Um sjóðinn

  • Get ég mætt á ársfund Stapa lífeyrissjóðs?

    Já, ef þú ert sjóðfélagi. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti. Allir þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjöld til sjóðsins teljast sjóðfélagar. Sama gildir um þá sem njóta eftirlauna og örorkulífeyris frá sjóðnum. Þeir sem hafa verið kjörnir í fulltrúaráð sjóðsins fara með atkvæðisrétt á fundinum.

  • Hverjir eru í stjórn Stapa lífeyrissjóðs?

    Upplýsingar um stjórnarmenn í Stapa lífeyrissjóði má finna hér.

  • Hvernig er valið í stjórn Stapa lífeyrissjóðs?

    Stjórn Stapa lífeyrissjóðs er kjörin á ársfundi sjóðsins og er hún skipuð átta mönnum. Fjórir er kosnir af launamönnum og fjórir af vinnuveitendum. Kosning launamanna fer fram á ársfundinum, en kjör fulltrúa vinnuveitenda fer fram hjá Samtökum atvinnulífsins og er kynnt á ársfundi. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og er kosið um helming stjórnar á hverjum ársfundi

  • Hvar er Stapi með skrifstofur?

    Skrifstofur Stapa lífeyrssjóðs eru á Strandgötu 3, Akureyri og Bakkavegi 5, Neskaupstað.

  • Hver hefur eftirlit með lífeyrissjóðunum?

    Lífeyrissjóðir eru eftirlitsskyldir aðilar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en Fjármálaeftirlitið fer með framkvæmd þeirra laga og hefur því eftirlit með starfsemi sjóðanna. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst bæði í reglubundnu eftirliti, s.s. skoðunum á fjárfestingum og stjórnarháttum lífeyrissjóða, og einnig í vettvangskönnunum hjá sjóðunum. 

  • Þurfa lífeyrissjóðir starfsleyfi?

    Já, samkvæmt lögum (25. gr.) þurfa lífeyrissjóðir starfsleyfi, sem veitt er af fjármálaráðherra, enda uppfylli þeir skilyrði laganna. Lífeyrissjóðum sem fengið hafa starfsleyfi er skylt og einum heimilt að nota orðið „lífeyrissjóður“ í heiti sínu. Starfsleyfi Stapa lífeyrissjóðs má finna hér.

  • Gilda einhverjar hæfisreglur um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn hjá Stapa?

    Já, bæði framkvæmdastjóri og stjórnarmenn þurfa að standast hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu til að geta tekið að sér störf fyrir sjóðinn. Reglur um hæfismat má finna hér.

    Í lögum um lífeyrissjóði segir: „Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.“ Jafnframt segir að stjórnarmenn skuli búa yfir nægjanlegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gengt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt og menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra skuli vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. 

  • Gilda einhverjar kynjareglur um kjör fulltrúa í stjórn Stapa?

    Já, samkvæmt lögum þarf hlutfall hvors kyns um sig að vera a.m.k. 40% og gildir það bæði um aðal- og varamenn í stjórn

  • Hve lengi geta menn verið í stjórn Stapa?

    Samkvæmt samþykktum sjóðsins skulu stjórnarmenn ekki sitja lengur en átta ár samfleytt sem aðalmenn í stjórn sjóðsins. 

  • Eru stjórnarmenn Stapa bundnir trúnaði?

    Samkvæmt lögum (32. gr.) eru stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. 

  • Hvað er fulltrúaráð?

    Fulltrúaráð er skipað fulltrúum sem sérstaklega eru kjörnir til að sitja á ársfundi sjóðsins og hafa þar atkvæðisrétt. Fulltrúaráðið er að jöfnu skipað fulltrúum launamanna og atvinnurekenda. Fulltrúar launamanna og atvinnurekenda fara með helming atkvæða, hvorir um sig, á fundinum án tillits til fjölda fulltrúa á fundinum. Fulltrúaráðið starfar milli ársfunda og ef boðað er til aukafunda, þá gilda sömu reglur og á ársfundi um atkvæðarétt. 

