II. kafli

Fjármál

5. Reikningar og endurskoðun
  5.1  Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu gerðir í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.
6. Ávöxtun fjár sjóðsins
  6.1  Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.
  6.2  Fjárfestingar sjóðsins og fjárfestingarstefna hans skulu vera í samræmi við heimildir laga og uppfylla allar þær kröfur um form og efni, sem gerðar eru í ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nú VII. kafla og VII. kafla A, laga nr. 129/1997, og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma og gildir það um allar deildir sjóðsins.
  6.3  Stjórn lífeyrissjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu, þar sem sett eru viðmið að hvaða marki skuli fjárfesta í einstökum eignaflokkum. Þar skal ennfremur koma fram markmið um dreifingu eigna, tímalengd krafna, myntsamsetningu, seljanleika eigna og aðrar þær viðmiðanir, sem stjórn sjóðsins telur að gefi gleggsta mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins. Mismunandi deildir sjóðsins geta haft mismunandi fjárfestingastefnu.
  6.4  Rekstur deilda sjóðsins skal vera fjárhagslega aðskilinn. Sameiginlegum kostnaði skal skipt milli deilda með eðlilegum og ótvíræðum hætti, í hlutfalli við umfang hverrar deildar, samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur.
  6.5  Heimilt er að bjóða upp á mismunandi verðbréfasöfn innan deilda sjóðsins, sem hafa mismunandi fjárfestingarstefnu. Fjárfestingarstefna og eignasamsetning einstakra verðbréfasafna skal þó ávallt vera innan þeirra marka sem fjárfestingarstefna, samþykktir sjóðsins og lög nr. 129/1997 heimila.
  6.6  Heimilt er sjóðnum, að eiga fasteignir undir skrifstofur sínar.