Lífeyrir sjóðfélaga sem eru búsettir erlendis

Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs Stapa var áhugaverðu viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær varðandi iðgjöld sjóðfélaga sem eru búsettir erlendis.

Um 2.000 sjóðfélagar Stapa, sem ekki hafa hafið töku eftirlauna en eru 60 ára eða eldri, eru búsettir erlendis samkvæmt Þjóðskrá.

  • Hluti af þessum aðilum eru íslenskir ríkisborgarar, þeir eiga væntanlega eftir að sækja um eftirlaun.
  • Um helmingur þeirra eru pólskir, þeirra réttur til eftirlauna er að meðaltali um 6.000 kr. á mánuði sem samsvarar um 1.000.000 kr. eingreiðslu (fyrir skatt).
  • Hluti þessara aðila eru væntanlega látnir en ekki er hægt að dreifa réttindasjóði viðkomandi til annarra sjóðfélaga á meðan ekki er vitað hverjir það eru sem fallnir eru frá.

Hætta er á að erlendir ríkisborgarar fari á mis við réttindi sín í lífeyrissjóðum ef þeir sækja ekki rétt sinn. Því sjaldnast hefur lífeyrissjóðurinn upplýsingar um heimilsfang erlendis eða netfang til að hafa samband þegar eftirlaunaaldri er náð. 

Hluti þessa erlenda hóps getur fengið iðgjöld endurgreidd við brottflutning frá landinu, þ.e. þeir sem eru með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins og Bandaríkjanna, sjá nánar á lifeyrismal.is . Ef þeir sækja ekki um endurgreiðslu við brottför þá geta þeir vissulega nýtt lífeyrisréttindi sín síðar, líkt og aðrir sjóðfélagar og nálgast umsókn á vef Stapa.

Hinn hluti erlendra ríkisborgara, þ.e. þeir sem eru með ríkisfang innan EES eða Bandaríkjanna geta ekki fengið greitt við flutning af landi brott, en geta hins vegar nýtt eftirlaunaréttindi strax frá 60 ára aldri auk þess sem þeir eiga geta átt rétt á örorkulífeyri og maki á makalífeyri við fráfall sjóðfélaga.

Gott væri ef atvinnurekendur myndu hvetja sjóðfélaga til að gera eftirfarandi:

  • Skilja eftir hjá lífeyrissjóðnum heimilisfang erlendis og netfang svo að lífeyrissjóðurinn geti sent upplýsingar, s.s. sjóðfélagayfirlit og ábendingu þegar eftirlaunaaldri er náð.
  • Skrá sig út úr landinu hjá þjóðskrá við brottför, annað hvort sjálfir eða atvinnurekendur ef um kerfiskennitölu er að ræða, svo að innlent heimilisfang verði ekki ranglega skráð eftirleiðis.
  • Sækja um eftirlaun / örorkulífeyri / makalífeyri á samevrópskum E202/E203 umsóknum hjá systurstofnunum Tryggingastofnunar erlendis. Eða annars beint á vef lífeyrissjóðsins.
  • Ef réttindi eru umtalsverð, þ.e. hærri en svo að við getum greitt þau með eingreiðslu þá er best að geyma eða stofna nýjan íslenskan bankareikning við lífeyristöku, því mánaðarlegar millifærslur á lífeyri inn á erlenda reikninga eru dýrar.

Frétt um þetta birtist einnig á vefsíðu ríkisútvarpsins og Iceland Review birti einnig grein um málið.