Ráðstöfun tilgreindrar séreignar inn á lán

Samkvæmt lögum nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð er rétthafa, sem ekki nær hámarksfjárhæðum með ráðstöfun á viðbótariðgjaldi séreignarsparnaðar, heimilt að nýta skattfrjálsa úttekt á tilgreindri séreign til fyrstu kaupa. Heimild rétthafa takmarkast við ráðstöfun á allt að 3,5% iðgjaldshluta af iðgjaldsstofni sem ráðstafað hefur verið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign.

  • Samanlögð ráðstöfun rétthafa á viðbótariðgjaldi séreignarsparnaðar og tilgreindri séreign takmarkast við hámarksfjárhæð 500 þús kr. fyrir hverja 12 mánuði á almanaksári á samfelldu 10 ára tímabili.

Sjóðfélagar í tilgreindri séreign hjá Stapa geta nýtt sér þessa heimild, en misjafnt er hvort þeir þurfi að hafa samband við Skattinn og/eða Stapa vegna þess eða ekki.

Viðbótarlífeyrissparnaður (séreign) og tilgreind séreign hjá Stapa

  • Ef sjóðfélagi í séreignardeild Stapa, sem er nú þegar með virka heimild til ráðstöfunar séreignar frá Stapa inn á lán (og fyllir ekki upp í hámarksfjárhæð) þá mun tilgreind séreign einnig ráðstafast inn á lánið, sé hún til staðar hjá Stapa.

Viðbótarlífeyrissparnaður (séreign) hjá öðrum vörsluaðila en tilgreind séreign hjá Stapa

  • Ef sjóðfélagi í tilgreindri séreign hjá Stapa er með virka heimild til ráðstöfunar séreignar inn á lán hjá Skattinum, en viðbótarlífeyrissparnaðurinn er ekki hjá Stapa heldur öðrum vörsluaðila, þá þarf viðkomandi sjóðfélagi að bæta Stapa við sem vörsluaðila á umsókn sína hjá Skattinum og hafa samband við Stapa til að láta vita ef iðgjöld ársins 2023 eiga að ráðstafast inn á lán. Ef svo er, sendið tölvupóst um málið á stapi@stapi.is.

Viðbótarlífeyrissparnaður (séreign) hjá Stapa en tilgreind séreign hjá öðrum vörsluaðila

  • Ef sjóðfélagi í séreignardeild Stapa, sem er nú þegar með virka heimild til ráðstöfunar séreignar frá Stapa inn á lán (og fyllir ekki upp í hámarksfjárhæð) vill vísa tilgreindri séreign frá öðrum vörsluaðila inn á lán, þá þarf að hafa samband við þann vörsluaðila til að kanna ferlið, því ekki leyfa allir vörsluaðilar tilgreindrar séreignar ráðstöfun inn á lán.

Tilgreind séreign hjá Stapa en enginn viðbótarlífeyrissparnaður (séreign)

  • Sjóðfélagi sem ekki leggur fyrir viðbótarlífeyrissparnað getur samt sem áður ráðstafað tilgreindri séreign inn á lán.Til þess þarf að sækja um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán hjá Skattinum og tilgreina þar Stapa sem vörsluaðila, þ.e. ef sjóðfélaginn er með tilgreinda séreign hjá Stapa.

Allar upplýsingar um nýtingu séreignarsparnaðar inn á lán er að finna á vefsíðu Skattsins.