Stapi lífeyrissjóður er með sérstakan vef – vef sjóðfélaga – þar sem hver og einn sjóðfélagi getur fengið upplýsingar um lífeyrisrétt sinn. Hægt er að nota rafræn skilríki í síma eða íslykil til innskráningar. Á vefnum er bæði að finna upplýsingar um réttindi í skyldutryggingu og viðbótarlífeyrissparnaði. Af sjóðfélagavefnum er einnig hægt að komast inn á svokallaða lífeyrisgátt þar sem þú getur séð réttindin þín í öllum lífeyrissjóðum sem þú hefur greitt til.
Í sjálfu sér hefur það ekki mikil áhrif ef þú átt réttindi í mörgum sjóðum. Þú getur fylgst með réttindum þínum í öllum sjóðum með því að skrá þig inn á sjóðfélagavefinn og velja Lífeyrisgátt í valmyndinni, en þar eru upplýsingar um öll þín réttindi hjá lífeyrissjóðum. Við töku lífeyris á að vera nægjanlegt að sækja um lífeyri hjá þeim sjóði sem þú greiddir síðast til. Sá sjóður á að senda afrit umsóknar til annarra lífeyrissjóða sem þú átt réttindi hjá. Til er svokölluð lífeyrisskrá sem lífeyrissjóðir hafa aðgang að. Þar sjá þeir í hvaða aðra lífeyrissjóði þeirra sjóðfélagar hafa greitt og eiga að senda afrit af umsókninni áfram til þessara sjóða (lífeyrisskráin sýnir eingöngu til hvaða sjóða hefur verið greitt, en ekki hvaða réttindi viðkomandi á hjá öðrum sjóðum). Mikilvægt er samt sem áður fyrir sjóðfélagann að fylgjast með og athuga hvort umsókn hefur ekki skilað sér til allra þeirra sjóða, þar sem hann á réttindi.
Venjan er að hefja töku eftirlauna við 67 ára aldur. Hægt er að hefja tökuna fyrr eða við 60 ára aldur eða fresta henni til allt að 80 ára aldurs. Fjárhæð eftirlaunanna breytist eftir því hvenær taka þeirra hefst. Þeim mun síðar sem taka eftirlauna hefst þeim mun hærri verða eftirlaunin. Það fer þó alltaf eftir aðstæðum hvers og eins hvenær heppilegast er að hefja töku eftirlauna.
Já, sækja þarf um lífeyri hjá sjóðnum. Hægt er að gera það á vefsíðu sjóðsins með því að fylla þar út rafræna umsókn. Einnig er hægt að prenta út eyðublað og senda sjóðnum með hefðbundnum pósti, eða koma á skrifstofur sjóðsins. Sjóðurinn mun senda afrit af umsókn þinni til annarra sjóða þar sem þú átt réttindi. Mikilvægt er samt sem áður að þú fylgist með því að úrskurðað hafi verið út á öll réttindi þín, en þú getur séð í hvaða sjóðum þú átt réttindi með því að skoða það á lífeyrisgáttinni á sjóðfélagavefnum.
Breytingar verða á upphæð eftirlauna eftir því hvenær sjóðfélagi kýs að hefja töku, þannig lækka greiðslur til þeirra sem hefja töku lífeyris fyrir 67 ára aldur en hækka fyrir þá sem hefja töku eftir 67 ára aldur. Breytingarnar byggjast á svokölluðum tryggingafræðilegum forsendum. Þetta þýðir að lifi sjóðfélagi nákvæmlega jafn lengi og meðalmaðurinn, sem náð hefur eftirlaunaaldri, á hann að fá það sama út úr lífeyrissjóðnum óháð því hvenær hann hefur töku eftirlauna.
Öllu jafna eru eftirlaun greidd mánaðarlega ævilangt. Á því er þó undantekning ef um lága fjárhæð er að ræða.