  • Hverjir velja í fulltrúaráð?

    Fulltrúaráð er kjörið af aðildarfélögum sjóðsins. Fulltrúar launamanna eru kjörnir af þeim stéttarfélögum sem eiga aðild að sjóðnum og velja þau einn fulltrúa í ráðið fyrir hverja 200 félagsmenn. Fulltrúar atvinnurekenda eru þannig valdir að 50 stærstu fyrirtæki eða stofnanir með tilliti til iðgjaldagreiðslna af eigin starfsmönnum eiga sjálfkrafa rétt á fulltrúa í ráðinu. Samtök atvinnulífsins skulu svo tilnefna þá fulltrúa sem á vantar á jafna tölu launamanna og atvinnurekenda í ráðinu. Tilkynna skal um tilnefningu í fulltrúaráð 14 dögum fyrir ársfund og öðlast tilnefningin gildi við upphaf ársfundar og gildir fram að næsta ársfundi.  

  • Hvað er endurskoðunarnefnd?

    Samkvæmt lögum um ársreikninga skal starfa endurskoðunarnefnd við það sem kallað er einingar sem tengdar eru almannahagsmunum. Lífeyrissjóðir teljast til slíkra eininga. Meðlimir í endurskoðunarnefnd skulu vera óháðir endurskoðendum sjóðsins, þeir skulu hafa þekkingu og reynslu sem nýtast við störf nefndarinnar og a.m.k. einn þeirra skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar. Hlutverk nefndarinnar er:

    • eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila
    • eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðunar og áhættustýringar
    • eftirlit með endurskoðun ársreiknings
    • mat á óhæði endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis og mat á öðrum störfum þess fyrir sjóðinn
    • að setja fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki

    Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn sjóðsins. 

  • Hvernig er endurskoðunarnefnd Stapa valin?

    Endurskoðunarnefnd starfar hjá sjóðnum í samræmi við ákvæði laga nr. 3/2006. Nefndin er skipuð af stjórn sjóðsins og skal það gert á fyrsta stjórnarfundi eftir ársfund og gildir til næsta ársfundar. Nefndin skal skipuð þremur mönnum, skulu tveir þeirra vera stjórnarmenn í sjóðnum og einn utanaðkomandi. Stjórn sjóðsins skipar formann nefndarinnar. Nefndarmenn skulu vera óháðir endurskoðendum sjóðsins. Framkvæmdastjóri sjóðsins eða aðrir starfsmenn mega ekki eiga sæti í nefndinni. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar, ásamt því að hafa góða yfirsýn yfir rekstur sjóðsins. Að minnsta kosti einn nefndarmanna skal hafa staðgóða þekkingu á sviði reikningsskila og endurskoðunar. 

  • Hvað er tryggingafræðileg staða?

    Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs er niðurstaða úr tryggingafræðilegri úttekt og segir til um að hve miklu leyti eignir sjóðsins duga til að mæta skuldbindingum hans, þ.e. til að greiða út þau lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar eiga hjá sjóðnum.

  • Hvað er tryggingafræðileg úttekt?

