. Ef fasteignaveð er í heild eða hluta í eigu maka lántaka, aðila sem hann er í óvígðri sambúð með, staðfestri samvist, eða annars aðila sem hann á fasteign með skal sá aðili jafnframt gerast meðgreiðandi að láninu.

2. Lánsupphæðir og lánskjör

2.1. Lágmarksfjárhæð láns er 1.000.000 kr.
2.2. Hver sem á lánsrétt getur að hámarki verið með tvö lán að heildarfjárhæð allt að 50.000.000 kr. á hverjum tíma. Hámarksfjárhæð takmarkast einnig af veðrými, sbr. gr. 3.2. og mati á lánshæfi og greiðslugetu umsækjanda, sbr. gr. 4.1. – 4.4.
2.3. Lánstími sjóðfélagalána er 5 til 40 ár.
2.4. Unnt er að velja á milli fastra og breytilegra vaxta.
2.5. Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um fasta verðtryggða vexti. Fastir vextir taka ekki breytingum á lánstíma lánsins.
2.6. Breytilegir vextir taka breytingum yfir lánstímann samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til ávöxtunarkröfu á skráðum verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.
2.7. Sjóðfélagalán eru verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
2.8. Gjalddagar sjóðfélagalána eru 12 á ári.
2.9. Lántaki getur valið á milli láns með jöfnum afborgunum og láns með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana (annuitetsláns).

3. Veðtrygging

3.1. Lánað er gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði í eigu umsækjanda/lántaka. Ef íbúðarhúsnæðið sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga, sambúðarmaka eða einstaklings, sem umsækjandi er í staðfestri samvist með, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki að umbeðnu láni.
3.2. Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 75% af kaupverði eða metnu markaðsverði fasteignarinnar og ekki umfram 100% af samtölu brunabótamats og lóðarmats.
3.3. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 65% af markaðsverði er almennt gerður áskilnaður um að lán Stapa sé á 1. veðrétti. Þó er heimilt að víkja frá kröfu um 1. veðrétt ef fjárhæð lána framar í veðröð er innan við 10% af verðmæti veðsins.
3.4. Verðmat er samkvæmt mati löggilts fasteignasala eða annars sérfróðs aðila. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að tilnefna matsaðila. Þá getur sjóðurinn lagt mat á forsendur verðmats. Söluverð samkvæmt kaupsamningi kemur eftir atvikum í stað verðmats löggilts fasteignasala. Ef ekki liggur fyrir verðmat löggilts fasteignasala eða söluverð samkvæmt kaupsamningi er heimilt að miða við gildandi fasteignamat frá Fasteignamati ríkisins.
3.5. Lánað er gegn veði í sumarhúsum að hámarki 20 milljónir króna. Lán sem einungis eru tryggð með veði í sumarhúsum geta verið til allt að 15 ára en ef sumarhúsið er á leigulóð getur lánstími þó aldrei farið fram yfir gildistíma lóðarleigusamnings. Veðhlutfall láns sem einungis er tryggt með veði í sumarhúsi, að viðbættum lánum framar í veðröð, skal að hámarki vera 50% af metnu markaðsvirði sumarhússins. Þar sem sumarhús eru oft yfirgefin í langan tíma er farið fram á að sumarhús séu á lánstímanum tryggð fyrir öðrum tjónum en brunatjóni, t.d. gegn vatnstjóni, innbroti o.s.frv. Sjóðnum er heimilt hvenær sem er á lánstímanum að óska eftir að fá afrit af tryggingarskírteininu.

4. Mat á greiðslugetu og lánshæfi

4.1. Áður en lán er veitt er lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og reglugerð um sama efni.
4.2. Greiðslu- og lánshæfismat skal framkvæmt af sjóðnum eða viðurkenndri fjármálastofnun í samræmi við ofangreind lög og reglugerð.
4.3. Ef fjárhæð láns er 2 milljónir króna eða meira hjá einstaklingi og 4 milljónir króna eða meira, ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða, eða ef veðsetning fer yfir 65%, skal ávallt fara fram greiðslumat. Almennt er jafnframt kallað eftir greiðslumati ef veðsetning á hinni veðsettu eign fer yfir 20 milljónir króna. Áskilinn er réttur til að kalla eftir greiðslumati af öðrum ástæðum eftir mati sjóðsins.
4.4. Sjóðnum er heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð ef niðurstaða lánshæfis- og/eða greiðslumats leiðir í ljós að umsækjandi hafi ekki fjárhagslega burði til lántökunnar. Ef veðsetning fasteignar fer yfir 60% áskilur sjóðurinn sér ávallt rétt til að gera ríkari kröfur um gæði veðs, niðurstöðu lánshæfismats og forsendna og niðurstöðu greiðslumats. Á grundvelli þess getur komið til þess að hámarkslánsfjárhæð verði lækkuð. Sama gildir, jafnvel þó veðsetningarhlutfall sé lægra, ef önnur atriði sem lúta að hagsmunum sjóðsins sem lánveitanda mæla með því að lánsfjárhæð sé lækkuð.

