Sjóðfélagalán

  • Hverjir eiga lánsrétt?

    Til að eiga lánsrétt þarf umsækjandi að hafa greitt iðgjöld í Stapa lífeyrissjóð, annað hvort samtryggingardeild eða séreignardeild.

    Þeir sjóðfélagar, sem sjálfir eiga að standa skil á iðgjöldum sínum til sjóðsins koma því aðeins til greina við úthlutun lána, að þeir séu skuldlausir við sjóðinn, þegar umsókn berst skrifstofu sjóðsins.

  • Hvaða tryggingu þarf ég að veita fyrir láni?

    Sjóðfélagalán eru aðeins veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði í eigu lántaka sem staðsett er á Íslandi.

    Ef íbúðarhúsnæðið sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga, sambúðarmaka eða einstaklings, sem umsækjandi er í staðfestri samvist með, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki að umbeðnu láni.

  • Get ég tekið lán með lánsveði?

    Nei, Stapi lífeyrissjóður veitir ekki lán með lánsveði.

  • Get ég greitt upp lán eða inn á höfuðstól?

    Já, lántaka er heimilt að greiða inn á lán sitt eða greiða það upp hvenær sem er á lánstímanum án sérstakrar þóknunar.

    Umframgreiðsla inn á lán er millifærð inn á reikning 0565-26-143130 kt. 531009-1180. Setja skal lánsnúmer í skýringu og senda kvittun á lan@stapi.is.

    Ef um uppgreiðslu er að ræða þarf að hafa samband við lánadeild sjóðsins til að fá rétta stöðu. Hægt er að senda tölvupóst á lan@stapi.is eða hafa samband í síma 460-4500.

     

  • Hver er lánstími og fjöldi gjalddaga?

    Lánstími sjóðfélagalána er að lágmarki 5 ár og að hámarki 40 ár.

    Gjalddagar sjóðfélagalána Stapa lífeyrissjóðs eru 12 á ári.

  • Hvernig lán eru í boði?

    Stapi býður upp á verðtryggð lán með föstum eða breytilegum vöxtum með veði í fasteign í eigu lántakanda.

    Fastir vextir taka ekki breytingum á lánstímanum en breytilegir vextir taka breytingum skv. ákvörðun stjórnar sjóðsins. Vextir eru birtir á vefsíðu sjóðsins. 

    Lántaki getur valið á milli láns með jöfnum afborgunum höfuðstóls og láns með jöfnum greiðslum (annuitetsláns).

  • Hvernig eru vextir sjóðfélagalána ákvarðaðir?

    Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um vexti hverju sinni. 

    • Fastir vextir miðast við útgáfudag skuldabréfs og taka ekki breytingum á lánstímanum.
    • Breytilegir vextir taka breytingum yfir lánstímann samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Við ákvörðun vaxta er einkum horft til ávöxtunarkröfu á skráðum verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum og áhættumats sjóðsins.

    Gildandi vextir eru birtir undir vaxtaþróun á vefsíðu sjóðsins.

  • Hver er hámarkslánsfjárhæð og -lánshlutfall?

    Lánshlutfall má ekki vera hærra en 70% af kaupverði eða nýjasta fasteignamati íbúðarhúss. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 60% af markaðsverði er almennt gerður áskilnaður um að lán Stapa sé á 1. veðrétti. Þá má veðsetning ekki vera umfram 100% af samtölu brunabóta- og lóðarmats.

    Við kaup fasteignar skal miðað við kaupverð.

    Við endurfjármögnun er miðað við nýjasta fasteignamat eignarinnar frá Þjóðskrá. Þó er sjóðnum heimilt að taka mið af kaupverði samkvæmt kaupsamningi ef kaupverð var lægra en fasteignamat, sé kaupsamningur yngri en 24 mánaða þegar lánsumsókn berst.

    Þrátt fyrir framangreindar reglur um veðhlutfall getur fjárhæð láns aldrei orðið hærri en 75.000.000 kr.

    Áður en lán er veitt er greiðslu- og lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og reglugerð um sama efni.

  • Hvernig get ég fundið út greiðslubyrði lána?

    Með lánareiknivél Stapa er hægt að reikna út greiðslubyrði sjóðfélagalána.

  • Hver er munur á láni með jöfnum afborgunum og láni með jöfnum greiðslum?

    Mánaðarleg greiðsla skiptist í greiðslu höfuðstóls og vaxta

    Greiðsla = afborgun verðbætts höfuðstóls + vextir

    Lán með jöfnum afborgunum

    Þegar lán er með jöfnum afborgunum er afborgun höfuðstóls sú sama út lánstímann en breytist þó í takt við verðbólgu. Greiðslubyrði af lánum með jöfnum afborgunum er hærri til að byrja með en lækkar þegar líður á lánstímann þar sem greiðsla vaxta lækkar í takt við lækkun höfuðstóls.

    Lán með jöfnum greiðslum (annuitet)

    Þegar lán er með jöfnum greiðslum er mánaðarleg greiðsla af láninu sú sama út lánstímann en breytist þó í takt við verðbólgu. Hlutfall á milli afborgunar höfuðstóls og vaxta breytist þegar líður á lánstímann. Til að byrja með er hlutfallið sem fer í afborgun höfuðstóls lágt og vaxtagreiðslan há. Þetta breytist þegar líður á lánstímann þá hækkar afborgun höfuðstóls og vaxta greiðslan lækkar í samræmi við lægri höfuðstól. Mánaðarleg greiðsla af jafngreiðsluláni er lægri til að byrja með en á láni með jöfnum afborgunum.