    Tryggingafræðileg úttekt eða athugun er mat á stöðu sjóðsins og getu hans til að standa við skuldbindingar sínar, en skuldbindingar lífeyrissjóðs felast í þeim lífeyrisloforðum sem sjóðfélagar eiga hjá sjóðnum. Samkvæmt lögum (24. og 39. gr.) ber lífeyrissjóðum að láta fara fram tryggingafræðilega athugun eigi sjaldnar er árlega. Tryggingafræðileg úttekt skal fara fram í samræmi við ákvæði reglugerðar (391/1998) sem fjármálaráðherra hefur sett. Í athuguninni er annars vegar lagt mat á verðmæti eigna sjóðsins, eins og þær eru þegar matið fer fram og hins vegar lagt mat á verðmæti þeirra réttinda sem sjóðfélagar eiga í sjóðnum miðað við sama tíma, sem kallaðar eru skuldbindingar. Samanburður á þessum eignum og skuldbindingum er kölluð „áfallin staða“. Auk þessa er lagt mat á verðmæti þeirra iðgjalda sem greiðandi sjóðfélagar munu greiða þar til þeir fara á lífeyri og þau réttindi sem þessar framtíðargreiðslur munu skapa. Samanburðurinn á þessu tvennu er kölluð „framtíðarstaða“. Samanlögð áfallin staða og framtíðarstaða er kölluð heildarstaða, en yfirleitt er verið að vísa til heildarstöðu, þegar talað er um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðs. Verðmæti lífeyrissréttinda sjóðfélaga (skuldbindingar sjóðsins) eru metin út frá tryggingafræðilegum forsendum sem skilgreindar hafa verið til að nýta við slíkt mat. Tryggingafræðileg úttekt er framkvæmd af tryggingastærðfræðingi, sem fengið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs.

  • Hvað er tryggingastærðfræðingur?

    Tryggingastærðfræðingur er, eins og nafnið bendir til, einstaklingur sem lokið hefur stærðfræðinámi með tryggingastærðfræði sem sérgrein. Tryggingastærðfræði gengur út á að nýta stærðfræðilegar aðferðir við að meta skuldbindingar og áhættu af ýmsum toga, til að mynda skuldbindingar lífeyrissjóða og tryggingafélaga

  • Hvað eru tryggingafræðilegar forsendur?

    Tryggingafræðilegar forsendur eru annars vegar þær lýðfræðilegu forsendur, sem notaðar eru við að meta skuldbindingar lífeyrissjóðs, og að auki þeir reiknivextir sem notaðir eru við að meta framtíðar greiðsluflæði eigna og skuldbindinga. Þeir reiknivextir sem miðað er við eru ákveðnir í reglugerð.

  • Hvað eru lýðfræðilegar forsendur?

    Lýðfræðilegar forsendur eru tölfræðilegar líkur af ýmsu tagi, sem nýttar eru til að reikna út verðmæti lífeyrisréttinda, þ.e. hvað það muni kosta að greiða lífeyri til framtíðar litið, þegar tryggingafræðilegar úttektir eru gerðar. Þetta eru atriði, eins og lífs- og dánarlíkur, þ.m.t. hversu stórt hlutfall einstaklinga er líklegt að nái eftirlaunaaldri og hversu lengi þeir munu lifa eftir að þeim aldri er náð, hverjar líkur á örorku eru, giftingar- og skilnaðarlíkur, hve mörg börn fólk á að meðaltali o.þ.h. Þessar líkur eru reiknaðar út frá sögulegum gögnum og eru nýttar til að reikna út kostnað vegna lífeyrisgreiðslna í framtíðinni. Lýðfræðilegar forsendur breytast hægt, en þó hafa t.d. lífslíkur verið að aukast jafnt og þétt síðustu áratugina og margir reikna með að sú þróun haldi áfram. Þetta hefur augljóslega mikil áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða, enda þarf þá að greiða eftirlaun lengur, nema að taka lífeyris hefjist síðar en nú er miðað við. Þessi þróun hefur valdið því að nú er, auk þess að nota sögulegar líkur, farið að skoða framtíðarstöðu út frá spám um væntanlegar breytingar á ævilengd. 

  • Hvað þýðir gegnumstreymi og sjóðsöfnun þegar talað er um lífeyrismál?