Um eftirlaun og annan lífeyri er hægt að sækja á vefsíðu sjóðsins. Fylla má út rafræna umsókn á vef sjóðsins, eða prenta út eyðublað, fylla það út og senda sjóðnum, annað hvort skannað í tölvupósti eða með hefðbundnum pósti. Einnig er hægt að koma á skrifstofur sjóðsins og sækja um lífeyri þar.
Réttindi til eftirlauna ávinnast með greiðslu iðgjalda til sjóðsins og þeim árangri sem sjóðurinn nær við að ávaxta iðgjöldin þar til þau koma til endurgreiðslu í formi eftirlauna. Þar sem ávöxtun er breytileg frá ári til árs er ávinnsla réttindanna það einnig. Með þessu fyrirkomulagi, sem kallað er eignatengd réttindaávinnsla, fylgjast eignir sjóðsins og verðmæti skuldbindinga hans að á hverjum tíma. Skuldbindingar sjóðsins eru þau lífeyrisloforð sem sjóðfélagarnir eiga í sjóðnum. Þetta kerfi var samþykkt á ársfundi sjóðsins 29. apríl 2015 og tekur gildi frá og með 1. janúar 2016. Markmiðið með upptöku þessa nýja kerfis er að sem mest jafnvægi sé á milli eigna sjóðsins og skuldbindinga á hverjum tíma. Í eldri réttindakerfum, sem ýmist byggðu á aldurstengdri réttindaávinnslu eða jafnri réttindaávinnslu gat oft myndast mikill munur á milli eigna og skuldbindinga. Við þessum mun varð að bregðast með aukningu eða skerðingu réttinda, sem voru misvinsælar aðgerðir. Í eignatengdri réttindaávinnslu er þessi aðlögun milli eigna og réttinda að mestu innbyggð í kerfið og gerist sjálfkrafa frá mánuði til mánaðar. Rétt er þó að taka fram að sumir sjóðfélagar eiga enn ákveðinn rétt til jafnrar réttindaávinnslu.
Réttindakerfi Stapa lífeyrissjóðs byggir á því sem kallað hefur verið eignatengd réttindaávinnsla. Iðgjöld eru greidd til sjóðsins þar sem þau eru ávöxtuð og mynda þá eign sem er í sjóðnum á hverjum tíma. Réttindin í sjóðnum byggja alfarið á þessum eignum. Þegar iðgjald er greitt til sjóðsins er því skipt, þannig að hluti þess fer til að tryggja eftirlaunaréttindi og hluti til áfallatrygginga. Skiptingin er háð aldri sjóðfélaga og fer eftir Töflu I í samþykktum sjóðsins. Þeim hluta sem fer til eftirlauna er safnað í sjóð sem kallaður er réttindasjóður. Réttindasjóður er sá sjóður sem stendur á bak við loforðið um greiðslu eftirlauna til sjóðfélagans á hverjum tíma. Réttindasjóður hvers sjóðfélaga er ekki séreign hans, heldur reiknaður hluti af þeim eignum sem sameiginlega tryggja eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum. Réttindasjóður erfist ekki við fráfall. Þegar sjóðfélagi hefur náð eftirlaunaaldri er réttindasjóði breytt í eftirlaun samkvæmt Töflu II í samþykktum sjóðsins.
Skiptingin fer eftir Töflu I í samþykktum sjóðsins. Taflan byggir á tryggingafræðilegum forsendum, þar sem metinn er kostnaður við annars vegar eftirlaun og hins vegar áfallalífeyri miðað við aldur sjóðfélaga. Með skiptingu iðgjaldsins er sýndur sá kostnaður sem er á bak við mismunandi tryggingar. Áfallalífeyrir skiptist í örorku-, maka- og barnalífeyri. Stærsti kostnaðurinn við áfallatryggingar er örorkulífeyrir. Áfallatryggingar eru dýrar þegar einstaklingurinn er ungur, enda getur þurft að greiða einstaklingi örorkulífeyri um mjög langan tíma. Kostnaðurinn við áfallatryggingar minnkar eftir því sem sjóðfélagi nálgast eftirlaunaaldurinn. Yfir starfsævina í heild fara um ¾ hlutar iðgjaldsins til að mynda eftirlaunaréttindi og um ¼ til áfallatrygginga.
