Lánareglur

Hverjir eiga rétt á lánum?

Skilyrði fyrir lánveitingu er að umsækjandi sé greiðandi í sjóðinn við lántöku eða hafi greitt til hans í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum.

Ekki er heimilt að greiða iðgjöld fyrir tímabil, sem ekki hafa sannanlega verið unnin. Við mat á réttindum til lána er þó heimilt að taka tillit til veikinda, skólanáms eða atvinnuleysis, enda sanni umsækjandi það með vottorðum, ef eftir því er leitað. Lífeyrisþegar geta átt kost á láni frá sjóðnum, enda hafi þeir haft lánsrétt sbr. framangreint þegar taka lífeyris hófst.

Þeir sjóðsfélagar, sem sjálfir eiga að standa skil á iðgjöldum sínum til sjóðsins koma því aðeins til greina við úthlutun lána, að þeir séu skuldlausir við sjóðinn, þegar umsókn berst skrifstofu sjóðsins.

Lánskjör

Lán sjóðsins eru afgreidd og veitt af banka samkvæmt samningi sjóðsins og viðkomandi banka. Lánin skulu vera verðtryggð með vísitölu neysluverðs. Afborganir skulu vera minnst 4 á ári og er lánstími frá 5 til 40 ár. Lántakanda ber að greiða þinglýsingar-, stimpil- og lántökugjald, sem og innheimtukostnað banka. Heimilt er sjóðfélaga að velja milli greiðsluforms með jöfnum afborgunum eða jafngreiðslulán (annuitet).
Vextir af lánum sjóðsins eru breytilegir skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni. Vextir eru nú 4,2% auk verðtryggingar.

Veð

Hámarkslán er 10 milljónir króna. Lánin eru veitt gegn fasteignaveði. Leyfð eru önnur lán á undan láni frá sjóðnum, en hvorki fjárnám eða lögtök. Áhvílandi veðskuldir uppreiknaðar, að viðbættu láninu frá sjóðnum, mega ekki vera hærri en sem nemur 65% af matsverði viðkomandi fasteignar, eins og það er metið af bankanum.

Sé veðhæfni eignar ábótavant að mati viðkomandi banka, til dæmis vegna aldurs eignar, er bankanum heimilt að synja um lánveitingu eða stytta lánstíma. Bankanum er einnig heimilt að taka aðrar tryggingar en fasteignaveð vegna lána skv. samningi bankans og sjóðsins, enda séu þær fullnægjandi að hans mati. Jafnframt er bankinn ekki skuldbundinn til að afgreiða lán samkvæmt samningi þessum, telji hann að þær tryggingar sem boðnar eru, séu ekki fullnægjandi.

Bankinn getur hafnað afgreiðslu lána eða gert tillögu um lækkun lánsupphæðar, ef hann telur greiðslugetu lántakanda ónóga. Þá er bankanum heimilt að kalla eftir frekari gögnum frá umsækjanda vegna mats á greiðslugetu.

Lánsumsókn

Lánsumsókn sendist til sjóðsins eða til viðkomandi banka en fylgigögnum skal skilað beint til bankans.
Lánsumsókn skal fylgja:

  • Nýtt þinglýsingarvottorð.
  • Síðustu greiðslukvittanir fyrir afborgunum áhvílandi lána er sýni eftirstöðvar.
  • Vottorð um fasteignamat.
  • Brunamatsvottorð.
  • Mat löggilts fasteignasala á verðmæti fasteignar ef þess er krafist af banka.
  • Ef til er nýlegur kaupsamningur af þeirri eign sem veðsetja á, er óskað eftir að afrit af honum fylgi.
  • Staðfest ljósrit af skattframtölum og nýlegum greiðsluseðlum eða önnur þau gögn sem óskað er eftir af hálfu bankans til að sannreyna greiðslugetu.

Annað

Reglur þessar gilda frá 1. júlí 2007 og eru háðar fyrirvaralausum breytingum af hálfu stjórnar sjóðsins.