    Hugtökin gegnumstreymi og sjóðsöfnun koma oft upp þegar talað er um lífeyrismál, enda lykilhugtök þegar horft er til uppbyggingar á lífeyriskerfum. Með kerfi sem byggir á gegnumstreymi er átt við kerfi þar sem lífeyrir dagsins í dag er greiddur með iðgjöldum eða sköttum dagsins í dag. Í kerfinu er ekki fólginn neinn sparnaður, fjármunirnir staldra stutt við og streyma í gegnum kerfið. Gegnumstreymiskerfi eru eins konar kynslóðasáttmáli. Þeir sem eru á vinnumarkaði greiða lífeyri foreldra sinna og treysta á að börnin muni greiða þeim lífeyri í fyllingu tímans. Kostir gegnumstreymiskerfa eru að þau eru yfirleitt einföld, enda krefjast þau lítillar eignaumsýslu. Einnig finnst sumum það kostur að auðvelt er að beita jöfnunaraðgerðum í slíkum kerfum, enda yfirleitt engin bein tengsl á milli inngreiðslna og útgreiðslna í kerfinu. Slík kerfi hafa einnig mikla galla. Til að þessi kerfi virki vel þurfa margir að vera greiðendur inn í kerfið samanborið við þá sem eru þiggjendur greiðslna út úr kerfinu. Með lengingu lífaldurs og fækkun barneigna hafa orðið miklar breytingar á aldurssamsetningu í þróuðum samfélögum. Hlutfall þeirra sem eru á vinnumarkaði hefur lækkað, en hlutfall þeirra sem eru á lífeyrisaldri hækkað. Þetta hefur valdið því að greiðslubyrði vinnandi manna vegna lífeyris hefur farið hratt vaxandi og leitt til mikilla vandamála. Við þessu hefur verið brugðist með lækkun réttinda og hækkun á þeim aldursmörkum þegar heimilt er að taka lífeyri. Aðgerðir sem þessar hafa oft mætt mikilli andspyrnu. Kerfi af þessum toga eru yfirleitt rekin af stjórnvöldum, sem hafa átt í erfiðleikum með að gera viðeigandi lagfæringar, og kerfin eru oft háð pólitískum duttlungum á hverjum tíma. Víða um lönd er unnið að því að loka eða draga verulega úr vægi gegnumstreymiskerfa. Almannatryggingakerfið íslenska er dæmi um gegnumstreymiskerfi.

    Sjóðsöfnunarkerfi byggja á hinn bóginn á sparnaði. Segja má að hver árgangur safni fyrir sínum eigin lífeyri með greiðslu iðgjalda sem safnað er í sjóð og hann ávaxtaður þar til hann kemur til greiðslu í formi lífeyris. Veruleg uppsöfnun á sér stað á meðan sjóðfélaginn er starfandi og síðan er sjóðurinn greiddur út smám saman þegar eftirlaunaaldri er náð. Þar sem kerfið byggir á sparnaði, sem safnað er í sjóð sem er til staðar þegar sjóðfélagi fer á eftirlaun, er það minna háð breytingum á aldurssamsetningu. Kerfi af þessu tagi eru flóknari en gegnumstreymiskerfi og krefjast mikillar eignaumsýslu. Einnig þarf að halda utan um réttindaskráningu yfir langan tíma, enda ráðast réttindi hvers sjóðfélaga að mestu leyti af inngreiðslum. Sparnaður í þessum kerfum er yfirleitt ávaxtaður á fjármálamörkuðum, sem geta verið sveiflukenndir, og endanlegur lífeyrir mun því ráðast af þeirri ávöxtun sem varð á starfsævi sjóðfélagans. Kerfi af þessu tagi eru hins vegar minna háð pólitískum duttlungum og þróunin undanfarna áratugi hefur verið sú að nota sjóðsöfnunarfyrirkomulagið frekar en gegnumstreymi. Almennu lífeyrissjóðirnir á Íslandi eru dæmi um sjóðsöfnunarkerfi.

    Þá eru einnig til kerfi sem eru blanda af hvoru tveggja, þ.e. gegnumstreymi að hluta og sjóðsöfnun að hluta. Segja má að opinberu lífeyrissjóðirnir á Íslandi, sem eru með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga, séu dæmi um slík kerfi. Þar dugir sparnaðurinn aðeins fyrir hluta eftirlaunanna, en að hluta til eru þau greidd með samtímasköttum. 

  • Hvað er jöfn réttindaávinnsla?

