Stefna um ábyrgar fjárfestingar

Stjórn og starfsmenn Stapa eru vörsluaðilar lífeyrissparnaðar sjóðfélaga og ber sem slíkum að standa vörð um hagsmuni þeirra og hafa þá að leiðarljósi í störfum sínum. Í því er m.a. fólgin sú krafa að sjóðurinn stuðli að því að bestu faglegu viðmið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja séu í heiðri höfð hjá þeim fyrirtækjum þar sem sjóðurinn fjárfestir eða felur eignastýringu fyrir hönd sjóðsins.

 

Inngangur og markmið

Stjórn og starfsmenn Stapa eru vörsluaðilar lífeyrissparnaðar sjóðfélaga og ber sem slíkum að standa vörð um hagsmuni þeirra og hafa þá að leiðarljósi í störfum sínum. Í því er m.a. fólgin sú krafa að sjóðurinn stuðli að því að bestu faglegu viðmið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja séu í heiðri höfð hjá þeim fyrirtækjum þar sem sjóðurinn fjárfestir eða felur eignastýringu fyrir hönd sjóðsins. Sjóðurinn trúir því að góðir stjórnarhættir stuðli að góðum og hagfeldum rekstri og þjóni þannig hagsmunum eigenda og annarra hagsmunaaðila til lengri tíma litið.

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 127/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal við ávöxtun eigna sjóðsins hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi, horfa til lýðfræðilegra þátta, byggja fjárfestingar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga og gæta að fjölbreytileika eignasafnsins. Þá er tilgreint að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum sem sjóðurinn gerir með stefnu þessari.

Markmið stefnu um ábyrgar fjárfestingar er að móta umgjörð fyrir aðgerðir sjóðsins á sviði umhverfis- og félagslegra málefna í og gagnvart þeim félögum sem hann fjárfestir í eða annast fjárfestingar fyrir hönd sjóðsins. Framkvæmd stefnunnar er háð því skilyrði að aðgerðir sem af henni leiða samrýmist heildarmarkmiðum sjóðsins um hámörkun lífeyrisréttinda sjóðfélaga.

Viðmið ábyrgra fjárfestinga

Stapi byggir viðmið sín um ábyrgar fjárfestingar á þeim grunngildum íslenskra laga á sviði umhverfiþátta og félagslegra þátta. Þá byggir sjóðurinn einnig á þeim alþjóðlegu sáttmálum og samningum sem Ísland er aðili að, óháð því hvort að heimaland viðkomandi félags hafi fullgilt viðkomandi viðmið. Sjóðurinn kann einnig að taka þátt í samstarfi á sviði umhverfisþátta eða félagslegra þátta sem samrýmist fjárfestingastefnu sjóðsins og heildarmarkmiðum sjóðsins um hámörkun lífeyrisréttinda sjóðfélaga.

Framkvæmd og aðgerðir

Framkvæmdastjóri sjóðsins annast framkvæmd stefnunnar í samráði við stjórn og starfsmenn sjóðsins. Stefnan er höfð til hliðsjónar við fjárfestingar sjóðsins og eftirfylgni með þeim.

Í fjárfestingaferli sjóðsins leitast sjóðurinn við að greina áhættuþætti á sviði umhverfisþátta og félagslegra þátta. Óskað er eftir upplýsingum um stefnu viðkomandi aðila í málaflokkunum og frammistaða þeirra er metin.

Sjóðurinn kann að beita jákvæðri eða neikvæðri skimun m.t.t. umhverfisþátta og félagslegra þátta við mat á fjárfestingarkostum. Jákvæð skimun felur í sér að fjárfest er í útgefanda eða hjá eignastýranda byggt á tilteknum viðmiðum en neikvæð skimun felur í sér að fjárfestingar byggðar á tilteknum viðmiðunum eru útilokaðar.

Stapi mun koma á framfæri ábendingum telji hann að stefna eða ákvarðanir félags eða eignastýranda fari í bága við viðmið sjóðsins í ábyrgum fjárfestingum. Slíkar ábendingar kunna að vera skriflegar eða á vettvangi formlegra funda eftir atvikum. Bregðist félag ekki við slíkum ábendingum kann sjóðurinn að gera grein fyrir afstöðu sinni á hluthafafundum eða eftir atvikum með öðrum hætti. Stapi kann að selja verðbréf félags sem ekki standast viðmið sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar ef viðbrögð viðkomandi félags við ábendingum sjóðsins samræmast ekki viðmiðum okkar.