Stapi skilar ekki auðu

Hluthafastefna Stapa tilgreinir viðhorf sjóðsins gagnvart starfskjarastefnum þar sem sjóðurinn er hluthafi. Þar kemur meðal annars fram að stefnan skuli vera skýr, sjálfbær og hafa langtímahagsmuni viðkomandi félags að leiðarljósi. Byggi kjör að einhverju leyti á breytilegum greiðslum skulu þau upplýst og rökstudd af stjórn og hafa skýran rekstrarlegan tilgang.

Í ljósi umræðu um framkvæmd starfskjarastefnu skráðra innlendra hlutafélaga og aðgerðir hluthafa telur sjóðurinn rétt að halda því til haga að Stapi hefur frá og með árinu 2018 upplýst á heimasíðu sjóðsins um ráðstöfun atkvæðaréttar á hluthafafundum skráðra innlendra hlutafélaga. Þar má meðal annars sjá að í fyrra hafnaði sjóðurinn í fjórum tilvikum tillögum stjórnar um breytingar á starfskjarastefnu eða kaupréttum starfsmanna þar sem þær samrýmdust ekki hluthafastefnu sjóðsins;

  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Icelandair um starfskjarastefnu, sem og tillögu um langtíma hvatakerfi á hluthafafundi þann 3. mars 2022
  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Símans um kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, stjórnendur og lykilstarfsmenn á hluthafafundi 10. mars 2022
  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Skeljungs (nú Skel) um breytta starfskjarastefnu og kaupréttaráætlun á hluthafafundi 10. mars 2022
  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Marel um starfskjarastefnu og kaupréttarkerfi Marel á hluthafafundi 16. mars 2022

Á næstu dögum og vikum eru á dagskrá fjölmargir aðalfundir skráðra innlendra félaga. Stapi mun eftir sem áður veita þeim félögum sem hann fjárfestir í aðhald og koma á framfæri ábendingum um hvað megi betur fara í framkvæmd starfskjarastefnu og stjórnarháttum. Slíkt getur sjóðurinn gert með ráðstöfun atkvæða eða bókunum á hluthafafundum, samskiptum við stjórn félaga eða sölu á eignarhluta í viðkomandi félögum.