Launagreiðendur

  • Hvað er skyldutrygging lífeyrisréttinda?

    Samkvæmt íslenskum lögum eru allir starfandi menn skyldugir að greiða til lífeyrissjóðs til að tryggja sér lífeyrisréttindi. Þetta er kallað skyldutrygging lífeyrisréttinda. Lögin sem gilda um lífeyrissjóði eru kölluð „Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“ og eru nr. 129 frá 1997, en þar stendur í 1. gr.: „Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára aldri til 70 ára aldurs.“ Áður en það var gert að skyldu að allir starfandi menn skyldu tryggja sér lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði höfðu margar starfstéttir samið um það í kjarasamningum. Öflun lífeyrisréttinda hjá lífeyrissjóði eru því starfstengd réttindi og hluti kjara á vinnumarkaði, sem samið er um í kjarasamningum.

  • Hver er ábyrgð mín sem launagreiðanda gagnvart skilum á iðgjöldum til lífeyrissjóðs?

    Samkvæmt ákvæðum laga (7. gr.) er launagreiðanda skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launamanns og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Sams konar skylda hvílir á launagreiðanda að því er varðar innheimtu og skil á iðgjaldi til viðbótarlífeyrissparnaðar (séreignar). Þá ber launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum að tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóðum og vörsluaðilum lífeyrissparnaðar ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum. Rétt er að vekja athygli á því að gjöld til lífeyrissjóða eru vörslugjöld og geta stjórnendur fyrirtækja, þ.e. framkvæmdastjórar og stjórnarmenn, verið persónulega ábyrgir, ef ekki eru gerð skil á þessum gjöldum.

    Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu að tekjuári liðnu tilgreina á launamiðum eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar, samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (nr. 45/1987).

  • Hvaða iðgjald á að greiða til lífeyrissjóðs?

    Samkvæmt ákvæðum laga (2. gr.) er iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs vegna skyldutryggingar skal vera a.m.k. 12% af iðgjaldsstofni, þar af er hluti launamanns 4% og hluti launagreiðanda 8%. Margar starfsstéttir hafa samið um hærra mótframlag launagreiðanda, þar sem mótframlagið er 11,5%. Iðgjald vegna viðbótarlífeyrissparnaðar er frjálst að vali launamanns og fer eftir samningi launamannsins við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar. Kjósi launamaður að leggja 2% af launum eða meira í viðbótarlífeyrissparnað er launagreiðandi skyldur að leggja 2% á móti. 

  • Hvenær á að gera skil á iðgjöldum til lífeyrissjóðs?

    Gjalddagi iðgjalda til lífeyrissjóðs er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Gjalddagi vegna launa fyrir júnímánuð er þannig 10. júlí og eindagi 31. júlí. 

  • Hvar finn ég greiðsluupplýsingar vegna greiðslu iðgjalda til Stapa?

    Iðgjöldum til Stapa lífeyrissjóðs á að skila inn á eftirfarandi reikning:

    Íslandsbanki, Akureyri: 0565-26-6969, kt. 601092-2559.

    Þetta á við um öll iðgjöld, þ.e. vegna skyldutryggingar, viðbótarlífeyrissparnaðar og starfsendurhæfingarsjóðs.

    Númer sjóða eru sem hér segir:

    L500, Stapi lífeyrissjóður, Tryggingadeild vegna skyldutryggingar

    X501, Stapi lífeyrissjóður, Séreignardeild vegna viðbótarlífeyrissparnaðar

    R500, Lögboðinn endurhæfingarsjóður sem skilað er með lífeyrissjóðsiðgjöldum. Stapi skilar iðgjöldunum áfram til VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs.

     

  • Hvernig fylgist ég með iðgjaldaskilum og stöðunni gagnvart lífeyrissjóðnum?

    Best er að fylgjast með iðgjaldaskilum og stöðu gagnvart lífeyrissjóðnum með aðgangi að launagreiðendavef sjóðsins. Þar er að finna upplýsingar um öll skil, bæði innsendar skilagreinar og greiðslur, greidda og ógreidda vexti, séu þeir fyrir hendi, og stöðuna gagnvart sjóðnum á hverjum tímapunkti. Upplýsingar um hvernig sótt er um aðgang að launagreiðendavef má sjá hér. Sjóðurinn sendir einnig út yfirlit til launagreiðenda tvisvar á ári, þar sem veittar eru upplýsingar um skil og stöðu gagnvart sjóðnum. Fyrri útsending fer út á tímabilinu mars-apríl, en sú síðar í september-október. Hægt er að fá þessi yfirlit í pappírslausum samskiptum.

