Vangoldin lífeyrisiðgjöld Vopnafjarðarhrepps

Vegna fréttatilkynningar Vopnafjarðarhrepps um vangoldin lífeyrisiðgjöld sveitarfélagsins vill Stapi taka eftirfarandi fram:

Það er ábyrgð launagreiðanda að þekkja og greiða samkvæmt þeim kjarasamningum sem hann er aðili að. Upplýsingar um gildandi kjarasamning eða ráðningarsamning og þar með mótframlag í lífeyrissjóð koma frá launagreiðenda eða launþega enda hafa lífeyrissjóðir ekki aðgang að ráðningasamningi, upplýsingum um aðild að stéttarfélagi og þar með gildandi kjarasamning hverju sinni. Lífeyrissjóðum ber hins vegar að innheimta lágmarksiðgjald samkvæmt lögum þegar að upplýsingar liggja ekki fyrir um annað. Óumdeilt er að Stapi gerði það í tilviki Vopnafjarðarhrepps í samræmi við rangar upplýsingar sem sveitarfélagið veitti sjóðnum.

Forsaga málsins er sú að í lok árs 2016 barst Stapa ábending frá sjóðfélaga að Vopnafjarðarhreppur hefði ekki greitt rétt mótframlag til sjóðsins vegna sjóðfélaga sem starfa hjá sveitarfélaginu. Á árinu 2005 hafði starfsmaður í iðgjaldadeild Stapa samband við Vopnafjarðarhrepp til að benda á að sveitarfélagið greiddi lægra mótframlag en önnur sveitarfélög og fékk þær upplýsingar að sveitarfélagið væri ekki aðili að viðkomandi kjarasamningum þar sem kveðið var á um hærra mótframlag. Rétt er að taka fram að lífeyrissjóðir hafa ekki upplýsingar um eftir hvaða kjarasamningum sjóðfélagar fá greitt, né hvaða stéttarfélagi þeir tilheyra. Því var ekki aðhafst frekar að sinni af hálfu Stapa vegna málsins enda bárust ekki athugasemdir frá sjóðfélögum á þeim tíma.

Stapi sendi Vopnafjarðarhreppi erindi árið 2017 til að kanna afstöðu til ábendingar sjóðfélaga um að sveitarfélagið hefði greitt of lágt mótframlag til lífeyrissjóðsins á alllöngu tímabili. Eftir nokkur bréfa- og tölvupóstsamskipti kom í ljós að umræddar ábendingar reyndust réttar og málið snerti mikinn fjölda fólks sem starfaði hjá sveitarfélaginu á umræddu tímabili. Strax kom fram af hálfu sveitarfélagsins vilji til að leysa málið í sátt þannig að sjóðfélagar yrðu ekki fyrir tjóni vegna málsins og fengju þau lífeyrisréttindi sem þeir hefðu fengið ef rétt mótframlag hefði verið greitt á réttum tíma þó svo að kröfur væru að hluta fyrndar. Í því ljósi setti Stapi fram tillögu að lausn sem sveitarfélagið hefur haft til meðferðar um langt skeið. Á þeim tíma hefur Stapi einnig sent hreppstjórn samantekt um málið, átt fundi með sveitarstjóra og lögmanni sveitarfélagsins og boðið fram aðstoð sína við að skýra stöðuna.

Þann 20. júní lá bókun sveitarstjórnar um málið fyrir. Stapa hefur ekki verið gerð grein fyrir fyrirkomulagi  fyrirhugaðs uppgjörs umfram það sem má lesa í opinberri bókun sveitastjórnar og fréttatilkynningu þess um málið sem send var fjölmiðlum áður en Stapa var gert viðvart um bókunina. Því liggja áhrif fyrirhugaðs uppgjörs á hlutaðeigandi launþega Vopnafjarðarhrepps ekki fyrir að öðru leyti en að lífeyrisréttindi einhverra þeirra verða lakari en kjarasamningar kváðu á um. Stapi mun gera hlutaðeigandi aðilum sérstaklega grein fyrir niðurstöðunni þegar að upplýsingar liggja fyrir. Þá hefur sjóðurinn ekki tekið ákvörðun um hvort að hann aðhafist frekar vegna málsins.

Það er ljóst að Stapa voru veittar rangar upplýsingar um mótframlag skv. kjarasamningum sem Vopnafjarðarhreppur er aðili að og þær upplýsingar hafði Stapi ekki kost á að sannreyna. Þá áréttar Stapi að það er ábyrgð launagreiðenda að þekkja og greiða samkvæmt þeim kjarasamningum sem hann er aðili að. Undan þeirri ábyrgð verður ekki skorast.