Áhætta tengd sjálfbærni er atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingar.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar ber lífeyrissjóðum að birta á heimasíðum sínum, tilteknar upplýsingar varðandi sjálfbærni í tengslum við fjárfestingarákvarðanir sínar, sem nánar er kveðið á um í 3.- 5. gr. reglugerðar ESB 2019/2088 (SFDR - reglugerðin).
1. Hvernig er áhætta tengd sjálfbærni felld inn í fjárfestingarákvarðanatökuferli Stapa sbr. 3. gr. SFDR?
Í fjárfestingarferli sjóðsins út frá ábyrgum fjárfestingum leitast sjóðurinn við að greina helstu UFS áhættuþætti í þeim fjárfestingarkostum sem honum standa til boða hverju sinni. Aðferðafræðin byggir annars vegar á þeim aðgerðum sem sjóðurinn grípur við að meta nýjar fjárfestingar (UFS greiningar innri og ytri aðila, neikvæð/jákvæð skimun, áhrifafjárfestingar) og að hafa markvissa eftirfylgni (hluthafastefna og upplýsingagjöf) með fjárfestingum sjóðsins.
Almennt mun sjóðurinn horfa til þeirra UFS þátta sem telja þyngst hjá hverri fyrirliggjandi fjárfestingu út frá áhrifum og áhættu. Í þeim tilfellum þar sem tvöföld mikilvægisgreining hefur verið gerð er hún höfð til hliðsjónar.
Hér eftir gefur að líta meginatriði í aðferðafræði sjóðsins við ábyrgar fjárfestingar sem er frekar skilgreind í innri verklagsreglum sjóðsins.
UFS greiningar
Við UFS greiningar óskar sjóðurinn eftir upplýsingum um stefnur, markmið, aðgerðir og upplýsingagjöf viðkomandi aðila í málaflokkunum og er frammistaða þeirra metin. Einnig er horft til ytra mats greiningaraðila bæði hérlendis sem og erlendis auk ýmissa gagnaveitna sem standa sjóðnum til boða.
Skimun
Sjóðurinn kann að beita jákvæðri eða neikvæðri skimun m.t.t. UFS þátta við mat á fjárfestingarkostum. Jákvæð skimun felur í sér að fjárfest er í útgefanda eða hjá eignastýranda byggt á tilteknum viðmiðum en neikvæð skimun felur í sér að fjárfestingar byggðar á tilteknum viðmiðunum eru útilokaðar.
Sjóðurinn skimar nýfjárfestingar m.t.t. aðildar að UN PRI, greinir og mælir árangur í eignasafni sjóðsins m.t.t. UN PRI. Nær allir erlendir eignastýrendur sem stýra eignum fyrir sjóðinn eru undirritunaðilar að UN PRI.
Áhrifafjárfestingar
Horft verður til verkefna sem stuðla að mildandi aðgerðum gagnvart loftslagsáhættu sem og aðlögunaraðgerðum gagnvart loftslagsþróun og í samræmi við þátttöku Stapa í CIC samstarfinu. Markmið Stapa er að auka græna fjárfestinga í eignasafni sjóðsins til 7,0% af heildareignasafni sjóðsins árið 2030, þar á meðal hlutabréf, skuldabréf og önnur sérhæfð fjármögnun. Sjóðurinn hefur sett sér mælanleg markmið og áætlun fyrir fjárfestingar í mismunandi flokkum.
Hluthafastefna
Stapi mun koma á framfæri ábendingum telji hann að stefna eða ákvarðanir félags eða eignastýranda fari í bága við viðmið sjóðsins í ábyrgum fjárfestingum. Slíkar ábendingar kunna að vera skriflegar eða á vettvangi formlegra funda eftir atvikum. Bregðist félag ekki við slíkum ábendingum kann sjóðurinn að gera grein fyrir afstöðu sinni á hluthafafundum eða eftir atvikum með öðrum hætti. Stapi kann að selja verðbréf félags sem ekki standast viðmið sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar ef viðbrögð viðkomandi félags við ábendingum sjóðsins samræmast ekki viðmiðum okkar.
