Nánar um breytingar á útreikningi örorkulífeyris

Eitt af skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris er að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjutapi vegna örorkunnar. Fjórum sinnum á ári gerir Stapi tekjuathugun þar sem tekjur fyrir orkutap eru bornar saman við tekjur eftir orkutap. Horft er til meðaltekna 12 mánuði aftur í tímann. Ef tekjur eftir orkutap reynast hærri þá skerðir lífeyrissjóðurinn (eða fellir alveg niður) greiðslu örorkulífeyris. Nýlega kynnti sjóðurinn breytingar á framkvæmd tekjuathugana.

Ástæða breytingarinnar 

Frá árinu 2011 til 31. ágúst sl. var í gildi bráðabirgðaákvæði í lögum um lífeyrissjóði sem bannaði sjóðunum að lækka greiðslur vegna almennra hækkana örorkulífeyris hjá Tryggingastofnun (TR). Þann 1. september sl. féll ákvæðið niður og því mun sjóðurinn hér eftir taka fullt tillit til greiðslna frá TR við útreikning örorkulífeyris. 

Hver verða áhrifin?

Við mat á tekjum örorkulífeyrisþega fyrir 1. september sl. verður horft framhjá almennum hækkunum örorkulífeyris hjá TR frá úrskurðarmánuði, en við mat á tekjum eftir 1. september verður fullt tillit tekið til tekna frá TR. Áhrif brotthvarfs víxlverkunarákvæðisins mun því að fullu koma fram á næstu 12 mánuðum.

Breytt framkvæmd hefur ekki áhrif á stærstan hluta þeirra sem fá örorkulífeyri frá Stapa nú í desember nk. en getur haft áhrif síðar þegar fullt tillit er tekið til tekna frá TR.

  • Örorkulífeyrisþegar Stapa sem hafa fengið greiðslur frá árinu 2011 fengu sent upplýsingabréf um breytinguna á Ísland.is.
  • Ef breyting verður á örorkulífeyri hjá einstaka örorkulífeyrisþega í tekjuathugun í nóvember hefur sérstök tilkynning þess efnis borist inn á Ísland.is hjá viðkomandi lífeyrisþega.

Sjóðfélagar eru hvattir til að hafa samband við sjóðinn varðandi frekari upplýsingar og uppfæra tekjuáætlun sína hjá TR ef við á.