5. Uppgreiðsla

5.1. Lántaka er heimilt að greiða lán sitt upp hvenær sem er á lánstímanum án sérstakrar þóknunar.

6. Kostnaður lántaka

6.1. Lántakandi greiðir lántökugjald sem er nú 50.000 kr. óháð lánsfjárhæð. Miðast gjaldið við hverja lánsumsókn. Er gjaldið dregið frá andvirði láns við útborgun þess. Lán sem tekin eru til uppgreiðslu/endurfjármögnunar á sjóðfélagalánum sem veitt voru fyrir 1. maí 2017 bera ekki lántökugjald.
6.2. Veðbókarvottorð og þinglýsingargjald.
6.3. Kostnaður vegna lánshæfis- og greiðslumats sem greitt er sérstaklega fyrir
6.4. Kostnaður við verðmat á fasteign sé þess þörf.

7. Lánsumsókn

7.1. Lánsumsókn skal skilað á þar til gerðu eyðublaði.
7.2. Eftirtalin gögn skulu fylgja lánsumsókn eftir því sem við á:

 • Nýtt veðbókarvottorð stimplað af sýslumanni eða á öðru formi sem sjóðurinn viðurkennir. Veðbandayfirlit jafngildir ekki veðbókarvottorði.
 • Yfirlit yfir nýjar eftirstöðvar áhvílandi lána eða síðustu greiddu greiðsluseðlar.
 •  Afrit af tryggingarbréfum sem hvíla á eigninni, ef við á.
 • Afrit af þinglýstum kaupsamningi hafi eignin skipt um eigendur á síðustu þremur árum.
 • Verðmat frá löggiltum fasteignasala sé þess óskað, í samráði við sjóðinn.
 • Vottorði um smíðatryggingu ef húseignin er í smíðum.
 • Greiðslumat sem framkvæmt er af sjóðnum eða aðila sem sjóðurinn viðurkennir, ásamt fylgigögnum sbr. gr. 7.3. Greiðslumat skal ekki vera eldra en þriggja mánaða.

7.3. Ef greiðslumat skal fara fram, sbr. gr. 4., skal umsækjandi/lántaki ennfremur leggja fram eftirtalin gögn:

 • Staðfest afrit af síðasta skattframtali.
 • Staðfestingu á tekjum síðustu þriggja mánaða, s.s. afrit af launaseðlum eða staðgreiðsluyfirlit frá ríkisskattstjóra, og ennfremur staðfestingu á fjármagnstekjum, svo sem húsaleigutekjum, og föstum bótagreiðslum.
 • Staðfestingu á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda.
 • Staðfestingu á föstum greiðslum, s.s. vegna meðlags- og lífeyrisgreiðslna.
 • Matsverð fasteigna í eigu lántaka eða fasteigna sem hann hyggst kaupa, t.d. fasteignamat eða verðmat löggilts fasteignasala
 • Þnglýsingavottorð fyrir fasteignir í eigu lántaka.
 • Upplýsingar um húsaleigubætur. 
 • Upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar.

7.4. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að kalla eftir frekari gögnum.

8. Upplýsingar til umsækjanda/lántaka

8.1. Sjóðnum ber að afhenda umsækjanda/lántaka staðlaðar upplýsingar á þar til gerðu formi svo hann geti tekið upplýsta ákvörðum um lántökuna, sbr. 13. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.
8.2. Jafnframt ber að afhenda umsækjanda/lántaka upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra á höfuðstól og greiðslubyrði lána, sbr. 25. gr. sömu laga.
8.3. Lántaka ber að kynna sér og undirrita eyðublað sjóðsins „Staðlaðar upplýsingar um neytendalán“.

9. Gildistaka

9.1. Reglur voru samþykktar af stjórn Stapa þann 28. ágúst 2017. Þær tóku gildi 23. janúar 2018 og koma í stað eldri lánareglna. Lánareglurnar eru háðar fyrirvaralausum breytingum af hálfu stjórnar sjóðsins.