Tilgreind séreign

Tilgreind séreign er nýtt form lífeyrisréttinda sem varð til í kjölfar kjarasamnings ASÍ og SA þar sem m.a. var samið um 3,5% þrepaskipta hækkun á mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð. 

Vilji sjóðfélagi ráðstafa iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign, þarf hann að fylla út tilkynningu og skila inn til sjóðsins. Á tilkynningunni er að finna ítarlegar upplýsingar um tilgreinda séreign og hvaða þætti þarf að skoða áður en tekin er ákvörðun um hvernig iðgjaldinu er ráðstafað. Með tilkynningunni staðfestir sjóðfélagi að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um tryggingavernd í tryggingadeild sjóðsins annars vegar og þær reglur sem gilda um tilgreinda séreignardeild hins vegar. 

Ef sjóðfélagi skilar ekki tilkynningu til sjóðsins rennur iðgjaldið í tryggingadeild.

Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til ævilangs lífeyris, örorkulífeyris, þ.m.t. framreiknings né makalífeyris. Þannig er eðlismunur á þeim réttindum sem ávinnast í samtryggingu annars vegar og í tilgreindri séreign hins vegar.

Réttindi í tryggingadeild geta verið verðmæt tryggingaréttindi. Greiðslur á grundvelli þeirra geta numið hærri eða lægri fjárhæð en sem nemur uppsöfnuðum iðgjöldum sem greidd hafa verið til sjóðsins. Samhengi er milli fjárhæðar greiddra iðgjalda og þeirra réttinda sem sjóðfélagi ávinnur sér í tryggingadeild. Af því leiðir að ef sjóðfélagi ákveður að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar ávinnur hann sér minni tryggingaréttindi í samtryggingu en að sama skapi meiri réttindi í tilgreindri séreign.

Iðgjöld í tilgreinda séreign eru séreign sjóðfélaga. Falli hann frá greiðist hún til erfingja og skiptist skv. reglum erfðalaga.

Reglur um útgreiðslu eru tilgreindar í samþykktum sjóðsins. Meðal þess sem fram kemur þar er að eignin er laus til úttektar frá 62 ára aldri á tilteknu árabili, við orkutap ef örorka er umfram 50% og þá á ákveðnu árabili og við fráfall sjóðfélaga og þá eftir reglum erfðalaga. 

Vakin er sérstök athygli á því að ákvörðun sjóðfélaga hefur áhrif á þau réttindi sem iðgjöld hans mynda hjá lífeyrissjóðnum. Val um það hvort iðgjald skuli renna í tilgreinda séreignardeild í stað tryggingadeildar er undir ákvörðun sjóðfélaga komið.