Ávöxtun sjóðsins

Fjárfestingarumhverfið hefur verið krefjandi síðustu mánuði. Það sem af er ári hefur ávöxtun Stapa verið mun lakari en þrjú árin þar á undan, sem gáfu sérstaklega góða ávöxtun.

Árið 2022 hefur reynst óhagstætt á eignamörkuðum. Helstu ástæður lækkunar eignaverðs eru:

  • Stríðsástand í Úkraínu sem hefur haft veruleg áhrif á verðbólgu, s.s. til hækkunar matvæla- og orkuverði.
  • Seðlabankar heimsins hafa hækkað vexti hraðar en vonir stóðu til í upphafi ársins, til að stemma stigu við verðbólgu.

Bæði innlend og erlend hlutabréf hafa lækkað mikið í verði sem hefur minnkað vægi þessara eignaflokka á meðan vægi skuldabréfa í eignasafninu hefur aukist. Hvorki verðtryggð né óverðtryggð skuldabréf hafa reynst fullnægjandi vörn í þessum aðstæðum þar sem ávöxtunarkrafa þeirra hefur farið hratt hækkandi á árinu og verð þeirra því lækkað.

Tryggingadeild

Nafnávöxtun sjóðsins það sem af er ári er neikvæð um 4,6% en langtímaávöxtun er góð hvort sem horft er til 5, 10 eða 20 ára. Árleg raunávöxtun á þessu tímabili hefur verið á bilinu 3,8-3,9% (þ.m.t. 9M 2022) sem er yfir langtímamarkmiði um 3,5% árlega ávöxtun.

Séreignardeild

Nafnávöxtun séreignar á fyrstu níu mánuðum þessa árs er neikvæð, bæði í Varfærna (-8,3%) og Áræðna safninu (-10,6%), en árleg meðals nafnávöxtun þeirra er hins vegar verulega jákvæð sé horft til lengri tíma, hvort heldur 2, 5 eða 10 ára. Nánari upplýsingar er að finna í upplýsingablaði séreignar sem gefið er út á þriggja mánaða fresti og birt á vefsíðu sjóðsins.

Tilgreind séreign

Nafnávöxtun tilgreindrar séreignar á fyrstu níu mánuðum þessa árs er neikvæð sem nemur 9,3%. Safnið er frekar nýtt en sjóðfélagar byrjuðu að greiða inn í safnið fyrir um fimm árum, í kjölfar kjarasamnings milli ASÍ og SA. Á meðan safnið er að vaxa hlutfallslega mikið á hverju ári má búast við sveiflum í ávöxtun. Árleg nafnávöxtun á þessum fimm árum er jákvæð um 4,5%.

Markaðshorfur

Staða íslenska hagkerfisins er þrátt fyrir allt nokkuð góð, útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna sé nú að ná fyrri hæðum og samsetning ferðamanna er betri en oft áður. Hagvöxtur hefur reynst umfram spár og hefur verið drifinn áfram af innlendri eftirspurn. Aðgerðir Seðlabanka Íslands til þess að slá á verðbólgu virðast vera að ná tilætluðum árangri og hefur tólf mánaða verðbólgutaktur lækkað í tveimur síðustu mælingum. Verðbólga er nú undir síðustu spá Seðlabankans, þrátt fyrir að vera yfir langtímamarkmiðum hans.

Við erum að koma úr tímabili lágra vaxta og hárrar ávöxtunar. Nú ber svo við að á nýjum sjóðfélgayfirlitum koma fram neikvæðar ávöxtunartölur í takt við þróun markaða sem er frábrugðið yfirlitum síðustu ára. Flest ár í rekstri Stapa í núverandi mynd hafa verið hagstæð hvað varðar ávöxtun en í því árferði sem nú ríkir er ljóst að um tímabil lakari ávöxtunar er að ræða. Í tilfelli lífeyrissjóða er þó rétt að skoða ávöxtun yfir lengri tíma. Sögulega, mælt yfir lengri tímabil, hefur sjóðurinn skilað ávöxtun umfram markmið.