    Jöfn réttindaávinnsla var það kerfi sem var við lýði hjá flestum íslenskum lífeyrissjóðum, frá því þeir voru settir á stofn (flestir um 1970) og fram yfir síðustu aldamót. Jöfn ávinnsla þýðir að greiðandi fær sömu réttindi fyrir sama iðgjald, án tillits til aldurs greiðanda. Þannig skiptir ekki máli hvort viðkomandi er 20 ára eða 60 ára, iðgjald að sömu fjárhæð gefur sömu lífeyrisréttindi. Sjóðfélaginn fékk þannig réttindi eins og hann hafi skilað iðgjaldinu inn þegar hann var á „meðalstarfsaldri“ (rúmlega fertugur) og það síðan verið ávaxtað með 3,5% raunvöxtum fram að eftirlaunaaldri. Auga leið gefur að iðgjald er misverðmætt eftir því á hvaða aldri greiðandinn er. Iðgjald ungs greiðanda á eftir að ávaxtast í mörg ár áður en það kemur til greiðslu í formi lífeyris. Iðgjald eldri greiðanda, sem aðeins á stutt eftir til eftirlaunaáranna, er minna virði enda ávöxtunartími þess stuttur. Til að gefa hugmynd um þennan mun þá er iðgjald 20 ára einstaklings ríflega þrefalt verðmætara en 60 ára einstaklings, ef miðað er við 3,5% raunvexti.

    Í kerfi jafnrar ávinnslu var þannig í mörgum tilfellum mikill munur á verðmætum þeirra iðgjalda sem borguð voru inn í sjóðinn og verðmætum þeirra lífeyrisréttinda sem þau sköpuðu. Frá sjónarhóli sjóðfélagans má segja að hann hafi „tapað“ á því að greiða til sjóðsins framan af starfsævinni, en „grætt“ á seinni hluta starfsævinnar. Ef greitt er til kerfis með jafnri ávinnslu alla starfsævina mun það gefa sömu niðurstöðu og aldurstengt kerfi. Það sem sjóðfélaginn „tapar“ á fyrri hluta starfsævinnar vinnur hann upp á síðari hlutanum. „Tap“ hans og „gróði“ jafnast út. Þetta gildir þó aðeins ef sjóðfélagi hefur sömu tekjur alla starfsævina.

    Gallar þessa kerfis eru ýmsir, svo sem að tekjur fara yfirleitt vaxandi á starfævinni. Það kemur bæði til vegna þess að menn byrja starfsferil oft á hóflegum launum, sem síðan hækka með reynslu og ábyrgð, en einnig vegna þess að kaupmáttaraukning verður á tímanum. Því er hættan sú að menn „græði“ meira á seinni hlutanum en þeir „tapa“ á fyrri hlutanum, sem gengur ekki upp, þar sem einhver þarf að borga mismuninn. Sé þessi „einhver“ ekki til staðar býr þetta til innbyggðan halla á sjóðunum. Auk þess hefur aukið valfrelsi leitt til þess að fleiri geta þá valið aldurstengdan sjóð á fyrri hluta starfsævinnar og sjóð með jafna ávinnslu seinni hlutann, þar sem þeir væru að fá mun hærri réttindi en iðgjaldið stæði undir, án þess að hafa tekið það á sig með „tapinu“ á fyrri hluta starfsævinnar. Slíkt val mun einnig búa til halla. Af þessum ástæðum var ákveðið að leggja niður þetta réttindakerfi og taka upp aldurstengda ávinnslu réttinda. Til að koma til móts við þá sem höfðu á þeim tímapunkti tekið á sig „tapið“ á fyrri hluta starfsævinnar, en myndu í nýju kerfi ekki fá „gróðann“ var ákveðið að þessi skipti gengju yfir á nokkrum tíma og að þessir einstaklingar fengju blandaða ávinnslu. Það þýðir að þeir hafa áfram jafna ávinnslu miðað við ákveðið viðmiðunariðgjald, en að öðru leyti færðust allir yfir í kerfi aldurstengdrar ávinnslu.

