Þjónustukönnun

Ákveðið var að gera víðtæka könnun á viðhorfum sjóðfélaga til ýmissa þátta í starfsemi sjóðsins.  Könnunin var unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri undir lok árs 2015.  Þátttakendur voru valdir úr hópi greiðandi sjóðfélaga sjóðsins með slembiúrtaki.  Alls bárust svör frá um 900 sjóðfélögum, þannig að niðurstöðurnar ættu að gefa nokkuð áreiðanlega mynd.  Hugmynd stjórnenda sjóðsins er að gera svipaða könnun árlega með það að markmiði að afla góðra upplýsinga um viðhorf sjóðfélaga, sem nýst geta við stjórnun sjóðsins og til að bæta þjónustu við sjóðfélaga. Um leið gerir þetta sjóðnum kleift að láta sjónarmið almennra sjóðfélaga hafa meiri áhrif á starfsemi sjóðsins.

Það er sláandi að mjög stór hluti svarenda telur sig hafa litla þekkingu á lífeyrismálum, en yfir 63% svarenda taldi svo vera en aðeins 8% mikla þekkingu.  Þessi niðurstaða er rík vísbending í þá átt að kynningar- og fræðslustarfi í þessum málaflokki sé mjög ábótavant.  Það er því mikið verk fyrir höndum að auka fræðslustarf á komandi árum, ekki síst í ljósi þess að nokkuð stór hópur segir sig hafa áhuga á málefninu.  Áhuginn fer raunar vaxandi með aldri, sem kemur ekki á óvart. Mjög mikill meirihluti svarenda er á því að lífeyrissjóðir þjóni mjög mikilvægu hlutverki og að söfnun réttinda í lífeyrissjóðum sé góð leið til að mæta áföllum á starfsævi og tryggja eftirlaun eftir að starfsævi lýkur.

Mun fleiri treysta stjórnendum Stapa en vantreysta þeim og eru sammála því að sjóðurinn vinni með hag sjóðfélaga að leiðarljósi. Þá telur mikill meirihluti svarenda að mikilvægt sé að sjóðurinn fjárfesti á sínu heimasvæði.  Fjölmargar spurningar eru í könnuninni og eru svörin brotin niður á kyn, aldurshópa, menntun, tekjur og svæði.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má finna hér og eru sjóðfélagar hvattir til að kynna sér hana.