  • Hvernig sæki ég um veflykil?

    Með því að fara inn á launagreiðendavefinn og í innskráning og þar er valið „Sækja um aðgang að vef“ og er veflykill þá sendur inn í netbanka viðkomandi fyrirtækis. Þar er hægt að nálgast hann undir „rafræn skjöl“ eða „netyfirlit“.

  • Á hverju byggir skylduaðild að lífeyrissjóðum?

    Skylduaðild að lífeyrissjóðum byggir á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129 frá 1997. –Í 1. gr. laganna segir að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sé rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. 

  • Hverjir eiga að greiða til Stapa lífeyrissjóðs?

    Ávinnsla réttinda í lífeyrissjóði eru starfstengd réttindi, sem samið er um í kjarasamningum. Til hvaða lífeyrissjóðs menn greiða fer því í flestum tilfellum eftir því á hvaða starfssviði þeir vinna og skal geta um lífeyrissjóð í skriflegum ráðningarsamningi. Í 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segir: „Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein eða sérlögum ef við á.“ Sumir geta þó valið um lífeyrissjóð eða eins og segir í lögunum: „Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs, eða ef kjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningi velur viðkomandi lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.“ Þeir sem starfa á samningssviði aðildarfélaga Stapa lífeyrissjóðs fá aðild að sjóðnum um leið og þeir hefja störf. Með samningssviði er átt við störf þar sem kjarasamningar sem þessi félög gera eru lágmarkskjör (lög nr. 55/1980) í viðkomandi störfum. Launagreiðanda ber í þeim tilvikum að skila iðgjöldum vegna þessara starfsmanna sinna til Stapa lífeyrissjóðs. Stapi lífeyrissjóður er skyldugur til að veita þessum launamönnum lífeyristryggingar, sem uppfylla lágmarkstryggingavernd skv. lögum. Á sama hátt eiga launamenn sem falla undir þessa kjarasamninga skylduaðild að Stapa lífeyrissjóði. Auk þeirra eiga fjölmargir einstaklingar, sem geta valið um lífeyrissjóð, svo sem sjálfstætt starfandi einstaklingar, aðild að Stapa lífeyrissjóði. Launamaður getur sjálfur valið um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar og þarf hann að gera sérstakan samning við vörsluaðilann um það efni. 

  • Hverjir geta valið um lífeyrissjóð?

    Þeir sem sinna störfum þar sem kjarasamningur tekur ekki til viðkomandi starfssviðs, eða ef kjör eru ekki að neinu leyti byggð á kjarasamningi, þ.m.t. engar tengingar vegna launahækkana, orlofs, veikindaréttar eða neinna annarra kjaraatriða. Þetta á til að mynda við flesta þá sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þessir einstaklingar geta valið sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Launamaður getur sjálfur valið um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar og þarf hann að gera sérstakan samning við vörsluaðilann um það efni.

  • Af hvaða stofni er iðgjald reiknað?

    Samkvæmt lögum skal greiða í lífeyrissjóð af öllum tegundum launa og þóknana fyrir störf sem eru skattskyld, þar með talið öllum kaupaukum, bónusum og afkastahvetjandi greiðslum. Ekki er þó greitt í lífeyrissjóð af hlunnindum sem ekki eru greidd í peningum, svo sem fatnaði, fæði og húsnæði eða greiðslum sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á kostnaði, t.d. ökutækjastyrkjum, dagpeningum eða fæðispeningum. Þær tekjur sem iðgjöld eru reiknuð af kallast iðgjaldsstofn. Sjá nánar í 3. gr. laga nr.129/1997.

  • Hvenær á að byrja að skila iðgjaldi fyrir launamann og hvenær á að hætta því?

    Hefja á greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs mánuðinn eftir að viðkomandi einstaklingur verður 16 ára og þeim á að hætta mánuðinn eftir að viðkomandi einstaklingur verður 70 ára. 