  • Hvað er viðmiðunariðgjald?

    Vandinn við að skipta úr kerfi með jafna ávinnslu yfir í kerfi með aldurstengda ávinnslu er að á þeim tímapunkti, þegar skipt er, hefur yngra fólkið í sjóðnum  greitt um nokkurn tíma inn í kerfi með jafnri ávinnslu. Þetta fólk hefur fengið lægri lífeyrisréttindi en nemur verðmæti þeirra iðgjalda sem það hefur greitt. Þetta fólk er því búið að taka út „tapið“ í kerfi jafnrar ávinnslu ef svo má segja. Fái það ekki að halda áfram í jafnri ávinnslu mun það missa af því að „græða“ á seinni hluta starfsævinnar. Lífeyrisréttindi þessa hóps munu því verða lakari en ella hefði verið, þ.e. ef ekki hefði verið breytt um kerfi. Til að koma til móts við þessi sjónarmið var þessum hópi heimilað að halda áfram jafnri ávinnslu að vissu marki eftir að aldurstengt kerfi er tekið upp. Það er gert með þeim hætti að hverjum og einum er úthlutað svokölluðu viðmiðunariðgjaldi sem viðkomandi fær jafna ávinnslu á áfram. Þetta iðgjald er verðtryggt. Greiði viðkomandi hærra iðgjald en nemur þessu viðmiðunariðgjaldi (t.d. vegna þess að iðgjaldaprósenta hefur verið hækkuð eða laun hans hafa hækkað umfram verðlag) þá fer viðbótin í aldurstengda ávinnslu. Umræða um upptöku aldurstengds kerfis hófst á árinu 2004 og var því ákveðið að nota árið 2003 sem viðmiðunarár. Viðmiðunariðgjaldið tekur því mið af því iðgjaldi sem viðkomandi greiddi á því ári og þar með þeim launum sem hún eða hann hafði á því herrans ári 2003. Sjóðfélagi gat þó gert athugasemd við að það ár hafi ekki verið eðlilegt viðmið vegna sérstakra aðstæðna, s.s. vegna veikinda, náms, atvinnuleysis o.þ.h. og sótt um breytingar á viðmiðunariðgjaldi.

  • Hvað er jöfnunariðgjald?

    Þegar breytt var úr kerfi jafnrar réttindaávinnslu yfir í aldurstengda ávinnslu þá var ákveðið að sá hópur sem tapað hefði á slíkri breytingu fengi það bætt með því að fá áfram jafna ávinnslu upp að ákveðnu viðmiðunariðgjaldi. Í kerfi aldurstengdrar ávinnslu byggir réttindaávinnsla á því að sjóðfélagi fái fasta fyrirfram ákveðna ávöxtun á iðgjöldin (3,5% raunávöxtun) frá því að þau eru greidd inn þar til þau koma til endurgreiðslu í formi lífeyris. Þessu var breytt þegar tekin var upp eignatengd réttindaávinnsla. Í eingatengdri ávinnslu byggjast réttindin upp miðað við þá ávöxtun sem verður á eignum sjóðsins á hverjum tíma, en ekki á fyrirfram ákveðinni ávöxtun. Þessi breyting hefur það í för með sér að breyta varð því hvernig jöfn ávinnsla upp að viðmiðunariðgjaldi var framkvæmd, til að tryggja að þeir sem eiga rétt á slíkri ávinnslu búi við sömu ávöxtun og aðrir sjóðfélagar. Þetta var gert með því, að í stað fastrar ávinnslu sem byggist á fyrirframákveðinni ávöxtun, fær sjóðfélaginn aukalega iðgjald sem leggst við iðgjaldasjóð hans og ávaxtast með sama hætti og ávöxtun sjóðsins. Þetta iðgjald tekur mið af viðmiðunariðgjaldinu og kallað jöfnunariðgjald. Miðað við sömu ávöxtun (þ.e. 3,5% raunávöxtun) kemur sama niðurstaða út úr báðum aðferðum. Verði ávöxtun önnur mun verða munur á réttindaávinnslunni, með sama hætti og munurinn er milli aldurstengdrar ávinnslu og eignatengdrar ávinnslu. 

