Sjóðfélagayfirlit

Útsending Stapa á sjóðfélagayfirliti þetta haustið er með breyttu sniði þar sem farið er yfir breytingar á réttindasjóð sem sjóðfélagi hefur safnað á tímabilinu. Þessi nýja sýn er afurð af breyttu réttindakerfi sem sjóðurinn tók upp um áramót.

 • Hver er ábyrgð sjóðfélaga ef iðgjöld skila sér ekki til sjóðsins?

  Ef upplýsingar um iðgjöld vantar á yfirlit er mikilvægt að launþegi tilkynni það til sjóðsins, með framlagningu launaseðla innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits, athugið að það er ekki óeðlilegt að á yfirlitið vanti tvo síðustu mánuði. Komi ekki fram athugasemd frá launþega, er lífeyrissjóðurinn einungis ábyrgur fyrir þeim réttindum sem koma fram á yfirlitinu. 

  Sjóðfélagar geta einnig fylgst með iðgjaldagreiðslum á sjóðfélagavef Stapa.

 • Hvað gerist ef iðgjaldi er ekki skilað?

  Skili launagreiðandi ekki iðgjöldum á réttum tíma hefur sjóðurinn innheimtuaðgerðir til að fá iðgjöldin greidd, ef sjóðurinn hefur fengið upplýsingar um iðgjöldin. Fyrst með ítrekunarbréfum og ef það skilar ekki árangri þá lögfræðiinnheimtu.

 • Eru sjóðfélagayfirlit eingöngu birt rafrænt?

  Meginreglan er sú að yfirlit eru birt undir skjöl á sjóðfélagavef.

  Sjóðfélagi sem vill fá yfirlit sent í bréfapósti getur gert það undir Mínar upplýsingar á sjóðfélagavef eða haft samband við Stapa. Taka þarf út hakið við Afþakka pappír.

  Það er auðvelt að fylgjast með áunnum réttindum með rafrænum hætti og hvetjum við sjóðfélaga til að hjálpa okkur að gera hlutina hagkvæmari og vistvænni. Öll sjóðfélagayfirlit eru ávallt aðgengileg undir Skjöl á sjóðfélagavef.

 • Fyrir hvað stendur prósentutalan fyrir aftan nafn launagreiðenda á yfirlitinu?

  Til einföldunar á yfirferð birtist hlutfallstala iðgjalds og mótframlags fyrir aftan nafn launagreiðenda. Ef grunur er um að  mótframlag sé ekki í samræmi við kjarasamning skal hafa samband við viðeigandi stéttarfélag vegna frekari upplýsinga.

 • Hvað er skilagrein?

  Skilagrein er listinn sem launagreiðandi sendir lífeyrissjóðnum fyrir hvern mánuð með sundurliðun á öllum iðgjöldum fyrir hvern launþega. Gjalddagi iðgjaldanna er svo 10. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi síðasti dagur sama mánaðar.

 • Hvað er réttindasjóður?

  Réttindasjóður eru uppsöfnuð iðgjöld sem þú hefur greitt til sjóðsins ásamt þeirri ávöxtun sem þau hafa fengið. Réttindasjóðurinn eru þeir fjármunir sem til eru í sjóðnum til að standa undir eftirlaunum þínum í framtíðinni. Hann mun halda áfram að vaxa með innborgun á iðgjöldum og ávöxtun.

 • Hvað eru iðgjaldahreyfingar?

  Iðgjaldahreyfingar  í töflunni „ Breytingar á réttindasjóði þínum“ er summa greiddra iðgjalda á tímabilinu að viðbættu mótframlagi frá launagreiðenda.  

 • Hvað er jöfnunariðgjald?

  Breytt var úr kerfi jafnrar réttindaávinnslu í aldurstengda árið 2005 hjá Lífeyrissjóði Austurlands og árið 2007 hjá Lífeyrissjóði Norðurlands. Í eldra kerfinu áunnu ungir sjóðfélagar sér sömu réttindi til eftirlauna og aldnir sjóðfélagar þrátt fyrir að þeirra inngreiðslur ættu eftir að ávaxtast lengur. Jöfnunariðgjald bætir sjóðfélögum upp þann mismun sem í kerfunum felst. 

