V. kafli

Hlutverk, aðild og sjóðfélagar

14. Hlutverk
  14.1  Markmið Tryggingadeildar sjóðsins er að veita lágmarkstryggingavernd í samræmi við ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og kjarasamninga, eins og nánar er kveðið á um í samþykktum þessum. Lágmarkstryggingavernd miðast við að innborgun hefjist við 20 ára
aldur
15. Aðild og sjóðfélagar
  15.1  Sjóðfélagar í tryggingadeild sjóðsins skulu vera, allir þeir launamenn, sem náð hafa 16 ára aldri fyrir lok næsta almanaksmánaðar á undan og starfa í starfsgrein þar sem kjarasamningar aðildarfélaga sjóðsins skv. greinum 3.2 og 3.3 ákvarða lágmarkskjör, sbr. ákvæði 2. gr. laga nr. 129/1997.
  15.2  Heimilt er launamanni að gerast sjóðfélagi, enda þótt hann starfi ekki í starfsgrein þar sem kjarasamningar aðildarfélaga sjóðsins ákvarða lágmarkskjör, enda sé honum ekki skylt að vera í öðrum lífeyrissjóði. Óheimilt er að neita manni um aðild að lífeyrissjóðnum á grundvelli heilsufars hans, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns.
  15.3  Heimilt er launamanni, sem gerist sjálfstæður atvinnurekandi, að halda áfram þátttöku í tryggingadeild sjóðsins. Þá er atvinnurekanda á starfssvæði sjóðsins, heimilt að gerast sjóðfélagi. Í sambandi við biðtímaákvæði 19-21. gr. skal réttindatími manns, er notar sér heimildarákvæði þessarar málsgreinar til að gerast sjóðfélagi, reiknast frá lokum næsta mánaðar eftir þann mánuð, er iðgjöld berast sjóðnum fyrsta sinni. Sama á við um þá einstaklinga, sem starfa á starfssviði, sem kjarasamningur tekur ekki til eða ráðningarbundin starfskjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningum, en óska eigi að síður eftir aðild að tryggingadeild sjóðsins.
  15.4  Stjórn sjóðsins er heimilt að veita aðild að sjóðnum einstaklingum og sjálfstætt starfandi atvinnurekendum, er ekki ber skylda til þátttöku í neinum ákveðnum lífeyrissjóði. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að leyfa félögum og samböndum, sem standa að samningum um kaup og kjör þeirra launamanna, er aðild eiga að sjóðnum, að tryggja í honum þá starfsmenn sína, sem ekki eiga aðild að öðrum lífeyrissjóðum.
  15.5  Stjórn sjóðsins er heimilt að veita íslenskum launamönnum sem starfa erlendis, s.s. sjómönnum sem starfa á skipum skráðum erlendis, aðild að sjóðnum, enda komi þá réttindi aðeins fyrir þau iðgjöld sem sjóðnum berast þeirra vegna.
  15.6  Launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar sem gerast aðilar að sjóðnum á grundvelli ákvæða 15.2-15.5 skulu greiða lágmarksiðgjald til sjóðsins í samræmi við ákvæði gr. 16.1.-16.3