Réttindakerfi Stapa lífeyrissjóðs er kallað eignatengd réttindaávinnsla. Sá hluti iðgjalds til sjóðsins sem fer til að mynda eftirlaunaréttindi kallast réttindasjóður. Réttindasjóðurinn byggist upp yfir starfsævina með greiðslu iðgjalda og ávöxtun. Ávöxtun sveiflast og er mismunandi frá ári til árs. Eftirlaunaréttindin breytast í takti við breytingar á eignavísitölu sjóðsins, sem mælir ávöxtun á eignum hans. Réttindasjóðurinn byggist upp með eftirfarandi hætti skv. 17. gr. í samþykktum sjóðsins:
a) |
+ |
Iðgjald greitt til sjóðsins |
b) |
+ |
Jöfnunariðgjald ef réttur til jafnrar ávinnslu er fyrir hendi |
c) |
- |
Framlag í starfsendurhæfingarsjóð |
d) |
- |
Hluti iðgjalds sem fer til áfallatrygginga |
|
= |
Iðgjald til uppsöfnunar í réttindasjóð |
e) |
+/- |
Ávöxtun á eignir sjóðsins skv. eignavísitölu |
f) |
+ |
Hlutdeild í iðgjaldasjóðum látinna sjóðfélaga |
g) |
+/- |
Breytingar vegna tryggingafræðilegs uppgjörs |
|
= |
Breytingar á réttindasjóði á árinu |
|
+ |
Réttindasjóður í ársbyrjun |
|
= |
Réttindasjóður í árslok |
Sjóðfélagar sem höfðu verið í jafnri réttindaávinnslu og áttu réttindi í sjóðnum við árslok 2004 geta átt rétt á að slíkri ávinnslu áfram, enda hafi þeir fengið úthlutað viðmiðunariðgjaldi sem segir til um að hve miklu leyti réttindi þeirra geta áunnist í jafnri réttindaávinnslu. Þegar þau réttindi eru til staðar bætist iðgjald, sem kallað er jöfnunariðgjald, aukalega við réttindasjóðinn, sem tryggir þessa ávinnslu. Þessi ákvæði eru svokölluð sólarlagsákvæði, vegna eldra réttindakerfis hjá sjóðnum og munu detta út með tímanum.
Samkvæmt lögum ber lífeyrissjóðum að skila hluta af iðgjaldinu (0,10% af launum) til starfsendurhæfingarsjóðs. Þessi hluti iðgjaldsins myndar ekki réttindi hjá lífeyrissjóðnum, en á móti á sjóðfélaginn rétt á þjónustu frá starfsendurhæfingarsjóði.
Markmið eignatengdrar réttindaávinnslu er að eignir og skuldbindingar sjóðsins (verðmæti lífeyrisloforða) standist sem best á, á hverjum tíma. Slíkt jafnvægi er að mestu leyti innbyggt í kerfið. Þetta breytir þó ekki því að kostnaður, bæði við eftirlaun, eftir að þau eru úrskurðuð, og við áfallatryggingar, er áætlaður út frá lýðfræðilegum forsendum, sem breytast yfir tíma. Ef breytingar verða á þessum forsendum verður þeim fyrst og fremst mætt með því að töflum í samþykktum sjóðsins er breytt til samræmis, þannig að þær endurspegli gildandi forsendur. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að útiloka að einhverjar skekkjur kunni að koma fram eða einhver þróun valdi því að eignir og skuldbindingar standist ekki fyllilega á. Slíkar skekkjur eiga að koma fram í tryggingafræðilegu uppgjöri og þessi liður heimilar að tekið sé á slíkum skekkjum þannig að ekki myndist munur á eignum og skuldbindingum til frambúðar. Hér er fyrst og fremst um varúðarákvæði að ræða þar sem eignatengd réttindaávinnsla ætti þó að lágmarka nauðsyn á slíkum inngripum.
Þegar sjóðfélagi hefur náð tilteknum aldri getur hann hafið töku eftirlauna. Hefðbundinn eftirlaunaaldur er 67 ára, en hægt er að hefja tökuna hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð eða fresta henni til allt að 80 ára aldurs, að vali sjóðfélagans. Eftirlaunin ráðast af stöðu réttindasjóðs og aldri sjóðfélagans þegar hann ákveður að hefja töku eftirlauna. Þá er réttindasjóði hans breytt í eftirlaun í samræmi við Töflu II í samþykktum sjóðsins. Eftir að taka eftirlauna er hafin, eru þau greidd til sjóðfélaga á meðan honum endist aldur. Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar
Eignavísitala Stapa lífeyrissjóðs er sérstök vísitala sem reiknuð er út mánaðarlega og mælir breytingar á gangvirði eigna í eignasafni tryggingadeildar Stapa. Breytingar á gangvirði eigna eru venjulega kallaðar ávöxtun. Réttindasjóður er tengdur þessari vísitölu, sem þýðir að réttindi sjóðfélaga Stapa breytast í takt við breytingar á ávöxtun sjóðsins auk inngreiddra iðgjalda.
Með því að fá aðgang að sjóðfélagavef sjóðsins getur sjóðfélagi einnig fengið aðgang að lífeyrisgáttinni, þar sem hann fær upplýsingar um alla sjóði sem hann hefur greitt til og réttindi í hverjum og einum sjóði.
Eftirlaun eru greidd meðan sjóðfélaganum endist aldur. Þessi réttur erfist ekki. Hins vegar á maki sjóðfélaga rétt á makalífeyrisgreiðslum frá sjóðnum við fráfall sjóðfélagans. Eigi sjóðfélagi börn innan 18 ára aldurs við fráfallið er einnig greiddur barnalífeyrir vegna þeirra.
Tryggingadeild Stapa lífeyrissjóðs, sem tekur við iðgjöldum vegna skyldutryggingar, er tryggingasjóður að öllu leyti. Þetta þýðir að sjóðurinn sem stendur á bak við lífeyrisréttindin er sameign sjóðfélaganna. Réttindasjóður sjóðfélagans er sú hlutdeild sem til er í hinum sameiginlega sjóði til að mæta lífeyrisútgjöldum sjóðfélagans og erfist ekki. Falli sjóðfélagi frá áður en hann hefur tækifæri til að nýta sér lífeyrisrétt sinn, rennur sá hluti réttindasjóðsins sem stóð á bak við réttindi hans til réttindasjóða annarra eftirlifandi sjóðfélaga. Þetta er hluti af samtryggingunni í sjóðnum. Með þessu fyrirkomulagi eru greiðslur eftirlauna hámarkaðar, í stað erfða. Ef réttindasjóður myndi erfast þyrfti að lækka eftirlaun allra sjóðfélaga í sjóðnum um 7-8%.
Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna á milli sjóðfélagans og maka eins og tilgreint er í lögum og samþykktum sjóðsins. Þetta getur gerst með þrennum hætti.
Skiptingin tekur eingöngu til eftirlaunaréttinda og myndar ekki réttindi til áfallalífeyris hjá maka. Á sama hátt breytast réttindi sjóðfélagans til áfallalífeyris ekki við þessa skiptingu. Skipting réttindanna er því aðeins heimil að hún feli í sér gagnkvæma skiptingu á réttindum beggja aðila. Ekki er hægt að skipta aðeins réttindum annars aðilans. Hægt er að nálgast eyðublöð vegna skiptingar réttinda hér.
Mikilvægt er að hjón geri sér grein fyrir því í hverju skipting af þessu tagi er fólgin, áður en hún er ákveðin, og hverjir eru helstu kostir hennar og gallar.
Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og í samantekt Stapa um makasamninga.
Það er mjög einstaklingsbundið hvenær best er að hefja töku eftirlauna og fer eftir aðstæðum hvers og eins sjóðfélaga. Þar þarf að líta til hluta eins og þess hvort viðkomandi er enn í vinnu, hvernig fjölskylduaðstæður eru, hvaða sparnað viðkomandi á, s.s. eins og viðbótarlífeyrissparnað, hvaða áhrif lífeyrissjóðstekjur hafa á tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins o.s.frv. Mikilvægt er að sjóðfélagar hugleiði þessa hluti vel nokkru áður en ákvörðun er tekin. Starfsfólk lífeyrissjóðsins er ávallt reiðubúið til að veita upplýsingar, en ákvörðun um að hefja töku eftirlauna er alltaf hjá sjóðfélaganum.
Eftirlaun eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og taka sömu breytingum og verður á þeirri vísitölu á milli mánaða.
Ef þú hefur haldið áfram að greiða í sjóðinn eftir að þú byrjaðir á eftirlaunum þá eru eftirlaun þín hækkuð við 67/70 ára aldur vegna þess sem bæst hefur við í réttindasjóð þinn. Ef þú vilt að við endurskoðum eftirlaun þín fyrr, þá sendu okkur tölvupóst eða skilaðu inn annarri umsókn um eftirlaun.
Eftirlaun eru greidd síðasta virka dag mánaðar vegna eftirlauna þess mánaðar.
Eftirlaunin eru úrskurðuð af starfsmönnum lífeyrisdeildar sjóðsins. Úrskurðirnir eru unnir í lífeyrisgreiðslukerfi sjóðsins, sem er sérhæfður hugbúnaður til að annast lífeyrisúrskurði. Lífeyrisnefnd og áhættustjóri sjóðsins gera úrtakskannanir á lífeyrisúrskurðum ásamt því að fjalla um vafamál sem upp geta komið. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að sjóðfélagar fari yfir úrskurði og fái skýringar, ef það er eitthvað sem þeir ekki skilja eða vilja fá nánari skýringar á.
Já, greiddur er skattur af eftirlaunum með sama hætti og af launum. Ekki var greiddur skattur af iðgjöldunum þegar þau voru greidd til sjóðsins. Þetta þýðir í raun að skattgreiðslum var frestað við greiðslu iðgjaldsins til þess tíma er iðgjöldin koma til útgreiðslu í formi lífeyris. Í flestum tilfellum er slík skattfrestun hagstæð, þar sem lífeyristekjur eru yfirleitt lægri en launatekjur og því greitt lægra hlutfall af tekjunum í skatt. Mikilvægt er að skila inn skattkorti um leið og sótt er um eftirlaun til að nýta persónuafslátt og lágmarka skattgreiðslur, ef skattkort er ekki að fullu nýtt annars staðar.
Já, greiðslur frá lífeyrissjóðum – bæði eftirlaun og áfallalífeyrir – hafa áhrif á flestar tegundir bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Áhrifin eru misjöfn eftir tekjum og eru kölluð tekjutenging. Þau eru einnig misjöfn milli bótaflokka og frá ári til árs, samkvæmt ákvörðun stjórnvalda hverju sinni. Hver þessi áhrif eru má sjá með því að skoða frekar á vef Tryggingarstofnunar.
Já, sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku eftirlauna hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku á hálfum eftirlaunum hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð.
Þú getur hafið töku fullra eftirlauna hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð. Ef sjóðfélagi vill fresta töku eftirlauna að hluta eða öllu leyti, lengur en til 70 ára aldurs, þarf hann að sækja um það sérstaklega.
Sjóðfélagi er eingöngu bundinn við val sitt um töku eftirlauna í minnst 12 mánuði í senn.
Þú getur nálgast upplýsingar um eftirlaunarétt þinn á sjóðfélagavef Stapa. Með innskráningu á vefinn getur þú í gegnum Lífeyrisgátt nálgast heildarréttindi í skyldutryggingu lífeyrisréttinda hjá lífeyrissjóðum. Áætluð hálf eftirlaun eru helmingur áælaðra réttinda við tiltekinn aldur.
Upplýsingar um 50% ellilífeyri hjá TR á móti 50% lífeyri frá lífeyrissjóðum og skilyrði fyrir því má finna á vef Tryggingastofnunar.