    Í lánareiknivél Stapa er hægt að reikna út mánaðarlegar greiðslur og heildargreiðslur á misjöfnum lánsformum.

  • Get ég tekið óverðtryggt lán?

    Nei, öll lán hjá Stapa lífeyrissjóði eru verðtryggð.

  • Hvað er verðtrygging?

    Sjóðfélagalán Stapa eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs.

    Þegar lán er verðtryggt breytist höfuðstóll lánsins í sömu hlutföllum og vísitalan. Verðbætur leggjast við höfuðstól lánsins og vextir og afborgun eru reiknaðir af verðbættum höfuðstól.

  • Hvaða reglur gilda um greiðslugetu og lánshæfi?

    Áður en lán er veitt er lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og reglugerð um sama efni.

    Greiðslu- og lánshæfismat skal framkvæmt af sjóðnum í samræmi við ofangreind lög og reglugerð.

    Sjóðnum er heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð ef niðurstaða lánshæfis- og/eða greiðslumats leiðir í ljós að umsækjandi hafi ekki fjárhagslega burði til lántökunnar. Ef veðsetning fasteignar fer yfir 50% áskilur sjóðurinn sér ávallt rétt til að gera ríkari kröfur um gæði veðs, niðurstöðu lánshæfismats og forsendna og niðurstöðu greiðslumats. Á grundvelli þess getur komið til þess að hámarkslánsfjárhæð verði lækkuð. Sama gildir, jafnvel þó veðsetningarhlutfall sé lægra, ef önnur atriði sem lúta að hagsmunum sjóðsins sem lánveitanda mæla með því að lánsfjárhæð sé lækkuð.

  • Hvernig sæki ég um lán?

    Hægt að sækja um sjóðfélagalán hjá Stapa á einfaldan hátt með rafrænum skilríkjum í síma á umsóknarvef. Nánast öll gagnaöflun vegna greiðslumats verður jafnframt rafræn þegar sótt er um lán með þessum hætti. Einnig er hægt að fylla út umsókn á pdf formi og skila til sjóðsins á netfangið lan@stapi.is ásamt fylgigögnum.

  • Hver er kostnaður við lántöku hjá Stapa?

    Ýmis kostnaður fellur til í tengslum við lántöku.

    Kostnaður sem greiða þarf til Stapa, svo sem lántökugjöld og gjald vegna greiðslumats greiðast samkvæmt gjaldskrá Stapa. Einnig þarf að greiða Sýslumanni gjöld vegna þinglýsingar skjala.

  • Eru takmarkanir á því í hvaða tilgangi lán er nýtt?

    Það eru ekki takmarkanir á því í hvaða tilgangi lán er nýtt, enda séu skilyrði lánareglna uppfyllt m.a. varðandi greiðslugetu og veðsetningu.

  • Hvað er árleg hlutfallstala kostnaðar?

    Árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) er prósentutala þar sem vextir og lántökukostnaður er mældur á ársgrundvelli. Neytendur geta borið saman þessa einu tölu og fundið út hvaða lánveitandi er með hagkvæmast lánstilboðið.

    Heildarfjárhæð sem lántaki greiðir, heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar geta breyst ef fasteignalán er með breytilegum forsendum (t.d. breytilegir vextir) og það getur leitt til aukins kostnaðar fyrir lántaka.

    Árleg hlutfallstala kostnaðar kemur fram í lánareiknivél Stapa.

  • Hverjar eru afleiðingar þess ef ekki er staðið í skilum með greiðslur af láni?

    Standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana, vaxta eða verðbóta á gjalddaga fellur skuldin öll í gjalddaga án fyrirvara. Skuldara ber að greiða dráttarvexti frá gjalddaga, sem miðast við ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 ef eigi er staðið í skilum, auk alls kostnaðar sem af vanskilum hlýst.

    Ef vanskil verða á greiðslum lána eru send út bréf samkvæmt innheimtuferli Stapa með tilheyrandi kostnaði.

    Sem síðasta úrræði gæti eign sem sett var að veði láns verið seld nauðungarsölu ef ekki er staðið í skilum með greiðslur. 

  • Get ég fengið lán hjá Stapa ef ég er bara með séreignarsparnað hjá sjóðnum?

    Já, þeir sem hafa greitt í séreignardeild eiga lánsrétt hjá sjóðnum.

  • Hvað þýðir hámarkshlutfall greiðslubyrðar Seðlabanka Íslands?

    Seðlabanki Íslands hefur settt reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við ráðstöfunartekjur. Greiðslubyrði fasteignalána er samtala af greiðslubyrði allra lána sem eru með veði í fasteign, reiknuð samkvæmt forsendum Seðlabanka Íslands. 

    Við ákvörðum Stapa um lánveitingu er því ekki aðeins horft til greiðslu- og lánhæfismats heldur þarf einnig að taka tillit til þess hvort greiðslubyrði lána rúmist innan viðmiðs Seðlabanka Íslands.

Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar