Lausnir á greiðsluvanda

Í greiðsluvanda er hægt að óska eftir skilmálabreytingu á láni. Stapi býður upp á neðangreinda möguleika:

Breyting á lánstíma

Lántakanda með lán til skemmri tíma en 40 ára býðst að lengja lánstímann í allt að 40 ár og lækka þannig greiðslubyrðina. Hafa verður í huga að þessu fylgir sá ókostur að lánið verður dýrara þegar upp er staðið því vextir og eftir atvikum verðbætur reiknast á lánið yfir lengri tíma. 

Breyting úr jöfnum afborgunum í jafnar greiðslur

Greiðslubyrði lána með jöfnum afborgunum er oft nokkuð þyngri en af jafngreiðslulánum. Hægt er að lækka greiðslubyrðina með því að óska eftir breytingu á skilmálum láns með jöfnum afborgunum þannig að afborganir miðist við jafnar greiðslur (annuitet). Við þessa breytingu þarf að hafa í huga að lán með jöfnum greiðslum eru að endingu dýrari, þ.e. heildargreiðsla vaxta og verðbóta verður hærri yfir lánstímann þar sem afborgun af höfuðstól lánsins er lægri til að byrja með.

Vanskilum bætt við höfuðstól

Uppsöfnuðum vanskilum er bætt við eftirstöðvar láns. Skilmálabreyting sem þessi er að jafnaði ekki framkvæmd oftar en einu sinni fyrir hvert lán og ekki á lánum sem eru í meira en 90 daga vanskilum. Möguleiki til að skuldbreyta láni getur takmarkast af veðrými, greiðslugetu og samþykki síðari veðhafa.