Tilgreind séreign eða samtrygging?

Tilgreind séreign er tegund lífeyrisréttinda sem varð til í kjölfar kjarasamnings ASÍ og SA þar sem m.a. var samið um 3,5% þrepaskipta hækkun á mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð. Eingöngu sjóðfélagar sem falla undir þá kjarasamninga hafa val um tilgreinda séreign, aðrir ekki nema kveðið sé á um slíkt í ráðningarsamningi.

Vilji sjóðfélagi ráðstafa iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign, þarf að fylla út tilkynningu og skila inn til sjóðsins. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um tilgreinda séreign og hvaða þætti þarf að skoða áður en tekin er ákvörðun um hvernig iðgjaldinu er ráðstafað. Ef sjóðfélagi skilar ekki tilkynningu til sjóðsins rennur iðgjaldið í tryggingadeild.

Það er eðlismunur á þeim réttindum sem ávinnast í samtryggingu annars vegar og í tilgreindri séreign hins vegar. Valkostirnir eru báðir góðir, hver sjóðfélagi fyrir sig ætti að meta hvort hann kýs fremur, aukna tryggingavernd sem felst í samtryggingunni eða aukinn sveigjanleika hvað varðar útgreiðslu og erfanleika, sem felst í tilgreindri séreign.

 

Allar helstu upplýsingar hvað varðar réttindaávinnslu og útgreiðslumöguleika í samtryggingu og tilgreindri séreign má finna í samþykktum Stapa lífeyrissjóðs