Nýr áhættustjóri og breytt skipurit

Ottó Hólm Reynisson hefur verið ráðinn áhættustjóri Stapa lífeyrissjóðs. Hann lauk B.Sc. námi í stærðfræði með tölvunarfræði- og fjármálakjörsvið við Háskóla Íslands og leggur nú lokahönd á M.Sc. nám í tölfræði frá sama skóla. Ottó starfaði áður í áhættustýringu Íslandsbanka við mat á útlánaáhættu og líkanagerð og við tölfræðiráðgjöf hjá Tölfræðiráðgjöf Háskóla Íslands og Estima tölfræðiráðgjöf. Gert er ráð fyrir að Ottó hefji störf í júní en þá tekur nýtt skipurit sjóðsins gildi.

Breytingar á skipuriti sjóðsins fela m.a. í sér að Jóna Finndís Jónsdóttir sem gegnt hefur hlutverki áhættustjóra frá árinu 2012 tekur við nýrri stöðu forstöðumanns réttindasviðs. Undir réttindasvið heyra lífeyris- og iðgjaldadeild. 

Þá hefur Brynjar Þór Hreinsson verið skipaður fjárfestingarstjóri Stapa, en hann hóf störf sem sjóðstjóri hjá sjóðnum í janúar sl. Brynjar Þór tekur við af Arne Vagn Olsen sem hefur gegnt starfinu frá árinu 2012.