  • Hvað er aldurstengd réttindaávinnsla?

    Aldurstengd ávinnsla er réttindakerfi sem tók við af svokallaðri jafnri ávinnslu. Aldurstengd ávinnsla byggir á því að réttindi sem inngreitt iðgjald skapar eru háð aldri iðgjaldagreiðandans. Því yngri sem iðgjaldagreiðandinn er, þeim mun meiri réttindi skapar iðgjaldið. Þetta byggir á þeirri augljósu staðreynd að iðgjaldið er því verðmætara sem iðgjaldagreiðandinn er yngri og lengri tími líður frá því iðgjaldið er greitt og þar til það kemur til útborgunar í formi lífeyris. Ávöxtunartími iðgjaldsins ræður þannig þeim réttindum sem iðgjaldið veitir. Í aldurstengdri ávinnslu var inngreiddu iðgjaldi breytt í réttindi með ákveðinni töflu, sem sagði til um hversu mikil lífeyrisréttindi fengjust fyrir hvert 10.000 kr. inngreitt iðgjald miðað við aldur viðkomandi iðgjaldagreiðanda. Ein af meginforsendum fyrir töflunni var að innborgað iðgjald fengi 3,5% raunávöxtun frá því að það var greitt inn og þar til það kom til endurgreiðslu. Þótt aldurstengd réttindaávinnsla hafi augljóslega verið framför frá jafnri ávinnslu hefur hún engu að síður ákveðna galla, sem felast í því að réttindaávinnslan byggir á fyrirfram ákveðinni ávöxtun yfir heila starfsævi. Starfsævi er langur tími og ávöxtun eigna er sveiflukennd frá einum tíma til annars og kann að víkja verulega frá þeirri 3,5% raunávöxtun sem byggð er inn í kerfið. Þegar þessi frávik verða getur myndast mikill munur á eignum lífeyrissjóðs og verðmæti þeirra lífeyrisloforða, sem sjóðfélagar eiga hjá honum miðað við samþykktir sjóðsins. Þegar um er að ræða almenna lífeyrissjóði, sem ekki hafa ábyrgðaraðila, getur þetta skapað vandamál. Lög gera ráð fyrir að verði þessi munur of mikill eigi að jafna hann með aukningu eða skerðingu réttinda. Skerðing réttinda er aldrei vinsæl enda telur sjóðfélaginn sig „eiga“ þessi réttindi. Réttindin geta þó aldrei verið meiri en nemur eignum sjóðsins á hverjum tíma en tengingin þarna á milli er ekki sérlega sýnileg í augum sjóðfélagans enda breytast réttindin ekki í samræmi við ávöxtun eignanna, eins og áður sagði. Þótt sjóðfélaginn fái yfirlit um að hún eða hann eigi tiltekin réttindi, þá eru þau háð því að sjóðurinn nái ávöxtunarmarkmiðinu. Geri hann það ekki þarf að breyta réttindunum.

    Til að draga úr þessu vandamáli og auka jafnvægið milli eigna sjóðsins og verðmætis lífeyrisréttindanna á hverjum tíma tók Stapi lífeyrissjóður upp eignatengda réttindaávinnslu í stað aldurstengdrar ávinnslu. 

  • Hvað er eignatengd réttindaávinnsla?