  • Hvert er iðgjaldatímabilið ef launatímabil eru ekki mánuður?

    Iðgjaldagreiðslutímabil skal ekki vera lengra en mánuður, jafnvel þótt launagreiðslur séu sjaldnar en mánaðarlega. Ef launagreiðslur eru oftar en mánaðarlega, t.d. vikulega, skal mánaðarlegt uppgjör miðast við þær vikur, fjórar eða fimm, sem lýkur í mánuðinum. 

  • Hvaða reglur gilda um skil á iðgjöldum í viðbótarlífeyrissparnað?

    Sömu reglur gilda um skil á iðgjöldum í viðbótarlífeyrissparnað og vegna iðgjalda til skyldutryggingar, þ.e. gjalddagi er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi síðasti dagur þess mánaðar. Gjalddagi vegna launa fyrir júnímánuð er þannig 10. júlí og eindagi 31. júlí. 

  • Get ég sem launagreiðandi hafnað því að greiða viðbótarframlag með starfsmanni sem vill greiða í viðbótarlífeyrissparnað?

    Nei, samkvæmt ákvæðum kjarasamninga er launagreiðandi skyldugur að greiða 2% mótframlag með framlagi starfsmanns, enda leggi starfsmaðurinn fram a.m.k. 2% iðgjald í viðbótarlífeyrissparnað. Ákvæði kjarasamninga eru lágmarkskjör samkvæmt lögum (55/1980) og því ekki undanþæg. 

  • Hvaða reglur gilda um iðgjaldaskil til Stapa lífeyrissjóðs?

    Gjalddagi iðgjalda til lífeyrissjóðs er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi er síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Gjalddagi vegna launa fyrir júnímánuð er þannig 10. júlí og eindagi 31. júlí. Sömu reglur gilda um skil á iðgjöldum til skyldutryggingar og til viðbótarlífeyrissparnaðar. Frekari upplýsingar um innheimtu iðgjalda hjá Stapa má finna hér.

  • Hvernig er eftirliti með iðgjaldaskilum háttað?

    Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjaldahluta launamanns og skila honum til lífeyrissjóðsins, ásamt eigin mótframlagi, innan þeirra tímamarka sem lög tilgreina. Lífeyrissjóðurinn hefur eftirlit með því að iðgjöldum til hans sé skilað á réttum tíma, enda sé honum kunnugt um að viðkomandi launagreiðanda beri að skila iðgjöldum. Fyrir utan eftirlit með þeim launagreiðendum sem greiða reglubundið til sjóðsins, fylgist sjóðurinn með þeim vinnuveitendum sem hefja starfsemi á starfssvæði hans og gerir þeim viðvart um skyldur sínar hafi þeir ekki hafið iðgjaldagreiðslur. Ekki er þó víst að sjóðurinn hafi í öllum tilfellum þessar upplýsingar. Þá fær sjóðurinn einatt ábendingar, bæði frá stéttarfélögum og einstaklingum vegna gruns um að ekki sé rétt staðið að iðgjaldaskilum, sem sjóðurinn bregst þá við. Hafi iðgjöldum ekki verið skilað 10-15 dögum eftir eindaga fer innheimtuferli í gang af sjóðsins hálfu. Auk þess venjubundna eftirlits sem sjóðurinn hefur skal ríkisskattstjóri, í samræmi við ákvæði laga (6. gr.), hafa eftirlit með því að réttu iðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda sé skila til lífeyrissjóða.

  • Hvað er launagreiðendavefur?

    Launagreiðendavefur er sérstakt vefsvæði sem launagreiðandi, sem skilar iðgjöldum til sjóðsins, getur fengið aðgang að. Á honum er hægt að fylgjast með skilum og stöðunni gagnvart sjóðnum. Þá er aðgangur nauðsynlegur til að hægt sé að skila til sjóðsins með rafrænum hætti og eiga pappírslaus samskipti. Til að fá aðgang að launagreiðendavef þarf launagreiðandi að fá veflykil eða nota rafræn skilríki. 

  • Hvað eru rafræn skil?

    Flest launakerfi bjóða núorðið upp á rafræn skil á skilagreinum til lífeyrissjóða. Skilagreinarnar eru þá sendar beint yfir vefinn til sjóðsins og ekki er þörf á neinum pappírssendingum eða tölvupóstum. Með skilum af þessu tagi eykst öryggi sendingarinnar verulega, auk þess sem í þessu felst bæði sparnaður og hagræði. Rafrænu upplýsingarnar eru lesnar beint inn í kerfi sjóðsins, þannig að sérstök skráning þarf ekki að fara fram, sem minnkar alla villuhættu. Upplýsingarnar eru dulkóðaðar áður en þær eru sendar, sem minnkar líkur á að einhver óviðkomandi fái að þeim aðgang, en rétt er að hafa í huga að skilagreinarnar innihalda viðkvæmar upplýsingar um þá einstaklinga sem þar eru. Rafræn skil eru að þessu leyti mun öruggari, en skil sem viðhengi með tölvupósti, faxi eða hefðbundnum póstsendingum. Þá er með rafrænum skilum hægt að fá kröfur beint í netbanka,  sem auðveldar greiðslur og eftirlit með því að þær séu framkvæmdar á réttum tíma. Til að nýta sér rafræn skil þarf launagreiðandinn að fá aðgang að launagreiðendavef sjóðsins. Til þess þarf hann að sækja um veflykil eða nýta sér rafræn skilríki ef þau eru fyrir hendi. 

  • Hvað geri ég ef ég hef gleymt veflyklinum?

    Þú ferð inn á launagreiðendavefinn og þar í „innskráningu“ og smellir á „Gleymdur veflykill“. Nýr veflykill er þá sendur í netbanka launagreiðandans. Þar er hægt að nálgast hann undir „rafræn skjöl“ eða „netyfirlit“.

  • Hvað eru pappírslaus samskipti við lífeyrissjóðinn?

    Launagreiðandi getur valið að hafa öll samskipti við lífeyrissjóðinn pappírslaus. Í þessu felst að launagreiðandinn skilar iðgjöldum rafrænt með aðgangi að launagreiðendavef sjóðsins og afþakkar pappír vegna launagreiðendayfirlita. Launagreiðendayfirlitin eru aðgengileg á launagreiðendavefnum, og launagreiðanda er gert viðvart þegar þau eru komin inn á vefinn.   

  • Hvernig fæ ég aðgang að launagreiðendavef með rafrænum skilríkjum?

    Þetta er hægt að gera með því að fara í „Aðgangsstýringar“ á launagreiðendavefnum. Þar getur launagreiðandinn sett inn kennitölu þess starfsmanns sem á að geta farið inn á launagreiðendavefinn fyrir hönd launagreiðandans. Það er gert með því að skrá í svæðið „Kennitölur sem hafa aðgang fyrir mig“ og vista breytingarnar. Viðkomandi einstaklingur þarf að hafa rafræn skilríki, en auk þess þarf hann að vera vefnotandi hjá sjóðnum. Ef hann er ekki vefnotandi þarf viðkomandi fyrst að sækja um aðgang að vef sjóðsins. Það er hægt með því að fara á launagreiðandavefinn [eða sjóðfélagavefinn] og fara í „Innskráningu“ og fá sendan veflykil. 

  • Hvernig fæ ég staðfestingu um að ég sé í skilum?

    Verktakar og aðilar í veitinga- og gistihúsarekstri geta þurft á því að halda að fá staðfestingu á að þeir hafi staðið í skilum með iðgjöld. Auk þess færist í vöxt að beðið er um slík gögn bæði í tengslum við áreiðanleikakannanir, svo sem við sölu fyrirtækja, þegar gerðir eru mikilvægir viðskiptasamningar og fleira þess háttar. Til að fá vottorð um skil, þarf að hafa samband við sjóðinn, annað hvort með tölvupósti í idgjold@stapi.is eða símleiðis í 460-4500 og sendir sjóðurinn þá vottorð um stöðu launagreiðandans um hæl. 

  • Hvernig er innheimtuferli iðgjalda hjá Stapa lífeyrissjóði?

    Gjalddagi iðgjalda til Stapa er 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi síðast dagur sama mánaðar. Þannig er gjalddagi iðgjalda vegna júnílauna þann 10. júlí og eindagi 31. júlí. Hafi launagreiðandi ekki greitt innan þess tíma má hann eiga von á „Áminningarbréfi“ frá sjóðnum 10-15 dögum eftir eindaga. Sé ekki brugðist við því fylgir „Ítrekunarbréf“ um það bil 30 dögum síðar. Séu enn engin viðbrögð fylgir „Innheimtuviðvörun“ um það bil 30 dögum eftir að ítrekunarbréfið var sent. Í innheimtuviðvöruninni er launagreiðanda gert viðvart um alvarleika innheimtunnar og verði ekki við innheimtuviðvöruninni brugðist innan 10 virkra daga frá dagsetningu hennar fari skuldin til innheimtu hjá lögfræðingi.

    Sjóðurinn vill leggja áherslu á mikilvægi þess að launagreiðendur bregðist við innheimtubréfum frá sjóðnum, jafnvel þótt ekki sé hægt að greiða á því augnabliki, og leiti samninga um framhaldið. Þannig er hægt að komast hjá óþarfa innheimtukostnaði, sem hvorki er til hagsbóta fyrir launagreiðandann né lífeyrissjóðinn. 

  • Hvað er til ráða ef ég á í erfiðleikum með að standa skil á greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðsins?

    Hafðu samband við sjóðinn! Ef aðstæður launagreiðanda eru þannig að hann hefur ekki tök á að standa við greiðslu iðgjalda fyrir eindaga er mikilvægt að hafa samband og leita úrlausna með starfsmönnum sjóðsins. Sjóðurinn er yfirleitt reiðubúinn að leita samninga um hvernig hægt sé að haga greiðslum þannig að launagreiðandi komist aftur í skil. Æskilegt er að launagreiðandinn sé búinn að gera sér mynd að því hversu mikið hann getur greitt og hvenær. Sjóðurinn mun reyna að byggja greiðsludreifinguna á óskum launagreiðandans, sé þess nokkur kostur. Skilyrðið er að verið sé að vinna á vandanum en ekki auka hann. Með samningaleiðinni er hægt að komast hjá óþarfa innheimtukostnaði, sem getur verið verulegur ef ekki er brugðist við í tæka tíð. Samningar um greiðsludreifingu eru skriflegir og mikilvægt að við þá sé staðið.

  • Hvað gerist ef ég get ekki staðið við samning um iðgjaldagreiðslur, sem ég hef áður gert?

    Komi upp sú staða að launagreiðandi geti ekki staðið við samning um greiðsludreifingu vegna iðgjalda sem komin voru í vanskil, er mikilvægt að hafa samband. Mun sjóðurinn þá skoða, með launagreiðandanum, hvort hægt er að gera einhverjar þær breytingar á samningnum sem liðka fyrir, þannig að launagreiðandinn geti komið sér í skil. Það er þó áfram skilyrðið fyrir slíkum breytingum að verið sé að vinna á vandanum en ekki auka hann. Standi launagreiðandi ekki við samning um greiðsludreifingu og hafi ekki samband við sjóðinn við þær aðstæður er skuldin send í lögfræðiinnheimtu án frekari viðvarana frá sjóðnum. 

  • Er hægt að semja um dráttarvexti?

    Almennt er ekki hægt að semja um dráttarvexti. Dráttarvexti ber að greiða frá gjalddaga að telja hafi greiðsla ekki verið innt af hendi fyrir eindaga. Allir launagreiðendur sitja við sama borð gagnvart þessari reglu. Í undantekningartilvikum, þar sem greiðslusaga launagreiðanda er góð og augljóst þykir að greiðslufall hefur orðið vegna mistaka, kann að vera vikið frá þessari reglu. Líta má á það sem verðlaun fyrir sögulega skilvísi launagreiðandans

  • Hvað er RSK innheimta lífeyrissjóðsiðgjalda?

    Samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1997 skal ríkisskattstjóri hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Lífeyrissjóðum er, að tekjuári liðnu, skylt að veita ríkisskattstjóra upplýsingar um iðgjöld allra einstaklinga sem greitt hefur verið af í sjóðinn. Sömu kvaðir eru á vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar.

    Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu að tekjuári liðnu tilgreina á launamiðum þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar.

    Auk þessa er hverjum þeim einstaklingi, sem skylt er að eiga aðild að lífeyrissjóði, skylt að tilgreina á framtali sínu þau iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar, sem hann hefur greitt til.

