Launagreiðendayfirlit aðgengileg á vef

Launagreiðendur sem skráð hafa virk netföng á vef launagreiðenda hafa fengið orðsendingu í tölvupósti þess efnis að yfirlit vegna iðgjalda sem borist hafa sjóðnum frá 1. október 2023 til 29. febrúar 2024 eru nú aðgengileg á vefnum.

Yfirlitin eru eingöngu á rafrænu formi og ekki send út á pappír nema ef sérstaklega er óskað eftir því. Þeir launagreiðendur sem kjósa að fá yfirlit send á pappír geta haft samband við Stapa í síma eða sent inn beiðni á netfangið idgjold@stapi.is

Við hvetjum launagreiðendur jafnframt til að skrá inn virk netföng á vefinn til að auðvelda upplýsingagjöf.

Neðangreindar upplýsingar um tilgreinda séreign fylgdu tölvupóstinum til launagreiðenda:

Margir kjara- eða ráðningarsamningar heimila ráðstöfun allt að 3,5% af skylduiðgjaldi í tilgreinda séreign. Sjóðfélagar sem kjósa þennan valkost þurfa að fylla út tilkynningu þess efnis á vef Stapa og geta þar valið að ávaxta tilgreinda séreign sína annað hvort hjá Stapa eða öðrum vörsluaðila. Launagreiðandi fær ekki upplýsingar um að launþegi hafi valið valkostinn og þarf ekki að bregðast við á neinn hátt, lögbundnu iðgjaldi er skilað á sama hátt og áður.

Nokkuð hefur borið á að sölumenn erlendra aðila heimsæki fyrirtæki og fái þar leyfi til að kynna valkostinn fyrir launþegum. Við viljum benda á að kostnaður, sem fellur á launþegann, við ráðstöfun í tilgreinda séreign hjá erlendu aðilunum er umtalsvert hærri en hjá innlendum vörsluaðilum séreignar, m.a. vegna þess að sölumenn fá greitt fyrir undirritaða samninga og hafa því síður hvata til að kynna valkostinn á hlutlausan hátt. Af þessum sökum er mikilvægt að réttar upplýsingar og samanburður liggi fyrir áður en ákvörðun um slík viðskipti er tekin.

Ef fyrirtæki eða starfsmannafélög óska eftir að fá upplýsingar um tilgreinda séreign og/eða önnur mál tengd Stapa, má alltaf fá starfsmann frá sjóðnum til að fara yfir málin.

Vinsamlega hafið samband ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir.