Gagnkvæm skipting réttinda til eftirlauna

 

Vissir þú að sjóðfélaga og maka hans er heimilt að skipta réttindum til eftirlauna á gagnkvæman hátt?

Þetta getur gerst með þrennum hætti:

  • Lífeyrisgreiðslum er skipt
  • Áunnum lífeyrisréttindum er skipt
  • Framtíðarréttindum er skipt

Athugið að einungis er hægt að skipta áunnum réttindum fyrir 65 ára aldur og áður en eftirlaunagreiðslur hefjast. Einnig er það skilyrði að ekki sé vitað til að sjúkdómar eða heilsufar hafi dregið úr lífslíkum sjóðfélaga. Slík skilyrði gilda ekki um hina tvo valkostina.

Hafa ber í huga kosti og galla þess að skipta eftirlaunaréttindum, meðal annars með hliðsjón af tekjutengingum Tryggingastofnunar. Ef skiptingin veldur því að heildargreiðslur frá Tryggingastofnun lækka þá getur skiptingin haft neikvæðar afleiðingar. Óvissa um hvernig reglur Tryggingastofnunar kunna að breytast í framtíðinni eykur flækjustig ákvörðunarinnar.

Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir að eingöngu er verið að skipta rétti til eftirlauna. Réttur til örorku og makalífeyris helst óbreyttur. Í þeim tilfellum þar sem um er að ræða ævilangan makalífeyri má segja að búið sé að jafna réttindi að nokkru leyti.

Enginn veit fyrr en ævin er öll hvort skipting eftirlaunaréttinda kemur hjónum/sambúðaraðilum til góða eða ekki. Ef sá aðili sem átti meiri réttindi fyrir skiptingu fellur frá á undan þá kemur skiptingin væntanlega til góða, en ef sá aðili sem átti minni réttindi fyrir skiptingu fellur frá á undan þá eru áhrif skiptingarinnar neikvæð.

Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og í samantekt  Stapa um makasamninga.