    Ríkisskattstjóri keyrir saman þessar upplýsingar og kannar þar með hvort rétt iðgjöld hafi verið greidd. Sé munur á sendir hann skrá til lífeyrissjóðanna um þá aðila, þar sem iðgjöld eru vangreidd. Skráin er send til þess sjóðs sem tilgreindur er á framtali launamanns, eða skilagreinum launagreiðanda. Sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur er yfirlitið sent til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Viðkomandi lífeyrissjóði ber síðan að innheimta hin vangreiddu iðgjöld. Þessar upplýsingar berast frá ríkisskattstjóra til sjóðanna eftir álagningu gjalda vegna ársins á undan. Vanskilin geta því verið orðin meira en árs gömul þegar lífeyrissjóðurinn fær vitneskju um þau. Hin vangoldnu iðgjöld eru innheimt með fullum dráttarvöxtum. Því er mikilvægt, til að komast hjá óþarfa kostnaði, að réttum iðgjöldum sé skilað inn á réttum tíma. 

  • Þarf að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs vegna erlendra ríkisborgara?

    Já, það þarf að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð fyrir alla launamenn á aldrinum 16-70 ára sem starfa á Íslandi. Hins vegar kunna erlendir ríkisborgarar að eiga rétt til að fá iðgjöld sín endurgreidd þegar þeir láta af störfum og fara af landi brott. Slíkan endurgreiðslurétt eiga ríkisborgarar utan evrópska efnahagssvæðisins skv. ákveðnum reglum. 

  • Hvað er starfsendurhæfingarsjóður?

    Starfsendurhæfingarsjóður er sjóður sem sinnir atvinnutengdri starfsendurhæfingu í samræmi við lög um það efni. Slíkir sjóðir eru reknir með framlögum frá atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkinu. Aðeins einn sjóður sem byggir á lögunum er nú starfræktur, þ.e. VIRK, starfsendurhæfingarsjóður

  • Hvers vegna greiði ég iðgjald vegna starfsendurhæfingarsjóðs til lífeyrissjóðsins?

    Virk, starfsendurhæfingarsjóður hefur gert samninga við lífeyrissjóðina um innheimtu iðgjalda til sjóðsins. Flestir lífeyrissjóðir eiga aðild að því samstarfi. Iðgjald til starfsendurhæfingarsjóðs skal greitt í hverjum mánuði til þess lífeyrissjóðs sem lífeyrisiðgjald vegna launamanns eða þess er stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er greitt til. Lífeyrissjóður skal skila innheimtu iðgjaldi til starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðsins. Gjalddagar og eindagar á iðgjöldum launagreiðenda til starfsendurhæfingarsjóðs eru þeir sömu og á iðgjöldum til lífeyrissjóðs. 

  • Hvernig sækja menn um lífeyri?

    Upplýsingar um hvernig einstaklingar sækja um lífeyri frá lífeyrissjóði má finna hér.

  • Hverjir eru í stjórn lífeyrissjóðsins?

    Upplýsingar um hverjir eru í stjórn Stapa lífeyrissjóðs má finna hér.

  • Hvernig er valið í stjórn lífeyrissjóðsins?

    Stjórn Stapa lífeyrissjóðs er kjörin á ársfundi sjóðsins. Fulltrúar launagreiðenda í stjórn eru tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins, en fulltrúar launamanna eru valdir á ársfundinum. Nánari reglur má sjá í samþykktum sjóðsins. 

  • Get ég sem launagreiðandi tekið þátt í starfi lífeyrissjóðsins?

    Fulltrúar frá 50 stærstu iðgjaldagreiðendum til sjóðsins eiga sjálfkrafa rétt á setu í fulltrúaráði sjóðsins. Hægt er að fá upplýsingar hjá sjóðnum hvort þitt fyrirtæki er í þeim hópi. Hafir þú áhuga á að taka þátt í starfi lífeyrissjóðsins fyrir hönd launagreiðenda, annað hvort til að sitja í fulltrúaráði sjóðsins eða í stjórn hans eða varastjórn, er rétta leiðin að koma áhuga sínum á framfæri við Samtök atvinnulífsins, sem tilnefna fulltrúa launagreiðenda. Um þetta má fræðast nánar í samþykktum sjóðsins. 

Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar