Ísland efst í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa

Íslenska lífeyriskerfið er í efsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að. Ísland var í fyrsta sinn með í þessum samanburði en 43 lönd úr öllum heimsálfum þ.á.m. öll Norðurlöndin taka þátt í vísitölunni en niðurstaðan var birt í síðustu viku.  

Lífeyriskerfin geta mest fengið 100 stig á vísitölulistanum. Í næstu sætum fyrir neðan Ísland eru Holland og Danmörk en ríkin voru þau einu sem lentu í efsta flokki vísitölunnar. Ísland fékk 84,2 stig, Holland 83,5 stig og Danmörk 82,0 stig en ríkin voru þau einu sem náðu yfir 80 stigum og teljast því búa við öflug lífeyriskerfi sem skili góðum réttindum, eru sjálfbær og með trausta umgjörð. 

Þessi samanburður lífeyriskerfa byggist annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnunni – OECD og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum en hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.

Helstu skýringar á góðum árangri Íslands eru.

  • Góðir stjórnarhættir og regluverk lífeyrissjóða í kerfi með góða eiginleika
  • Samtryggingarlífeyrissjóðir alls launafólks með hárri iðgjaldaprósentu sem leiði til þess að verulegar eignir eru lagðar til hliðar fyrir framtíðina
  • Tiltölulega ríflegur lífeyrir frá ríkinu (Tryggingastofnun)

Í skýrslunni er einnig bent á hvernig Ísland getur hækkað heildareinkunn enn frekar. Það yrði helst gert með því að:

  • Minnka skuldir heimilanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu
  • Hækka lífeyristökualdur eftir því sem lífslíkur halda áfram að aukast
  • Minnka skuldir ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ítarefni:

Frétt á vefsíðu Landssamtaka lífeyrissjóða
Frétt á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands
Mercer-CFA skýrsla ársins 2021
Samantekt Mercer á helstu atriðum skýrslunnar