Lífeyrissjóðum er eingöngu ætlað að bæta tekjutap við ákvörðun greiðslna vegna örorku. Því eru reglulega gerðar svokallaðar tekjuathuganir þar sem skoðaðar eru tekjur eftir orkutap og bornar saman við tekjur fyrir orkutap (viðmiðunartekjur). Ef tekjur eftir orkutap, að meðtöldum fullum greiðslum frá lífeyrissjóðnum, eru hærri en uppreiknaðar viðmiðunartekjur þá lækkar lífeyrissjóðurinn eða fellir niður greiðslu örorkulífeyris.
Þann 18. desember sl. var á Alþingi samþykkt breyting á lögum 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem bráðabirgðaákvæði XI (víxlverkunarákvæði) var framlengt til loka árs 2026. Samkvæmt nýja ákvæðinu er lífeyrissjóðum óheimilt, á tímabilinu 1. september 2025 til og með 31. desember, að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum skv. lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunnar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.
Fram til 31. ágúst sl. gilti sambærilegt bráðabirgðaákvæði sem var ekki framlengt þegar það rann sitt skeið. Stapi lífeyrissjóður framkvæmdi því tekjuathugun í nóvember síðastliðnum, þar sem tekjur september og októbermánaðar voru teknar inn að fullu, í samræmi við gildandi lög þess tíma. Örorkulífeyrisþegar fengu annars vegar allir bréf með upplýsingum um breytta löggjöf og breytta framkvæmd tekjuathugunar vegna þess og hins vegar fengu þeir sem urðu fyrir breytingum sérstakt upplýsingabréf um þær.
Framlenging víxlverkunarákvæðisins sem lögfest var í desember var afturvirk frá 1. september síðastliðnum. Þar sem lagabreytingin gekk ekki í gegn fyrr en langt var liðið á desember reyndist ekki mögulegt að endurtaka tekjuathugunina, samkvæmt breyttum forsendum, fyrir útreikning lífeyrisgreiðslna mánaðarins. Því verða greiðslur í lok mánaðarins með þeim hætti sem áður útsend bréf tilgreindu.
Í janúar nk. verður tekjuathugun nóvembermánaðar hins vegar endurtekin og útreikningur örorkulífeyris vegna desember leiðréttur hjá þeim sem það á við. Þeir sem hækka aftur vegna nýja bráðabirgðaákvæðisins munu fá bréf um breytinguna og endurreiknaða greiðslu í lok janúar.