Upplýsingagjöf
Sjóðurinn mun leggja áherslu á að tryggja að þeir aðilar sem þau fjárfesta í s.s. félög, sveitarfélög, ríki og eignastýrendur, veiti sem skýrastar og áreiðanlegastar upplýsingar er að lúta að helstu UFS þáttum í rekstri og virðiskeðju þeirra.
Innleiðing á aðferðafræði út frá eignaflokkum
Mikilvægt er að sjóðurinn taki mið af þeim ólíkum eignaflokkum sem hann fjárfestir í við að beita aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Verklag hverju sinni tekur mið af eðli eigna og hvort sjóðurinn fjárfesti með beinum hætti eða í gegnum eignastýringaraðila.
Stapi hefur undirritað viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar þar sem m.a. er lýst yfir að sjóðurinn taki tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem stjórnvöld hafa sett sér, t.a.m. markmið Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þá hefur Stapi einnig undirritað viljayfirlýsingu um fjárfestingar í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum til ársins 2030 í samstarfi við Climate Investment Coalition (CIC). Með yfirlýsingunni staðfesti sjóðurinn vilja sinn til að auka grænar fjárfestingar og styðja við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu í samræmi við Parísarmarkmiðið. Í tengslum við samstarfið við CIC setti Stapi markmið um að hlutfall grænna eigna verði 7% af heildareignum sjóðsins árið 2030.
Stapi tekur ekki sérstaklega tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti. Innan sjóðsins er hins vegar unnið að því að greina áhrif eignasafnsins á skilgreinda sjálfbærniþætti (PAI) svo unnt sé að upplýsa hvaða áhrif fjárfestingar sjóðsins hafa á þá. Stefnt að því að vinnu við þá greiningu verði lokið árinu 2026 og niðurstöður hennar verði birtar í kjölfarið.
3. Er áhætta tengd sjálfbærni felld inn í starfskjarastefnu Stapa sbr. 5. gr. SFDR?
Starfskjarastefna Stapa lífeyrissjóðs tekur mið af þeim reglum sem settar hafa verið um hlutafélög í ákvæðum 79. gr. laga nr. 2/1995. Starfskjarastefnan byggir á meginreglum um góða stjórnarhætti og hefur það að markmiði sjóðurinn hafi ávallt á að skipa góðu og traustu starfsliði. Með því móti vill sjóðurinn treysta þá viðleitni sína að hann veiti framúrskarandi þjónustu, hafi hagsmuni sjóðfélaga ávallt að leiðarljósi og að ætíð sé beitt vönduðum og faglegum vinnubrögðum í allri
starfsemi hans. Starfskjarastefnan á þannig að leggja grunn að skilvirkni í starfsemi sjóðsins og stuðla að því að hann nái markmiðum sínum með sjálfbærum hætti.
Samkvæmt starfskjarastefnu sjóðsins heimilar sjóðurinn ekki samninga um kaupauka eða starfskjör sem eru skilgreind út frá árangri og eru ekki þáttur í föstum starfskjörum, þar sem endanleg fjárhæð eða umfang liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrirfram. Að því leyti telur stjórn sjóðsins stefnuna ekki stuðla að óhóflegri áhættutöku. Þá er gert ráð fyrir að árangur í sjálfbærnimálum verði hluti af árangursmati stjórnenda.
Áhætta tengd sjálfbærni er hins vegar ekki sérstaklega innfelld í gildandi starfskjarastefnu sjóðsins, enda greiðir sjóðurinn ekki kaupauka. Starfskjarastefnan styður hins vegar að mati stjórnar við að starfsmenn horfi til sjónarmiða um sjálfbærniáhættu í störfum sínum.
Starfskjarastefna Stapa er uppfærð og endurskoðuð árlega og lögð fyrir ársfund til staðfestingar.