    Eignatengd réttindaávinnsla byggir á því að lífeyrisréttindi byggist upp yfir tíma í samræmi við þá ávöxtun sem verður á eignum sjóðsins á hverjum tíma. Réttindi sem iðgjald skapar eru því ekki fyrirfram ákveðin við inngreiðslu iðgjaldsins eins og í jafnri eða aldurstengdri ávinnslu, heldur munu fara eftir þeirri ávöxtun sem næst á iðgjaldið frá því að það er borgað inn þar til það kemur til útborgunar í formi lífeyris. Þannig verða réttindin ekki endanlega ljós fyrr en kemur að lífeyristökunni, þótt óvissan um endanleg réttindi minnki sífellt eftir því sem nær lífeyristöku dregur. Í eignatengdri réttindaávinnslu er iðgjaldinu safnað í réttindasjóð, sem ávaxtast í samræmi við eignir sjóðsins. Réttindasjóði er svo breytt í verðtryggð ævilöng eftirlaun, þegar eftirlaunaaldri er náð. Samanborið við aldurstengda ávinnslu þá má gera ráð fyrir að meiri sveiflur verði á því tímabili sem réttindi eru að byggjast upp. Á móti kemur að eignir standa undir þeim réttindum sem sjóðfélagi er að ávinna sér og líkur á stórum skerðingum minnka, sem ekki er síst mikilvægt eftir að eftirlaunaaldri er náð og sjóðfélaginn þarf að lifa af sínum eftirlaunum. Tilgangurinn með því að taka upp eignatengda ávinnslu var þannig að auka jafnvægið milli eigna og skuldbindinga og um leið að gera það skiljanlegra fyrir sjóðfélaga, hvernig réttindi myndast

  • Hvað er blönduð ávinnsla?

    Það hefur verið kölluð blönduð ávinnsla þegar sjóðfélagar eru að ávinna sér réttindi eftir mismunandi ávinnslukerfum á sama tíma. Þetta á við um þá sem eiga rétt á jafnri ávinnslu upp að vissu marki um leið og þeir eru að öðru leyti að ávinna sér réttindi í aldurstengdri eða eignatengdri ávinnslu. 

  • Hvaða starfsfólk vinnur hjá Stapa lífeyrissjóði?

    Upplýsingar um hvaða starfsfólk vinnur hjá Stapa lífeyrissjóði má sjá hér.

  • Er starfsfólk Stapa bundið trúnaði?

    Já, starfsfólk Stapa undirritar sérstaka trúnaðaryfirlýsingu þegar það er ráðið til starfa hjá sjóðnum og er jafnframt bundið af siðareglum sjóðsins. Starfsfólk lífeyrissjóða meðhöndlar margvísleg gögn um einstaklinga, sem sum hver eru persónubundin og viðkvæm. Því er mikilvægt að trúnaðar sé gætt. Auk þess er rétt að benda á að samkvæmt lögum (32. gr.) eru stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. 

  • Hvar finn ég samþykktir Stapa lífeyrissjóðs?

    Samþykktir Stapa lífeyrissjóðs má finna hér.

  • Hvernig eru siðareglur Stapa lífeyrissjóðs?

    Siðareglur Stapa má finna hér.

  • Hvernig eru reglur Stapa lífeyrissjóðs um félagslega ábyrgar fjárfestingar?

    Stapi hefur mótað sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar, sem hefur það að markmiði að móta umgjörð fyrir aðgerðir sjóðsins á sviði umhverfis- og félagslegra málefna í og gagnvart þeim félögum sem hann fjárfestir í eða annast fjárfestingar fyrir hönd sjóðsins.sem er að finna hér.

  • Hver er eigendastefna Stapa lífeyrissjóðs?

    Hluthafastefna Stapa er hluti af stefnu sjóðsins um góða stjórnarhætti og ábyrgt fyrirsvar og henni skal fylgt af fagmennsku og nærgætni. Hún er notuð af fjárfestingateyminu til að meta stjórnarhætti fyrirtækja sem Stapi hefur fjárfest í eða hyggst fjárfesta og veita leiðsögn um þær kröfur sem Stapi gerir til þessara fyrirtækja. Hluthafastefnu Stapa má finna hér.

  • Hvaða lög og reglur gilda um starfsemi Stapa lífeyrissjóðs?

    Upplýsingar um regluverk Stapa má finna hér

Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar