Kaup á fyrstu íbúð - Ráðstöfun séreignarsparnaðar

Þann 1. júlí sl. tóku gildi lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014 geta sótt um þetta úrræði. Með lögunum er veittur réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst sem innborgun eða til að greiða niður höfuðstól og afborganir lána sem tekin eru vegna kaupa á fyrstu íbúð.

Lykilatriði laganna eru:

  • Hægt að nýta séreignarsparnað á 10 ára samfelldu tímabili. Umsækjandi velur upphafstíma.
  • Hámarksfjárhæð er 500.000 kr. á hverju almanaksári fyrir hvern einstakling, 5.000.000 kr. á tíu ára tímabili.
  • Heimilt að nýta allt að 4% framlag launamanns og 2% framlag launagreiðanda. Framlag launamanns má ekki  vera lægra en framlag launagreiðanda.
  • Rétthafi þarf að eiga að minnsta kosti 30% í íbúðinni.
  • Eigendur íbúðar mega ekki vera fleiri en tveir. Hvor um sig getur nýtt hámarksheimild uppfylli þeir önnur skilyrði.
  • Fólki er frjálst að skipta um húsnæði á tímabilinu en skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram innan 12 mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.

Sækja þarf um úttekt séreignarsparnaðar á vef ríkisskattstjóra innan tólf mánaða frá undirritun kaupsamnings um fyrstu íbúð eða frá því að nýbygging fær fasteignanúmer hjá Þjóðskrá Íslands.  

Þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign á  tímabilinu 1. júlí 2014 - 30. júní 2017 eða hafa verið að nýta sér bráðabirgðaúrræðið geta sótt um að færa sig í nýja úrræðið en sækja þarf um það fyrir 1. janúar 2018.

Sækja þarf um fyrir hvern og einn einstakling, hvort sem hann er einhleypur, í hjúskap eða uppfyllir skilyrði samsköttunar.

Allar upplýsingar um úrræðið er að finna á heimasíðu RSK og leiðbeiningavef RSK.