 • Hvað er framreikningsiðgjald?

  Þegar sjóðfélaga er úrskurðaður örorkulífeyrir er oft áætlað hvaða iðgjöld viðkomandi hefði haldið áfram að greiða til sjóðsins, ef ekki hefði komið til orkutaps. Sú áætlun er nefnd framreikningur. Á meðan örorka varir reiknast framreikningsiðgjald, sbr. fyrrnefnda áætlun, sem bætist við réttindasjóðinn og veitir því rétt til eftirlauna. 

 • Hvað er ráðstöfun í tryggingavernd?

  Auk þess að mynda rétt til eftirlauna fer hluti iðgjalds sjóðfélaga til áfallatrygginga. Sá hluti iðgjaldsins fer ekki inn í réttindasjóðinn en myndar rétt sjóðfélaga til lífeyris við missi á starfsorku og maka og börnum rétt til lífeyris við fráfall sjóðfélaga.  

 • Hvað er ráðstöfun í starfsendurhæfingarsjóðs?

  0,20% af heildarlaunum greiðist í Virk starfsendurhæfingarsjóð, helmingur þess greiðist af framlagi í lífeyrissjóð og dregst því frá réttindasjóðnum. Virk Starfsendurhæfingarsjóður sinnir atvinnutengdri starfsendurhæfingu í samræmi við lög um slíkt. 

 • Hvað er úthlutun réttindasjóðs látinna?

  Í tryggingardeild Stapa er falin samtrygging þar sem segja má að eftirlifandi sjóðfélagar erfi þá sjóðfélaga sem falla frá ungir. Réttindasjóður þeirra sem falla frá áður en þeir hefja töku eftirlauna dreifist því á eftirlifandi sjóðfélaga og úthlutunin á yfirlitinu er vegna þeirra sjóðfélaga sem féllu frá á umræddu tímabili. 

 • Hvað þýðir „Flutningur í tilgreinda séreign“ á yfirlitinu mínu?

  Í samræmi við samning um tilgreinda séreign hefur hluti af iðgjöldum þínum í tryggingadeild verið fluttur í tilgreinda séreign og kemur þar fram í hreyfingum.

 • Hvað þýðir „Iðgjaldahreyfingar til/frá maka“ á yfirlitinu mínu?

  Þú og maki þinn hafið gert samning um skiptingu réttinda til eftirlauna. Í samræmi við samninginn er hluta af iðgjöldum þínum varið til hækkunar á réttindasjóði maka þíns. Iðgjöld maka þíns mynda á sama hátt eftirlaunaréttindi hjá þér, að hluta til.

 • Hvað þýðir „Mismunur vegna makasamninga“ á yfirlitinu mínu?

  Þú og maki þinn hafið gert samning um skiptingu áunninna réttinda til eftirlauna. Skilyrði fyrir slíkri skiptingu er að lífeyrissjóðurinn skuli vera jafnsettur fyrir og eftir skiptingu. Lífslíkur þínar og maka þíns eru ekki þær sömu skv. mati tryggingastærðfræðings sem lítur eingöngu á aldur og kyn. Jákvæður mismunur, þ.e. viðbót við réttindasjóðinn, reiknast vegna réttinda sem flutt eru til þess sem metinn er með lægri lífslíkur. Neikvæður mismunur, þ.e. lækkun á réttindasjóði, reiknast vegna réttinda sem flutt eru til þess aðila sem metinn er með hærri lífslíkur. 

 • Af hverju passar samtalan úr töflu að ofan ekki við iðgjaldahreyfingar í töflu „Breytingar á réttindasjóði þínum“ ?

  Ef einhverjar iðgjaldagreiðslur eru merktar „S“ þá þýðir það að skilagreinin hefur ekki verið greidd að fullu. Iðgjöld koma ekki inn í „Iðgjaldahreyfingar“ fyrr en þær hafa verið greiddar af launagreiðanda.

Sjá fleiri spurningar Sjá færri spurningar