Málefni ÍL-sjóðs

Fimmtudaginn 20. október sl. kynnti fjármálaráðherra niðurstöður skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs (hét áður Íbúðalánasjóður) og næstu skref sem fyrirhugað er að ráðast í. Skuldabréf voru gefin út af Íbúðalánasjóði frá árinu 2004, með ríkisábyrgð, sem bera 3,75% verðtryggða vexti og eru án uppgreiðsluheimilda (sk. íbúðabréf). Frá því tímamarki sem íbúðabréfin voru gefin út hefur vaxtastig á Íslandi lækkað og markaðsvirði skuldabréfanna þar með hækkað. Einn af valkostum sem fjármálaráðherra hefur nú lagt fram er að setja afturvirk lög um slit ÍL-sjóðs og framkalla þannig greiðsluþrot ÍL-sjóðs.

Daginn eftir umrædda kynningu fjármálaráðherra voru íbúðabréf sett á athugunarlista í Kauphöll Íslands vegna óvissu um útgefandann og verðmyndun bréfanna. Í framhaldinu hafa svo átt sér stað viðskipti með bréfin sem hafa leitt til þess að markaðsvirði þeirra hefur lækkað umtalsvert. Íbúðabréf með lokagjalddaga 2044 lækkuðu í verði um 16%, íbúðabréf með lokagjalddaga 2034 lækkuðu um rúmlega 8% og íbúðabréf með lokagjalddaga 2024 um rúmlega 1%.

Áhrif á Stapa

Heildarfjárhæð íbúðarbréfa í eignasafni Stapa nam um 32 mö. kr. þann 20. október sl. Í framhaldi af umræddum kynningarfundi fjármálaráðherra hefur virði bréfanna lækkað um 4,4 ma. kr. (13,6%) og nemur virði þeirra um 28 mö. kr. Áhrif lækkunar bréfanna á ávöxtun tryggingadeildar Stapa eru neikvæð sem nemur um 1,3% af heildareignum. Neikvæð áhrif á séreignarsöfn eru 2,0% í Varfærna safni, 1,8% í Áræðna safni og 0,7% í tilgreindri séreign. Mikilvægt er að sjóðfélagar hafi ofangreint í huga þegar að ákvörðun um ráðstöfun réttinda er tekin.

Gera má ráð fyrir því að eignavísitala sjóðsins við næsta útreikning hennar beri merki þessarar ráðstöfunar og hafi þannig áhrif á réttindi sem úrskurðuð verða á grunni hennar.