Áhættustefna

Markmið áhættustýringar hjá Stapa lífeyrissjóði er að auka líkur á að starfsemi sjóðsins, þ.e. innheimta iðgjalda, ávöxtun fjármuna og útgreiðsla lífeyris, auk upplýsingagjafar sé í góðu horfi og stuðli að bættum hag sjóðfélaga.  Áhættustýringin er margþætt, töluleg markmið um áhættu við ávöxtun fjármuna eru sett fram í árlegri fjárfestingarstefnu sjóðsins, fjölmargar skýrslur sem lúta að  vöktun ýmissa áhættuþátta eru unnar með reglubundnum hætti og fylgst er með hlítingu við lög, tilmæli og reglur.

Áhættustefnu sjóðsins er ætlað að gefa yfirlit yfir helstu áhættuþætti í rekstri sjóðsins. Áhætta er skilgreind sem hættan á atburði sem eykur marktækt líkurnar á því að sjóðurinn nái ekki markmiðum sínum til skemmri eða lengri tíma.  Fjallað er um skipulag og framkvæmd áhættustýringar ásamt einstökum áhættuþáttum. Sett er fram áhættuskrá þar sem mikilvægi áhættuþátta er metið ásamt því að tilgreint er hvernig fylgst er með tilteknum áhættuþáttum í skýrslum og könnunum. 

Áhættu sjóðsins er skipt í eftirfarandi þætti:

Lífeyristryggingaáhætta er hættan á því að skuldbindingar sjóðsins vaxi umfram eignir og að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga.

Mótaðilaáhætta er hættan á að mótaðilar eða milliliðir í viðskiptum standi ekki í skilum eða að hæfni þeirra til greiðslu versni verulega.

Fjárhagsleg áhætta (markaðsáhætta) lýtur fyrst og fremst að fjárhagslegum atriðum í starfsemi sjóðsins, þ.e. hættu á fjárhagslegu tapi vegna breytinga á markaðsvirði liða innan og utan efnahagsreiknings, þar á meðal breytinga á vöxtum, gengi gjaldmiðla eða virði verðbréfa. 

Rekstraráhætta lítur fyrst og fremst að starfsemi lífeyrissjóðsins, þ.e.  hætta á tjóni sem rekja má til starfsmanna, upplýsingakerfa, ófullnægjandi eða ónothæfra innri verkferla eða til ytri atburða.

Áhættustefna samþykkt af stjórn 27. nóvember 2023